A site about nothing...

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Þá er komið á hreint hvar ég mun vinna í sumar. Það fór svo að lokum að ég endaði hjá Hans Petersen í fimmta sumarið mitt en ég fæ pínu tilbreytingu því ég verð að vinna á lagernum og er bara mjög sáttur við það. Ég hefði ekki meikað að vinna í búð sem væri undirmönnuð og þurfa að láta viðskiptavini vaða yfir mig með skítugum skónum enn eitt sumarið.
Ég var ekki sá eini sem fékk vinnu í dag því Sigurjón digri fór í atvinnuviðtal hjá borginni og það gekk greinilega svo vel að þeir ákváðu að treysta honum fyrir einhverjum krakkaskríl í sumar. Reyndar eru einu staðirnir sem eftir eru í dálítilli fjarlægð fyrir hann en þetta reddast.
Komst að því áðan að Káki væri kominn með heimasíðu, en ekki frá honum sjálfum. Ónei ég sá það á link frá batman.is.

Sæmilegasta veður í gær og ég stóð við það að fara á línuskauta. Þegar ég var nýbyrjaður að renna mér fann ég fyrir þvílíkum mjólkursýrum í fótunum að það hálfa væri nóg en renndi mér þó áfram. Það er nefnilega þannig að hafi maður ekki farið í einhvern tíma þá er maður pínu stund að komast yfir mjólkursýruástandið, en um leið og maður er kominn yfir þann hjalla þá er þetta bara eintóm gleði. Það var reyndar pínu kalt í gær, sérstaklega þegar maður er að renna sér en þetta var ágætis byrjun á línuskautasumrinu mínu.
Fór og horfði á seinustu 25 mínútur landsleiksins í gær. Ágætis leikur og íslenska liðið stóð sig bara mjög vel. Þeir voru að ná ágætis spila á köflum og mér fannst ekki nein rosaleg hætta að marki Íslands þann tíma sem ég sá leikinn. Marians Pahars átti innáskiptingu dagsins því hann fór útaf 13 mínútum síðar. Spurning hvernig Lettar munu standa sig á EM í sumar, þeir komast væntanlega ekki upp úr riðlinum sínum.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Nú er vika í fyrsta prófið og ég er ekki byrjaður að læra fyrir það. Ég er hinsvegar byrjaður að læra fyrir próf sem er 10.maí og annað próf sem er 8.maí og svo eitt sem er 5.maí en ekki það sem er 4.maí. Fyndið þegar maður er að læra og það er komið kvöld og langt í próf hvernig maður svona hættir bara ef maður nennir ekki læra lengur. Ef prófið væri eftir örfáa daga myndi maður pína sig áfram til að læra en einhvernveginn er aginn ekki nógu góður hjá manni til að gera það fyrir próf sem eru eftir langan tíma. Þessvegna tel ég að ég yrði slakur í svona fögum þar sem maður fær massífan upplestrartíma, sem maður verður síðan að læra jafnt og þétt. En ætli það sé ekki bara æfing eins og það er æfing að nenna að sitja og reikna dæmi.
Spurning ef það verður gott veður á morgun hvort maður drösli ekki línuskautunum með og taki einn rúnt svona til að líta aðeins upp úr bókunum. Orðið ansi langt síðan maður fór og þarf maður að rifja upp tæknina fyrir sumarið, þar sem maður ætlar að taka góða nýtingu á þetta allt saman. Það er nefnilega fáránlega gaman á línuskautum og er mikil tilhlökkun að byrja að fara að renna sér.

mánudagur, apríl 26, 2004

Blogspot var í einhverju móki heima hjá mér í gær og þessvegna kom seinasta færsla 3svar. Þó svo að hún hafi verið áhugaverð þá er hún ekki það áhugaverð að það sé skemmtilegt að lesa hana þrisvar.

