A site about nothing...

mánudagur, janúar 31, 2005

Frekar pökkuð helgi hjá mér. Tvö partý, annað á föstudaginn og hitt á laugardaginn. Það er nú ansi langt síðan það var helgi þar sem ég fór í tvö partý skal ég ykkur að segja. Föstudagspartýið var innflutningspartý hjá Kidda og laugardagspartýið var annars árs partý sem mér var boðið í, heima hjá Önnu Regínu. Fín partý bæði. Fór reyndar bara í bæinn á laugardeginum og það var svo andskoti troðið og raðir allstaðar að ég entist ekkert sérlega lengi.
Í gær á vafri mínu um veraldarvefinn rakst ég á link á b2.is þar sem kom fram listi yfir þá staði og dagsetningar sem U2 munu halda tónleika á árinu. Haldið þið ekki að einn staðanna hafi verið Madison Square Garden, laugardaginn 21. maí, en þá erum við einmitt í námsferðinni okkar þar. Ég sendi póst á allt liðið og benti þeim á þetta og í morgun fórum við að ræða hvort við ættum að reyna að redda miðum. Sala byrjaði klukkan 2 um daginn að íslenskum tíma og frá því er ég kom í skólann og til 2 um daginn var ég að vinna í þessu. Tala við fólk athuga hvort það vildi koma og svo hvernig hægt væri að nálgast miða. Ég og Hildigunnur vorum í þessu og náðum að fá alla til að samþykkja að þeir myndu fara ef við fengjum miða, enda ódýrustu sætin á 54 dollara og svo þau dýrustu á 169 dollara, einnig voru einhver sæti á verði þarna á milli. Okkur datt í hug að hringja í einhverja svona group sales í Madison Square Garden klukkan 2 en þá kom í ljós að þeir gátu ekki selt okkur miða svoleiðis. Einnig var eitthvað af fólki sem beið eftir að byrjað yrði að selja online og um leið og það gerðist reyndu að nálgast miða. En því miður gekk ekkert og við líklega misstum af tækifærinu. Þetta er frekar súrt í broti því við reyndum að fá miða alveg um leið og þeir fóru á sölu en allt kom fyrir ekki. Þannig að við verðum líklega að gera eitthvað annað í NYC 21. maí.
Fór síðar um daginn svo á plötusmíðanámskeið sem mun taka góðan part af þessari viku, eða alls um 21 klst í það heila skilst mér. Þannig er mál með vexti að maður útskrifast ekki nema að hafa tekið rennismíðanámskeið, sem var í fyrra og svo þetta plötusmíðanámskeið. Fyrsta námskeiðið byrjaði semsagt í dag með maraþon tíma frá 16 til 22, svo er líka á morgun og á laugardaginn og eitthvað í næstu viku líka. En þetta er samt ágætt finnst mér, erum að smíða verkfærakassa, svona old skúl.

föstudagur, janúar 28, 2005

Ég bið íslensku þjóðina afsökunar
Ég hefði ekki átt að jinxa leikinn fyrir strákunum með því að tala um hversu vel fyrsti hálfleikur gekk. Það er greinilegt að ég hef haft áhrif á þá þegar ég velti því fyrir mér hvort hinn klassíski "slæmi" kafli kæmi, því hann er búinn að vera meirihlutann af seinni hálfleik.
Að öllu gríni slepptu þá hefur Ísland ekki unnið Rússland í háa herrans tíð og ekki gerðist það í dag. Það er samt ekki laust við að miðað við hvernig liðið spilaði undir lok fyrri hálfleiks að það væri von.
Úrslitaleikur á morgun, Ísland Alsír.

Lýst er eftir íslenska liðinu og vörninni úr fyrri hálfleik sem vann upp muninn og kom Íslendingum yfir. Ef einhver finnur þetta lið og þessa vörn endilega að senda það strax á völlinn í Túnis, einungis 12 mínútur eftir.

