A site about nothing...

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Ef ég vissi ekki nú þegar að þetta er vinsælasta síða alnetsins þá gæti maður haldið að enginn lesi þetta. Ég er búinn að vera að dreifa út gullmolum í síðustu færslum og engin komment? Koma svo fólk, vera með!!

Prufum hvort þessi færsla vekji athygli og fái jafnvel eitt hvísl eða jafnvel argandi hávaða.
Þannig er mál með vexti að fyrir þá sem þekkja mig þá mun þessi færsla vekja upp tvær kenndir/tilfinningar hjá karlmönnum en ég er ekki alveg jafn viss með kvenfólkið. Tilfinningar/kenndir þessar munu líklega vera undrun og jafnvel afneitun eða hneykslun.
Þannig er nefnilega mál með vexti að ég hef fundið bjór sem mér finnst góður (undrun, þar sem ég hef oft haldið því fram að mér þyki bjór ekki góður) og þessi bjór heitir Bud light (hneykslun/afneitun). Nú hef ég margsinnis heyrt frá kempum í bjórbransanum að amerískur bjór sé sull og því tel ég að þessar sömu kempur munu jafnvel ekki viðurkenna það að ég hafi fundið "bjór". En þetta er sannleikurinn, Bud light (king of beers samkvæmt kananum) er furðulega góður bjór. Þetta er eitthvað sem ég bjóst aldrei við að segja en eins og hið vandkveðna segir, aldrei að segja aldrei.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Í tíma í kvöld þá gerðist nokkuð skondið atvik. Kennarinn minn var að tala um eyðslusemi Bandaríkja manna og hvernig allt væri stærra hér en t.d. í Evrópu. Eitt af dæmunum sem hann kom með máli sínu til stuðnings var breidd klósettrúllunnar í Evrópu vs USA. Fylgdi það sögunni að hann hefði í fyrra verið í þrjá mánuði í Evrópu og þegar hann kom til baka þá sagði hann and I quote
When I used it (klósettpappírinn) it was like using a towel it was so thick

Það ætti kannski að fylgja sögunni að umræddur kennari er einhversstaðar á aldrinum milli fimmtugs og sextugs og þetta var tótallí eitthvað sem við þurftum ekki að vita.

Nýjasta uppáhaldið mitt er að búa til high contrast svart hvítar myndir og ég lét eina fylgja nýlega með. Hér fær önnur að fljóta með af okkur félögunum, mér og Vanni, tekin á áðurblogguðu umræðuefni, Snjóballinu.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Tvö blogg á sama degi, hvað er eiginlega að gerast?
Síðan ég flutti hingað út hef ég farið á talsvert marga tónleika og allir hafa þeir verið rokk og ról í einhverju formi. Þessari staðreynd langaði mig til að breyta og þegar ég sá auglýsingu á húsi Sinfóníu Boston, sem er rétt hjá mér, um tónleika píanóleikara að nafni Lang Lang þá ákvað ég að skella mér. Lang Lang þessi er 24 ára gamall og hefur verið þekktur í mörg ár því hann þykir vera undrabarn á píanó. Það hafa verið ein eða tvær umfjallanir um hann t.d. í 60 mínútum og því var það áhugavert að fá tækifæri til að sjá hann spila. Úr varð að ég og Romain skelltum okkur í dag og sjáum svo sannarlega ekki eftir því. Fyrri helmingin var rólegri stemmning og þar sem þetta var svo róandi þá rannsakaði ég augnlokin að innanverðu einstaka sinnum en þó aldrei alvarlega. Eftir hlé þá fór að færast fútt í þetta og það verður að segjast að það er eitthvað magnað við það að sjá mann spila í einhverri geðveiki og hamagang. Hendurnar upp og niður nótnaborðið og aldrei feilnóta slegin. Eftir að venjulega prógramminu lauk þá spilaði hann ekki bara eitt uppklappslag heldur 4 og fólk vissi varla hvort það átti að koma eða fara því alltaf hélt hann áfram. En það var samt frábært að sjá þetta og spurning hvort maður reyni ekki að vera duglegri að fara á klassíska tónleika. Næst á dagskránni er trúbador frá Bretlandi og svo er það Justin Timberlake.

