A site about nothing...

sunnudagur, maí 30, 2004

Var að enda við að horfa á heimildarmyndaþáttinn um Beckham hjónin og eftir að hafa séð þetta er ég fáránlega sáttur við að þurfa ekki að lifa svona lífi eins og þau gera. Þau náttúrulega eru að sækjast eftir þessu, reyna að gera vörumerki úr Beckham nafninu og svona, en samt segjast þau ekki skilja hve mikinn áhuga fólk hefur á þeim og lífi þeirra. Svo tók ég eftir svolitlu öðru en það er hvað Victoria finnst gaman að koma David í bobba með því að segja hluti, allaveganna virkaði það þannig á mig. Hún talaði um eitthvað atvik þar sem hann klæddist g-strengnum hennar við einhvern sundlaugarbakka og hann reyndi að halda því fram að þetta væri sundfatnaður og svo sagði hún ýmislegt fleira persónulegt svona sem hann bara brosti yfir, svona eins og hann hafi verið að hugsa, plís ekki láta hana segja meira. En þetta var samt fræðandi. Ég hef alltaf verið aðdáandi David Beckhams sem fótboltamanns og það var gaman að sjá þetta fannst mér.
Fyrsti þátturinn af The Apprentice var í kvöld og lítur þetta ágætlega út. Ég er algjör sucker fyrir raunveruleikasjónvarpi og á eflaust eftir að fylgjast spenntur með. Í þættinum var meðal annars sýnd einhver íbúð sem Trump á sem voða fáir fá að sjá og hún var fáránlega hallærisleg fannst mér og myndi ég ekki vilja búa þarna miðað við innréttinguna, alltof mikill íburður og í raun hallærislegt, en kellingarnar sem fengu að skoða þetta misstu sig algjörlega, frekar fyndið að sjá það. Keppnin er semsagt þannig að 16 manneskjur voru valdar úr hópi 215 þúsund umsækjenda og skiptist þetta til helminga meðal kynjanna. Þessum hópi var síðan skipt í tvö lið og voru konurnar látnar keppa á móti köllunum. Svo búa þau öll saman í einhverri íbúð sem á væntanlega að kynda undir svona romance í hópnum. Þetta verður spennandi að sjá.
Síðan prófin og skólin kláraðist hef ég verið algjör sjónvarpsfíkill, eitthvað sem ég er ekki vanalega, því það er nóg að gera í skólanum. Núna horfir maður á allt sem er remotely áhugavert. Æ mér finnst það allt í lagi, maður er jú einu sinni í fríi.
En talandi um frí þá fer að líða að lokum tveggja vikna sumarfrís míns hérna heima á klakanum. Í upphafi hélt ég að þetta yrði ömurlegt og ég hefði ekkert að gera en þetta hefur bara verið fínasta chill og góð leið til að gera sig kláran í það að fara að vinna. Fyrsti dagur er á þriðjudaginn og það verður gaman að gera eitthvað nýtt í sumar.

laugardagur, maí 29, 2004

Þetta er ein mesta snilld sem ég hef heyrt lengi. Radiohead lög í svona söngsyrpu í country stíl, argasta snilld.

föstudagur, maí 28, 2004

Busy dagur. Fór og hitti Ástu Siggu sem er nýkominn eftir eitt ár í landi Frans, fór svo í Skífuna í Kringluna að skipta Family Guy DVD sem ég keypti í gær því ég keypti aðra seríu, en ég á hana fyrir, ætlaði að fá mér fyrstu og fékk hana í dag. Svo hringdi ég í Kidda og við fórum á æfingasvæðið hjá Nesklúbbnum og slógum í nokkra bolta og reyndum að forðast að láta skíta á okkur af öllum kríunum þarna.
Ég tók eftir því í dag að móttökuskilyrði símans míns eru eitthvað að hrörna og fór því að velta fyrir mér að fá mér kanski nýjan síma í sumar. Bróðir minn hlýtur að hafa heyrt þessa hugsun því hann bað mig um að hitta sig í Smáralind. Þegar ég kom þangað sagði hann mér að síminn minn væri svo ljótur að ég yrði að fá nýjan, þannig að hann gaf mér Nokia 3100, ekki amalegt að eiga svona bróður.

