A site about nothing...

mánudagur, ágúst 29, 2005

Fyrsti skóladagurinn í dag og það tók ansi góðan tíma að koma mér þangað enda frekar langt frá skólanum þar sem ég bý núna. En það hafðist fyrir rest og ég fann húsið og fyrirlestrarsalinn eftir að hafa fengið að kíkja á netið hjá strák sem var á netinu. Kúrsinn sem ég fór í er svona jafngildi hagverkfræði heima en það er samt munur á þeim. T.d. í dag þá var gaurinn að tala um Simplex aðferðina sem mig minnir að sé notuð í framleiðslugreiningu og var aldrei minnst á í Hagverkfræði. Allaveganna þá var kennslan á dönsku og því soldið erfitt að fylgjast með enda talaði gaurinn fullhratt fyrir minn smekk auk þess sem mann vantar allskonar orð í orðaforðann til að skilja hann. Þar sem ég er búinn með hagverkfræði þá er ég jafnvel að hugsa um að sleppa þessu fagi því ég þarf að sleppa einhverjum. Auk þess þá þarf ég ekkert að mæta á mánudögum sem varla telst svo slæmt.
Annars þá verð ég að tala um lestar, djöfull dýrka ég lestarkerfið hérna. Það er ótrúlega þægilegt að nota þetta og maður er mjög fljótur að komast milli staða í þessu. Já ég vildi svosem ekki segja neitt meira um lestarnar.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Ekki að ég hafi ekki komist á netið fyrr en nú, það er þráðlaust heima hjá frænku minni en ég hef ekki bara nennt að skrifa hingað til því tíminn er nýttur í svo margt annað. Það er eitt sem ég hef ekið eftir hérna fyrstu dagana og það er það að ég lít soldið á þetta eins og frí hingað til ég þarf að koma mér úr þeim þankagangi því annars eyði ég eins og ég væri í fríi en ekki að fara að búa hérna í 4 mánuði. En ég tel að maður nái nú alveg að vera skynsamur og muna tilgang ferðarinnar, að læra.
Annars þá hefur verið mikið að gera og maður getur alltaf fundið sér eitthvað til að gera enda nóg af fólki hérna úti. Í gær, laugardag, hitti ég Tomma sem er hérna í heimsókn ásamt Erlu Siggu og Hjalta vini hans en þau tvö eru að byrja í skiptinámi í lyfjafræði. Ég hitti þau fyrst um daginn en svo hittumst við aftur um kvöldið á veitingastað sem heitir Sticks and Sushi og er staðsettur í Istedgade, mjög hip og kúl staður. Í hópinn hafði þá bæst við frændi hans Tomma, Nonni og kærastan hans sem er sænsk en skilur íslensku þannig að maður gat talað við hana á íslensku og þá svaraði hún á ensku eða íslensku. Maður er aðeins farinn að læra inn á þetta sushi dæmi allt saman og þetta var virkilega góður matur sem við fengum þarna. Svo fékk ég líka fáránlega góða súkkulaðiköku í eftirrétt með sorbet. Nú við ákváðum að kíkja í partý til félaga Tomma og þaðan fórum við stuttu eftir að við komum með þeim sem héldu partýið í annað íslendingapartý rétt hjá. Þegar við vorum búin að vera þar í pínu tíma var farið í seinasta partýið en það var afmælispartý hjá stelpu sem á íslenskan pabba þannig að maður gat spjallað við hana lika á íslensku. Svo var það bara bærinn. En í heilt litið þá var þetta mjög gaman og gefur góð fyrirheit fyrir veturinn, fyrir utan það að ég ætla kannski ekki alltaf að fara svona fínt út að borða ;).
Svo í kvöld hitti ég Söru og Gígju og við sáum virkilega góða mynd sem heitir Crash og ég mæli eindregið með. Þetta er svona mynd sem fær mann til að pæla og það sem ég fílaði ótrúlega við þessa mynd var hvað allt tengdist einhvern veginn, svona eins og bestu Seinfeld þættirnir eru alltaf nema að það er grín en þetta er drama.
Svo fer bara að líða að innflutningi í the bachelor pad og þá tel ég að lífið fari í svona fastar skorður. Mér líst rosalega vel á staðsetninguna á kollegiinu og hef heyrt mjög góða hluti. Ég veit að í herberginu mínu er sjónvarp og fullt af stöðvum og meðal annars ein sem sýnir enska boltann og vonandi þá meistaradeildina líka. Svo er ég búinn að kaupa mér kort í gymið og get þá farið að taka á því, hlakka til þess.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Seinasti heili dagurinn minn á Íslandi í nærri 4 mánuði er að kvöldi kominn. Hann hefur verið ansi viðburðaríkur enda er nóg sem þarf að gera. Ég byrjaði daginn á því að bjóða fólki á deildinni ásamt þeim sem ég var með hvað mest upp á köku og mjólk sem lagðist vel í fólk. Svo hélt ég kynningu á verkefninu sem ég var ráðinn inn í fyrirtækið til að gera og það gekk bara mjög vel. Svo hefur fólk verið að koma hérna með hluti, fá lánaðar bækur og að kveðja drenginn. Á morgun þarf ég svo að redda svona seinustu hlutunum áður en ég fer út en það ætti allt að vera í góðu.