ROSALEGUR leikur enn sem komið er. Ísland að gera í brúnt í brók í byrjun leiksins að spila einhverja fáránlega 3-3 vörn en um leið og vörnin fór í 5-1 þá hefur vörnin verið rosaleg. Spurning hvort hinn klassíski "slæmi" kafli komi á eftir en vonum að það hafi verið í byrjun leiksins. There is hope.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Það er ekki leiðinlegt að vera í skólanum á netinu þar og fletta í gegnum Q blaðið mitt og síðan niðurhala þeim diskum sem blaðið segir að séu eftirtektaverðir. Núna í fyrradag náði ég í eina 6 að ég held og er svona að hlusta á þá. Kem jafnvel með einhverja gagnrýni þegar ég hef hlustað nóg á þá. En svona við fyrstu sýn sýnist mér The Zutons vera helvíti magnaðir, en ég kem með gagnrýni seinna.
Djöfull eru Alias góðir þættir, vildi bara halda áfram að minna fólk á það.
Annars hef ég svosem ekki mikið meira að segja að svo stöddu, hef ætla að blogga um fullt í vikunni en gleymi því þegar ég sest fyrir framan tölvuna, týpiskt.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Ansi merkilegir atburðir eiga sér stað núna þar sem þú lest þessa færslu lesandi góður. Þetta er fyrsta færsla mín á fartölvuna mína og ég sit frammi í stofu og er að skrifa þetta, því við erum komin með þráðlaust net líka. Ansi gaman verð ég að segja.

Að lokum ætla ég að koma fram með fyrirspurn. Veit einhver hvar Ari Tómasson er? Ég og flestir sem ég hef spurt, héldu að Ari ætlaði að mæta aftur í skólann eftir jól, en hann hefur ekkert sést. Ef þú sérð þetta Ari þá máttu alveg kommenta og segja hvað þú ert að bralla.

