A site about nothing...

sunnudagur, maí 16, 2004

Ahhh hversu gott það er að vera búinn í prófum. Að geta sofið út og ekki einu sinni að hafa áhyggjur af því að vera ekki á bókasafninu að læra fyrir eitthvað próf. Að gera bara það sem þig langar til. Ég gerði það í dag. Svaf út, fékk mér morgun/hádegisverð sem var heitt kakó, kjallarabolla og vínarbrauð. Svo um miðjan dag skellti ég mér ásamt Einari í sund í Laugardalnum, þar sem við tókum gott chill í pottinum áður en við fórum á tónleika í Seltjarnarneskirkju. Helvíti góður dagur bara að baki.
Nánar um þessa tónleika í Seltjarnarneskirkju. Þannig er mál með vexti að í gær á próflokadjamminu var ég að ræða við Ara, Fríðu Siggu og Inga Sturlu og Ari var að segja okkur frá því að hann væri að fara að sjá einhvern píanóleikara í kvöld. Þá sagði ég að ég myndi fara á Synfoníuna ef þeir myndu spila 9. synfoniu Dvorák, sem er uppáhaldssynfonian mín. Þá rak Fríðu Siggu minni til að það væru tónleikar í dag þar sem ætti einmitt að spila þessa synfoniu og hana minnti að þetta væri ókeypis. Þegar ég vakna þá er hún búin að senda mér póst um þetta og jú vissulega stemmdi þetta. Synfoníu hljómsveit áhugamanna spilaði semsagt þessa synfoníu og svo flutti hún annað verk ásamt kammerkór Seltjarnarneskirkju sem var líka eftir Dvorák. Þetta voru bara ansi góðir tónleikar. Dvorák semur svo ótrúlega svona kvikmyndalega tónlist, enda undir miklu áhrifum frá Bandarískri tónlist af allskonar sort, eða kanski ætti maður að segja að kvikmyndatónlist er undir áhrifum frá honum. Allaveganna þá var kórverkið virkilega flott líka og gaman að því. Svo kom það sem ég hafði beðið eftir og þetta var ansi magnað að heyra svona live. Reyndar er þetta ekki alveg fullskipuð synfoníuhljómsveit þannig að maður þurfti að taka aðeins mið af því. Svo var reyndar líka einhver blásturshljóðfæraleikari sem var ekki alveg að standa sig í stykkinu en í heilt á litið var þetta mjög flott hjá þeim. Undir lokin á verkinu fékk ég gæsahúð í svona hálfa mínutu. Þetta er ákveðinn kafli í verkinu sem ég fæ bara alltaf gæsahúð þegar ég hlusta á þetta því þetta er bara svo fjandi flott, og í dag fékk maður þetta beint í æð. Ekki slæmt það.
Ég verð að segja að ég var að fíla lagið frá Serbíu og Svartfjallalandi og var því hálfsvekktur yfir því að það skyldi ekki vinna.
Annars var þetta póstur númer 360 hjá mér síðan ég byrjaði að blogga og meðan ég skrifaði hann hlustaði ég meðal annars á Subterranian Homesick Alian með Radiohead, acoustic útgáfuna.