A site about nothing...

þriðjudagur, maí 30, 2006

Reykjavík trópík

Ef einhver er á leiðinni á Reykjavík Trópík hátíðina um helgina endilega látið mig vita. Nú ef einhver vill koma með mér þá er bara um að gera að kaupa miða og láta mig svo vita :D.

Kosningahelgi að baki. Kíkti með Kidda og Káka á þrjár vökur og var stemmningin mismikil og sumstaðar hreinlega dauð. Lærði að það er ekki auðvelt að fá leigubíl á stað þar sem fullt af fólki er og klukkan orðin meira en þrjú. Komumst þó á endanum í bæinn og ég með litla léttmjólk í vasanum sem ég reyndi að koma á fólk. Á endanum náði ég að losa mig við hana og var það enginn annar en meistari Oddsson sem tók við henni. Hitti hann og Rán þegar ég var að fara að næla mér í leigubíl. Deildum við leigubíl heim og náðum ég og Oddi að catch-up.
Þessa dagana er ég alveg sjúkur mig langar svo að fara eitthvað erlendis. Draumaáfangastaðirnir eru Köben og svo leikur á HM. Hef mikið verið að pæla í Köben upp á síðkastið og hef verið að pæla í því hvort maður eigi að láta slag standa þegar mastersgráðan er komin í hús að jafnvel flytja í 1-2 til Köben. Spurning hvort það myndi verða jafnskemmtilegt og þegar maður var þarna sem nemandi og hafði frjálsar hendur en það veit Guð hvað ég dýrka Köben og Dani.

sunnudagur, maí 28, 2006

Þegar ég var lítill var ég ótrúlega óþolinmóður. Ég hataði að þurfa að bíða eftir einhverju og besta dæmið um þetta var í kringum jólin. Ég var svo óþolinmóður að til að halda mér góðum þá fékk ég vanalega að opna eina eða tvær gjafir klukkan 6. Eitt árið var óþolinmæðin í fyrirrúmi eins og vanalega og þá tók ég upp á því taka matardiskana af borðinu þegar fólk var búið að borða og byrjaði að vaska þá upp. Allt var þetta gert til að geta opnað gjafirnar fyrr. Nú eftir því sem árin liðu þá ólst þessi óþolinmæði af mér varðandi ýmsa hluti en hefur því miður haldist á öðrum vígstöðum. T.d. er ég í dag mjög óþolinmóður að bíða eftir niðurstöðum ef ég er að gera eitthvað. Gott dæmi um þetta er þegar ég ákvað að kaupa mér bíl þegar ég var á fyrsta ári í háskólanum. Ég skoðaði netið aftur á bak og áfram í leit að bíl og fór og prufaði eitthvað af þessum bílum. Eftir viku eða tvær var ég næstum farinn að gefast upp á að finna ekki bílinn og þoldi ekki að árangur erfiðisins væri svona lengi að koma fram. Svo fór að ég fann mjög góðan bíl. Hefði ég bara keypt það fyrsta sem ég hefði séð þá hefði það getað endað illa og sú "raun" að þurfa að bíða eftir að hlutirnir færu að gerast var þess virði eftir á en á meðan því stóð þá þoldi ég það ekki.
Annað dæmi um þetta er þegar ég var að sækja um skóla. Eftir marga mánuði af pælingum, veseni og stússi í kringum umsóknir og pælingar hvert skyldi fara sendi ég loksins inn umsókn og við tók bið. Helst hefði ég viljað fá svarið daginn eftir að ég sendi út og það pirraði mig kannski hvað mest. Þessi rosalega bið, óvissa um það sem verða skyldi í framtíðinni. Var ég að fara að komast til USA eða ekki?
Að einhverju leyti hefur óþolinmæði á þessu sviði náð yfir á persónulega lífið, sambönd og þess háttar. Þegar maður kynnist nýrri stelpu sem maður er heitur fyrir þá vildi ég helst bara geta komist í það stig þar sem árangur erfiðisins kemur í ljós og hoppa yfir allt sem liggur að því stigi.
Það mætti líkja þessari óþolinmæði minni við bakstur. Ég er í þessum málum oft þannig að ég myndi vilja kaupa hráefnið og svo stæði kakan tilbúin fyrir framan mig án þess að ég hafi haft fyrir vinnunni sem þarf til að búa til kökuna. Þó svo það sé ótrúlega heimskulegt að ætlast til að sjá árangur strax þá býst ég samt oft við því og kenni ég þessari óþolinmæði minni um það.
Reyndar tel ég mjög ólíklegt að eitthvað muni gerast í þessum málum hjá mér á næstu mánuðum hér heima. Sérstaklega í ljósi þess að ég er að fara að flytja til Boston í haust og verð minnst eitt heilt ár eða 2 ár með sumarfríi. Ég hef prufað long distance "samband" og það er mjög erfitt þegar fólk er í sitthvoru landinu. Sérstaklega ef fólk er nýbúið að kynnast. En svo er það oft þannig að þegar maður á síst von á því gerist eitthvað. En þetta verður bara allt að koma í ljós.