laugardagur, janúar 22, 2005

Kennarafagnaður var í gær og hann var ekki viðburðarlítill. Áður en ég fór þá var ég pínu skeptískur á þetta því mér finnst ég ekkert þekkja kennarana neitt það mikið og svo allt í einu er veisla þar sem nemendur og kennarar eru allir pissfullir að skemmta sér saman. En þessi skeptismi minn var óþarfur því þetta var hin mesta skemmtun, ef frátalið er skemmtiatriði mastersnema sem var það lengsta í sögu skemmtiatriða. Maður er ansi oft á seinustu stundu með að finna hluti og þegar ég ætlaði að fara af stað þá fyrst fór ég að leita að salnum þar sem þetta átti að vera haldið. Leitaði á netinu en fann ekkert um þetta, vissi bara að þetta væri í Hamraborg. Þannig að ég keyrði í Hamraborg og þá var enginn vafi um hvar þetta var því í glugganum var svona jólaljósasería sem myndaði útlínur kúreka (þetta var salur línudansfélagsins) og því vissi ég að ég væri kominn á réttan stað. Við komuna fékk maður málshátt og átti að leysa hann til að finna sætið sitt. Ég leysti nokkra fyrir fólk sem var ekki visst á sínum en ég var ekki viss á mínum þannig að ég þurfti að beita útilokunaraðferð sem gekk bara vel.
Svo settust allir til borðs og ég var á mjög fínu borði og þekkti alla í kringum mig. Við vorum nýsest þegar ég fæ yfir mig hluta af fordrykknum sem hafði verið boðið upp á, þar sem Hrafn rakst í það og það datt á borðið og lak svo á mig. Góð byrjun á kvöldinu. Svo voru einhverjar ræður og svo kom að matnum. Þetta var hlaðborð sem veisluþjónustan kokkur án bumbu( munið eftir nafninu fyrir framhaldið af sögunni) sá um. Okkar borð var frekar snemma í röðinni og því fengum við að smakka á öllu sem þarna var, en það gilti ekki um þá sem komu síðast. Maturinn kláraðist áður en sumir fengu eitthvað að smakka. Það var víst búið að margspyrja kokkinn hvort þetta væri nóg og hann var á því. Spurning hvort hann sé í röngum atvinnugeira?. En honum til hróss var maturinn virkilega góður. Því var brugðið á það ráð að panta pizzur, svona til að fá vísindaferðafílinginn í þetta. Þannig að þarna vorum við 72 manneskjur í okkar fínasta pússi, sum með rauðvín eða hvítvín, að borða dómínóspizzur. Mörg skemmtiatriðana voru mjög skemmtileg, t.d. voru Ólafur Pétur Pálsson skorarformaður, og langfyllsti og skemmtilgasti maðurinn á svæðinu, ásamt Helga Þór með skemmtiatriði þar sem fengnir voru 6 nemendur og þeir áttu að hlaupa út í sal og ná í einhvern hlut af borðinu sem þeir sátu á. Á meðan þeir hlupu út í sal var einn stóll fjarlægður og einn datt út. Einn af hlutunum sem átti að sækja var brjóstarhöld og urðum við vitni að fljótasta úrklæðningu á brjóstarhöldum sem við höfðum séð, þar sem ein stelpan vippaði sér úr sínum á fáránlega stuttum tíma.
Svona um eitt leitið voru allir kennarar farnir nema Kristján Jónasson og frú sem tjúttuðu með okkur og enduðu á því að fara með okkur í eftirpartý til Tryggva og Þórhildar. Fá þau mikið credit fyrir það. Ég var nú ekki lengi í eftirpartíinu en þegar ég ætlaði að fara, fann ég bara annan skóinn minn, fyrir vinstri fót. Ekki langt frá honum var líka stakur skór fyrir hægri fót og var hann svipaður í laginu en ekki minn. Hann var meira að segja þrengri og minni en minn þannig að aðilinn sem hefur tekið óvitandi sitthvoran stakann skóinn hefur ekki verið að fatta þetta. Þannig að ég þurfti að fá lánað skó frá Tryggva svo ég kæmist nú heim.
Í heildina litið var þetta mjög gaman. Margir fyndnir hlutir gerðust og á þetta eflaust eftir að verða góð saga, þegar sagt verður frá því að kokkur án bumbu eldaði ekki nógan mat handa 72 manneskjum og að ég fór heim í lánuðum skóm með annan skóinn minn í hendi.

föstudagur, janúar 21, 2005

Ég var í skólanum í dag sem er svosem ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að í hádegismat fékk ég mér fiskibollur í dós í karrýsósu og mjólk með, en þetta var einmitt kvöldmatur gærdagsins. Ég sat með Tryggva og Önnu Regínu og þau hófu upp þvílík læti, fussuðu og sveiuðu og áttu varla orð til að ég væri að borða fiskibollur í dós. Mér fannst hreint út sagt, að mér vegið þarna, þar sem ég sat og borðaði mat sem mér þykir hvað bestur að borða, eitthvað síðan úr æsku held ég. Tryggvi sagði að lyktin af sænsku munntóbaki væri betri en þetta og fékk sér í vörina, en því er ég algjörlega ósammála. Finnst engum þetta gott nema mér kanski?
Fékk í dag loksins fartölvuna mína sem var gjöf frá fjölskyldu minni til mín. Þetta er þvílíkt yndi þessi tölva að orð geta varla lýst því að mínu mati. Ég er of latur núna til að skella inn mynd, en ég finn eina við tækifæri og skelli henni hér, ykkur til yndisauka. Svo er ekki verra að við erum að fara að fá Hive netið hingað heim sem þýðir að ég verð í þráðlausu sambandi og góðu chilli bara :D.
Fór í bíó og út að borða í kvöld með bróður mínum, og frænda og frænku minni. Byrjuðum að snæða á Friday´s sem er án vafa uppáhaldsveitingastaðurinn minn á Íslandi held ég. Fékk mjög góða kjúklingasamloku og svo í eftirrétt, bombuna chocolate brownie sunday, sem er syndsamlega góð. Svo fórum við að sjá Finding Neverland og ég verð að segja að ég var mjög sáttur við hana. Myndin hafði svona ævintýralegan blæ yfir sér soldið, enda sýnir hún hvernig ævintýrið um Pétur Pan varð til, en svo eru líka svona hjartnæm augnablik, en alls ekki væmin. Maður fékk svona nettan klökk á ákveðnum köflum verð ég hreinlega að viðurkenna, maður er orðinn svo meyr í seinni tíð.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Við erum að byrja að safna auglýsingum fyrir Vélabrögð sem er tímarit sem þriðja árs nemar í véla og iðnaðarverkfræði gefa út árlega og er ein helsta tekjulindin í söfnun fyrir náms og útskriftarferð. Ég hjálpaði Þórhildi að finna einhver fyrirtæki fyrir þetta og svo er þessu skipt niður jafnt á fólk og svo byrjum við að betla. Fyrirtækin sem ég fæ eru mörg hver alveg af stærri gerðinni. Hér er listinn:
ræsir
S A V ehf Skipulags-, arkitekta- og verkfræðistofan
s24
sambó
Sameinaða verkfræðistofan ehf
samlíf
Samrás ehf verkfræðistofa
Samskip
SAV-Skipulag Arkitekt og verkfræðistofa
set
sigga og tímó
Sindri
síbs
síminn
Miðað við þennan lista þá er augljóst að ég þarf að standa mig vel, því þarna gætu verið miklir peningar handa okkur.