Einhverjir eiga eftir að kunna að meta þetta, úberbeibið Keira Knightley.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Eins og margir vita hef ég ansi gaman af tónlist og hluti af því er að lesa um hana. Það blað sem mér finnst hvað best er Q og ef ég fer t.d. til útlanda er mjög líklegt að ég fjárfesti í einu slíku til að lesa í flugvélinni. Málið með svona útlend blöð á Íslandi er hversu dýr þau eru, það er hreinlega fáránlegt. Maður er að punga út 1200 kallinum fyrir eitt blað á meðan í bretlandi kostar þetta 4 pund eða svo. Ég hef lengi verið að velta því fyrir mér hvað það kosti að vera áskrifandi og fá bara blöðin beint frá Bretlandi. Því kíkti ég á heimasíðu Q og komst að því að þetta væri ekki svo dýrt, eða 39 pund fyrir allt árið, sem verður að teljast ansi gott, því bæði er blaðið veglegt og því fylgir oft einhver geisladiskur með ákveðnu þema. Svo hringdi ég í dag til póstsins til að tjekka hvað þeir taka fyrir þetta og komst að því að það er ekki svo mikið. Því lítur dæmið þannig út fyrir mér að fyrir heilt ár af Q er maður að borga svona 6500-7000 krónur fyrir allan pakkann, allaveganna miðað við þær upplýsingar sem ég hef. Feitur sparnaður, og þessvegna kýldi ég á þetta.
Fékk útúr tveimur seinustu prófunum í dag, 7 í greiningu IIB og maður bara sáttur með það, og svo 8 í framleiðslu og tæknibúnaði. Prófin gengu sæmilega bara, ein 5 í varmanum en miðað við gengið í prófinu get ég svosem verið sáttur. Til að verðlauna sjálfan mig, maður á alltaf að verðlauna sjálfan sig ef maður stendur sig ágætlega, keypti ég mér tvo dvd diska þar sem það er enginn vsk á þeim í Skífunni um þessar mundir. Fyrir valinu urðu Hullabaloo með Muse og Family Guy sería eitt.

Pixies í Krikanum í kvöld og stemmningin allgóð. Ég er ekki frá því að ég hafi komist í vímu um stundarsakir þar sem náunginn sem stóð fyrir framan mig var með allverulega svitafýlu og flæddi hún frá honum.
Það er fátt meira pirrandi en fólk sem er að troða sér til að komast eitthvað áfram en stoppar svo beint fyrir framan þig. Ég lenti í því að einhver gaur með feitan hring í miðnesinu og félagi hans gerðu það fyrir framan okkur. Svo seinna meir á tónleikunum voru einhverjir tveir gaurar sem gerðu sama leik við þessa tvo gaura og þá var gaurinn með hringinn ekki sáttur og fór að ýta gaurnum sem tróð sér fyrir framan hann.
Annars af tónleikunum, þá keyrðu þau í gegnum prógrammið og voru ekki mikið að tala. Ég held að ég hafi þekkt svona 8 lög eitthvað af viti en restin var frekar ókunnug mér, en það var snilld að heyra klassíkera eins og Where is my mind, Hey, Monkey Gone to Heaven, Debaser og Carambou og fleiri lög.
Áður en tónleikarnir byrjuðu var pínu bbq heima hjá mér og var fólk bara almennt í gleðinni. Ófáir burgers voru grillaðir, einhverjar pulsur og svo svínalundin mín. Fjalarr kom með pizzusneið sem hann hitaði á grillinu. Tumi, Martin og Atli komu með banana og súkkulaði sem eftirrétt og grilluðu þetta helvíti og það smakkaðist bara ansi vel.