sunnudagur, apríl 25, 2004

Fann þvílíkt góða síðu ef maður hefur gaman af Radiohead í dag. Þarna ættu aðdáendur að geta nánast fundið allt sem þeir hafa leitað eftir. Allt frá lögum þegar hljómsveitin hét On A Friday, nafnið komið til vegna þess að þeir æfðu á föstudögum, til vidjóanna sem þeir hafa búið til og "rare" laganna sem margir vilja eiga en hafa átt erfitt með að finna. Hérna er linkurinn að henni, njótið.
Ágætis dagur á VR að baki. Núna þegar maður á eftir að dvelja flestum stundum dagsins þarna þá renna dagarnir í eitt og maður man varla hvað vikudagur er lengur. T.d. finnst mér alls ekki eins og það sé sunnudagur en það er það víst.

laugardagur, apríl 24, 2004

Alltaf gleðilegt að þurfa að eyða laugardagskveldi í húsakynnum VRII. Er þar einmitt núna í nestispásu áður en ég tek mig til og læri í eina 3 tíma eða svo.
Nú þegar það eru próf að skella á þá er nauðsynlegt að hafa nóg af síðum að skoða, því maður á það til að taka sér pásur. Því vil ég biðja ykkur lesendur góðir að kommenta hvaða síður sé skemmtilegt að skoða, svona þegar maður tekur pásur frá lærdómnum.
Hörmulegur leikur í dag. Lifrarpollurinn fékk víti sem Gneville gaf þeim innpakkað og Murphy Brown skoraði. Lið United var algjörlega andlaust í dag og gæti maður jafnvel sagt að það hafi verið andlega fjarverandi, í það minnsta sumir. Ronaldo, sem verður betri og betri með hverjum leiknum sem hann spilar, var sá eini sem var að skapa eitthvað og var virkilega sprækur allan fyrri hálfleikinn og eitthvað fram í seinni hálfleik. Þá fór Lifrarpollurinn meira að tvídekka hann þannig að hann sást minna. Spurning hvort það sé möguleiki á öðru sætinu? Allaveganna verður það ekki ef liðið ætlar að halda áfram þessari lélegu spilamennsku.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Góða veðrið í dag var orsakavaldur að lærileti af minni hálfu. Ég gerði næstum allt annað en að læra í dag. Ég afrekaði þó að mæta í einn tíma en að læra var ekki alveg að ganga upp. Hlutir sem ég gerði í dag í stað þess að læra eru m.a.
fór á style-inn í hádeginu
fór og fékk mér ís
þegar ég var að fá mér ís hitti ég ara og fleiri gaura og fór með þeim í körfubolta í klukkutíma
pældi í því hvort driving range-ið hjá GR væri opið
hékk á netinu
en á morgun kemur nýr dagur og þá skal maður nú gera betur en í dag, er þess fullviss.

Er á leiðinni á Kill Bill II rúmmál tvö á eftir og býst við góðri skemmtun. Þetta er reyndar powersýning og þær eru ekkert betri en hinar. Mér finnst eiginlega verra að hafa hljóðið of hátt, fíla það ekkert mjög mikið.

