A site about nothing...

fimmtudagur, október 31, 2002

Afhverju eru gamlir karlar alltaf með derhúfu eða hatt? Er þetta left over af tísku sem var þegar þeir voru yngri og þeir hafa haldið í síðan þá? Ætli það verði þannig þegar ég verð eldri að ég verði alltaf derhúfu. Svo er lika pæling. Hvað mun maður hlusta á? Mun gamlingjar minnar kynslóðar sitja á elliheimilinu grund og hlusta á Method Man, Quarashi, Radiohead og þannig hljómsveitir eða munum við eftir því sem við verðum eldri, fara í það að hlusta á gömlu íslensku dægurlögin? Og ætli það verði alltaf pizzur og hambós og fröllur og þannig í matinn? Eða verður þetta eins og í dag, sveskjur fyrir meltinguna, fiskur og kjötsúpur og þannig? Djöfull hlakka ég til að komast að þessu. En líklegt er að ég verði búinn að gleyma þessum pælingum þá.

Ég er farinn að hafa áhyggjur af því að mig er hætt að dreyma. Það er ekki svo langt síðan ég var með mjög aktíft draumlíf ef svo má segja og ég mundi alltaf draumana. Þeir voru mjög steiktir og jafnframt fyndið að hugsa um þá eftir á. Ég man t.d. að ég vaknaði eina nótt skellihlæjandi útaf einum draumnum. Ég vona að þetta sé bara tímabundið ástand.

þriðjudagur, október 29, 2002

Sunnudaginn 27.október talaði Mr.Big, öðru nafni Önundur um veislu sem hann fór í hjá Hannesi Hefner eins og hann kallaði hann. Talaði Önundur þar um dans stelpurnar sem oft hafa verið í slíkum veislum hjá Hefner og félögum hans sem æfa dans. Þetta minnti mig á eina slíka veislu en hún var haldin hjá Markúsi Má Efraím. Allaveganna þá voru þessar dansistelpur þarna og dönsuðu sem mest þær máttu við hina ýmsu tónlist. Sérstaklega er mér minnistætt, þegar tvær mjög svo huggulegar stelpur dönsuðu einkar eggjandi við Micheal Jackson, King of pop (Registered Trademark) lag. Sat ég í sófa svona 2 metrum frá þeim ásamt einhverjum fleirum strákum og mér leið og líka einum vini mínum sem hjá mér sat, eins og við ættum að borga fyrir að sjá þetta hehe. Svo í sama partýi þá var Markús mjög snjall, setti hann á lagið Saturday Night með Whigfield og hófu allar yngismeyjarnar sem æfðu dans, að dansa Whigfield dansinn sem er ansi gaman að horfa á, sérstaklega þegar um 9 huggulegar stúlkur er að ræða.

Dónaskapur er sá kostur í mannfólki sem ég þoli síst. Þannig var mál með vexti í að í dag var ég að nýta mér æfingaaðstöðu Háskólans og vorum við þrjú þar inni. Í útvarpinu var á mjög þægilegum styrk rás 2 undir og var ég bara ánægður með það. Allaveganna, síðan koma inn einhverjar 2 fm beyglur og hertaka svæðið. Spurðu þær einungis eina manneskju hvort hún væri að hlusta á þetta því hún stóð næst útvarpinu, en þá vildi svo til að hún var útlensk og skildi ekki spurninguna. Stilltu þær á mestu viðurstyggð fyrir útvarp á Íslandi, fm957, og blöstuðu. En kvartaði ég??? Nei ég er of kurteis. Ég ætla að temja mér það að vera ótrúlega ókurteis og leiðinlegur, því annars verður maður bara undir í lífinu, það er greinilegt.