þriðjudagur, maí 25, 2004

Bongo gott veður í dag og Sigurjón vakti mig og dreif mig í golf. Við fórum á Bakkakot í Mosfellsdalnum þar sem var bara ansi gott veður í allan dag og sól allan tímann meðan við spiluðum. Við vorum um 5 tíma að spila og ég afrekaði að brenna á framhandleggjunum og handarbaki því er enginn hanski var á, en það var í rauninni það eina sem ég afrekaði því golfið hjá mér var ekki nógu gott. Sigurjón hinsvegar átti eflaust einn sinn besta hring og spilaði á 1 yfir pari vallarins, reyndar með pínu hjálp frá Mulligan en engu að síður mikið afrek.
Þegar ég komst að því að ég myndi ekki byrja að vinna í maí mánuði var ég soldið súr því bæði vildi ég peninginn og taldi líka að ég hefði ekkert að gera nema að bora í nefið. En svona eftir á að hyggja er þetta búið að vera ansi næs hingað til að gera bara það sem manni dettur í hug þá stundina, svona pínu sumarfrí á íslandi, sem er ekki eitthvað sem er nýtt, allaveganna ekki af mér. Ég fer vanalega til útlanda, og ég var að pæla í því í þetta skiptið en mamma hafði vit fyrir mér. En ég stefni þó að fara eitthvað út, en bara í haust. Svona chill áður en skólinn byrjar eða er byrjaður og núna er ég í svona chilli áður en vinnan byrjar sem er gaman.

mánudagur, maí 24, 2004

Fyrsti leikur FC Kaos fór ekki nógu vel. Spiluðum í grenjandi rigningu, sem var reyndar bara þægilegt, en töpuðum 6-2. Okkar lið var betra en hitt liðið pakkaði svoleiðis í vörn og hafði markmann sem þakti 1/3 af markinu bara með nærveru sinni, þannig að þetta var erfitt fyrir okkur. Svo beittu þeir skyndisóknum og við vorum búnir að vera.
Fór í bíltúr í dag í góða veðrinu með Ömmu og bróðir mínum á Þingvelli. Við vorum eins og verstu túristar og tókum heila gommu af myndum og hluta af þeim má sjá
hér.
Það rifjaðist upp fyrir mér fyrir nokkrum dögum eitt mjög vandræðalegt atvik sem gerðist í lífi mínu þegar ég var yngri og þetta kom ekki bara fyrir mig. Þannig var mál með vexti að ég fór í bíó að sjá Batman og Robin og þetta var frumsýning. Í þessari mynd lék Alicia Silverstone Batgirl eða eitthvað álíka. Svo byrjar myndin og þar sést stinnur rass fara í þröngan leðurbúning og margir í gaurar í salnum hrópa, ú jé babí og aðrir hugsuðu það eflaust líka, því flestir héldu að þarna væri Alicia að klæðast í þröngan leðurfatnað. Kemur ekki ljós að þetta var Robin sjálfur, Chris O´Donnell sem hafði þennan stinna rass og mörgum leið eflaust mjög vandræðalega fyrir vikið.

föstudagur, maí 21, 2004

Ég, Sjonni, Gulli og Gunni B fórum til Hveragerðis í gær og spiluðum golf. Veðrið var frekar skrýtið meðan við spiluðum. Meðan við tókum fyrri níu var pínu úði og svona andvari og þess á milli logn og ekki rigning. Sólin skein aðeins stundum á milli skýjanna en annars var grátt yfir. Þegar við vorum að klára fyrri níu fór að rigna aðeins meira. Svo fórum við og fengum okkur að borða. Þegar við komum aftur var grenjandi rigning og rok. Við biðum aðeins inni í klúbbhúsinu og þá stytti upp og það kom logn. Það hélst í svona tvær brautir. Á þeirri þriðju var allt í einu komið mikið rok. Svo kom rigning fljótlega eftir að við vorum byrjaðir að spila þá braut. Þegar við komum á fjórðu braut þá nennti ég ekki að standa í þessu og fór en strákarnir héldu áfram í grenjandi rigninu og roki.
Fyrsti leikurinn í Carlsberg deildinni er á morgun og af þeim 11 sem eru í hópnum vantar 5. Því þurftum við að redda varamönnum og erum núna 10 sem munum spila á morgun. Þetta verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer allt saman þar sem þolið mætti vera betra hjá mörgum okkur. En aðalmálið í sumar er bara að hafa gaman af þessu og það er það sem við ætlum að gera.