Þar sem ég veit ekki alveg hvað líður langur tími þangað til ég kemst aftur inn á netið, ætti svosem ekki að vera langur tími þá ætla ég að skilja eftir eina skemmtilega vandræðalega sögu fyrir mig og ákveðinn misskilning sem ég hafði á mínum yngri árum.

Þannig var mál með vexti að sumarið eftir 9unda bekk var ég að vinna í unglingavinnunni og líkt og margir aðrir unglingar í unglingavinnunni var ég alltaf til í að sleppa við að vinna. Einn daginn tók ég eftir því að eina stelpuna vantaði eftir hádegi og fer því og spyr flokkstjórann hvar stelpan sé.
Flokkstjórinn: "Hún fékk frí því Rósa frænka kom í heimsókn".
Ég tók þessa skýringu sem góða og gilda en var soldið súr og hugsaði með mér: Ekki bað ég um frí þegar Guðrún frænka kom seinast.

Svo er um að gera að lofa bót og betrun og hætta 5 daga bloggi eins og hefur verið ríkjandi upp á síðkastið, enda eiga eflaust skemmtilegir hlutir eftir að gerast í kóngsins Köben.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Ég gleymdi að segja frá því að það eru tvö ný myndaalbúm komin inn. Annað er úr kveðjupartýi Guðbjargar um seinustu helgi og hitt er frá hittingi hjá 6-Y.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Erum við að tala saman eða hvað? Fór í próf í hagverkfræði í gær og fannst mér bara ganga mjög vel. Mæti síðan í vinnuna og sé póst frá einum af þeim einstaklingum á kollegium í Lyngby sem sér um að framleigja herbergi. Pósturinn var frá þriðjudeginum, ég hætti hálfþrjú þá og fór að læra, kom pósturinn svona 20 mínútum eftir að ég hætti vinnu þann daginn. Gaurinn sagðist hafa herbergi handa mér á William Demant kollegiinu sem er nýjasta kollegiið þarna og ég hefði fáa daga til að taka ákvörðun, gæti sent póst ef mig vantaði að vita eitthvað. En hann bað mig um að vera fljótan að taka ákvörðun því það væru fleiri sem væru áhugasamir. Ég dreif mig að senda póst og vonaði innilega að herbergið væri laust ennþá og ég hefði ekki misst af þessu tækifæri. Svo þegar ég var búinn að senda póstinn þá ákvað ég að reyna að finna símanúmerið hjá honum sem tókst og ég hringdi út og herbergið var laust. Ég stökk á það og er því húsnæðis hausverkur minn úr sögunni :D.
Svo um kvöldið var 6-Y partý heima hjá Söru. Þar var komið margt gott fólk og gaman að hitta þá sem maður hittir svona sjaldnar. Svo fór allur hópurinn, vorum svona 15-17 niður í bæ á Hressó þar sem maður tjúttaði allsvakalega og svitnaði eins og maður væri í brennsluæfingu. Enda var ég hálfklístraður þegar ég vaknaði í morgun. En þetta var virkilega gaman og dagurinn í gær bara yfir höfuð snilld.

