A site about nothing...

mánudagur, febrúar 28, 2005

Í fréttum er þetta helst
Ég var að keyra heim í gær eftir miðnætti. Guns N´Roses í útvarpinu, ég í góðum fíling þar sem ég var rétt ókominn heim. Ég kem upp úr Engidalnum og inn í Norðurbæ Hafnarfjarðar, stutt vegalengd þangað til ég beygji til hægri. Hvað haldið þið? Löggan blikkar á mig sírenunum og stöðvar mig. Ég fæ sekt fyrir umferðarbrot. Stefnir í 15 þúsund kallinn þar, andsk.... helv.... Hefði getað notað peninginn í Ipod í NYC eða eitthvað gáfulegra.
Próftaflan kom í dag og ekki laust við að ég væri spenntur að sjá hvernig þetta myndi raðast upp. Þar sem hermun og þróun hugbúnaðar eru í sama stokk bjóst ég við að þau fög gætu lent á sama degi eða dag eftir dag. Svo kom taflan í dag og jahh ég get farið í 5 daga til útlanda í miðjum prófum þar sem það líða 10 dagar milli næstseinasta prófsins og þess seinasta.Einnig eru hermun og þróun hugbúnaðar ekki samdægurs eða dag eftir dag. En við erum allaveganna öll búin á föstudegi og höfum því helgina til að pakka fyrir ferðina okkar út.
Svo held ég að ég sé að fá endajaxl. Það er einhver pirringur í kjálkanum niðri hægra megin og er búið að vera í nokkra daga. Svo í gær og í dag er ég búinn að vera með svona tilfinningu þarna eins og munnurinn sé skraufþurr þarna. Á tíma hjá tannsa á fimmtudaginn, daginn fyrir árshátíð, en ég býst nú ekki við að endajaxlinn verði rifinn úr þá. Vona það í það minnsta þar sem jú árshátíðin er daginn eftir og ekki gaman að missa af henni.