fimmtudagur, maí 20, 2004

Fór og keypti mér tölvuleik í dag svo ég hafi eitthvað að gera í fríinu og fyrir valinu varð Pro Evolution Soccer 3 sem ku vera ansi góður og sumir ganga jafnvel svo langt að segja hann besta fótboltaleikinn. Því var mikil tilhlökkun í mínum þegar hann kom heim og ætlaði að installa leiknum. Eins og venja er með leiki þá var svona plast utan um umbúðirnar og innsigli sem segir að ef það er rofið þá megi ekki skila vörunni. Ég ríf plastið af og opna boxið utan um leikinn. Inni í boxinu var bara einn diskur sem kom mér svolítið á óvart því flestir leikir í dag eru 2 diskar. Ég aðgætti boxið því betur og sá þá að utan á því stóð PC DVD en ekki PC ROM. Nú eru góð ráð dýr því það er held ég mjög ströng regla um þetta, en ég ætla að prufa að væla í BT á föstudaginn þegar það opnar aftur. En ef einhver á DVD drif sem hann þarf ekki að nota þá má hann svosem kommenta hérna og ég gæti kanski keypt það á sanngjörnu verði.
Það sannaðist í kvöld hvað knattspyrna getur verið hættuleg íþrótt. Við spiluðum eins og venjulega og þetta gerðist undir lok tímans. Ég og Fjalarr fórum báðir upp í skallabolta og ég er höfðinu minni en hann þannig að ennið á mér fór í nefið á Fjalarri og ég heyrði strax að eitthvað hefði líklega brotnað. Hann féll við, líkt og ég og greip um nef sér því það fossblæddi. Við hættum vitaskuld strax og eftir pínu tíma skutlaði Kiddi, Fjalarri upp á slysó. Það er alltaf leiðinlegt þegar eitthvað svona gerist og þetta sýnir að maður verður að passa sig.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Komst að því í gær að ég mun byrja að vinna 1.júní sem var ekki alveg það sem ég hafði vonast eftir þannig að núna bíða mín 2 vikur þar sem ég hef nánast ekkert að gera og er það ekki nógu gott. Þannig að núna leita ég á náðir ykkar lesendur góðir að gefa mér hugmyndir um hvað ég geti gert í þessu fríi mínu?

mánudagur, maí 17, 2004

Rakst á þessa snilldarvísu hjá Ljenzherranum af Kaffisterkt. Höfðaði þessi vísa mjög til mín, sökum stærðfræðilegs innihalds hennar.

Slef?í gegn

Ef ég ætti óskastein
yrði óskin aðeins ein
ég er alltaf að reikna
og gröf upp ég teikna
vigrar og framandi föll

Slef´í gegn, slef?í gegn
þú veist ég þrái að slef?í gegn
Af einhverjum völdum
hefir það reynst mjer um megn

Ég gæti glósað, skrudduna
á gula miða, í budduna
og miðinn er málið
þar er svarið við k-lið
sínus af þeta plús pí

Slef´í gegn, slef?í gegn
þú veist ég þrái að slef?í gegn
Af einhverjum völdum
hefir það reynst mjer um megn

Ég myndi gera næstum því
hvað sem er fyrir fimmuna
nema kanski ...
kyssa kennarann

Ó Ó, allt annað fyrir það
ég tegra arctangens afturábak
af opnu mengi fyrir fimmuna

Slef´í gegn, slef?í gegn
þú veist ég þrái að slef?í gegn
Af einhverjum völdum
hefir það reynst mjer um megn