Þannig er mál með vexti að ég fæ bráðum fartölvu. Og fyrirtækið sem ég á að fá hana frá ætlaði að redda henni í dag en nei eins og svo alltof oft gerist, þá verður hún ekki tilbúinn fyrr en á fimmtudaginn eða jafnvel kanski á föstudag. Svona seinkanir hjá íslenskum fyrirtækjum eru svo fáránlega dæmigerðar að það er hreinlega ekki fyndið. Mér finnst allaveganna að fyrirtæki eiga ekki að vera að lofa einhverju sem þau geta ekki staðið við. Segjast ætla að redda þessu í dag og svo klikkar það og þá þarf ég að bíða í tvo daga. Fáránlegt finnst mér.

Logi Geirsson er einhver sem margir kannast við, þar sem þeir hafa séð hann spila með FH, landsliðinu eða Lemgo. Svo eru margir sem hafa eflaust ákveðnar hugmyndir um hann svosem vegna útlits hans, hvernig hann klæðir sig og fleiri slíkir hlutir. Þannig er mál með vexti að ég þekki Loga frá fornri tíð. Við búum báðir, hann býr reyndar núna í þýskalandi, í norðurbæ Hafnarfjarðar og hann var ekki beint svona skemmtilegasti náunginn til að vera með. Hann stríddi manni og fleira slíkt, sérstaklega þó á barnaskóla aldri og hann þótti oft erfiður í unglingadeildinni í Víðistaðaskóla. En svo virðist vera að það að eldast hafi gert Loga mjög gott. Ég ákvað í forvitni að kíkja á heimasíðu hans og skoða hana aðeins. Eftir að hafa lesið hana þá sýnist mér að Logi sé mjög breyttur maður. Það eru þarna fjórar greinar á síðunni, ein fjallar um markmiðasetningu, önnur um hrós og svo hinar um eitthvað annað og eftir að hafa lesið hana þá held ég að þó svo hann virki soldið steiktur náungi þá sé hann mjög heilsteyptur, allaveganna þá svona breyttist viðhorf mitt til hans ansi mikið eftir að hafa lesið þessar greinar. Eins og sagt er, batnandi manni er best að lifa.