fimmtudagur, maí 25, 2006

Stelpur og það allt, pt. 1

Stelpur gefa lífinu lit, svo mikið er víst. Í gær á vorfagnaði KB banka sem fram fór í reiðhöllinni í Víðidal sá ég að það hefur sína kosti að vinna hjá KB, hlutföllin eru strákum í hag svo mikið er víst. Og eitt verður að segjast, íslenskar stelpur eru án vafa með fallegustu konum sem til eru. Ég tók eftir því þegar ég bjó í Danmörku að vissulega var mikið af flottum stelpum en það sem gerði þær flottar var það að þær voru tiltölulega fit, brúnar og sællegar. Samt finnst mér íslensku stelpurnar yfir höfuð náttúrulega fallegri, meðan þær dönsku þurfa soldið að hafa fyrir þessu.

Misjafn er smekkur manna hefur oft verið sagt og það er vissulega rétt. Það sem einn fílar finnst öðrum ekkert spes og það allt og við gerum öll mismunandi kröfur. Við leitum eftir mismunandi eiginleikum í fari hinna sem heilla okkur. T.d. get ég uppljóstrað að ég er menntasnobb þegar kemur að stelpum. Gáfaðar stelpur, stelpur sem eru að mennta sig, þær heilla mig.
Annað sem hefur alltaf skorað hátt hjá mér eru stelpur sem hafa eitthvað svona góðlátlegt yfirbragð við sig, ef það meikar einhvern sens fyrir ykkur lesendur góðir. Stelpur sem eru gellur og vita af því eru ekki minn tebolli.
Persónuleikinn skiptir líka mjög miklu máli. Það að stelpan sé áhugaverð og skemmtileg getur fleytt henni hátt upp minn lista og gert kannski "venjulega" stelpu þá sætustu í mínum augum.
Þetta eru kannski almenn sannindi og flestir á þessu en samt held ég að mjög margir strákar fara eftir "trophy" kærustum. Stelpur sem eru sætar og líta vel út en hafa lítið af viti að segja.

Það sem er kannski hvað furðulegast við mig er að hár stelpna er eitthvað sem ég pæli mikið í og tek eftir. T.d. fíla ég stelpur með sítt hár, axlasídd og neðar. Brúnt/dökkbrúnt hár hefur löngum verið í uppáhaldi og það ásamt dökkbrúnum augum er lethal combination að mínu mati.