laugardagur, febrúar 26, 2005

Ætlaði ekki að nenna í vísó í gær en fegin að ég fór. Var mjög gaman hjá Mastercard og ennþá skemmtilegra á Pravda þar sem var heilmikið tjúttað. Það var almenn stemmning á þriðja árs liðinu þegar tónlistin byrjaði að duna og ýmislegt gerðist og nóg var til að fylgjast með. Ég var kominn heim svona um tvö eftir gott djamm og mér leið eins og ég hefði verið að hlaupa í WorldClass því bolurinn minn var rennblautur.
Ef einhver er til í það með mér að borga með John O´Shea burt frá United endilega að hafa samband. Mér fannst hann hræðilegur í leiknum sem ég sá í dag. Maðurinn gat varla sent boltann frá sér og boltinn var mjög oft unninn af honum þar sem hann var að dóla.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Hún er mögnuð tæknin nú til dags. Að geta náð í nýjustu þættina úti daginn eftir að þeir eru sýndir og horft á er helvíti magnað finnst mér. T.d. er einn þáttur sem ég er temmilega dottinn inn i, The O.C.. Nú eru eflaust margir sem hneykslast á mér en þetta eru samt fínir þættir til að drepa tima og horfa á. Þetta er svona Beverly Hills 21. aldarinnar, nema með betri tónlist. Það er einn helsti styrkleikur þáttarins, tónlistin. Gaurinn sem sér um þættina er víst mikið fyrir að kynna nýjar hljómsveitir og meðal annars hefur hann spilað Leaves og Bang Gang í þáttunum. Núna er ég að horfa á aðra seríu og fjölmargir þættir hafa verið þar sem hljómsveit spilar live og þá erum við ekki að tala um eitthvað skíta-handboltarokkbönd. Bönd eins og Modest Mouse, The Killers og The Walkmen hafa öll spilað í þættinum og svo heyrir maður þar fyrir utan allskonar mjög góða tónlist.
Svo sakar ekki að allar konurnar þarna eru frekar fine, en það er aukaatriði.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Þó svo sól og logn sé gott veður þá er uppáhaldsveðrið mitt veðrið eins og það hefur verið í dag. Þægilega heitt, svona létt rigning og grátt yfir. Fáránlega gott veður og hentar sérstaklega til útiveru, eins og að spila fótbolta og svona. Verst að ég þurfti að læra í allan dag.
Fernudraumar Chelsea eru úr sögunni. Núna geta þeir unnið mikka mús bikarinn, meistaradeildina og ensku deildina. Ég giska á það að þeir taki ensku og mikka mús bikarinn.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Operation birthday girl
Afmæli Hiddu var haldið heima hjá henni í gærkvöldi og var mjög gaman þar. Fyrir afmælið var mikið tilstand við að græja afmælisgjöfina hennar. Ákveðið var að gefa henni plakat af sjálfri sér og nota til þess forrit sem heitir "The Rasterbator" og gerir myndir sem fólk upload-ar að punktum og séð úr fjarlægð þá mynda punktarnir mynd, þið vonandi skiljið hvað ég á við. Hægt er að hafa myndirnar mjög stórar og þá prentast út hluti af heildarmyndinni á A4 blað og svo mynda þessi A4 blöð alla myndina. Nú þurfti að finna mynd og fannst besta myndin frá fáránleikunum. Ég síðan vann myndina í photoshop nokkrar útgáfur sem ég svo bar undir vel valda aðila. Þegar við höfðum komið okkur um útgáfu þá notuðum við hið stórgóða forrit paint og teiknuðum kórónu og bættum við olnboga því það var eitthvað fyrir olnboganum á Hiddu. Svo notuðum við heimasíðuna og forritið þar og fengum út pdf skjal sem innihélt þær 36 blaðsíður sem myndin þakti og var 170cm á hæð og 120cm á breidd. Svo þurfti að setja blaðsíðurnar saman og passa sig að allt passaði rétt og svo að plasta þetta með bókaplasti, sem var án vafa erfiðasti hlutinn. Auk þessa plakats keyptum við 4 bækur, 350 stofublóm, tantra fyrir elskendur, hvalið við ísland og 100 réttir frá miðjarðarhafslöndum. Einnig keyptum við borvél, verkfærakassa, bora, vinnuhjálm, klaufhamar og eitthvað fleira. Svo í afmælinu sjálfu þá þurftum við að koma þessu upp án þess að hún sæi. Þá fór operation birthday girl í gang. Við náðum í allar gjafirnar út í bíl og Dabbi kom með plakatið. Svo fóru Sigurjón og Gunni inn með gjafirnar inn í eldhús þar sem búið var að safna öllum saman, á meðan ég og Dabbi fórum í gegnum hliðarherbergi inn í stofu og hengdum upp plakatið. Svo þegar við birtumst í eldhúsinu þá vissi Sigurjón að það væri í lagi að fara inn í stofu og þá var farið þangað þar sem plakatið þakti nú einn vegg. Semsagt þetta tókst allt mjög vel upp og Hidda mjög ánægð.
Myndir koma bráðum á myndasíðuna mína og þar var ég að taka laumumyndirnar á meðan Sigurjón sá um að búa til hlutverk sem fólk átti að leika og tók svo myndir af. Öflugt teymi hér á ferð.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Nýjasta updeitið í auglýsingasöfnunnni er sú að hver er kominn með um 30 þúsund í vasann, sem er gott.
Annars ætlaði ég að blogga aðeins um tónlist. Núna hef ég bara verið að hlusta á nýtt efni, ef frátalinn er Midnite Vultures diskurinn hans Beck sem er helvíti góður, og ætla aðeins að benda fólki á hverju það skal tjekka á. Fyrst ber að nefna The Zutons - Who killed the Zutons, virkilega góður diskur þar á ferð og ef ég hefði hlustað á hann á seinasta ári hefði hann pottþétt komist ofarlega á tónlistarlistann minn. Þetta er svona soldið retro tónlist, eins og The bylgjan er öll, en með svona sörf og country ívafi og kemur helvíti vel út. Lög sem fólk ætti að tjekka á eru t.d. havana gang brawl og nightmare pt. II.
Bright Eyes - I´m wide awake it´s mourning er diskur með sóló artita sem er trúbador og stundum minnir hann mig á Damian Rice, þegar hann er á angurværu nótunum og svo Ed Harcourt þegar hann leyfir hljómsveit að spila með sér. Q heldur varla vatni yfir þessu og ég er sammála að þetta er helvíti flott. Ef fólk vill tjekka á þessu prufið að hlusta á Road to joy sem er seinasta lag plötunnar og ég er ekki frá því að sé undir áhrifum Ode to joy eftir Beethoven.
Svo eru það Doves - Some Cities. Fyrsti Doves diskurinn var algjör snilld, greip mann við fyrstu hlustun en annar diskurinn þeirra greip mann ekki jafnvel strax en maður venst honum mjög vel. Þessi grípur mann frá byrjun og er stútfullur af flottum lögum og minnir mig um margt á fyrsta diskinn. Lög sem fólk ætti að tjekka á eru t.d. Some Cities og Black and white.
Lemon Jelly eru miklir snillingar að mínu mati og eru búnir að gefa út nýjan disk sem heitir 64-95 ef ég man rétt. Þemað á diskinum er víst að taka sömpl frá þessm tíma og nota í lögunum sínum og þegar Lemon Jelly eru annarsvegar þá tekst þeim það snilldarvel. Það er alltaf mikið grúv hjá þeim og flottir taktar og sumir myndu jafnvel kalla þetta chill tónlist.

