Íslenska landsliðið
Já það hlaut að koma að því, landsliðið fer á stórkeppni og stenst ekki undir væntingum. Þetta er mjög algengt með landsliðið að á einu móti fer það langt fram úr væntingum og svo á næsta eru væntingarnar svo miklar að erfitt er að standa undir þeim. Nú komu tvö mót í röð góð og því væntingar mjög miklar. Þetta var liðið sem var með reynslu, kjarninn búinn að spila lengi saman og ekkert því til fyrirstöðu að taka vinningsæti, en svo fór sem fór.
Ef við lítum aðeins á leikmennina sem eru í hópnum þá voru nokkrir sem stóðu ekki undir væntingum. Dagur Sigurðs er fyrsta dæmið sem ég verð að nefna. Gaurinn er jú fyrirliði landsliðsins en hefur ekkert verið að keppa í samkeppnishæfri deild í mörg ár, en er samt alltaf valin. Meiðslin gætu jú haft stór áhrif á hann núna en hann spilaði eins og hann væri á sínu fyrsta stórmóti.
Á móti kemur að Snorri Steinn var að spila eins og maður með 10 ára reynslu. Ég var sáttastur við hann á mótinu, hann var að skora fullt og reyna allan tímann. Hann verður fastamaður inn á miðjunni held ég í sumar ef hann heldur þessu áfram.
Afhverju var Patrekur með spyr ég? Hann kom lítið inn á og þegar hann kom inn á þá var hann eins og vanalega að fá á sig ruðning og heimskulegar brottvísanir. Spurning hefði verið að taka Arnór Atlason eins og Viggó Sigurðs benti réttilega á í Kastljósinu áðan þá hefur Arnór Atla verið besti maður mótsins hér heima en Patti er valinn því hann er Patti.
Einar Örn Jónsson var síðan út á þekju, hann þorði aldrei að taka af skarið og reyna eitthvað, hékk bara út í horni. Kæmi mér ekki á óvart þó hann hafi getað sleppt sturtu eftir suma af þessum leikjum því hann gerði svo lítið. Sjáið t.d. þegar Ásgeir kom inn á, hann var miklu hreyfanlegri og meiri ógn.
Markvarslan er svo sér kapituli útaf fyrir sig. Við verðum að vona að Roland verði góður fyrir Olympíuleikana því hann er besti markvörðurinn okkar. Reynir kom ágætlega inn í þetta og Kokkteillinn var sæmilegur en við þurfum stabílan markmann.
Jæja það er langt síðan maður skrifaði en vikan líður bara svo hratt. Reyni að vera duglegri í næstu viku.