A site about nothing...

laugardagur, júlí 31, 2004

Í strætóskýlum og blaðaauglýsingum hefur mikið verið auglýst gegn nauðgunum. Þar má t.d. sjá stelpu sem liggur, hneppt frá gallabuxunum hennar og í klofinu er búið að setja biðskyldumerki. Önnur auglýsing sýnir stelpu og strák saman, stelpan er "dauð" af áfengi og búið er að setja stopp merki yfir munninn á henni, svo er yfirskrift auglýsingarinnar að sumir strákar eigi bara sjens í dauðar stelpur. Eitt varðandi þessi merki sem eru notuð, mér finnst skrýtið að biðskylda er sett á klofið á stelpunni, svona hafðu varann á áður en þú heldur áfram, en stoppmerki er á munninum, stoppaðu algjörlega og vertu algjörlega viss um að allt sé öruggt áður en þú heldur áfram, svo maður lýsi umferðarmerkingu merkjanna. Því ef það er verið að auglýsa gegn nauðgunum ætti ekki stoppmerkið að vera í klofinu og biðskyldan á munninum. Þó svo ég sé ekki að réttlæta að einhverjir gaurar noti sér það að stelpur séu rænulausar og kyssi þær og geri jafnvel meira þá finnst mér að merkjunum hefði átt að vera víxlað. Ef einhver gaur kyssir rænulausa stelpu þá er það ekki gott en samt betra en að nauðga stelpunni. Kanski heimskuleg pæling, hvað finnst ykkur?

Að léttara hjali. Eftir erfiða fæðingu í dag fórum ég, Kiddi og Gbus a.k.a Jesús í golf í Setberginu í dag. Snilldarvöllur þar á ferð, green-in eins og mýkstu teppi og völlurinn geysifallegur. Ein hola var að gera mér mjög erfitt fyrir og spilaði ég hana fyrri hringinn á 12 og seinni á 13, en á seinni hafði ég sagt að það væri ekki sjens að ég toppaði tólfuna frá hringnum á undan, famous last words. Ég spilaði verst af okkur en var samt parakóngur dagsins með tvö pör. Maður á eftir að kíkja aftur þarna það er fullvisst.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Dagurinn í gær í vinnunni var ansi crazy. Við gátum afgreitt frekar fáar pantanir á þriðjudeginum því það vantaði einhverjar filmur sem komu í gær, þannig að þegar þær komu þá fórum við að dæla út pöntunum og ef við höfum bara ekki sent í allar búðir á landinu, pínu ýkt, filmur og batterí. Við vorum að vinna til 7 sem þýðir ellefu tíma vinnudagur hjá mér, og ég var dauðþreyttur þegar ég kom heim. Svo er ég að vonast til að það verði lítið að gera á morgun og ég fái að fara fyrr heim, svona ef ske kynni að ég færi eitthvað út úr bænum. Hugmyndin eins og er er að elta veðrið ef það er ekki of langt í burtu og kíkja í golf á daginn og chilla á kvöldin. Kemur í ljós hvað verður úr því.
Endilega kíkið á myndalinkinn hér til vinstri, það er alltaf að bætast við myndir.

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Var að skella inn nýju albúmi sem ég tók á svarthvíta filmu. Myndirnar eru sumar hverjar frá seinasta sumri og aðrar frá þessu sumri, sem sýnir hvað ég nota þessa myndavél oft. Allaveganna hér er linkurinn.
Pínu preview hérna af Dabba Zoolander og Ara Zoolander
Zoolanders

Nú er maður kominn ágætlega af stað í Laugum og búinn að fá sér ágætis prógram og plan hversu oft á að æfa. Mér finnst voða fínt að vera þarna, þrátt fyrir hvað þetta er stórt og líklega er það hversu stórt þetta er að ég er að fíla þetta mjög vel. Svo er algjör snilld að þegar maður er að hlaupa að horfa á eitthvað sniðugt í sjónvarpinu. Samt það besta við þennan stað eru sturturnar. Þær eru algjör snilld. Hitastigið er svona just right(ekki morgunkornið þó), lýsingin svona kósy og þægileg og svo er svo mikill þrýstingur í vatninu, sem er alltaf betra. Þetta hljómar voða gay, en er það samt ekki.
Versló framundan, hef ekki guðmund hvað ég muni gera. Væri kúl að fara í golfútilegu og elta veðrið, í það minnsta fer ég ekki á neina skipulagða hátíð. Þær eru ekki minn tebolli.
Stefnir í crazy viku í vinnunni, allir að panta og svona og ekkert til, sem gerir þetta skemmtilegra. Maður hefði getað haldið að sölustjórarnir gætu gert einhverja spá yfir sölu á þessu tímabili og byrgt sig upp af vörum. Þetta fyrirtæki er bara búið að vera til síðan 1907.