Í gær var haldið upp á hið árlega Snjóball í Northeastern og var þetta í annað skiptið sem ballið er haldið (einhvern tíma verða hefðir að byrja). Ballið var haldið á Marriott hótelinu hér í Boston og var borðhald með 1000 manns. Maturinn var bara furðugóður en það sem kannski setti svolítið út á borðhaldið var þegar verið var að borða aðalréttinn og skipt var um tónlistarstefnu. Tónlistin hafði verið svona oldies lög í næstum því midi útgáfu en samt ekki, ekkert frábært en ekkert sem ögrar. Svo allt í einu var skipt yfir í þetta líka þvílíka hiphop án texta reyndar og gaf það tóninn fyrir kvöldið og dansinn síðar meir. Þeir sem höfðu aldur til gátu fengið sér áfenga drykki en staðsetningin á þeim bar var ekki beint í alfaraleið og þurfti maður að sýna lögreglu skilríki áður en maður fór inn og drykkina þurfti að klára áður en herbergið var yfirgefið. Soldið spes en svona eru Bandaríkin.
Nokkur dansspor voru tekin og gerðist ég meira að segja svo frægur að taka grænd dansinn fræga (þjóðardans bandaríkjamanna) við ameríska stúlku sem vatt sér upp að mér og vildi endilega kenna mér þann dans. Það varð nú ekkert meira úr því, ef fólk var að velta því fyrir sér.
Rétt fyrir miðnætti ákváðum við, svala fólkið, að kíkja eitthvað annað og úr varð að við fórum á stað sem heitir Whiskey Park og þar hanga leikmenn Boston Celtics og svona (þeir ættu kannski að sleppa því þar sem þeim gengur afleitlega í deildinni en það er önnur saga). Þar var temmileg röð en "kynningarfulltrúinn", Inga, reddaði málunum með að segja að hún væri publicist og væri með fjóra ítali með sér (jei ég fékk að vera ítalskur í smá tíma) og við fórum framfyrir alla í röðinni. Svo var farið heim eftir lokun. Helvíti fínt kvöld að baki.
Þar sem ég er latur þá hef ég ekki enn sett myndir á myndasíðuna frá kvöldinu en þeir sem hafa facebook geta séð þær. Ég læt þó eina fylgja af kynningarfulltrúanum þar sem hún sýnir talsvert attitúd.

laugardagur, janúar 27, 2007

Danish language

Frekar fyndið vídjó.

föstudagur, janúar 26, 2007

Það er búið að gefa út kuldaviðvörun í Boston, búist er við að hitastigið úti fari niður í -12 til -14 gráður en svo er það wind chill faktorinn og með honum þá mun þessi kuldi virðast vera eins og í kringum -25 gráður. Það er byrjað að kólna og það all hressilega. Þegar ég labbaði heim þá skalf ég alla leiðina þrátt fyrir að vera bara frekar vel klæddur. Svona satt best að segja þá er ég pínu forvitinn að sjá hvernig þetta verður verst en svo eflaust þegar ég lendi í því á ég eftir að bölva veðrinu í sand og ösku.

Á laugardaginn er 2nd annual Snow Ball hérna í Northeastern. Þetta er svona formlegur viðburður þar sem boðið er upp á þriggja rétta máltíð og svo er dans á eftir og fer viðburðurinn fram á Marriott hótelinu hérna rétt hjá. Klæðnaður er formlegur þannig að stúlkur eru í kjólum og strákar í jakkafötum eða smóking. Ástæða þess að við erum að fara er að evrópsku vinir okkar í undergrad eru að fara þó svo við höfum heyrt sögur af því að þetta sé meira eins og menntaskólaball. Þetta verður allaveganna áhugavert.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Ef smellt er á hlekkinn sem fylgir þessari færslu þá er hægt að sá "örfáar" myndir í viðbót frá afmælinu og í raun helginni allri. Myndirnar má sjá hér.

þriðjudagur, janúar 23, 2007



Íþróttalega séð var gærdagurinn, sunnudagur, hræðilegur fyrir okkur íbúana á 52 Westland. Fyrst þá tapaði Fiorentina, lið Vanni, í ítölsku og í kjölfarið fylgdi tap United í ensku. Ekki bætti úr skák að íslenska landsliðið tapaði á móti Úkraínu af öllum liðum, en þegar þetta er skrifað þá er liðið meira en búið að bæta fyrir það. Svo var það dropinn sem fyllti mælinn þegar Patriots töpuðu fyrir Colts eftir að hafa leitt 21-3 á tímabili og virtust vera að gera útaf við Colts. Spennan í lokin var rosaleg en svo fór að Colts unnu 38-34.