Af yfirborðslegum hlutum sem maður tekur eftir í fyrsta skipti þegar maður sér stelpu þá hefur smekkur minn breyst í gegnum árin. Þegar ég var yngri voru brjóst málið, því stærri sem þau voru þeim mun svalara var það. Eftir því sem árin færðust yfir fattaði ég, algjör snillingur sko, að á Íslandi er mjög oft kalt og því fólk ávallt í jakka. Jakkar eiga það til að hylja brjóstin og þeirra stærð og því fór ég að horfa meira á rassinn. Hann er því sem næst alltaf í augsýn. Núna upp á síðkastið þá hef ég meira verið að pæla í maga. Maginn er ekki mjög sýnilegur og það er helst í sundi eða þegar maður er að æfa sem hann sést. En ég held að maginn sé sá líkamshluti kvenna sem sé flottastur. Flottur magi er gulls ígildi.
Látum þetta vera lokaorðin um yfirborðslega hluti sem maður horfir eftir hjá stelpum.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Er það furðulegt að ég er meira inni í pólítíkinni í Reykjavík og veit hvað ég myndi kjósa ef ég byggi þar heldur en því sem er að gerast í Firðinum? Mér finnst það nett furðulegt og ég veit ekki á þessari stundu hvað ég mun koma til með að kjósa. Sá reyndar framboðslista frá Framsókn og þar í 11. sæti er einhver mesti snillingur sem ég hef unnið með á minni ævi. Hún heitir Elín Björg og við unnum saman eitt sumar í Hans Petersen Bankastræti. Við náðum ótrúlega vel saman við Elín og svo vel að sumir göntuðust með það að ég væri faðir barnsins sem hún bar undir belti þá. Ég fullvissa ykkur þó að ég átti það ekki ;). Við brölluðum ýmislegt ég og Elín og ef maður var eitthvað down þá gat maður treyst á það að hún náði að rífa mann upp úr volæðinu. Enda í dag þegar við rekumst á hvort annað, sem gerist kannski einu sinni til tvisvar á ári þá eru miklir fagnaðarfundir með faðmlögum og kossum. Eitt sinn hitti ég hana í bænum að kvöldi til um helgi og þá var hún pínu í glasi og tjáði vinum mínum að hún elskaði mig. En svona fólk eins og Elín er fólk sem gefur lífinu lit og ég er feginn að hafa kynnst. Hver veit hvort ég gefi Framsókn mitt atkvæði útá það eitt að Elín er þar, það mun koma í ljós um næstu helgi. En eins og staðan er í dag, þá gæti það alveg gerst.

Að lokum ætla ég að láta flakka eina pælingu sem skaust upp í hausinn á mér og ég man ekki afhverju.
Þegar blindir skeina sér, hvernig vita þeir að mál sé að standa upp og sturta niður þannig að allt sem á að vera hreint sé hreint, ef svo mætti að orði komast?

mánudagur, maí 22, 2006

Tvö og sjúga...

Núna ætla ég að fjalla um ást mína á nammi. Nammi og ég höfum löngum átt í góðu sambandi og þeir sem þekkja mig vita hvað ég er mikill sælgætisgrís. Ég á mér allskonar ritúala tengt hinum ýmsum tegundum af nammi og núna ætla ég að leyfa ykkur að kynnast því aðeins betur.

Eins og ég kom lítilega inn á hér að ofan hef ég allskonar ritúala í tengslum við nammi og mismunandi tegundir þess. Hvort sem það er að blanda einhvers konar drykk og tegund af nammi við eða eitthvað kombination af mismunandi nammi saman. Sá drykkur sem ég er hrifnastur af með nammi er mjólk. Ekki að ég drekki alltaf mjólk með öllu nammi sem ég fæ mér en samsetning af lakkrís og mjólk eða mjólk og víngúmmíi, það er bara fátt til betra. Ekki nóg með það að ég blandi mjólk og lakkrís eða hlaupi saman þá vanalega hef ég einhverjar hefðir með hvaða liti af víngúmmíi ég blanda saman eða hver samsetning af lakkrís og marsipani er. Tökum sem dæmi hið hefðbundna Bassett´s Winegums. Þar þykir mér langsamlega best að fá mér eitt svart, eitt rautt og mjólk. Þetta saman myndar þvílíkt unaðsprengju í munninum á mér að ég á erfitt með mig. Með lakkrís þá er það vanalega þannig að það eru tveir lakkrís bitar og einn marsípan (því það er færri af þeim) og svo blandast mjólkin við. Önnur drykkjar/nammi samsetning sem er góð er t.d. sterkur brjóstsykur og appelsínusafi.