sunnudagur, maí 16, 2004

Ahhh hversu gott það er að vera búinn í prófum. Að geta sofið út og ekki einu sinni að hafa áhyggjur af því að vera ekki á bókasafninu að læra fyrir eitthvað próf. Að gera bara það sem þig langar til. Ég gerði það í dag. Svaf út, fékk mér morgun/hádegisverð sem var heitt kakó, kjallarabolla og vínarbrauð. Svo um miðjan dag skellti ég mér ásamt Einari í sund í Laugardalnum, þar sem við tókum gott chill í pottinum áður en við fórum á tónleika í Seltjarnarneskirkju. Helvíti góður dagur bara að baki.
Nánar um þessa tónleika í Seltjarnarneskirkju. Þannig er mál með vexti að í gær á próflokadjamminu var ég að ræða við Ara, Fríðu Siggu og Inga Sturlu og Ari var að segja okkur frá því að hann væri að fara að sjá einhvern píanóleikara í kvöld. Þá sagði ég að ég myndi fara á Synfoníuna ef þeir myndu spila 9. synfoniu Dvorák, sem er uppáhaldssynfonian mín. Þá rak Fríðu Siggu minni til að það væru tónleikar í dag þar sem ætti einmitt að spila þessa synfoniu og hana minnti að þetta væri ókeypis. Þegar ég vakna þá er hún búin að senda mér póst um þetta og jú vissulega stemmdi þetta. Synfoníu hljómsveit áhugamanna spilaði semsagt þessa synfoníu og svo flutti hún annað verk ásamt kammerkór Seltjarnarneskirkju sem var líka eftir Dvorák. Þetta voru bara ansi góðir tónleikar. Dvorák semur svo ótrúlega svona kvikmyndalega tónlist, enda undir miklu áhrifum frá Bandarískri tónlist af allskonar sort, eða kanski ætti maður að segja að kvikmyndatónlist er undir áhrifum frá honum. Allaveganna þá var kórverkið virkilega flott líka og gaman að því. Svo kom það sem ég hafði beðið eftir og þetta var ansi magnað að heyra svona live. Reyndar er þetta ekki alveg fullskipuð synfoníuhljómsveit þannig að maður þurfti að taka aðeins mið af því. Svo var reyndar líka einhver blásturshljóðfæraleikari sem var ekki alveg að standa sig í stykkinu en í heilt á litið var þetta mjög flott hjá þeim. Undir lokin á verkinu fékk ég gæsahúð í svona hálfa mínutu. Þetta er ákveðinn kafli í verkinu sem ég fæ bara alltaf gæsahúð þegar ég hlusta á þetta því þetta er bara svo fjandi flott, og í dag fékk maður þetta beint í æð. Ekki slæmt það.
Ég verð að segja að ég var að fíla lagið frá Serbíu og Svartfjallalandi og var því hálfsvekktur yfir því að það skyldi ekki vinna.
Annars var þetta póstur númer 360 hjá mér síðan ég byrjaði að blogga og meðan ég skrifaði hann hlustaði ég meðal annars á Subterranian Homesick Alian með Radiohead, acoustic útgáfuna.

Margir kannast við hið klassíska lag með Radiohead sem heitir Fake Plastic Trees og er af The Bends. Þetta er lag sem við strákarnir höfum oft tekið á kassagítar á góðri stund og kóverað nokkuð vel að okkar mati. Í kvöld heyrði ég magnaða útgáfu af þessu lagi sem flutt er af Salt Lake Alternative Orchestra og er þetta um 7 mínútna útgáfa af laginu í Jass útgáfu. Þið verðið bara að tjekka á þessu og kommenta hvað ykkur finnst um þessa útgáfu.
Þetta er linkurinn og þið getið vistað lagið beint eða spilað.