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Ég hef lært það á mínum tíma sem lagermaður að mikilvægasta verkfærið sem maður hefur er hnífurinn. Maður er gjörsamlega handlama án hnífsins, því það þarf ófáum sinnum að opna einhverja kassa og handaflið virkar oft ekki í þeim tilvikum. Svo er tússinn mikilvægur í mínu starfi því ég er oft að pakka vörum og þarf að skrifa á kassana hvert þeir fara. Svo er annar mjög stór kostur við að vinna á lagernum og það er það hversu mikil nálægt er við skrifstofuna og þá kynnist maður vörustjórum að öllum vörunum, sem þýðir að maður getur vanalega fengið betri prís en út úr búð með þeim afslætti sem starfsfólkið fær. Eða þá að maður fær hluti gefins og nú þegar hef ég fengið þónokkuð af dóti sem hætt var að nota og ekki hægt að selja. T.d. var mér í þessari viku gefin mjög góð linsa sem maður setur á EOS vélar, ég hafði boðist til að kaupa hana en vörustjórinn gaf mér hana og sagði að þetta væri jólagjöfin til mín. Hann er reyndar að hætta þannig að það er spurning hvort það hafi eitthvað með málið að gera.
Það gerðist fáheyrður atburður í gær. Þá fór ég í Skífuna og borgaði fyrir nýjan geisladisk. Reyndar vissi ég eiginlega fyrirfram þvílíka eðalvöru ég væri að kaupa og ég fíla hljómsveitina mjög mikið þannig að ég vildi eiga þetta, ekki bara á tölvunni. Ég keypti mér semsagt We are 10, sem er best of diskur Supergrass og ég verð að segja að þetta er snilldarplata sem er skyldueign. Þessir kappar eiga svo mörg góð lög að það hálfa væri nóg. Drífðu þig út NÚNA og keyptu hana!
Það er búið að vera gott veður í viku núna hérna á suðvestur horni landsins og það er mjög óvanalegt. Einnig hef ég tekið eftir því að fimmtudagar hafa verið óvenjulega góðir í allt sumar, veðurfarslega séð. Í tilefni góða veðursins þá gat ég ekki setið bara inni þannig að ég skellti mér á línuskauta og það var mjög góð ákvörðun. Í blankalogni og fínum hita, renndi ég mér frá Nauthólsvíkinni inn í Vesturbæinn og tilbaka og naut útsýnisins sem varð á vegi mínum. Svona á sumarið að vera.

mánudagur, júlí 19, 2004

Fór í gær í ísbíltúr í góða veðrinu og leið okkar lá meðal annars framhjá gamla grunnskólanum mínum, Víðistaðaskóla. Það er búið að byggja heilmikið við hann og allt annað að sjá hann í dag en þegar ég var þarna fyrir einhverjum 6 árum eða svo. Þessi heimsókn hefur greinilega haft áhrif á mig, því í nótt þá dreymdi mig að ég væri kominn aftur í þennan skóla. Það var þó ekki þannig að ég væri í grunnskóla heldur var ég enn í háskólanum en ég var að taka nám þarna sem var svona eins og einhver endurmenntun í dönsku. Ég labbaði um svæðið og allt sem ég vissi hvar áður var, var einhvernveginn ekki þarna og ég fann ekki stofuna sem ég átti að fara í. Svo var ég eitthvað stressaður að finna stundatöfluna mína en það gekk lítið, þó svo ég færi á skrifstofuna en fólkið þar var ekkert að hjálpa mér. Það skoðaði bara bloggsíðuna mína og var sérstaklega að skoða kommentin og ég var ekkert að fíla það sérstaklega. Skemmtilegur sýrudraumur þetta.
Það getur verið ágætt að vinna þar sem ég vinn. Oft er eitthvað góðgæti á borðum í kaffistofunni, ef einhver á t.d. afmæli eða af einhverju öðru tilefni og svo fær maður stundum hluti gefna. T.d. í dag fékk ég gefna 24-85mm ultrasonic linsu, sem var ónotuð og það verður að teljast frábært, því ultrasonic er það besta á markaðnum. Ég var búinn að kanna jarðveginn fyrir því að kaupa hana, því hún var í svona kitti sem var hætt að selja, fyrir nokkru og svo spurði ég í dag og þá var mér linsan gefin bara. Maður hatar ekki að fá hluti gefna.