Lagið hér að ofan er eitthvað sem ég rakst á vafri mínu um radioblogclub. Þetta er franskt eins og heyrist frekar auðveldlega og mér skilst að konseptið sé svona poetry slam yfir tónlist. Lagið sjálft er gríðarlega fallegt með tregafullu píanóspili undir einföldum trommutakti og svo er það flutningurinn á ljóðinu og það hvað röddinn passar fáránlega vel við lagið. Tjekkið á þessu gott fólk og ekki hætta að hlusta eftir 10 sekúndur, þetta vinnur á.

mánudagur, janúar 22, 2007



25 ára afmæli: Pt.II

Í gær héldum við Vanni sameiginlega upp á 48 ára afmæli, fólk má giska í kommentakerfinu hvað Vanni varð gamall. Þetta var mikið og gott partý með fullt fullt af fólki bæði sem við þekktum og svo litu aðrir hér við því það voru ein 2 önnur partý í gangi í blokkinni og fólk hefur gaman af því að labba á milli.
Vanni býr til bolluna.
Við buðum upp á bollu, snakk og svo bjó ég til spínatídýfuna sem vakti mikla lukku, heitu nachos sósuna og svo var eitthvað grænmeti og vínber. Upp úr 11 þá var bankað á hurðina og við beðin um að lækka í tónlistinni sem var í fínni tónhæð að okkar mati og voru hátalarar Ingu að standa sig feykivel. Eftir kvörtunina þá lækkuðum við en þar sem íbúðin var nánast full þá var hávaðastig í fólki að spjalla saman mjög hátt og ég var pínu hræddur að löggan myndi koma og bösta partýið. Það fór þó ekki þannig og því státum við af tveimur partýum óböstuðum.

Kevin og Romain, nýi herbergisfélaginn.
Upp úr þrjú voru allir farnir nema Inga sem fékk að gista í Ingusófa. Fyrir þau ykkar sem búa hér í Boston og voruð hérna þá þakka ég fyrir mig og gott kvöld.
P.s. myndir eru komnar á myndasíðuna og á facebook fyrir þá sem það hafa.

Ég í kvennafans, putting on some gloss.

föstudagur, janúar 19, 2007

Þar sem munnangur hefur hrjáð mig síðustu daga þá fór ég að hugsa út í hversu fáránlega gott orð þetta er. Það er eins augljóst og hægt er að vera en samt mjög þjált og töff orð. Ég fíla þetta orð, munnangur. Ég bara varð að deila þessu með ykkur.

Afmæli pt.II er framundan hérna á 52 Westland Ave og það stefnir í gott partý. Auðvitað þá er ég sérlegur músíkspecialisti partýsins og er því að setja saman killer lagalista sem heldur partýinu gangandi. Inga keypti svo hátalara í vikunni sem við erum svo heppnir að fá að nota og eftir að hafa prufað þá þá er óhætt að segja að hávaðalega séð getum við allaveganna staðið okkur.

Á morgun, föstudag, þá munu Senator John Kerry, Guvernor Deval Patrick (sem er nýkjörinn) og borgarstjóri Boston Menino eða hvað hann heitir halda ræður hér í Northeastern. Ég er að meta hvort ég eigi að fara, gæti orðið kúl en gæti jafnframt orðið drepleiðinlegt. Verður maður ekki að sjá manninn sem tapaði fyrir Bush?

Á innan við viku hef ég orðið vitni að tveimur rosalegum árekstrum. Annars vegar var það á sunnudagsnóttina þegar bíll þeystist eftir Boylston stræti og annar bíll sem var að koma úr stæði keyrði utan í hann. Ég ætlaði að skjótast yfir því ég taldi að bíllinn væri ekki á svo mikilli ferð en þegar ég heyrði hávaðann sneri ég mér strax við og hljóp aftur upp á gangstéttina. Bíllinn sem var á fleygiferð og var klesst á hægði ekki á sér heldur hélt áfram leið sinni á fullri ferð. Okkar kenning er að þetta hafi verið ræningi að flýja því slíkur var hraðinn á manninum.
Svo í dag þá var ég að labba eftir Hemenway stræti sem er frekar lítil gata en þó fjölfarin. Þar var bíll á ágætis ferð þegar annar kom frá Gainsborough og rakst utan í hann þannig að hann tók að sveigja vinstri og svo til hægri. Bíllinn snerist þó ekki, sem betur fer, og hann klessti heldur ekki utan í aðra bíla sem lagðir eru sitthvoru megin á þessari götu né klessti hann á aðkomandi bíla sem er mikið mildi. Þessi bíll hinsvegar stoppaði og hafa eflaust nokkur vel valin orð farið á milli þessara tveggja bílstjóra.