Fótbolti dauðans í gær þar sem var barist upp á líf og dauða. Tíminn teygðist endalaust og við hættum ekki, því vanalega hættum við þegar fólkið sem sér um bygginguna stoppar okkur. Allaveganna leikurinn dróst og liðin skiptist á að vera yfir. Þvílík spenna og allir búnir á því. Ákváðum þá að hafa bara gullmark því það var jafnt og menn gátu ekki haldið þessu mikið lengur áfram. Fór svo að við náðum sigrinum og mitt lið vann í þriðja skiptið af þremur. Bara nokkuð sáttur við það.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Fékk mér ekki fyrir svo löngu forrit í tölvuna sem gerir mér kleyft að taka upp lög í gegnum míkrafón. Þetta upptökuforrit hefur þrjár rásir sem er ekki mikið enda um demó útgáfu að ræða. Svo þegar maður er búinn að taka eitthvað upp í gegnum míkrafóninn þá getur maður skellt á þetta effectum og svoleiðis og leikið sér aðeins með þetta. Í kvöld bjó ég til lag svona bara aðeins að leika mér þar sem ég tók upp allskonar hljóð og skellti í þetta lag. Lagið er semsagt gert úr, gítar, mér að slá trommutakt með hönd á annað lærið og plastflösku á hitt, gítarinn minn sem ásláttarhljóðfæri þar sem ég nota puttana, penni að renna yfir lyklaborð og penni að slá í glas, útkomuna má heyra hér. Þetta er 25 sekúndna langt og er því ekki stór fæll.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Sá sem verður númer 10.000 á að tilkynna það í commenta kerfinu. Kanski fær hann einhver verðlaun ég á hreinlega bara eftir að ákveða það.
Nýtti mér tilboð sem háskólanemum stóð til boða í gær og fór að sjá Starsky og Hutch í háskólabíó fyrir einungis 300 krónur. Ágætis mynd þar á ferð og nokkrir nettir brandarar en ekki mynd sem maður á að sjá í bíói, betra að leigja hana bara.
Greiningarhelgin mikla eins og þessi helgi heitir í námsplaninu fór fyrir lítið. Stóran hluta af föstudeginum og laugardeginum varði ég á námskeiði í Vörustjórnun sem er hluti af Framleiðsla og tæknibúnaður í skólanum. Ég var fyrirfram búinn að dæma þetta sem leiðindi en þetta reyndist furðu áhugavert og ég ætla að skoða þetta betur varðandi það að fara í masterinn. Einnig hef ég verið að skoða háskólann í Lundi því hann er einn af topp 3 skólum í iðnaðarverkfræði í svíþjóð sagði gestafyrirlesarinn okkur og þar er þvílíkt úrval af leiðum til að mastera í, jafnvel meira en í DTU. Mig hefur lengi langað til að búa í Danmörku og bjóst lengi við að fara í DTU en Lundur er ekki nema 40km frá Köben þannig að maður getur haft "open mind" um hann líka. Svo er Lundur 90.000 manna bær þar sem 33.000 eru háskólanemar, fáránlegt hlutfall.

föstudagur, apríl 16, 2004

Í febrúar hélt 6.Y spilakvöld heima hjá Mörtu. Ég tók vitaskuld myndavélina með og smellti nokkrum myndum af þessum viðburði og er núna búinn að koma þeim online, loksins.
Var að horfa aðeins á The Bachelor áðan og djöfull þoli ég ekki hvernig Bob hlær, fer alveg fáránlega í taugarnar á mér.
Fékk mér hvorki meira né minna en tvisvar sinnum borgara franskar og kók í dag. Það var þetta líka súpertilboð í dag, og reyndar á morgun líka, á þessu, 300 krónur fyrir pakkann allan á stað sem heitir besti bitinn og er staðsettur rétt hjá lyfju lágmúla, þar sem olís bensínstöðin var. Þetta var massagott þannig að ég mæli alveg með að fólk tjekki á þessu tilboði sko.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Linkurinn á Mblogg Hrafns er núna komið í lag held ég.
Svo var ég að drepa tímann og ákvað að skoða forvitni.net sem er svona batman.is spin off eitthvað og þar fann ég þetta hér. En eins og sjá má ákváðu þessar ungu stúlkur að setja myndir af sjálfum sér á netið, svona nett fáklæddum, kanski í þeirri von að hözzla eða eitthvað, hvað veit maður?
Nú er FC Kaos búið að borga staðfestingargjaldið fyrir Carlsberg deildina í sumar og er því einu skrefi nær því að taka þátt í sumar. Fyrir þá sem það ekki vita er Carlsberg deildin, utandeild þar sem lið skipuð 7 mönnum spila, svipað og þegar maður var í yngri flokkunum. Leikirnir eru 2x30 mínútur og á þetta eflaust eftir að vera mikil skemmtun og menn eru farnir að hlakka til. Svo vill FC Kaos hvetja alla sem vilja styðja liðið að mæta á völlinn. Ég mun eflaust eitthvað minnast á það hér hvenær leikirnir verða.