Ég læt þetta duga í bili og hvet alla til að gefa þessu gaum.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Auglýsingasöfnun er núna í fullum gangi og núna þegar þetta er skrifað eru allir sem fara í ferðina búnir að græða 6000 kall. Ég og Sigurjón fórum í dag í auglýsingaleit og byrjuðum fyrir hádegi. Fyrsta stopp var arkitektarstofa niðri í miðbæ og því þurftum við að leggja í stöðumælastæði. Þar tókst okkur að læsa lyklana inni í bílnum, gott start það. Svo fengum við ekki auglýsingu þannig að þetta var fýluferð en Addi Ingi og Hildur voru bjargvættir og redduðu okkur aukalyklum sem voru heima hjá Sigurjóni þannig að við gátum haldið áfram. Svo fórum við í fyrirtæki sem við vorum búnir að hafa samband við í seinustu viku en bættum líka við ef við fundum eitthvað á leiðinni. Árangurinn var sá að nokkrir voru áhugasamir og ætluðu að skoða þetta betur og svo seldum við eina auglýsingu. Hana keypti fyrrum eðlis og efnafræðikennari okkar í MR og við teljum að hann hafi bara gert það því við fórum á svæðið og töluðum við hann. Svo þegar við komum til baka þá beið mín póstur þar sem ÍSOR sagðist vilja kaupa auglýsingu líka. Þannig að núna er ég búinn að safna auglýsingum fyrir aðeins meira en hundrað þúsund, sem er takmark sem við reynum að ná. Þ.e. ef allir ná að selja fyrir hundrað þúsund þá fáum við um 70 þúsund á mann fyrir blaðið. Við náum eflaust ekki sömu hæðum og bygginging en þetta lítur aðeins betur út en fyrir viku.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Gleymdi að ég ætlaði að blogga um XFM. Þó svo það hafi verið slæmt að missa Skonrokk þá var ekkert svo slæmt að missa X-ið því XFM er miklu betri stöð. X-ið var alltaf með einhvern playlista þar sem eitthvað helvítis handboltarokk reið rækjum alla daga og þurfti maður ekki að hlusta í langan tíma til að heyra sömu lögin aftur og aftur. Þetta helgast kanski af því að Skífan er innan Norðuljóssamstæðunnar, held ég alveg örugglega, sem einmitt átti X-ið og Skonrokk, og þeir hafa væntanlega viljað promote-a því nýja efni sem þeir voru að fá, með því einmitt að spila það á X-inu. Þetta tel ég alveg trúanlega skýringu, gæti verið eitthvað annað sem kemur inn í þetta. En á XFM þá virðist ekki vera playlisti og það er allt annað að hlusta á hana heldur en X-ið. T.d. á laugardaginn var ég á plötusmíðanámskeiði í Borgarholtsskóla frá 8 til svona hálffimm um daginn og það var hvert klassalagið á fætur öðru spilað. Vonandi mun það haldast þannig að stöðin verði ekki drifin áfram af einhverjum playlista, heldur verði gott mix af gömlum og góðum í bland við ný, allt eftir smekki þáttastjórnandans.