Svona þegar ég fer að hugsa um þetta þá er þetta svipað og með mat. Það er ástæða fyrir því afhverju maður hefur þessa tilteknu sósu með þessari ákveðnu tegund af kjöti og hitt meðlætið sem valið er, er ekki valið út í loftið. Þetta sama lögmál beiti ég þegar ég fæ mér nammi.

Að lokum ætla ég að minnast á nammið sem ég lifði hreinlega á í Köben þegar ég bjó þar, Godt & Blandet. Eins og fólk ætti að vita þá höfum við hlaup sem er mjúkt en samt soldið seigt, saltlakkrís og svo einhvern vondan lakkrís. Hin opinbera leið til að borða þetta er eftirfarandi:
Valdir eru tveir hlaupbitar og einn saltlakkrísbiti og þessu öllu skellt í munninn og sogið af "áfergju" til að njóta bragðsins sem verður til.
Það merkilega er að ég er ekki einn á þessari skoðun og að því komst ég er ég var úti í fyrra. Tveir aðrir strákar tóku undir þessa kenningu með mér og sögðu að þetta væri rétta leiðin til að borða þetta. Annar strákur var hins vegar á öndverðu meiði, hann vill vondu lakkrísbitana og finnst hitt ekkert spes. Var talað um það milli okkar þriggja sem borðum þetta eftir hefðbundnum leiðum að sá sem fer ekki hefðbundnu leiðina væri best til þess fallinn að fjárfesta í svona poka með. Enda eru þessir pokar ansi stórir í Köben og ef maður vill ekki bumbu er ekki sniðugt að fjárfesta einn í þessu.

sunnudagur, maí 21, 2006

Jæja hefst nú vika þar sem allt fær að flakka. Til að byrja þetta þá datt mér í hug að segja frá einu vandræðalegasta mómenti sem ég hef lent í og mjög fáir vita um.

Fyrir örfáum árum þá fór ég í Kringluna ásamt bróðir mínum að versla í matinn. Þegar við komum að Hagkaup var búið að leggja í öll fötluðu stæðin og meira að segja var búið að leggja á milli tveggja bíla og var greinilegt að þar fór ekki fatlaður einstaklingur. Þetta þótti mér mikil svívirða og var orðinn svolítið fúll að fólk sem getur gengið án vandræða skyldu gera þetta. Allaveganna við förum inn og verslum og svo fer ég með pokana út í bíl meðan bróðir minn hélt áfram að skoða eitthvað. Með poka í sitthvorri höndinni labba ég fyrir utan og sé þá fólkið sem hafði lagt svo fáránlega bakka úr stæðinu og að vera að keyra í burtu. Maður sá augljóslega á þessu pari að þetta var par sem hugsaði ekki um hinn almenna borgara og hugsaði meira um eigið rassgat og reyndi að gera allt á sem auðveldastan hátt. Þarna er ég semsagt labbandi með poka sitthvorri höndinni og ég sendi þeim illt auga, mjög illt auga, og þau sjá mig. Ég geri þetta og labba með pokana og þegar illa augað stendur sem hæst þá labba ég á einn af þessum litlu staurum sem eru í svo "skemmtilegri hæð" og afmarka bílastæði og gangstétt og þau sjá þetta allt. Hvort það var verra að labba á þennan fjandans staur og sá sársauki sem fylgir því að fá högg á pung eða sú smán að þau skyldu sjá mig lenda í þessu rétt á meðan ég sendi þeim illt auga veit ég ekki hvort var verra.