laugardagur, maí 15, 2004

Furðulegur andskoti, ég var ekkert stressaður þegar ég kom heim í gær eftir að hafa eytt síðasta deginum mínum á VRII að læra fyrir próf og bjóst svo bara við því að sofa eins og engill í nótt. Fer að sofa og sofna en vakna svona um 2 leytið því ég heyrði í sjónvarpinu, og það var ekki hátt stillt. Ég fer fram og bið um að láta lækka og sofna aftur. Vakna þegar einhver kemur heim, sofna aftur. Vakna, sofna, vakna, sofna. Svona gekk þetta í alla nótt og ég hreinlega skil ekki hvað var í gangi. Ég lét þetta ekkert slá mig útaf laginu. Mætti aðeins fyrir prófið, renndi yfir einhverjar glósur sem ég var búinn að búa til og fór svo í prófið. Þegar við komum í prófið bíða okkar A3 arkir ásamt prófbók og það var ekki laust við að það fór um mann, hvað gæti maður hugsanlega átt að gera við A3 örk? Það reyndist vera að svara A hluta prófsins svo það kom ekki að sök. Svo varð ég frekar pirraður því prófið var gjörólíkt seinustu tveimur prófum sem hann samdi og þau voru nánast alveg eins. En ég svaraði samt öllu á prófinu þannig að mér hefur gengið ágætlega og það er það sem skiptir máli. Svo var bara of ljúf tilfinning að labba út úr prófinu, vitandi það að maður þarf ekki að kíkja í námsbók næstu 3 mánuðina.
Það er ekki leiðinlegt að geta chillað, hafa ekkert að gera. Þurfa ekki að halda áfram að lesa eða fara að vinna eða eitthvað þannig. Ég ætla að reyna að njóta þess, þangað til ég byrja að vinna. Kanski maður skelli sér á Bókasafn Hafnarfjarðar og næli sér í góða bók og lesi hana.
Annars er það bara góður matur með famelíunni á eftir, svo kíkja á verkfræðiliðið á Gauknum og glápa á Eurovision með öðru augana, er slétt sama hver vinnur og kanski maður skemmti sér eitthvað í bænum. Það verður eflaust troðið þannig að ég ætla bara að sjá hvernig kvöldið spilast, hvort ég verði lengi eða stutt.

föstudagur, maí 14, 2004

Margir vina minna kalla mig Tari Miðja, Miðjan eða Midfield. En nú stígur fram í dagsljósið nýr Tari, Tilboðs Tari. Því hefur verið fleygt á göngum VRII að ég sé maðurinn sem viti um öll tilboð og flest þeirra tengjast mat. Þannig að ef fólk ætlar að fá sér eitthvað að borða á það til að spyrja mig hvar sé besta tilboðið í gangi. Þetta er greinilega hæfileiki og vil ég kalla mig ofurhetju sökum þessa hæfileika. En ég er ekki ofurhetja sem hefur bara einn hæfileika, ó nei. Hinn hæfileikinn minn er eins og ég greindi frá hér einhvern tíma að sjá líkindi með fólki, þ.e. að sjá hver líkist hverjum. Þetta getur bæði verið gott og vont. Vont spyrjið þið, jú ef maður fattar að einhver gella lítur út eins og Óli Prump sem var með mér í grunnskóla er þetta slæmur hæfileiki.
Einnig er ég magnaður, rafmagnaður hreint út sagt, sem er enn einn hæfileikinn en hann telst meira böl heldur en eitthvað gott. Því þegar ég er á bókasafni VRII og er að fara upp stigann á efri hæð safnsins á ég það mjög oft til að fá raflost í höndina þegar ég kem við stálið í handriðinu, sem getur verið mjög vont. Já það fylgja bæði kostir og gallar því að vera ofurhetja.
Þetta er tímamótafærsla þar sem þetta er seinasta færslan mín úr tölvuveri VRII í dágóðan tíma, því það er að koma sumar og frí sem því fylgir. Þannig að næst þegar ég blogga mun ég vera búinn í prófum, eftir mánaðarlanga prófa og læritörn.

