A site about nothing...

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Núna eru 4 dagar búnir í nýju vinnunni og maður er aðeins farinn að synda að reyna að koma sér upp á yfirborðið. Það er nóg að gera í vinnunni, mikið að læra og mér líst mjög vel á það. Vinnudagarnir hafa verið langir hingað til og verða það eflaust eitthvað áfram en þetta er ekki einhver aula sumarvinna, heldur fyrsta alvöru vinnan! Vinnan skaffaði mér síma sem er svo flókinn að ég skil varla hvað er upp og hvað er niður í honum. Þetta er þvílíkt tækniundur sem getur flakkað á netinu í gegnum gprs (held ég), 3G og svo er hann þannig að hann getur farið á þráðlaus net. Einnig þá get ég náð í póstinn minn í vinnunni og get víst líka náð í gmail póstinn minn og ég setti einmitt upp fyrra póstdæmið og fór eftir ítarlegu leiðbeiningarskjali til þess.

Það sem kemur mér kannski hvað mest á óvart þessa fyrstu daga er hvað ég er þreyttur eftir vinnudaginn. Maður er náttúrulega óvanur því að vera að vinna og þetta mun eflaust taka nokkra daga en svo væntanlega fellur maður í gírinn. Annað sem kannski kom mér ekki á óvart en er alltaf jafn pirrandi er umferðin á morgnana og stundum gerir hún mig gráhærðan.

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Um helgina verður valið framlag Íslands til Eurovision þetta árið, eftir svona þrjúhundruð þætti er loksins búið að skera niður í 8 lög. Tvö lög virðast vera líklegust til að hneppa hnossið og eru þau ágæt hvor á sinn hátt. Eurobandið er með svona klassískt Eurovision lag, sem hefur verið samið svona 10 sinnum áður. Barði og Mercedes Club koma með háðið í þetta í trans lagi sem er ágætt en lang besta lagið er Hvar ertu nú með Dr. Spock. Fyrst var ég hrifnastur af Mercedes Club en eftir að hafa heyrt Dr. Spock taka sitt lag í síðasta þætti þá sannfærðist ég um að þetta sé lagið sem við eigum að senda. Ég held að sú sérstaða sem þeir hafa með nafna minn með tveimur errum í bleikum spandex buxum og svo gulu hanskana að þarna gætum við verið komin með okkar Lordi. Eitthvað sem stendur út úr og fólk tekur eftir svo eru þeir líka bara svo drulluþéttir þegar þeir spila og það skilar sér betur en máttlaus söngur stelpunnar í Mercedes Club.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

... og þar með lauk fríinu. Já, í dag, nákvæmlega tveimur mánuðum og einum degi eftir að ég steig upp í flugvélina sem flutti mig heim frá Boston, skrifaði ég undir samning um að ganga til liðs við Landsbankann og kíkja aðeins á Áhættustýringuna hjá þeim. Þetta er eitthvað sem ég hlakka til að takast á við og ég held að verði mjög skemmtilegt, krefjandi og gefandi. Núna þarf ég bara að vinna úr veikindunum sem eru að hellast yfir mig, er búinn að vera frískur allt fríið en svo þegar maður er alveg að fara að byrja á nýjum stað ÞÁ þarf maður auðvitað að verða eitthvað slappur. Dæmigert.