sunnudagur, júlí 18, 2004

Fyndið hvað maður er miklu andlausari á sumrin að blogga. Á veturna finnst mér einhvern veginn meira gerast, maður er allan daginn með vinum sínum og við tökum upp á allskonar hlutum en á sumrin er maður að vinna flest alla daga, fer heim og kanski liggur fyrir framan kassann, eða keppir einstöku sinnum með FC Kaos. Svo gerir maður kanski eitthvað um helgar, segi það ekki, en spurning hvort það sé bloggvænt.
Ætli maður bloggi meira á veturna því þá hefur maður meiri tíma, til að einmitt blogga, því maður nennir ekki t.d. að læra?
bara svona léttar hugrenningar um blogg hérna.
Fór annars í sund í dag í góða veðrinu, það var snilld. Fátt betra en að flatmaga í góðu veðri.

Fór í gær með Tuma og Atla og spilaði golf í Þorlákshöfn. Byrjaði ekki spes, því á fyrstu tveimur á maxaði ég holurnar, þ.e. við settum 10 högga max á allar holur. Þó svo ég hafi byrjað hörmulega þá voru nokkur högg mjög góð. T.d. var það á par þrjú holu að ég sló inn á jaðar flatarinnar. Flötin var nú ekki í besta ásigkomulaginu, skemmdir í henni og svona, og ég átti svona um 15-20 metra pútt eftir til að fá birdie. Ég reyndi að lesa brautina, tók síðan púttið, og það stoppaði svona 5cm frá holunni, fyrir miðju. Það hefði verið rosalegt að setja það oní. Ég endaði svo hringinn á að spila þetta á 28 yfir pari fyrir 9 holur sem er ekkert spes.
Svo þegar ég var búinn í golfi þá hitti ég Gunna, Fjalarr og Káka niðrí bæ. Ég átti eftir að fá mér að borða svo þeir fylgdu mér á Hlölla og svo sátum við þar í svona þrjá og hálfan tíma eða svo, þ.e. fyrir utan. Addi Ak kom og hitti okkur og upp úr tólf fórum við og kíktum á staðina. Það var röð á þeim flestum eins og við er að búast á laugardögum. Af stöðum kvöldsins leist okkur best á Hressó, fínn staður þar á ferð.

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Líkaminn er greinilega ekki alveg vanur því að lyfta, enda ekki furða þar sem það eru um 2 mánuðir síðan ég fór síðast. Er með massífar harðsperrur í rassvöðvanum og innanverðum lærum, þannig að þegar ég sest þá er það þvílíkt pain og ég rek alltaf upp óp. Ég ætlaði síðan að fara í dag, en þegar ég reyndi að hlaupa eitthvað í vinnunni, þá var það ekki að gera góða hluti, þannig að ég tók þá ákvörðun að hvíla einn dag.
Fyndið samt með harðsperrur hvað þær koma fram á mismunandi tímum á mismunandi stöðum. Ég fann t.d. aðeins fyrir harðsperrunum í innanverðu lærinu í gær en ekkert í rassvöðvanum. Svo í morgun fór ég að finna meira fyrir rassvöðvanum, en ekkert í brjóstvöðvanum. Svo leið á daginn og brjóstvöðvinn datt inn og maginn pínu lítið. Hvernig ætli þetta verði á morgun?
Afhverju múna stelpur aldrei? Þegar maður sér myndir af netinu og bara úr eigin reynslu í lífinu þá sér maður að strákar múna en stelpur ekki. Hvað er eiginlega málið með það? Er það kanski þannig að strákar múna og stelpur flassa? Bara pínu pæling sem datt í kollinn á mér þegar ég sá myndir frá balli og einhver gaur múnaði.
Í gærkvöldi ól systir mín dóttur og ég er því orðinn móðurbróðir. Það hefur lengi verið beðið eftir fyrsta barninu sem við börn mömmu og pabba eignumst og það var næstum búið að gefa upp alla von á systkinum mínum, þegar systir mín, farin að nálgast fertugt, varð ófrísk. Fyrir ömmu þá er þetta fyrsta barnið sem fæðist í fjölskylduna okkar síðan ég fæddist, heil 22 ár. Hún gæti verið orðin langalangamma á þessum tíma.