sunnudagur, janúar 16, 2005

Vísindaferð í KB-banka á föstudaginn þar sem fyrirlesturinn voru tveir nemendur sem eru nýloknir við BS nám í skólanum. Annar kemur af stærðfræðibraut og var svona að kynna bankann almennt og rakkaði niður samkeppnisbankana í leiðinni, mjög hressandi fyrirlestur það. Hinn kemur úr verkfræði, nánar tiltekið iðnaðarverkfræði, og var að kynna mastersverkefni sitt sem KB banki styrkir.
Svo átti ég áhugavert samtal í ferðinni. Þannig er mál með vexti að ég og annar strákur sem er í verkfræði eigum alveg eins jakka, rauða jakkann sem ég er vanalega í. Og þessi staðreynd varð kveikjan að spjalli okkar um H&M en þaðan er jakkinn einmitt. Kenning hans er semsagt þannig að ef H&M kæmi til íslands þá yrði það ekki jafn vinsælt því þeir búa til mikið af sömu fötunum og fólk vill ekki eiga eins föt og allir aðrir. Allaveganna veit ég að þetta passar við mig, mér finnst ekkert gaman að eiga eitthvað sem allir eiga. Allaveganna fannst mér þetta ágætis samtal og fín kenning.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Ég og Ingi Sturla fórum í dag að keyra út auglýsingar fyrir stoðkennslu sem við þriðja árs nemar í V&I verkfræðinni erum með í grunnskóla og framhaldsskóla í Hafnarfirði. Fyrsta stopp hjá okkur var í Víðistaðaskóla en þar vorum við einmitt báðir í unglingadeild og ég líka í barnadeild. Fyrir ferðina þá sá ég þetta fyrir mér að þegar ég kæmi þá þekkti ég gommu af liði þarna og allir vissu hver ég væri. Það er reyndar búið að breyta skólanum síðan við vorum og komin massíf viðbygging og þangað fórum við inn. Eitthvað vorum við áttavilltir þannig að við spurðum gamlan stærðfræðikennara okkar, Jóhönnu Axelsdóttur til vegar. Við vorum á neðri hæð og hún á efri og Ingi kallaði upp til hennar og sagði: "þú mannst eflaust ekki eftir okkur". Það passaði því hún mundi ekkert eftir okkur og fór ekkert að spjalla við okkur en sagði okkur hvar kennarastofan væri þó, gott hjá henni. Þar spjölluðum við við leiðinlegasta ritarann í allri ferðinni okkar og það lá við að við værum að drepa hana með því að kynna þetta fyrir henni og biðja hana um að koma þessu til skila. Þannig að ég verð að segja að það voru vonbrigði að fara aftur í gamla skólann minn.
Annað var þó skemmtilegra og t.d. var ég að koma í fyrsta skipti inn í nokkra skóla og fékk því að sjá þá betur og svo þekkti ég skólastjórann í einum þeirra, frá því þegar ég æfði fótbolta með FH. Þetta var enginn annar en besti körfuknattleiksdómari Íslands og aðstoðarþjálfari FH, sem kannaðist við andlitið á mér þó svo langt væri síðan hann þjálfaði mig. Það gladdi mitt litla hjarta og vonbrigðin frá því að fara í Víðó hurfu næstum.

mánudagur, janúar 10, 2005

Svekkelsi
Já það er ekki laust við að maður finni fyrir miklu svekkelsi varðandi einkunnina í framleiðslugreiningu, skitin 5,5. Þetta var reyndar seinna prófið mitt af þeim tveimur sem ég tók seinasta prófdaginn en mér fannst ég alls ekki ganga svona illa, eiginlega skil þetta ekki. Ég er búinn að senda póst á kennarann og biðja um að fá að sjá prófið. Annars sýnist mér þetta fag fara í sumarpróf.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Aðgerð: snúa sólarhring við
Nú fer jólafríið að styttast í annan endann, einungis einn frídagur eftir. Í fríinu hef ég algjörlega snúið við sólarhringnum og þarf því að snúa honum aftur svo ég meiki að vakna á réttum tíma núna á mánudaginn. Svona ætla ég að fara að því:
1. Vaka lengi í nótt eins og vanalega, klukkan er núna um hálf tvö.
2. Stilla vekjaraklukkuna þannig að hún vekur mig svona um hádegið og dröslast þá fram úr.
3. Dagurinn mun líða og ég verð mjög þreyttur því ég fékk ekki nægan svefn. Svo þegar klukkan er orðin 23 annaðkvöld þá ætti ég að vera orðinn dauðþreyttur og get því farið að sofa þá.
4. Vakna svo snemma á mánudaginn og verð kanski eitthvað þreyttur þann daginn en verð búinn að snúa við sólarhringnum og ætti að geta mætt á réttum tíma í tímana mína.