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Óttar, The Movie
Your Life: The Movie by mintyduck
Who will play you:Ewan McGregor
Who will play your love interest:Angelina Jolie
Weeks you will stay in the box office:13
Song that will play during your love scene:Weezer - No One Else
Song that will play during your death:Stevie Wonder - They Won't Go When I Go
Your name:
Created with quill18's MemeGen 3.0!

mánudagur, apríl 12, 2004

Góndi soldið á sjónvarpið í kvöld. Sá klassískan þátt af Simpsons úr sjöundu seríu þar sem Hómer verður frægur fyrir það atriði sitt að stöðva fallbyssu með maganum og er þetta hluti af viðrinasýningu hljómleikaferðarinnar Hullabalooza. Gestaleikarar eru Cypress Hill, Smashing Pumpkins og Peter Frampton. Svo góndi ég á A guy thing. Dæmigerð svona rómantísk gamanmynd og allt í lagi sem slík. Innihélt flest allar klisjurnar og svona, t.d. þá klöppuðu allir þegar þau kysstust, sem mér finnst voða skrýtið að sé alltaf í myndum. Hvernig veit þetta fólk úti á götu að aðalparið í myndinni sem nær ekki saman fyrr en í lokin, að það sé ekki að ná saman fyrr en í lokin og afhverju eru allir að fylgjast með þeim? Ættu öllum ekki í rauninnni að vera alveg sama? En já þetta var bara pínu pæling, ágætis mynd til að horfa á mánudagskveldi.
Svo þegar henni lauk þá datt ég inn í lokin á The O.C. Þetta er þáttur sem maður ætti að fúlsa við, því það er ekki kúl að horfa á hann en ég stend mig að því að detta þvílíkt inn í hann, ef ég veit á annaðborð að hann sé í gangi, og horfa á hann. Hann verður einhvernveginn svona ávanabindandi, mjög furðulegt allt saman. Kanski léttur fortíðarfílingur úr Beverly Hills 90210, sem ég fílaði í ræmur á þeim tíma.
Seinast var svo horft á Survivor Allstars og Lex skeit upp á bak með ákvörðunatöku sinni í seinasta þætti. Mér fannst þetta eiginlega gott á hann þar sem hann sveik vin minn Colby og svo Ethan sem ég kunni ágætlega við. Nú vona ég bara að Boston Rob sem talar eins og hann sé alltaf nefmæltur (finn honum allt til foráttu, ég veit) vinni ekki, en hann er mjög sigurstranglegur, því miður.
Jáhá semsagt gott sjónvarpkveld að baki og líklega það seinasta í langan tíma, enda prófin á næsta leyti.

laugardagur, apríl 10, 2004

Subway bara komið aftur með chicken fajitas. Hér í árdaga subway á íslandi var chicken fajitas lang vinsælast og var oft uppselt, mér og eflaust fleirum til mikilla ama. Nú sökum þessara vinsælda ákvað subway bara að hætta að selja þetta, því hver vill selja eitthvað sem er fáránlega vinsælt og alltaf uppselt? En nú hafa þeir séð villu síns vegar og eru aftur komnir með þetta eftir margra ára bið. Annað sem er mjög skrýtið með Subway að kjúklingabringurnar hafa ekki verið til í einhverja mánuði núna. Spurning hvort þeir ætli að beita sömu taktík á þetta og hætta bara yfirhöfuð að selja kjúklingabringur því það er of vinsælt og svo eftir svona 3 ár eða eitthvað að koma aftur með þetta. Það verður fróðlegt að sjá.
Er í vinnunni sem stendur og búið að vera bara ágætt að gera. Útlendingar í miklum meirihluta og samkvæmt lauslegri könnun sem ég hef gert á þjóðerni viðskiptavinanna þá virðist það vera svo að það hafi verið farið sérferð til Íslands frá Ástralíu. Þeir frá Ástralíu hugsa líka mjög svipað því þónokkrir hafa komið hérna inn og spurt hvort við gætum hlaðið batteríið í stafrænu myndavélina þeirra eða hvort við seljum slíkt. Sniðugt að gleyma að hlaða vélina eða jafnvel hleðslutækinu þegar þú ferð til Íslands.
Man Utd greinilega ekki að spila vel á móti Birmingham, eru 1-0 undir og hafa átt 1 skot í átt að marki á meðan Birmingham hafa átt 6 skot og eitt mark. Maður hefði haldið að sigurinn gegn Arsenal hefði kveikt í þeim en það er spurning hvort svo sé. Þeir verða að vinna ef þeir ætla ekki að lenda í fjórða sæti eða verra.