mánudagur, júlí 12, 2004

Eftir vinnu í dag fór ég í Lauga og keypti mér kort. Bílastæðin fyrir utan húsið eru greinilega hugsuð þannig að fólk byrjar æfingarnar á því að labba pínu spöl því bílastæðin næst húsinu eru ekki það mörg og á þeim tíma sem ég var, var allt fullt. Þetta finnst mér voðalega sniðugt hjá þeim, svona að hita mann aðeins upp. Svo er nottla augnskanninn mjög svona futuristic. En fyrir þá sem ekki vita þá fær maður ekki neitt kort, þegar maður kaupir kort. Heldur er augað á þér skannað og tengt kennitölunni þinni og svo þegar þú mætir á svæðið þá leggur þú augað upp að augnskannanum sem tjekkar hver þú ert og hleypir þér inn, ef þú hefur leyfi til þess. Ég hef heyrt að það þýði lítið að rífa auga úr einhverjum öðrum, eins og maður sér oft í kvikmyndunum, til að komast inn. Því þegar augað er tekið úr breytist eitthvað í því, líklega hornhimnan og þekkist því ekki. Þetta var svona pínu fróðleikur ef ykkur hafði dottið þetta í hug.
Mér líst bara ágætlega á þetta, það er nóg af hlaupabrettum og meðan maður hleypur er hægt að horfa á allskonar sjónvarpsrásir. Reyndar er það þannig að útsending er rofin með auglýsingum, frá Egils Kristal og World Class og einhverjum fleirum, einhver þarf að borga þetta víst.
Þetta var samhengislaust blaður um fyrstu upplifun mína af Laugum.

Orri heiti ég og þú ert að hlusta á Skonrokk. Orri ef þú lest þetta, sem er ólíklegt en samt, þá vil ég bara láta þig vita að þú þarft ekki eftir hvert einasta lag segja hvað þú heitir, mér er drullusama hvað þú heitir og vonandi er fleirum drullusama líka hvað þú heitir.
Ég bara varð að koma þessu frá mér.

I´m back, I´m back.... my back, my back
Þegar ég sá fyrst trailerinn fyrir Spiderman 2 leist mér mjög vel á það sem koma skyldi. Trailerinn gaf í skyn að Peter Parker myndi lenda í vandræðum með það hver hann væri og að mínu mati bauð það upp á mjög góðan söguþráð. Svo í kvöld fór ég á myndina og ég verð að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum, langt í frá. Þetta er fáránlega flott mynd, með góðum söguþræði og ég get eiginlega ekki sagt neitt af viti án þess að hljóma hálfvitalega þannig að ég ætla bara mæla með því að allir sjái hana.

Við í FC KAOS kepptum í gær á móti liði sem heitir Marel. Eins og svo oft áður spiluðum við á svipuðu level-i og andstæðingurinn og í gær var andstæðingurinn ekkert spes þannig að við spiluðum ekkert spes, en höfðum þó sigur 3-2. Það var gott að vinna aftur eftir tvo slæma leiki.

Fór í golf á föstudaginn, þar sem það var svo gott veður um daginn. Ég hitti Tuma og Björn Berg á æfingasvæði Korpu þar sem við vorum búnir að mæla okkur mót. Á meðan við vorum á æfingasvæðinu var bara fínt veður, en um leið og við byrjuðum að spila, þá dró fyrir sólu og kom þvílíkt rok. Ég spilaði ekkert spes, ég held að ég hafi spilað allar holurnar á sjö eða svo, því púttin voru að svíkja mig. Drævin virðast vera að koma aftur hjá mér og ég er hættur að slá of langt til vinstri eða hægri en púttin voru hörmuleg. Maður þarf að fara að æfa sig betur í þeim.

Eitt merkilegt við bíóferðina í kvöld var það að þegar við mættum þá var fólk búið að raða sér upp í einfalda röð, eitthvað sem gerist ekki á Íslandi. Svo var einhver stelpa sem hrópaði yfir hópinn að við ættum að hafa miðann tilbúinn og ekki henda honum fyrr en að lokinni sýningu annars kæmumst við ekki inn og að fólk ætti ekki að hafa laus sæti sín á milli. Ætli það sé verið að taka á ítölsku síunni sem var hérna áður fyrr og það var bara hver væri frekastur að troðast sem réð því hvar maður sæti?