Ég fór aðeins að pæla áðan hvað ég hafði gert í jólafríinu af því sem ég ætlaði að gera og ég verð að segja að það er ekki mikið. Það er samt ekki eins og ég hafi verið að gera eitthvað mjög mikið annað en samt þá t.d. er ég bara hálfnaður með Seinfeld 5tu seríu sem ég ætlaði að horfa á, ekki byrjaður á 12 seríu af simpsons, ekki búinn að horfa á amerísku endurgerðina af Taxi, ekki búinn að horfa á, bush´s brain eða the corporation.

föstudagur, janúar 07, 2005

Merkilegt hvað maður þarf oft að vinna vinnu annars fólks líka. Hef lent svolítið í þessu varðandi flugleiði þar sem ég er að plana náms og útskriftarferðina okkar í vor. Veit ekki hversu oft ég hef þurft að biðja manneskjuna sem er að hjálpa okkur að senda mér einhvern póst sem hún ætlaði að vera búin að senda.
Annars er bara stemmning, fór í massíft matarboð í kvöld sem amma mín hélt og bauð föðurfjölskyldu minni, þ.e. systur sinni og börnum hennar og börnum annarrar systur hennar sem er látin. Þarna var fólk sem ég hef ekki hitt í dágóðan tíma og það var mjög gaman að hitta þau.

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Vil bara þakka öllum þeim sem sendu sms eða hringdu í tilefni 23 ára afmælis míns. Fékk frábæra afmælisgjöf sem þið fáið kanski að vita seinna um, þar sem hún er ekki enn orðin að raunveruleika.

mánudagur, janúar 03, 2005

Annáll 2004
Þá er röðin komin að þvi að gera venjulegan annál eftir að hafa gert upp bæði kvikmynda og tónlistarárið.

Heiður ársins
Vera valinn miðja ársins hjá Tuma.

Skemmtilegasti viðburður ársins
Ferð mín til Danmerkur að hitta krakkana í DTU og fá þetta geðveika veður sem var þá, snilldarferð út í eitt. Hægt er að skoða myndir á myndasíðunni.

Djamm ársins
Árshátíðin á Hótel Örk var snilld. Höfðum allt hótelið fyrir okkur, partý í nánast hverju herbergi og svo gott ball. Strax farinn að hlakka til næstu árshátíðar.

Vonbrigði ársins
Í sumar að mig minnir var ég kominn með eitthvað sem var algjörlega vonbrigði ársins en ég er búinn að steingleyma því þannig að kanski voru það ekki svo mikil vonbrigði.

Einkunn ársins
Þar sem ég man eiginlega bara það sem gerðist nýlega ætla ég að láta það vera þegar ég fékk 8 í aflfræði, bjóst við að fá svona 5 áður en ég fór í fagið.

Gott ársins
Að drulla mér af stað í World class. Fátt betra en að fara að æfa þegar maður nennir ekki að læra.

Flottasta nylon stúlkan
Klara, enda Hafnfirðingur.

Besti bloggari ársins
Kolbeinn Tumi verður fyrir valinu. Ég verð að segja að ég hafði mest gaman af því að lesa bloggið hans á árinu sem er að líða. En það þýðir ekkert fyrir hann að slá slöku við, ef að hann ætlar að taka þetta aftur fyrir þetta ár.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Kvikmyndaannáll 2004
Þegar ég hugsa aftur um árið sem er að líða í kvikmyndun þá er það svona helsta sem stendur upp úr að það var engin Lord of the Rings mynd til að sjá um jólin. Seinustu þrjú jól á undan þessum hafa haft einn kafla í þrílogíunni og því saknar maður svolítið að sjá ekki meira því þetta voru svo góðar myndir.