Nú eru 5 dagar þangað til ég fer út.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Hressandi helgi að baki og því um að gera að nýta síðustu mínúturnar í vinnunni og blogga um það og fleira.
Á föstudaginn fór ég í tvö kveðjupartý. Annars vegar til Guðbjargar og hins vegar til Sigga og Örnu. Ég byrjaði hjá Guðbjörgu og þar var byrjað á því að boðið var upp á grillaða hamborgara og með því og sat fólk úti og borðaði saman. Svo var farið í leiki þar sem fólk var skipt í lið algjörlega random að því er virtist. Svo fór ég til Sigga og Örnu og þaðan í bæinn á Kaffi Cultura, þar sem Árni frændi var að spila og vorum við það fram að lokun.
Laugardagurinn var nú bara mellow eitthvað, leit til Gunna B en hann átti einmitt afmæli en fór snemma heim þar sem ég ætlaði að fara að læra í gær, sem ég og gerði.
Tók netta upprifjun í gær á því hvernig var í skólanum seinasta vetur. Var í skólanum frá 12-23 að fráskildum einhverjum tíma þegar ég fór heim í mat. Það var gríðarhressandi að koma aftur í þriðja árs stofuna og taka aðeins á því lærdómslega.
Annars er það helst að frétta af mér að ég er að klofna á því að finna mér íverustað í Köben. Það er eiginlega orðið útséð með það að ég fái ekki herbergi á kollegi þar sem ég á minna en 6 mánuði eftir af náminu mínu. Þannig að núna þarf ég að taka ákvörðun, vil ég reyna redda herbergi í lyngby og jafnvel bíða fram á síðustu stundu með því að redda því eða ætti ég að vera bara nær miðbænum í Köben, þar sem ég er hvort eð er ekki nema í 4 mánuði þarna úti? Þetta er hausverkur minn um þessar mundir og er hann allstór.

Annars er maður bara sáttur við byrjunina á ensku deildinni. United vann, Rooney og Nistelrooy komnir í gang. En slæmt þótti mér að Chelsea náði að "stela" sigrinum á móti Wigan.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Það er ekki laust við að maður yrði nett pirraður í dag. Fékk póst frá PFIU sem sér um að veita nemendum herbergi á kollegi. Ég var búinn að vera að skrifa þeim og spyrja hvenær maður gæti átt von á því að fá tilboð. Svo fékk ég svar við því og þar var sagt að maður gæti átt von á því að fá svar innan 6 mánaða. Ég svaraði og sagði að ég yrði kominn heim eftir 4 mánuði og því gæti ég verið kominn heim þegar loksins kæmi tilboð. Svo í dag fékk ég svar og þá var sagt að ekki yrði leigt herbergi til nemenda sem eru skemur en 6 mánuði skildist mér þannig að ég get bara kiss this goodbye. Ég var brjálað að treysta á þetta, var búinn að heyra að þar sem maður væri frá Íslandi fengi maður pottþétt tilboð og svona og þessvegna sleppti ég því að borga skólanum 35 evrur fyrir einhvern ákveðinn tíma til að redda mér húsnæði. Núna lítur út fyrir það að ég þurfi að væla í DTU um að redda mér húsnæði eða að reyna að finna mér eitthvað sjálfur og það eru ekki mikið af lausum herbergjum í Lyngby.

Að jákvæðari og skemmtilegri málum. Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að FH verði Íslandsmeistari í ár. 8-0 bökun á Grindavík færði FH skrefi nær bikarnum og ég gæti vel trúað að Allan Borgvardt muni slá markametið á Íslandi. Skemmtilegast væri ef þeir kæmust ósigraðir í gegnum deildina, sem er alveg raunhæfur möguleiki að mínu mati.

Annað tengt fótbolta þá horfði ég á meistaradeildina í gær og sá United vinna Debrecen á Old Trafford. Rooney og Ronaldo áttu leikinn og það verður svo mikil unun að fylgjast með þeim í vetur að ég get varla beðið. Ronaldo er að "vitkast" sem leikmaður þar sem hann er meira farinn að taka einnar snertingarbolta og að spila betur með liðsfélögum sínum. Menn eru líka að tala um að Rooney og Ronaldo séu farnir að spila mun meira sín á milli og eru minna eigingjarnir eins og kanski sást í markinu hans Ronaldo. Mér skilst að í æfingarleik á móti Antwerpen hafi nákvæmlega sama staða komið upp og þá gerði Rooney hið sama í stað þess að reyna að skora. Þetta verður gaman að horfa á. Helst finnst mér þó vanta að United splæsi í einn miðjumann og þá ættu þeir að vera með lið sem gæti challenge-að bæði meistaradeildina og ensku deildina.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Ég er með soldið vangefna heyrn, væntanlega sökum þess að ég hef tvisvar sprengt í mér hljóðhimnuna, og heyri þess vegna oft annað en sagt er. Nýjasta dæmið um þetta er nýja lagið með White Stripes, My Doorbell. Þá var það þannig að ég hélt að textinn væri eftirfarandi:
I´m thinking about my girlfriend, when you gonna bring it, when you gonna ring it (var samt ekki viss um bring eða ring í seinna skiptið)
Nú ég hélt þetta þó svo ég vissi að lagið héti my doorbell en mér fannst það soldið skrýtið að lagið héti my doorbell en textinn væri eins og hann er. Svo í dag þá loksins sá ég ljósið þegar lagið var kynnt og svo spilað og þá heyrði ég sannleikann:
I´m thinking about my doorbell, when you gonna ring it, when you gonna ring it.