Að lokum þá vil ég benda á að fólk má koma með tillögu að lögum fyrir partýið, maður á það til að gleyma helstu smellum.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Meðan flestir í kringum mig hérna úti virðast þurfa að læra heilmikið um þessar mundir þá hefur aldrei verið rólegra hjá mér. Síðan ég fór í tíma á fimmtudaginn þá hef ég ekki gert neitt sem tengist lærdómi og í dag er mánudagur. Reyndar þá er þessi mánudagur dagur Martins Luther King og því frídagur í skólum landsins en það breytir ekki þeirri staðreynd að skólinn byrjar óvenju rólega hjá mér. Ég býst þó við að þetta muni ekki halda áfram og að álagið á þessari önn verði töluvert. Ég er farinn að hlakka til að takast á við námsefni vorannarinnar og held að þetta verði helvíti fín önn.

Aldrei bjóst ég við því að maður myndi vera spenntur og fagna af ákefð hérna úti meðan horft er á Amerískan fótbolta. Það var hins vegar staðreyndin í gær þegar New England Patriots mættu San Diego Chargers í San Diego. Einhvern veginn héldust Patriots inni í leiknum þrátt fyrir ítrekuð mistök í gegnum hann og að lokum uppskáru þeir sigur þegar þeir skoruðu vallarmark og mínúta eftir af leiknum. Þetta er kannski svona had to be there moment en við íbúar 52 Westland fylgdumst með og fögnuðum af mikilli ákefð í gegnum gang leiksins.

Að lokum verð ég að segja frá því að loksins hef ég fundið brauð sem gott er að rista, jei.

fimmtudagur, janúar 11, 2007



Síðustu daga hef ég mikið verið að velta því fyrir mér hvernig myndavél ég ætti að fá mér þar sem mér þótti vera kominn tími til að skipta. Eftir að hafa ákveðið að fá mér eina litla og netta hef ég verið að skoða markaðinn og eftir að hafa ákveðið að skoða einna helst Canon, enda Canon maður út í gegn, þá var það ekki fyrr en í dag að ég ákvað að fjárfesta í Canon Sd800 IS. Vélina keypti ég svo í dag af ebay og fylgdi með í kaupunum 2gb kort, aukakort og taska undir herlegheitin. Núna bíð ég bara spenntur eftir að fá gripinn í hendurnar og byrja að taka myndir alveg hægri vinstri. Minn dyggi þjónn, Canon Ixus V3 eða Powershot S230 eða Digital Elph eins og hún heitir (fer eftir landi) mun líklega fá að hvíla sig ansi mikið fyrst ný vél kemur á heimilið. Hún hefur þó reynst mér vel í gegnum tíðina og það verður soldil eftirsjá af henni. Ég kannski tek hana við og við og tek myndir.

Ég hef aðeins verið að fylgjast með þáttum hérna úti sem heita Ugly Betty. Ekkert groundbreaking stuff en alveg áhorfanlegt. Það sem er kannski hvað merkilegast er að tvær leikkonur sem hafa unnið talsvert með Ricky Gervais leika í þáttunum. Annars vegar er það skrifstofustúlkan, Dawn?, úr Office og hins vegar er það vinkona hans úr Extras sem er aukaleikari líkt og hann.

Í öðrum óspurðum fregnum þá varð ég hálf raddlaus í dag sem er miður skemmtilegt og ég náði að velja hvor af þeim tveimur kúrsum sem ég þurfti að velja á milli sem þriðja kúrs ég vel. Kúrsarnir sem ég verð í á þessari önn verða því, Production Systems, Simulation Analysis og Probabilistic Operations Research og ég held að þetta verði helvíti skemmtileg önn bara.