Hér kemur minn listi yfir 5 bestu myndir ársins.
5. Touching the void
Bresk sviðsett heimildarmynd frá BBC að ég held sem sýnir þegar tveir félagar klifu tind í Andesfjöllum einhverja leið sem nánast enginn hafði lagt í og með naumindum komust niður af tindinum. Myndatakan í myndinni er rosaleg, fáránlega flottar myndir sem maður sér.
4. Kill Bill 2
Er að mínu mati betri en fyrirrennarinn og heilsteyptari mynd. Uma Thurman er fáránlega svöl í myndinni og Darryl Hannah er úberbeib, en það kemur svosem myndinni ekkert við hehe. Eitt skemmtilegasta atriði myndarinnar er þegar við sjáum Umu æfa með masternum sínum með síða skeggið og augabrúnir dauðans, myndatakan algjör snilld.
3. Fahrenheit 9/11
Michael Moore með anti-Bush myndina sína sem er virkilega góð en samt fannst mér að sumir kaflar í henni pössuðu ekki alveg inn í hana. Myndin staðfestir það sem maður veit nokkurnveginn fyrir að Bush er ekki alveg sá klárasti.
2. Saved!
Mynd sem sýnd var á óháðu kvikmyndahátíðinni ef ég man rétt í Háskólabíói. Fjallar um mjög trúað fólk og fólk sem er ekki jafn trúað sem gengur í trúaðan menntaskóla þar sem allt snýst um að biðja og að trúa á guð. Mandy Moore kemur á óvart sem jesúfrík sem er algjör tík og skólastjórinn er svona gaur sem reynir að vera svalur með því að nota slangur eins og Who´s down with G-O-D og fleiri snilldarkomment. Bjóst ekki við miklu af henni en hún kom mér mjög á óvart.
1. Spiderman 2
Besta kvikmynd sem ég hef séð gerða úr teiknimyndasögu. Frá því er ég sá trailerinn fyrir myndina vissi ég að hún yrði góð og hún svo sannarlega stóð undir því. Snilldin á bakvið myndina er söguþráðurinn þar sem Peter Parker þarf að takast á við það hvort hann vilji vera ofurhetja eða bara venjulegur maður. Snilldarmynd.

laugardagur, janúar 01, 2005

Tónlistarannáll 2004
Jæja þá er komið að því sem ég tel að allflestir hafa verið að bíða eftir. Þetta er ár sem verður minnst sem ársins þar sem allar hljómsveitirnar, gamlar sem nýjar, komu til landsins og spiluðu fyrir landann. Ég, tónlistarunnanndinn mikli, hef varla farið á jafnfáa tónleika á einu ári. En samt ætli það sé ekki þannig að þetta hafi verið bönd sem ég kanski hef ekki mikið hlustað á, t.d. sugarbabes, pink eða hljómsveitir sem ég fíla alveg en hef ekki hlustað það mikið á, sbr Korn og Placebo. Ég hefði svosem verið til í að fara á Metallica en ekki þýðir að gráta björn bónda. Hinsvegar fór ég á Pixies sem voru sæmilegir. Ég er enginn die hard fan og þekkti því ekki mörg laganna en það var vissulega gaman að heyra slagarana. Svo fór ég á Airwaves og það var öllu skemmtilegra, mikið af nýju og skemmtilegu efni sem ég sá þar.
Svo eru það geisladiskar ársins. Þökk sé systur minni þá var ég með fartölvuna hennar í skólanum og gat því tekið upp fyrri iðju að finna nýja tónlist, niðurhala henni og hlusta í skólanum. Þegar ég geri þennan lista þá stend ég fyrir einni erfiðri ákvörðun, hvort ég eigi að leyfa diskum sem komu út 2003 að vera með, en ég heyrði fyrst í þeim 2004, eða hvort ég eigi að sleppa því, en þar sem einn besti diskurinn sem ég heyrði á þessu ári er frá 2003 ætla ég að leyfa honum að flakka með.