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Ágætis veður í dag, hvað gerir maður þá? Jú fer auðvitað í golf. Ég og Kiddi skelltum okkur í golf á mjög svo blautum Korpuvelli. Ég hélt áfram að spila mongó golf að mestu leyti en þó betra en seinast. Ég taldi ekki hvað ég var að fara hringinn á því það var ekki gott skor í gangi. Kiddi hinsvegar spilaði mjög vel.
Leigði mér tvær spólur í kvöld. Nýja spólan var once upon a time in mexico sem mig hefur lengi langað til að sjá og hin var Svartur Köttur, Hvítur Köttur sem ég hef aldrei séð. Ætlaði að leigja Truman Show hefði hún verið til á DVD, enda er sú mynd í miklu uppáhaldi hjá mér. Hugmyndin á bakvið myndina er endalaust svöl.
Í hádeginu fór ég í ódýra tónlistar og dvd markaðinn í Perlunni sem ætti að heita, ekki svo ódýri tónlistar og dvd markaðurinn. Þetta eru engin öfga góð verð sem er verið að bjóða upp á þarna. Var að pæla í því að fá mér DVD með Muse eða einhvern disk sem fjallar um Radiohead en lét það ótalið. Þessi markaður var betri í gamla daga fannst mér, allaveganna með verðin, þó svo úrvalið sé kanski meiraí dag.

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Ég var að pæla með þessar týpur af bloggi sem fólk er með. Sumir eru í upptalningum og þylja þá upp daginn sinn. Aðrir eru með djúpar og heimspekilegar pælingar um allt og ekkert og enn aðrir blogga um bæði jafnvel, fer eftir því hvernig skapi þeir eru í væntanlega.
Ég fór aðeins að pæla í þessu betur. Ef maður býr í útlöndum, er skiptinemi eða alfluttur út, er líklegra að maður þylur upp daginn sinn eða eitthvað þannig og sleppi að blogga um hinar ýmsu vangaveltur sem fólkið gæti haft? Þá í þeim tilgangi að fólkið heima, ættingjar og vinir, viti hvað er að gerast í lífi manneskjunnar og manneskjan þarf ekki að senda e-mail um hvað hún var að gera?
Þetta er bara svona létt pæling. Persónulega finnst mér svona upptalningarblogg, ef ekkert annað er skrifað oft í leiðinlegri kantinum.
Ef ég flyt út, t.d. þegar ég hef Masters-nám og byrja á upptalningarbloggi statt og stöðugt megið þið skamma mig.

Ég sé að ég gerði basic villu í seinustu færslu. Þar sem ég var að lýsa því hvar fólk gæti fundið lag vikunnar, þetta á vitaskuld að vera til vinstri á síðunni ekki hægri.

Mig langar í pínu feedback frá fólki. Er fólk almennt að tjekka á lagi vikunnar? Endilega kommentið hvort þið eruð að því eður ei.
Einnig þá mixaði ég þessa síðu þannig að ef þú klikkar á lag vikunnar hér til hægri ferðu á heimasíðuna mína með lagi vikunnar og umfjöllun um það, svona til að auðvelda fólki þetta.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Ég held að von mín fyrir því að Man Utd vinni sé jafnmikil og að Arsenal tapi. Allaveganna þegar maður var að horfa á leikinn í kvöld var maður mjög stressaður en fagnaði jafnframt gríðarlega þegar þeir skoruðu markið sem Hlunkurinn lagði upp. Hlunkurinn átti stjörnuleik og var hreinlega óheppinn að skora ekki, Ashley Cole náði að þvælast fyrir. Það verður líklega AC-Chelsea í úrslitum meistaradeildarinnar. Ekki leiðinlegt að hafa íslending í svo stórum leik.