fimmtudagur, júlí 08, 2004

Jíha, fyrsta Q-blaðið komið í hús og það er eintóm gleði framundan við að lesa það. Ég hef ekki enn verið rukkaður að ég held fyrir tollinn af þessu og vonandi kemur hann ekkert seinna. Ef svo verður þá slapp ég mjög vel því ég borgaði 5500kr um það bil fyrir blöðin og að láta senda mér þau sem er mjög gott litið til þess að eitt blað kostar 1300kell eða svo.
Bara of gott veður í kvöld. Hvað gerir maður þá? Jú fer í fótbolta. Fórum nokkrir saman sem spilum í Kaos og hittum stelpur úr verkfræðinni sem eru með okkur í árgangi og nokkrar sem eru eldri og voru að klára í vor. Þær voru að spila bolta í vetur hafa eitthvað verið að hittast í sumar. Við buðum í þær og það var bara að mínu mati bara mjög gaman að þessu, prufa eitthvað nýtt og svona. Annars er um að gera að nýta góða veðrið meðan það er, fara í golf, línuskauta og svona. Hef ekki verið nógu duglegur í því, það breytist hérmeð.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Hver er eiginlega munurinn á SMS inneign og venjulegri inneign? Er þetta ekki sama tóbakið? Ef einhver veit muninn má sá hinn sami endilega útskýra fyrir mér.
Maður þarf að fara að koma sér betur inn í tónlist. Einu sinni var ég alltaf með fingurinn á púlsinum í þessum málum, sérstaklega þegar Napster og Audiogalaxy voru upp á sitt besta en í seinni tíma hef ég dottið soldið úr þessu að finna nýjar hljómsveitir sem ég er að fíla. Námið hefur náttúrulega svolítið með þetta að segja þar sem tíminn til að grúska er ekki mikill og maður vill kanski gera eitthvað annað en það í frítímanum, en það er fátt skemmtilegra en að finna eitthvað nýtt, helst eitthvað sem enginn hefur heyrt og svo kynna það fyrir öðru fólki. Reyndar er alltaf erfitt að heyra ef einhver sem maður er að kynna þetta fyrir fílar ekki efnið en misjafn er smekkur manna og maður verður bara að taka því. Núna t.d. er ég að hlusta á Jamie Cullum sem ég hef áður talað um og hann er víst að gera góða hluti úti í heimi, fyrir að taka gömul lög og setja í sinn búning, svona djassbúning. Þetta lofar mjög góðu, það sem ég hef heyrt.
Joe Schmo Show er að gera góða hluti í raunveruleikasjónvarpsgeiranum.

mánudagur, júlí 05, 2004

Leiðinlegt á svona góðum degi að tapa 10-2 og bólgna upp á vinstra hné. Já við skíttöpuðum leiknum áðan á móti mjög sterku liði sem hefur spilað víst í nokkur ár saman og keppt í venjulegu utandeildinni. Þeir spiluðu á miklu tempói og pressuðu okkur hátt og við áttum engin svör við þessu, enda ekki í besta forminu. Ég sem ætlaði að fjárfesta mér í korti í Laugum verð víst að bíða með þetta þar sem ég bólgnaði við hnéð í seinasta samstuði leiksins, bömmer.

sunnudagur, júlí 04, 2004

Ég er kominn í hóp glæpamanna sem taka bensín og stinga af. Þannig var það að á seinasta fimmtudag fór ég ásamt Árna frænda mínum að taka bensín og við fórum í körfu. Ég fylli á bílinn og svo biður Árni mig um að pumpa í boltann líka. Þannig vildi svo heppilega til að það var strákur úti að pumpa í fótboltann sinn þannig að ég fékk nálina hjá honum og pumpaði í boltann. Svo fór ég inn og skilaði nálinni og ég og Árni skelltum okkur í körfu. Daginn eftir sé ég að það er eitthvað númer búið að hringja í mig sem ég hafði ekki náð að svara. Ég fer á simaskra.is og fletti númerinu upp og sé að það er Essó á Reykjavíkurvegi. Ég fer að velta því fyrir mér um hvað málið gæti snúist, hvort ég hafi gleymt einhverju eða eitthvað slíkt. Ég hringi og segi að ég heiti Óttar og að það hafi verið reynt að hringja í mig úr þessu númeri. Gaurinn kannast við það og segir mér að ég hafi tekið bensín deginum áður hjá þeim að upphæð xxxx krónur og spyr hvort ég ætli að borga. Auðvitað sagði ég að ég ætlaði að borga og baðst innilegrar afsökunar á þessu, en kallinn var nú ekkert of sáttur. Svo þegar ég borgaði eftir vinnu var konan þar líka ekkert of sátt við mig heldur þó svo ég endurtæki innilegu afsökunarbeiðni mína.
Úrslitaleikurinn á EM á morgun og vonandi taka Portúgalir þetta, því maður styður sinn mann, Ronaldo. En eftir árangur Grikkjanna kæmi ekkert á óvart að þeir skoruðu eitt og héldu eftir það. Þetta verður væntanlega ekki opinn og skemmtilegur leikur en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér.