Hér kemur minn listi yfir 5 bestu plötur ársins.
5. The Secret Machines-Now Here is nowhere
Ein af uppgötvunum ársins. Tónlistarblaðið Q gaf mér sem áskrifandi disk yfir það besta árið 2004 og þar áttu þeir eitt lag. Ég náði í diskinn og hann er mjög góður. Soldið svona prog rock með löngum lögum, en mjög melódískt og flott. Fyrsta lag plötunnar er 9 mínútur að mig minnir og gæti verið lokalag plötunnar, er þannig fílingur yfir þvi, en maður er bara blekktur.
4. Zero 7-When it falls
Án vafa chillplata ársins frá hinum bresku Air. Air gáfu líka út plötu en Zero 7 gáfu út betri plötu. Þessi plata hentar t.d. frábærlega ef maður er að læra, eða er nýkominn í skólann, eldsnemma að fara að læra fyrir próf og vill hlusta á eitthvað þægilegt til að koma sér í gang.
3. Ed Harcourt-Strangers
Breski tónlistarsnillingurinn Ed Harcourt gaf út sína þriðju plötu á jafnmörgum árum. Hann spilar á öll hljóðfæri sjálfur og er víst ofvirkur í því að semja lög. Platan sýnir hversu fjölhæfur lagasmiður hann er og því til marks þá má segja að platan koveri allan tónlistarskalann í rokki, frá angurværum lögum yfir í mjög rokkuð lög.
2. Broken Social Scene-You forget it in people
Indie rokk ættað frá Kanada þar sem meðlimir koma úr hinum ýmsu hljómsveitum þar. Þessi plata er bæði með elektrónískskotin popplög og svo instrumental elektronisk lög og platan líður mjög vel áfram. Mæli eindregið með þessu.
1. Franz Ferdinand-Franz Ferdinand
Skosku stuðboltarnir gáfu út skothelda plötu, stútfulla af skosku grúvi og smellum sem koma manni í gott skap. Það verður gaman að sjá hvað verður úr þessum gaurum, því byrjunin lofar mjög góðu.

Aðrar plötur sem komu út á árinu og voru góðar:
Jamie Cullum-Twenty Something
Breskur djasspíanisti og söngvari sem tekur þekkt lög og setur í djassbúning, perfect ef maður er að halda matarboð t.d.
Soulwax-Any minute now
Belgískir bræður sem eru kanski hvað þekktastir fyrir að mixa saman gömul og ný lög sem 2 many dj´s. Fyrsta platan var snilld, þessi er aðeins síðri en samt mjög góð.
Nick Cave-Abbatoir blues the lyre of orpheus
Tvöföld plata frá Cave sem inniheldur frekar trúuð lög. Mikil stemmning á plötunni.

Svo held ég að ég leggi ekki í það að velja lög ársins, það er hreinlega of erfitt en ég ætla samt að nefna nokkur í engri sérstakri röð.

Broken Social Scene - Almost crimes(radio kills remix)
Leak Bros - Gimmesumdeath, snillingurinn RJD2 pródúserar
Kanye West - Last Call, 12 mínútna lag sem lýsir ferli hans
Franz Ferdinand - Come on home
The Secret Machines - First wave intact
The Walkmen - The rat, hélt að þetta væri U2 og var sáttur við nýja stefnu þeirra, svo reyndist þetta ekki vera þeir, en lagið er gott.
Ed Harcourt - Let love not weigh me down
Modest mouse - Float on, án vafa einn helsti smellur ársins.
Zeljko Joksimovic & Ad Hoc Orchestra - Lane Moje, langbesta lag Eurovision keppnarinnar þetta árið, kemur frá Serbíu og Svartfjallalandi.
Bubbi - Fallegur dagur, gaman verður að sjá áframhaldandi samstarf Bubba og Barða í Bang gang, byrjunin lofar góðu.