Þegar við vorum að koma í kvöld frá American Style þar sem við snæddum saman, ég, Addi Hjartars, Addi Ingi og Ingi Sturla, ákváðum við að stofna matarklúbb sem hefur það markmið í náms og útskriftarferðinni að prufa allskonar veitingastaði úti í bandaríkjunum. Ætli það sé ekki aðallega verið að líta til morgunverðarins enda nægt úrvalið í bandaríkjunum. Ég held að það verði ansi massíft. Gunni og Sjonni komu líka með okkur að borða og við ræddum um fyrirhugaða ferð. Það er mikill spenningur komin í fólk og þetta er mikið talað um, hvað skuli gera og fleira slíkt. Það er pottþétt að þetta verður snilldarferð, enda skipulagði ég hana.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Rólegur sunnudagur í skólanum. Er að búa til slembiframkallara í Excel, LCG, veldisdreifðan og normaldreifðan svo á eftir, ef ég hef tíma þá kanski nota ég þá til að herma í dæmi númer 4 og 5 ef ég verð mjög duglegur.
Annars þá er ég búinn að bæta inn tengli hér til hliðar en þar er á ferð Marta Margrét Rúnarsdóttir betur þekkt sem "húsmóðirin", af mér þá þar sem ég bloggaði minnst tvisvar um það í fyrra hvað hún sé góð húsmóðir og gestgjafi. Svo lagaði ég linkinn á heimasíðu Völlu.

laugardagur, febrúar 05, 2005

Jæja maður er bara duglegur í blogginu eins og allir sjá. Reyndar á þetta sér skýringu. Það er bara geðveikt mikið að gerast í skólanum og maður rétt svo nær að halda sér á floti þannig að maður er svosem að gera ekkert skemmtilegt á meðan, eða frásagnarhæft. En allaveganna þá held ég að sé orðinn ástfanginn. Nú rekið þið eflaust upp stór augu, hver gæti það verið sem Óttar er ástfanginn af? Jú það er hún Elisha Cuthbert, betur þekkt sem Kim úr 24. Ég var að horfa á Girl next door, sem er ekki slæm kvikmynd, og þá fyrst uppgötvaði þvílík bomba stelpan er. Það streymir frá henni sexappíl og maður sogast inn og verður hugfanginn. Ég nánast slefaði í hverju atriði sem hún var í og ég veit um fleiri sem gerðu slíkt hið sama. Þetta er rosalegt gott fólk. Nú er bara að flytja til Hollywood, losa mig við kærastann hennar sem er eitthvað fífl sem lék í myndinni Stand by me í den og ná í þessa klassadömu.
Fín vísó annars í gær í Kauphöllina, stuttur fyrirlestur og meira af því að spjalla við þá sem fóru í ferðina. Eftir ferðina fórum ég, Ingi Sturla og Guðbjörg á Subbarann og fengum okkur aðeins að borða áður en við fórum í partý úti á Nesi sem stelpa á fyrsta árinu hélt og bauð öllum í vísindaferðina. Þar var í boði veitingar, ostar, vínber, kaka, kampavín, hákarl og brennivín. Maður hefur aldrei séð annað eins bara. Fór þó reyndar snemma heim enda plötusmíðanámskeið núna í morgun sem byrjaði klukkan 8 um morguninn. Addi Hjartar fékk viðurnafnið letinginn eftir daginn þar sem hann nennti ekki að mæta fyrr en 11 þar sem hann var að lesa einhverja bók langt fram eftir nóttu, Addi Ingi fékk viðurnefnið byttan fyrir að fara á fyllerí í gær og mæta ekki fyrr en klukkan 2 um daginn.