A site about nothing...

þriðjudagur, október 14, 2008

Ane Brun á Airwaves 2008

Fyrir svona ári til tveim árum síðar þá voru haldnir sería af tónleikum í Norræna húsinu af einhverju tilefni og í tilefni af því var settur glerskáli fyrir framan Norræna húsið þar sem komið var upp tónleikaaðstöðu. Inn á hluta af þessum tónleikum kostaði og inn á aðra kostaði ekki neitt.

Á þessum tíma var ég mjög mikið að hlusta á Seabear og hafði gefið plötunni þeirra mjög góðan dóm á Rjómanum. Ég hafði síðan séð bandið spila í Iðnó fyrr um sumarið á sérstöku Morr music kvöldi, útgáfufyrirtækið þeirra úti, en þau spiluðu í kannski 20 mínútur og það olli mér vonbrigðum. Svo þegar dagskráin er auglýst þá sé ég að Seabear er að spila eitt kvöldið ásamt einhverjum öðrum böndum og að það er ókeypis, hötum það ekki. Í Kastljósinu þetta kvöldið í lok þáttarins spilar síðan einn af flytjendum kvöldsins og það hljómar bara mjög vel þannig að ég hafði það á bakvið eyrað ef ég vildi vera áfram. Úr verður að ég dreg Ástu Siggu með mér á tónleikana og Seabear spila miklu lengur en fyrsta skiptið sem ég sá þau og voru virkilega góð. Ásta var nýstigin upp úr einhverri pest og var eitthvað þreytt man ég en ég næ að sannfæra hana um að sitja með mér aðeins áfram og svo myndum við meta stöðuna eftir að hafa heyrt eitt eða tvö lög með flytjendanum sem ég heyrði í Kastljósinu fyrr um kvöldið. Úr varð að við horfðum á allan hennar flutning líka því hún var bara þetta góð. Einungis með kassagítar og fékk vinkonu sína Ninu Kinert, sem spilaði síðar á hátíðinni, til að syngja með sér ákveðin lög. Söngkonan sem um ræðir heitir Ane Brun og er norsk að upplagi en hefur búið í Svíþjóð síðan árið 2000.

Tónlistin sem Ane Brun flytur er þjóðlagatónlist, mjög melódísk og látlaus sem hentar ótrúlega vel hennar mögnuðu rödd. Ég ætla að leyfa ykkur að heyra lag sem hún syngur með hinum Færeyska Teiti og heitir Rubber & Soul. Þess má geta að Ane Brun spilar á Airwaves í ár, fimmtudag klukkan 23:45.