Eins og glöggir lesendur sjá þá er þetta ekki ég en þessi mynd lýsir ágætlega þeirri þjáningu sem högg á pungsvæði er.

laugardagur, maí 20, 2006

Þar sem það er bara ár í næstu Evróvision þá er um að gera að fara að pæla í henni aðeins. Flestum að óvörum unnu Finnar, þó svo þetta hafi verið fínt atriði, og það hrekur kannski þá alhæfingu sem fólk hefur verið með um að Austantjaldslöndin séu að einoka keppnina. Reyndar þá eru Finnarnir nálægt Rússlandi, landfræðilega séð, en þetta rokk sem þeir framreiða, gamaldags hart rokk, er eitthvað sem nær yfir öll landamæri. Ef annars eru skoðuð þau lönd sem eru þarna ofarlega þá eru þau flest frá títtnefndum austantjaldslöndum og hvern hefði t.d. grunað að Litháen með lagið sitt We are the winners sem hljómar eins og söngur enskra fótboltabullna ætti eftir að ná svona langt? Ekki ég því þetta lag er ömurlegt í alla staði en sýnir að landfræðileg staðsetning og kannski "frændsemi" kemur þér langt. Hins vegar er ég ánægður með Bosníu/Hersegóvínu því það lag er alvöru lag og frábærlega flutt. Höfundurinn, Zeljko Joksimovic, er sá sami og gerði hið frábæra lag fyrir Serbíu og Svartfjallaland árið 2004. Það lag var lang lang lang besta lagið það árið og ég hlusta þónokkuð oft á það.
Þetta var intró að því sem ég ætlaði í raun að ræða um, framlag Íslendinga að ári liðnu. Það er auðséð að við munum eiga í erfiðleikum með að komast upp úr undankeppninni á komandi árum. Við erum engin baltnesk poppþjóð og lagið okkar mun aldrei hljóma þannig. Það sem ég hins vegar væri til í að sjá að ári eru önnur hvor eftirfarandi hljómsveita. Þessar hljómsveitir hafa báðar það til brunns að bera að spila grípandi og hresst rokk og fantagóðar í slíku. Önnur hljómsveitin er með líflegri sviðsframkomu og eru meðlimir yngri en í hinni. Ég er að tala um Jakobínarínu og Jeff Who?. Ég tel að með hressu og flottu rokki gætum við náð langt og þær tvær hljómsveitir sem ég hef talið upp passa fullkomlega við þá lýsingu. Það er hins vegar annað mál hvort þær myndu vilja þetta enda Jakobínarínu menn komnir með samning hjá Rough Trade og spurning hvernig þetta færi með repjútatíónið hjá þeim. Jeff Who? væru hins vegar líklegri að vilja þetta og þegar hljómsveit getur samið lag eins og Golden Age sem er gríðarlega katsí þá veit maður að hún hefur eitthvað í pokahorninu.

föstudagur, maí 19, 2006

Ég var að pæla í dulitlu í gær. Þar sem ég hef verið mjög latur upp á síðkastið að blogga ætla ég að bæta fyrir það í næstu viku. Planið er að á hverjum degi kemur inn færsla þar sem ég skrifa bara það sem mér dettur í hug. Þá er ég ekki að meina að ég skrifi

Ah ég sé að það er kóka kóla light flaska hérna og gulur tappi. Best að taka tappann af því ég er að safna töppum til að fá Adidas bolta.


Nei þetta verður meira þannig að fólk fái að kynnast því hvað ég er stundum að hugsa og leyfi fólki ekki alltaf að heyra, enda margar pælingar mjög furðulegar. Kanski lærir fólk líka eitthvað um mig, þetta kemur allt í ljós.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Hvort er betri lykt; Fudge, hárvaran sívinsæla, eða Love Spell ilmvatnið frá Victorias Secret sem stelpur nota svo gjarna? Ég á erfitt með að velja þar sem mér þykir báðar fáránlega góðar.