mánudagur, febrúar 18, 2008

Gott lag til að byrja vikuna

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Það kemur oft fyrir að mér finnst ég hafa "klárað" internetið. Þegar ég segi "klára" þá meina ég að ég er búinn að heimsækja allar þær bloggsíður, fréttasíður, linkasíður, spjallborðssíður og hvað þetta heitir allt saman að minnsta kosti þrisvar yfir daginn. Mbl.is hefur ekki einu sinni við mér að uppfæra og bæta við fréttum, svo oft stundum fer ég inn á hana. Núna hefur vandamálið mitt hinsvegar verið leyst. Stumbleupon er síða sem virkar þannig að þú bætir við tækjastiku við vafrann þinn frá síðunni. Þú byrjar á því að skrá þig og segja hvers konar efni þú vilt "rekast" á. Sniðugt er til að byrja með að nefna sem flest og svo fella út einhverja flokka ef þetta er ekki að gera sig. Svo þegar þessu er lokið og tækjastikann kominn á sinn stað á vafranum þá einfaldlega ýtiru á stumble takkann og þú ert sendur á einhverja heimasíðu sem inniheldur eitthvað tengt þeim áhugasviðum sem þú valdir í upphafi. Svo er hægt að gefa þessu umfjöllun með þumli upp eða þumli niður og ég held að það þrói hvernig viðmótið þitt verði og hvað þér er sýnt í framtíðinni. Einnig er hægt að velja hvort maður vilji bara rekast á vídjó eða myndir eða bara fá alla flóruna.

Í öðrum óspurðum þá fór ég í bíó í kvöld og ég er ekki frá því að ég kom út af sýningunni með a.m.k. 10 fleiri bringuhár. John Rambo er maðurinn!!

föstudagur, febrúar 08, 2008

Föstudagur, tími til að dansa!!
Ef þetta kítlar ekki hláturtaugarnar þá er ekkert sem kítlar þær.

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Morgunblaðið í dag á hrós skilið fyrir vandaða og mikla umfjöllun um hið hræðilega slys sem átti sér stað í Munchen fyrir 50 árum þegar leikmenn Manchester United voru á heimleið eftir leik í Evrópukeppninni. Í þessu slysi létust 8 leikmenn United strax og sá níundi lést um tveimur vikum síðar á sjúkrahúsi. Sá var Duncan Edwards sem af öllum sögum sem maður hefur heyrt er einn besti leikmaður sem Englendingar hafa nokkurn tíma átt. Hann var einungis 21 árs gamall þegar hann lést en þrátt fyrir ungan aldur hafði hann afrekað mikið. Hann var til að mynda yngsti leikmaður Englendinga til að spila landsleik þangað til Michael Owen tók við þeim titli. Samkvæmt því sem ég hef lesið gat hann spilað allar stöður á vellinum, var jafnvígur á báða fætur, skotfastur með eindæmum og bjó yfir miklum hraða, leikni og krafti.

Í gærnótt horfði ég á fyrsta þáttinn af nýju seríunni af Lost og ég verð að segja að þetta byrjar ansi vel. Þátturinn var mjög spennandi og ég tel ljóst að fyrst það er búið að ákveða hvenær þetta endar að þá geta þeir farið að einbeita sér að því og vonandi komast hjá því að fara í of mikla vitleysu. Ef fólk vill kíkja á þetta, þá mæli ég með þessari síðu. Þessi síða hefur að geyma linka á flest alla vinsælu þættina sem eru erlendis og hægt er að horfa á þá með því að streyma þeim í tölvuna, fólk þar bara að vera þolinmótt meðan þátturinn hleðst inn.

mánudagur, febrúar 04, 2008

Getur hann?

föstudagur, febrúar 01, 2008

Uppáhaldslagið mitt um þessar mundir er með Bretunum í Hot Chip sem eru að gefa út sína þriðju plötu í byrjun febrúar. Lagið sem um ræðir heitir Ready For The Floor og er ekta dansmellur úr smiðju Hot Chip liða. Það sem er jafnvel betra en upprunalega útgáfan er Soulwax remixið af laginu sem er hreint út sagt æðislegt. Soulwax hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér sem hljómsveit og remixarar þannig að maður fagnar alltaf nýju remixi með þeim eða nýju lagi ef út í það er farið.

Næsta Crazy?

Gnarls Barkley eru að fara að gefa út plötu á þessu ári og þeir eru við sama heygarðshornið ef eitthvað er að marka þetta lag. Tjekkið á því, ekta föstudagslag.