Ef einhver er að velta fyrir sér afhverju síðan heitir, A site about nothing, þá get ég sagt þeim það hér og nú. Þetta er tilvísun í Seinfeld. Þegar Seinfeld og George voru að selja hugmynd að þætti sem þeir höfðu til NBC, var catchphrase-ið fyrir þáttinn, a show about nothing. En ég er einmitt einlægur aðdáandi Seinfeld og fannst mér þetta einkar viðeigandi.

mánudagur, október 28, 2002

Á laugardaginn sá ég snilldarmynd. Mér leið eins og ég væri aftur orðinn svona sjö átta ára og væri að horfa á þætti eins og kalla í knattspyrnu og benjamín sem töldust með uppáhaldssjónvarpsefni mínu. Umrædd mynd heitir Shaolin Soccer og er sýnd í Regnboganum um þessar mundir. Þessi mynd er svo mikil snilld eitthvað. Öll trickin sem maður hélt að bara væri hægt að gera í teiknimynd eru nú komin í leikna mynd, með hjálp tölvutækninnar vitaskuld, en þetta lítur rosalega vel út. Í stuttu máli fjallar myndin um tvo menn. Annar var hetja á sínum yngri árum þangað til hann brenndi af víti, en þá var ráðist á hann og hann krypplaður. Hinn er Shaolin munkur sem býr í stórborg í Asíu og er að leita að leiðum til að kynna kung fu. Leiðir þeirra liggja saman og eftir það er þetta eintóm gleði. Fótbolta eins og þú hélst að værir ekki hægt að spilann, fáránleg söngatriði og fullt fullt af gríni.

Nýji uppáhaldssjónvarpsþátturinn minn heitir Alias. Þessir þættir eru þvílíkt góðir, fjalla um stelpu sem vinnur hjá svona njósna agency sem hún hefur alltaf talið að væri sérdeild innan CIA, en svo kemur í ljós að það er ekki og þá verður hún gagnnjósnari fyrir þá. Söguþráðurinn í þessum þáttum hingað til hefur verið magnaður og sum mál teygja sig yfir 2 jafnvel 3 þætti. T.d. sat ég stjarfur af spenningi yfir lokaatriðinu í kvöld. Ég bíð spenntur þangað til í næstu viku.

Að lokum sorgarfréttir, ég náði ekki takmarkinu mínu í draumadeildinni, þ.e. að komast inn á topp tíu. Ég fékk skitin 8 stig eða svo og hrapaði um 15 sæti. Núna þarf ég að leggjast yfir hvaða leikir eru fyrir næstu umferð og greina þá til þaula, svo ég geti valið besta liðið. Því á þennan topp tíu lista ætla ég mér.

laugardagur, október 26, 2002

Í gærkveldi var ég staddur á uppistandi Jóns Gnarr, Péturs Dingdong og Mr.Pornstar og var eftirvænting nokkur, því bæði Pétur og Jón eru gríðarfyndnir. Pétur byrjaði kvöldið og var í geysilegu stuði og reytti af sér brandarana þannig að salurinn lá í krampa. Svo kom Jón og ég verð að segja að hann olli svolitlum vonbrigðum. Þetta er kanski ekki besti staður og stund fyrir Jón. Hann þarf tíma, því hann byggir upp hægt og rólega grínið um bara lífið og tilveruna og svo koma ótrúlega fyndin punchline, þannig að maður deyr næstum úr hlátri. Það fáránlegasta af öllu var samt að þegar Jón kom fram og stóð bara og gerði ekki neitt, sagði svona já og jæja nokkrum sinnum þá vorum sumir sem skellihlógu. Það hlýtur að vera soldið leiðinlegt að vera Jón, það hlæja allir að þér, sama hvað þú gerir og allir halda að þú sért að grínast ef þú segir eitthvað. Ég verð að viðurkenna að mér stekkur bros á vör þegar ég sé hann og fer næstum að hlægja en mér finnst vera óheppinn að þessu leyti. Svo kom Ron sjálfur og sagði allskonar brandara tengdum klámi og svona og voru þeir bara nokkuð fyndnir. Svo í lokin fengu áhorfendur að spyrja hann. Og þá kom eitthvað major fífl og spurði og spurði og spurði og spurði og hleypti engum öðrum að. Spurningarnar voru mjög lélegar og leiðinlegar, svona barnaskólahúmor t.d.: did you fuck betarokk, svo flissaði hann eins og skólastelpa og félagar hans líka, sem by the way voru fullir. En samt var þetta voða fínt.