Annars mæli ég með því að fólk tjekki á Rjómanum, ég á rýni dagsins og platan er virkilega góð og því hvet ég einnig alla til að hlusta á lagið sem fylgir færslunni og bara plötuna almennt.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Er ekki ágætt að hefja nýtt bloggár með pínu kvörtunarbloggi? Ég held það bara. Það sem ég ætla að kvarta yfir hefur áður verið rætt. Síðan það var rætt síðast þá sætti ég mig við þetta og varð síðan hálf fúll aftur yfir þessu öllu saman og þannig er staðan í dag. Ég er auðvitað að tala um ameríska farsímakerfið sem er svo sérstakt að það hálfa væri nóg. Til að rifja aðeins upp þá keypti ég mér mjög fínan síma í fríhöfninni áður en ég kom hingað út því ég vissi að þessi sími var ekki allstaðar fáanlegur í USA. Þetta gæti hafa reynst ekki svo sniðugt. Í fyrsta lagi þá bjóða fæst af stóru símafyrirtækjunum upp á að maður noti sinn eiginn síma og ef þeir leyfa það þá ertu alvarlega tekinn í rassgatið. Flest stóru símfyrirtækjanna bjóða annars vegar upp á Plan og svo Prepaid. Plan er betra því öll gjöld eru lægri og þú færð fríar mínútur og svona en á móti kemur að þá þarftu að skuldbinda þig í 2 ár í flestum tilvikum sem er ekki gott fyrir mig þar sem ég mun ekkert koma til með að vera hér í tvö ár. Prepaid er svo miklu verri kostur kostnaðarlega séð en í raun sá eini sem stendur mér til boða.
Vanalega er það líka þannig að þegar þú ferð í viðskipti við stóru fyrirtækin að þá geturu fengið síma frá fyrirtækinu "ókeypis" eða þá borgað frekar lítið fyrir fínan síma. En þar sem ég þráaðist við að nota nýja fína símann minn þá vildi ég þetta alls ekki og endaði á því að fara til fyrirtækis sem heitir Airvoice Wireless sem bauð manni að hafa sim-kort og átti víst að vera með ágætis dreifisvæði( inni á dreifisvæði eins af stóru fyrirtækjunum). Það er einmitt dreifisvæðið hjá Airvoice sem hefur verið að pirra mig mjög mikið því t.d. inni í herberginu mínu hér úti þá varla næ ég neinu merki. Sökum þessa þá fór ég aftur á stúfana eftir að ég kom út og ætlaði að athuga hvort ég gæti ekki gert eitthvað í málunum. Það sem ég komst að var að til þess að komast til stóru fyrirtækjanna þá þyrfti ég að skrá mig í 2 ár eins og áður hefur komið fram en hjá einu þeirra þá getur maður víst losnað undan samningnum ef maður sýnir one-way ticket til síns heimalands. Einnig þá þarf ég að leggja fram deposit og það er annaðhvort 150 eða 500 dollarar, fer eftir fyrirtæki. Nú þar sem ég mun ekki vera hér í fjóra mánuði í sumar að þá þarf ég að borga gjald til að halda samningnum en ekki borga venjulega mánaðargjaldið sem er í kringum 39.99. Þetta gjald var 6 dollarar á mánuð hjá öðru fyrirtækinu og eitthvað meira hjá hinu (sem svo skemmtilega vill til að rukkar þig um 500 dollara depositið). Ef ég skipti yfir í þetta þá þarf ég að fá mér nýjan síma og get því ekki nýtt minn góða síma.
Eftir þessar upplýsingar allar þá finnst mér hreinlega eins og símafyrirtækin líti á að þau séu að gera viðskiptavinum sínum greiða og að við séum heppin að hafa þau á markaðnum. Þetta brýtur náttúrulega í bága við öll lögmál þjónustugeirans. Ef að einhver hugvitssamur einstaklingur myndi kynna til sögunnar íslenska/evrópska viðskiptamódelið að því hvernig á að standa í svona þá tel ég að sá hinn sami mundi geta gert það gott. Nema náttúrulega að lögin séu þannig að það sé hindrað.

Í öðrum óspurðum fréttum þá er Fiskurinn farinn en hann skildi næstum allt sitt hafurtask eftir og rusl. Nýi herbergisfélagi okkar, Romain, sem mætti fyrir 8 dögum þegar þetta er skrifað byrjaði semsagt á því að taka til allt dót Fisksins og rusl og ganga snyrtilega frá því fram á ganginn hjá eldhúsinu. Þetta er bara enn ein sönnunin á því hversu furðulegur Fiskurinn var/er. Svo má við því bæta að Romain virðist vera miklu betri herbergisfélagi en Fiskurinn og það er bara ánægjuefni.