mánudagur, apríl 05, 2004

Í tilefni af sólskini og sæmilegu veðri og almennrar lærileti var ákveðið að skella sér í golf í dag. Það var ansi napurt en við tókum samt 9 holur. Ég var að spila þvílíkt meistaragolf....eða þannig. Hef sjaldan eða aldrei spilað jafnilla en ég kenni aðstæðum um. Þannig að ég nýtti bara tækifærið og æfði drive-in og chippin. Svo erum við að pæla í því að ganga í Golfklúbb Selfoss því þeir eru víst með tvívirkan samning við Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar þar sem félagsmenn annars klúbbsins mega spila á velli hins klúbbsins. Þetta yrði náttúrulega ekkert nema snilldin ein því þá getum við spilað mest í bænum og svo til hátíðarbrigða skellt okkur á Selfoss. Svo eru gjöldin ódýrari á Selfossi.
Var að horfa á Smallville áðan og þar sagði ein persónan: "Oh my gosh" sem var svo skemmtilega þýtt sem Allamalla. Svo skipti ég aðeins yfir á Skjá einn þar sem OC var að klárast og þar var ástarmakasena milli aðalgaursins og einhverjar gellu og hvað haldiði, Leaves bara undir. Litla íslenska hjartað tók aukakipp, enda er maður alltaf stoltur þegar litla ísland eða einhver frá því kemst í fréttirnar/sjónvarpið úti.
Survivor er að byrja á víst að vera einhver bomba í þættinum.

Það er nú aldrei lognmolla í kringum Fjalarr. Haldiði ekki að þegar var verið að reka út úr Þróttaraheimilinu í gær að minn maður hafi skellt sér niður í búningsklefann, en fyrir þá sem það ekki vita þá eru búningsklefar á neðri hæðinni, og sofnað. Svo vaknaði hann eitthvað um 4 eða 5, fór fram og þá náttúrlega þjófavarnakerfið líka. Svo komu víst Skúrítas gaurarnir og hleyptu honum út. Það eiga eflaust eftir að heyrast fleiri sögur í vikunni, því nóg var af áfenginu og eflaust margir sem voru í ruglinu.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Massa-aðalfundur í gær. Fundurinn sem slíkur var ekkert spes enda ekki búist við því. Mastersnemar gerðu eins og þeir gátu til að gera fundinn leiðinlegan og tókst þeim ansi vel upp. Spurning um að setja inn nýja grein í lögin, banna mastersnemum að tala á þessum fundi eða jafnvel bara banna þeim að mæta, mætti íhuga það fyrst maður þekkir nú alla stjórnina og svona. Eftir að fundarstörfum lauk þá tók við gleðin og gleðin var mikil. Hvort sem það var inni í sal að dansa eða frammi og spjalla þá var mikil gleði í fólki. Nóg var veitt af hinum ýmsu fljótandi veigum og spurning hvort bjórinn í það minnsta hafi klárast því allt sterka kláraðist. Það var helvíti fínn DJ á svæðinu sem var mjög oft á MR böllum og hristi hann fram úr erminni hin mögnuðustu lög sem maður tjúttaði við. Á tímabili er ég bara ekki frá því að ég hafi átt dansgólfið þarna.
Klukkan 2 var lagt af stað í bæinn og þegar í bæinn var komið rákumst við á mið gaurinn í gettu betur liði Borgó, hann var svolítið niðurlútur greyið. Við fórum svo á Celtic Cross þar sem Sigurjón eignaðist nýjan vin sem heitir Lárus og vann í dyrunum. Sigurjón og hann stjórnuðu síðan dyrunum af mikilli röggsemi og þeir töluðu um að hittast í kvöld og fá sér pizzu og jafnvel leigja spólu.
Af einskærri góðmensku minni bar ég Sigurjón heim og fór svo sjálfur heim með leigara.

laugardagur, apríl 03, 2004

skellti inn nýju lagi vikunnar í gær, gleymdi að nefna það. Það má finna á heimasíðunni minni. Eðalfönklag þar á ferð. Check it out.

GLORY GLORY MAN UTD
GLORY GLORY MAN UTD
GLORY GLORY MAN UTD
THE REDS GO MARCHING ON

Aðalfundurinn í kvöld og það verður eflaust mikil gleði. Fjórir eru að bjóða sig fram í formann að því er best er vitað og erfitt til að segja hver muni vinna það. Eini sem virðist öruggur með sitt embætti og framboð er Hrafn.
Spurning hvað það kosti að fara til Cardiff í maí???? :D

föstudagur, apríl 02, 2004

Það er bara sonna, Metallica bara á leiðinni til landsins og mun spila í Júlí, nánar tiltekið á þjóðhátíðardegi bandaríkjanna, sjá betur linkinn hér fyrir neðan
http://www.metallica.com/index.asp?item=1894