Ég er búinn að uppgötva samsæri mikið og flókið. Í gær var ég á uppistandi i Háskólabíói sem er nú í eigu Sambíóa. Og fékk ég mér af því tilefni popp og kók. Allaveganna hér kemur samsæriskenningin: Vífilfell og Sambíóin eru í samstarfi til að auka sölu með því að bíóin salta poppið óheyrilega, þannig fólk verður mjög þyrst. Og þá kaupir það meira að drekka, sem leiðir til meiri sölu fyrir bíóið og Vífilfell.

föstudagur, október 25, 2002

Ég hef brotið lög. Nei ekki landslög, heldur lög Óttars Völundarsonar. Þannig er mál með vexti að einn kafli í lögum Óttars er þannig að ekki skuli læra á föstudögum, en ég þurfti að brjóta þau lög í dag. Því það er svo ótrúlega mikið að gerast í skólanum að ef ég sleppi úr einum degi þá fer allt í vaskinn. Svo gæti orðið að ég yrði síbrotamaður, og myndi brjóta þessi lög í gríð og erg en ég vona þó ekki.

Þjóðarfjall Íslendinga skv, skoðanakönnun og kosningu er Herðubreið og er það vel að því komið svosem. Ég hef ekkert á móti því fjalli. Þessi kosning kom víst til útaf því að ferðamálaráði eða eitthvað álíka ráð fékk svo mikið af emilum frá útlöndum þar sem spurt var, hvert væri þjóðarfjall okkar Íslendinga.
Ætli Danir gætu haldið svona kosingu? það eru jú engin fjöll í Danmörku.
fimmtudagur, október 24, 2002

Ég var að finna hérna heima hjá mér gamlan íslenskan safndisk, sem var gefin út með því takmarki að sýna þá grósku sem var í gangi í íslensku tónlistarlífi á þeim tíma. Þarna voru að koma fram í fyrsta skipti hljómsveitir eins og 200.000 naglbítar, stjörnukisi, Bang Gang og Emmet. En Emmet þessi er líklega þekktust, myndi ég halda, fyrir söngvarann og textasmið, engann annan en beturokk og fer henni þetta ágætlega úr hendi. Þessi diskur er ágætis eign. Hæð í húsi með Naglbítunum er á honum og er það eitt þeirra besta lag.


Svo var mikil gleðistund í dag. Leit á www.draumadeildin.is og hvað haldiði?? Minns er bara kominn í 13 sæti og hefur mér aldrei vegnað jafnvel. Nú þarf maður að fara að leggjast yfir næstu umferð, því takmarkið er að komast á topp 10 og inn á listann yfir efstu lið.


Djöfull get ég ekki beðið þangað til annaðkvöld þegar Jón Gnarr, Pétur Jóhann Sigfússon og Ron Jeremy stíga á stokk og flytja gamanmál. Jón veit ég að er ótrúlega fyndinn, ég hélt að ég myndi deyja úr hlátri þegar ég sá sýninguna hans, ég var einu sinni nörd. Pétur hitaði upp þá fyrir hann og stóð sig mjög vel, og svo verður gaman að sjá hvað Mr. Pornstar sjálfur hefur fram að færa.

Önundur er að reyna að plögga mig hérna með smá info, prufum það.