miðvikudagur, maí 12, 2004

Snilldar konsept sem Beatallica er. Einhverjir gaurar sem mixa saman Bítla og Metallica lögum eins og nafnið gefur til kynna, frekar fyndið stöff sko. Tónlistin er svona í bítlakanntinum og svo syngur gaurinn eins og söngvari Metallica.
Snilldarlag er t.d. Hey Dude, sem mér finnst heavy fyndið nafn á lagi. Annars getið þið tjekkað á þessu á Beatallica.com og þar niðurhalað öllum lögunum þeirra ókeypis.
Djöfull er leiðinlegt að Vélakrakkarnir eru búnir en Iðnaðar ekki. Með hverjum deginum sem líður fækkar á bókasafninu og maður þekki færri og færri. En þetta fer bráðum að verða búið. Einungis 3 dagar þangað til þetta klárast og óneitanlega kominn pínu tilhlökkun í mann.
Einnig er komin tilhlökkun varðandi Carlsberg deildina sem byrjar á þriðjudaginn 18. maí og eigum við í FC Kaos opnunarleik á móti Stormi. Ég fjárfesti í legghlífum í dag svo sköflungarnir á mér haldist heilir og ég geti tæklað mann og annan.
Fregnir herma að Rafael Van Der Vaart hafi verið í Manchester borg í dag og það væri nú ekki leiðinlegt að klófesta kauða, enda vantar Man Utd tilfinningalega skapandi miðjumann.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Ég er að fíla Nip/Tuck ansi mikið. Ansi gaman að sjá svona hvernig persónurnar þróast í gegnum þáttinn og hvernig þeir taka á vandamálunum. Ég hélt að þetta yrði eitthvað superficial dæmi en annað virðist vera að koma í ljós. Talandi um superficial þá er Las Vegas dæmi um það. En samt er það fínn þáttur, með flottum gellum og svona sem er aldrei verra. Svona sambland af Slowmo Baywatch atriðum og CSI.
Ef einhver sá hérna seinasta Idol þáttinn þá fengu keppendur að syngja með big band bandi, djöfull veit ég hvaða lag ég hefði tekið, Luck be a lady með Frank Sinatra. Þetta lag er endalaust svalt lag.

Tekið af mbl.is

"Jón Jósep Snæbjörnsson, Jónsi, og íslenski Evróvisionhópurinn, héldu blaðamannafund í Istanbul í Tyrklandi í dag eins og fleiri þjóðir sem nú undirbúa sig undir keppnina á laugardag. Fram kemur á heimasíðu keppninnar að einn blaðamaðurinn hafi spurt hvort Jónsi væri ekki til í að fara úr skyrtunni, eins og hann geri venjulega á tónleikum, en því hafnaði sögnvarinn.

Blaðamaðurinn sagði þá að honum væri sama þótt Jónsi gerði eitthvað annað og þá söng Jónsi lagið In the Disco, sem er framlag Bosníu og Hersegívníu í keppninni við mikinn fögnuð viðstaddra. Upplýsti Jón Jósep að þetta væri uppáhalds Evrópvisionlag þriggja ára sonar síns.

Fram kemur á Evróvisionsíðunni, að Birgitta Haukdal hafi sent Jónsa SMS-skeyti í gær og óskað honum góðs gengis."

Wúppídú, hverjum er ekki sama?

fimmtudagur, maí 06, 2004

Ég var aðeins að pæla með msn dæmið allt saman og broskallana sem maður getur notað í samtölunum. Nú er það þannig að íslendingar upp til hópa hafa mjög kaldhæðin húmor og fattast oft ekki hvort fólk sé að segja e-ð í alvöru eða kaldhæðni nema ef væri fyrir tóninn sem setningin var sögð í. Nú vill það þannig til að maður heyrir ekki hvernig manneskja sem maður er að spjalla við á msn segir setninguna og því erfitt að meta hvort manneskjan sé að reyna að vera kaldhæðin eða sé að meina hana. Þarna koma broskallarnir til sögu, ef maður er kaldhæðinn skellir maður kanski einu stykki af broskalli með og þá á fólk að fatta að þetta var sagt í kaldhæðni. En hvernig væri það ef broskallarnir væru ekki í msn forritinu? Væru ekki allir í fýlu því þeir héldu að félaginn hefði sagt eitthvað vont um þá, þegar hann var í rauninni að vera kaldhæðinn. Maður á svosem aldrei eftir að komast að þessu því broskallarnir í msn eru svo stór hluti af forritinu sem slíku og ólíklegt að þeir detti út.