Barca evrópumeistar og það furðulega er að ég eiginlega vorkenndi Arsenal. Ég er harður United maður en einhverja hluta vegna vorkenndi ég þeim. Kannski sérstaklega Pires, þó svo ég sé vanalega ekkert hrifinn af þeim manni, sem þurfti að fara af velli útaf brottrekstri Lehmann og taktískar breytingar kölluðu á að hann færi af velli.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Gnarls Barkley - Just a Thought

Lati maðurinn bloggar á ný. Furðulegt hvað tíminn líður og mann finnst eins og maður hafi bloggað í gær þó svo það sé meira en vika síðan. Ætli gleðin við það að uppfæra villulistann láti tímann líða hratt hjá mér. Svei mér þá ég held það bara.

Já semsagt ég hef verið að vinna. Fyrst var ég einn í því að gera þennan blessaða villulista sem þurti að uppfæra og þar sem meðalaldurinn á bakvinnslusviði er nálægt 50 árunum þá hafði ég ekki marga til að spjalla við. Úr þessu rættist í seinustu viku þegar stelpa sem er 82 módel byrjaði að vinna. Loksins hef ég einhvern til að tala við og er ekki lengur bara einn í þessu. Enda er farið að síga á seinni hlutann í þessum blessaða lista og verður honum eflaust lokið fyrir lok vikunnar.

Var að komast að því fyrir örstuttu(þegar þetta er skrifað) að ég var valinn í housing lottery NEU og get ég fengið húsnæði á vegum skólans ef mig svo lystir. Það eina sem ég hef áhyggjur af er hvort ég þurfi að skrá mig á matarplan og hvort ég þurfi að flytja út þegar það eru frí og á milli anna. Maður hefur heyrt að svo sé en ég þarf að tjekka betur á því.

Sáttur með úrslit helgarinnar. Öll "stóru" liðin skitu upp á bak, nema FH auðvitað :D. Vona að þessi lína komi mér ekki um koll síðar meir í sumar.

sunnudagur, maí 07, 2006

Gotan Project - Diferente

Núna um helgina fór tók ég fyrsta golfhring sumarsins. Æfingavöllur Keilis varð fyrir valinu og var hann mjög fínn til að byrja sumarið. Ég fór með Bjössa Berg og vorum við svo heppnir að enginn vallarvörður var á svæðinu þegar við ætluðum að borga okkur inn þannig að þeir sem eftir voru leyfðu okkur að spila ókeypis svona í ljósi þess að vetrargreenin voru ennþá. Maður kom ágætlega undan vetri og því verður gaman að spila í sumar og er stefnan tekin á að gera það nokkuð oft.

Bergur eða Beggalicious eins og ég kalla hann stundum hélt upp á afmælið sitt í gær. Afmælið var haldið á Haðarstíg og var furðulegt að vera í þessari litlu götu í öðru húsi en heimilinu hans Fjalars. Þetta voru mestmegnis Akureyringar og þeir sem ég kannaðist við voru úr verkfræðinni. Svo fór það svo að við fórum í bæinn og enduðum á kofa Tómasar frænda. Við vorum 5 saman, 4 strákar og ein stelpa. Ég kannaðist við tvo af strákunum en ekki restina. Svo erum við þarna á Kofanum, stöndum bara utan "dansgólfsins" og svo kemur lag og stelpan fer að dansa. Viti menn fara ekki allir strákarnir líka að dansa. Svo skrapp stelpan frá og þá varð allt svona voða vandræðalegt, fjórir gaurar að dansa án stelpu. What a difference a girl makes. Svo skildi ég við þau þegar við fórum út af Kofanum. Þau héldu áfram og ég fór heim.

Næsta vika verður full af gleði, villulistinn með sínum u.þ.b. 5000 villum bíður eftir mér en Ipodinn mun koma mér í gegnum þetta.

P.s. lagið í headernum er helvíti töff og þið getið séð og heyrt myndbandið hér