Skrýtið að horfa á Gettu Betur þegar MR er ekki í úrslitum. Spennan var svosem lítil fyrir mann persónulega en ég vonaði þó að Borgó ynni því þeir lögðu MR. Segji og skrifa hérmeð að eftir að úrslitin voru ljós voru þvílík skrílslæti í versló og segji og skrifa líka að þetta hefði fólk aldrei séð hefði MR verið í úrslitum, byggi það á reynslunni. Þetta minnti einna helst þegar US vann Evrópu í Ryder Cup í US hér um árið. Vissulega eru miklar tilfinningar í gangi og adrenalínið á fullu, plús það að einhverjir voru eflaust drukknir, þannig að maður skilur þetta en mér fannst þetta full mikið af því góða frá þeim og þau hefðu getað setið á dreng sínum.
Svo skelli ég fram kenningu hérna, er Versló byrjað að einrækta fólk sem byrjar á Björn með B sem fylgir og verður ræðumaður Íslands? Hver man ekki eftir Bjössa Bergs og núna þessum gullkálfi, Birni Braga? Þetta er náttúrulega hent fram í léttu gríni en eins og maður segir á enskunni "uncanny".

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Nú sér loksins fyrir enda á þessu framleiðsluferlisviku. Á morgun skilum við tilboðinu okkar í útboðið sem við bjuggum til og höldum fyrirlestur. Það ætti allt að vera komið varðandi þetta bæði, þarf bara aðeins að lesa betur um minn hluta svo ég lesi ekki algjörlega upp af blaðinu.
Að hlaupa apríl er eitthvað sem margir hafa gaman að láta aðra gera. Fréttamiðlar landsins eru alltaf með eitthvað og er það jafn misjafnt og fjölmiðlarnir eru margir. Mogginn var með ágætis glens og ágætlega trúverður um að Springsteen væri á landinu og myndi halda tónleika. Ég var svona frekar nývaknaður þegar ég las þetta og hugsaði með mér, já það væri nú kanski gaman að kíkja á þetta. Svo sá ég verðið sem skellt var á þetta en það var vonarglæta. Maður gat skráð sig á mbl.is og þá gæti maður unnið miða á tónleikana, að fara baksviðs á eftir og hitta Springsteen og fá einhverjar veitingar. Þetta svona kveikti grun minn og fyrir utan það að ALLT sem ég les á þessum degi tek ég með miklum fyrirvara. Svo sá ég í kvöld hvað aðrir fréttamiðlar höfðu reynt að plata fólk með. DV sem er skítasnepill var með lélegasta gabbið og ótrúlega ótrúverðugt. Elvis átti að hafa þiðist úr frystingunni sinni í Sviss eða eitthvað þegar rafmagnið fór þar af. Nú í tilefni af því að vera vaknaður af þessu langa svefni ákvað hann að skella sér til Íslands og taka lagið í Ölveri. Hversu slakt apríl gabb er þetta eiginlega?
Svo náði Sigurjón að gabba Káka og Káki að gabba Fjalarr. Sigurjón sendi Káka sms og reyndar Fjalarri líka en hann sá það ekki nógu snemma. Í sms-inu stóð að í Háskólabíói væru tónleikar með synfoníunni og einnig væri að gefa kökur og mjólk, ef ég heyrði þetta rétt. Káki hljóp apríl
Fjalarr fékk hringingu frá skrifstofu BT þar sem stúlkan þar tjáði Fjalarri að hann hefði unnið inn stafræna myndavél í SMS leik sem þeir væru með. Fjalarr var skeptískur á þetta en gat engan veginn fundið út hver stelpan var og ákvað því að kíkja á þetta "því" hann ætlaði hvort eð er að fara á MacDonalds. Nú Fjalarr fór í BT og vitaskuld vann hann ekki neitt. Káki hafði fengið systur sína til að gabba Fjalarr með sér og Fjalarr hljóp apríl.

Fyrst ég er búinn að vera að tala svona mikið um aprílgöbb og svona þá finnst mér við hæfi að enda þetta á ljóði eftir Andra Snæ sem er skemmtilega tvírætt.

1. apríl
mars búinn