þriðjudagur, maí 04, 2004

One down, four to go...
Fyrsta prófið í dag og gekk það bara ágætlega. Þetta var í framleiðsluferlum og var gagnapróf sem er alltaf gott að fara í, sérstaklega þegar um svona mikið og ólíkt efni er að ræða. Prófið var í rauninni þannig að það athugaði hvað þú gast komið frá þér á tíma því ef nægur tími væri gætu allir fengið 10. Á morgun er svo næsta próf og í sannleika sagt var ekki mikið lært í dag. Bæði er ég búinn að fara yfir allt námsefnið þó svo það sé margt sem mætti alveg skoða betur og þar fyrir utan þá er alltaf erfitt að koma sér í gang eftir próf.
Ég fór t.d. eftir prófið í dag með Káka og Fjalarri á Vitabar þar sem við fengum okkur einn juicy burger, fröllur og kók sem rann vel niður eftir prófið. Svo fór ég einn í Elko og fjárfesti í big ass headphones á hreint út sagt frábæru verði, eða 1500kall. Þetta er besta verð sem ég hef séð lengi á jafngóðum heyrnartólum þannig að ef fólk er í svona hugleiðingum, endilega tjekka á Elko. Einnig kom ég við í gleraugnabúð Hagkaups þar sem ég keypti gleraugun mín því spangirnar voru of þröngar og voru að pirra mig. Ég var búinn að fara einu sinni áður, þegar ég var óklipptur og vel úfinn og þá víkkuðu þeir bilið og ég hélt að það væri nóg. En svo fór allt hárið af og þetta fór að pirra mig meira en fyrr. Þannig að ég kom við aftur í dag og þeir redduðu þessu eins og seinast, partur af þjónustunni sagði kallinn. Þetta er almennilegt þjónustufyrirtæki verð ég að segja.
Vélin á mikið hrós skilið í þessum prófum. Í ein þrjú eða fjögur skipti hafa þeir boðið upp á pizzur og var eitt slíkt skipta í dag. Hver maður fékk frekar mikið þar sem fólk var ekki mikið að mæta í þetta og því var þetta í raun ókeypis kvöldmatur. Eftir matinn fórum ég, Addi AK og Hrafn að ræða um svona hæ-sambönd og þesskonar hluti. Hæ sambönd eru merkilegur andskoti. Oftar en ekki þekki maður manneskjuna mjög lítið og einhverja hluta vegna tekur maður svona vandræðalegt hæ þegar maður rekst á manneskjuna, hvort sem það er á göngum VR eða einhversstaðar annarsstaðar. Svo er alltaf spurning hvort maður eigi að segja hæ. Setjum upp dæmi:
Þú ert að labba á annarri hæð á VR tveimur í áttina að tölvustofunni og sérð neðar á ganginum manneskju koma á móti þér. Þetta er manneskja sem maður stynur upp vandræðalegu hæ-i þegar maður hittir hana en þú veist ekki alveg ástæðuna þar að baki. Svo labbið þið að hvor öðrum og allan tíman meðan þið nálgist eruð þið að velta því fyrir ykkur, á ég að segja hæ? Manneskjan er auðvitað líka að pæla í þessu og þegir á meðan. Maður vill helst ekki vera fyrri til og vonar að hinn segi eitthvað en svo gerist það ekki. Þá er spurningin hvort maður stynur upp vandræðalegu hæi eða labbar framhjá og lætur eins og manneskjan hafi ekkert verið þarna.
Svona eru nú mannleg samskipti flókin og skemmtileg finnst ykkur ekki?

laugardagur, maí 01, 2004

Önni er bara orðinn fastaskrifari hjá Fólkinu í Morgunblaðinu sem kemur út á föstudögum í dálknum, kæri blogger. Gott ef ekki að þriðja færslan með honum hafi birst núna á föstudaginn. Kanski það endi með því að hann fái bókasamning út á bloggið sitt eins og Beta Rokk fékk víst. Lögfræðingur slash rithöfundur hljómar ekki illa.
Núna eru "einungis" tvær vikur þangað til prófunum lýkur og ég er ekki einu sinni búinn að fara í eitt próf. Dugnaður hefur verið ríkjandi seinustu tvo daga þar sem ég hef setið á bókasafni VRII til 23 á kvöldin og mætt snemma á morgnana. Fólk virðist almenn vera á svipaðri línu og eru helstu kempur úr 6Y t.d. margar hverjar svona lengi á bókasafninu.