laugardagur, júlí 03, 2004

Hittumst nokkrir strákar heima hjá Káka í gær þar sem við vorum eitthvað að chilla. Meðal annars fórum við í ansi skemmtilegan leik sem er svona Actionary þar sem skipt er í tvö lið eða fleiri, við höfðum tvö lið, og liðin velja orðin sem hitt liðið þarf að leika. Allar helstu reglur Pictionary/Actionary gilda og líka hvað hægt er að leika eins og fólk, staðir dýr, hreyfing og hlutur. Svo velja liðin orðin eins og ég sagði hér áður og þá má alveg hafa þau erfið en það verður að vera innan skynsamlegra marka. Skemmst er frá því að segja að mitt lið vann og var engin pressa á mér þegar ég lék seinastur allra. Hefði mitt lið ekki getað orðið hefði orðið jafntefli, en snilldarlegur leikur minn á orðinu Stjörnutorg og góð ágiskunarhæfni félaga minna í liðinu tryggði að við höfðum sigur úr býtum. Einnig lék ég köflótta skyrtu þannig að það má segja að ég hafi ekki alveg fengið auðveldasta djobbið. Aðrir leiksigrar voru t.d. þegar Sigurjón lék sjálfan sig og Árni Guðjóns lék innflutningspartý, það var mjög langur vegur sem hann fór að því en okkur tókst það og hjálpaði mikið til að Daði bróðir hans hafði verið að flytja, þennan sama dag, hann gat notað það sér til framdráttar í leik sínum.
Snilldarleikur sem verður eflaust endurtekin seinna.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Mamma er alltaf að býsnast yfir mér hvað ég geri oft hluti svona rash, eða það finnst henni en þetta er vanalega vandlega íhugað hjá mér. Haldið þið ekki að gamla hafi bara ákveðið eftir að tvær vinkonur hennar hringdu í hana að fara með þeim til Köben í endaðan júlí að sá Simon og Garfunkel á tónleikum í Parken. Það verður eflaust stuð hjá mömmu enda mikill aðdáandi og ekki leiðinlegt fyrir hana að fara til Köben sem henni finnst vanalega mjög gaman að fara til.
Töpuðum seinasta leik í Carlsberg deildinni. Addi AK var rekinn af velli fyrir brot sem jú á EM hafði verið réttlætanlegt að reka´nn af velli, hann fór í tæklingu á sóknarmanni sem var sloppinn innfyrir en ætlaði að hætta við þegar hin löppin rakst í sóknarmanninn, en í svona deild hefði gult verið réttlætanlegt. Dómarinn gaf bara rautt því hitt liðið heimtaði rautt og dómarinn lét undan og varð að ósk þeirra. Þetta var þvílík himnasending fyrir þá því við vorum að ná stjórn á leiknum og vorum betri aðilinn fram að þessu mómenti. En nú er bara um að gera að láta ekki mótlætið draga úr okkur kjark og taka næsta leik sem væri mikið afrek þar sem það lið er efst í okkar riðli en ég hef trú á því að við getum það.
Ég er að pæla í því að hætta að blunda, eða það kallast víst snooze takkinn á símanum mínum á íslensku. Ég er þvílíkt þreyttur þegar ég blunda en frískari þegar ég blunda ekki. Reyndar byggi ég þetta bara á einum degi þar sem ég hef ekki blundað en ég ætla að prufa þetta aftur á morgun. Verður fróðlegt að sjá hvað gerist.
Hvern hefði grunað að liðin tvö sem opnuðu mótið í fyrsta leik myndu enda það líka? Grikkirnir með sínum agaða leik komumst áfram í kvöld, því miður eiginlega því það hefði verið geðveikt að sjá Tékka og Portúgal. Og svo í gær var eins og Hollendingar tryði ekki að þeir gætu komist í úrslitaleikinn og þeir voru frekar slakir. Robben átti sinn lélegasta leik en þessi gaur er góður og synd að hann fór til Chelski. Hann og Ronaldo á köntunum hjá Utd, úfff.