Þurfti að hitta fólk áðan á Hressó og var orðinn ansi seinn en átti eftir að borða kvöldmat. Ætlaði að grípa mér pullu á Bæjarins en svo mundi ég eftir því að í gær þá var ég að tala við Gunna B, Káka og Kidda og Gunni mælti með Pizza King við Káka. Þannig að ég ákvað að fá mér frekar eina sneið og hún var virkilega góð. Fékk fjórðun úr 16 tommu pizzu held ég með pepperoni og borgaði skitinn 300 kall. Var bara nokkuð mettur af þessu og mæli eindregið með að fólk kíki þarna. Skilst að þetta séu sömu eigendur og að Devito´s en mér fannst samt pizzan öðruvísi, kannski misminnir mig bara.

Í dag eru þrjár vikur þangað til ég flyt til Danmerkur. Ég er ekki kominn með herbergi á kollegi og það er nett pirrandi því ég vil helst ganga frá svona hlutum sem fyrst. Ég sendi póst til þeirra sem sjá um að úthluta svona og spurði meðal annars hvenær maður gæti átt von á svari. Svarið sem ég fékk var ekki beint upplífgangi, ég mætti búast við því að fá tilboð um herbergi innan næstu 6 mánuða. Jáhá, ég verð kannski bara kominn heim þá.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Verslunarmannahelgin að baki og ég fór ekki út úr bænum. Á föstudagsnóttina leit út fyrir að ég væri að fara norður á Akureyri á Halló Beggi með Tuma og Kenneth en þegar ég vaknaði um morguninn daginn eftir og renndi yfir bókhaldið hvað þetta myndi kosta ákvað ég að sleppa því. Það hefði annað hvort verið Akureyri eða London í september og þar sem ég ætla að gera allskonar hluti í London eins og t.d. að taka GRE prófið þá valdi ég frekar að chilla heima og fara til London í september. Samt get ég ekki neitað því að maður var með hugann við Norðurlandið alla helgina og hversu gaman þetta hefði getað orðið. Veðrið virtist leika við Akureyringa og félagsskapurinn hefði ekki verið slæmur. Þess í gerði ég eftirfarandi um helgina. Fór á Stuðmannaball á Players á föstudaginn með Tuma og Kenneth og það var virkilega gaman. Við þrír lækkuðum meðalaldurinn ansi mikið þarna inni. Sorglegast var samt að sjá allar gömlu pissfullu konurnar sem stóðu fremst við sviðið og góndu á Egil Ólafsson og klæddu hann úr fötunum með augunum á sér. Fyndnast var þegar Tumi grillaði í einhverjum gömlum karli sem var hræðilegur dansari, Tumi fór að dansa með honum en kallinn fílaði það ekki og fór af dansgólfinu.
Á laugardaginn fór ég svo í fjölskyldu og húsdýragarðinn og sá Stuðmenn spila á tónleikum. Það var algjör snilld að sjá Valgeir með þeim og þeir tóku fullt af klassískum lögum. Svo leit ég aðeins í bæinn en entist stutt. Í gær og í dag var bara chill og var það bara mjög gott. Maður ætti að koma endurnærður inn í nýja vinnuviku enda er mikið um að vera framundan og maður þarf að vera ferskur.
Svo að lokum þá verð ég að segja frá því að ég keypti mér miða á Coldplay í Köben 30. október. Ef einhvern langar til að kíkja til Köben og kannski nýta ferðina þá mæli ég með því að hann kíki 30. október en verði búinn að fara á www.billetlugen.dk síðuna fyrst og fjárfesta í miða á tónleikana.