laugardagur, október 19, 2002

Í dag er gleðidagur. Arsenal tapaði í fyrsta skipti af síðustu 30 spiluðum leikjum í dag, þökk sé 16 ára boy wonder hjá Everton sem heitir Wayne Rooney og lítur út fyrir að vera svona 25. Manchester tapaði ekki og í kvöld er lokahluti hinnar ágætu Airwaves hátíðar þegar feitimjói strákurinn, apparat, hives og fleiri verða gríðarhressir. Mjög góður dagur.Landsleikurinn á miðvikudaginn var miklu betri. Mennirnir náðu einhverju spili í gang, þurftu ekki að kýla boltann fram og voru bara í heildina mjög góðir. Haukur Ingi átti mjög góðan leik, sífellt að taka einhverjar gabbhreyfingar þannig að Litháarnir vissu varla hvaðan á þá stóð veðrið. Shit hvað hann er líka fljótur að hlaupa, hann hleypur eflaust hundrað metrana á svona 11 sek eða þar um bil.Já talandi um Airwaves þá er þetta búið að vera býsna góð hátíð. Á fimmtudeginum fór ég ásamt Ara Tóm, Martini, Tuma og Svessa á nokkra staði. Byrjaði á Hip-hop kveldinu á Gauknum þar sem O.N.E. hófu kvöldið og þeir voru nokkur góðir. Undirspilið og samplið hjá þeim var oft ótrúlega flott og rapparinn var nokkuð þéttur. O.N.E samanstanda víst af MR-ingum og er ekkert nema gott um það að segja, sýnir gróskuna í þessum merka skóla hehe. Afkvæmi guðanna voru ágætir, fílaði þá ekkert rosalega samt, bent og 7berg voru frekar slappir og J-live nokkuð góður. Hann náði upp massastemmningu með skopparanna og fékk þá í að syngja með sér.Svo var litið á xperimental kvöldið í Iðnó þar sem ég sá DDD, síðustu mínútuna á Jagúar. Ef eitthvað er að marka hana þá hafa þetta verið nokkuð góðir tónleikar hjá þeim. Svo sá ég líka Remy Zero á Nasa, það var rock and roll og vildu sumir samferðarmenn mínir meina að þeir hefðu verið bestir það kvöldið.Svo í gær var aftur tekinn hringurinn með sömu mönnum og kvöldinu áður. Heldur var kaldara í veðri en kvöldinu áður og líka voru sumir hressari en kvöldinu áður sökum vísindaferðar fyrr um kvöldið. Hitti ég mannskapinn á Ensímitónleikunum á Nasa og voru þeir að gera góða hluti. Nýja efnið er bara mjög gott. Einstaka menn vildu fá að heyra eitthvað af þessu gamla eins og Atari en söngvarinn brosti bara. Sökum góðrar umfjöllunar frá Arnari Eggerti í mogganum var ákveðið að kíkja á síðustu mínúturnar af Ske eftir Ensími tónleikana. Ske liðar voru í svona kósý fíling fengu fullt af söngvurum á svið til sín og allir í goody fíling. Meðal annars fengu þeir japanska snót er heitir Juliette og söng hún lögin Juliette pt1 og pt2. Pt2 lagið þekkja eflaust flestir ef þeir hafa eitthvað verið að horfa á sjónvarp upp á síðkastið, þetta er lagið í auglýsingunni hjá Landsbankanum. Ákveðið var að bíða eftir að heyra í Bang Gang. Við vissum að dagskráin hafði eitthvað hliðrast en við tók 30-40 mínútna bið( eru sumir farnir að líta stórt upp á sig??). Greinilegt er að Bang Gang er eitthvað farið að róast ekki lengur þessi svona dansvæna tónlist.

Eftir Bang Gang var farið á Gaukinn þar sem Silt(Botnleðja) steig á svið í grímubúningum. Það er langt síðan ég hef heyrt eitthvað efni með þessari hljómsveit, sem gaf út einn besta disk sem hljómsveit hefur gefið út á Íslandi hin síðari ár, Fólk er fífl. Silt eru orðnir mjög harðir núna, og maður þarf soldið að venjast því. En þeirri helsti kostur hefur alltaf verið hvað þeir eru geðveikt þéttir, þeir voru þéttir þegar þeir unnu Músíktilraunir og eru það enn. Svo var komið að síðasta atriði kveldsins sem voru Leaves. Ótrúlega góðir en alltof stutt, þeir komu fram mun seinna en þeir áttu að gera, og þarafleiðandi spiluðu mjög lítið, sem var synd.Núna eru einungis 2 tímar og 40 mín þangað til lokahnykkurinn á hátíðinni hefst og ég bíð bara spenntur.

sunnudagur, október 13, 2002

Landsleikurinn var sorgleg sjón. Mennirnir áttu í mestu erfiðleikum með að senda boltann sín á milli og þarafleiðandi tókst þeim ekki að búa til neitt. Háar sendingar fram völlinn voru það eina sem þeir gátu gert í stöðunni, því skotar pressuðu mjög mikið. En það gekk ekki vel því varnarmenn skota áttu alla háloftabolta. En til hamingju skotar þið áttuð þetta algjörlega skilið.
Það hlýtur að vera mjög stressandi vinna að vera landsliðsþjálfari, það hafa allir skoðun á því hvernig valið er í liðið og væntingar manna eru oft geysiháar. Persónulega fannst mér Gaui vera að gera betri hluti, hann spilaði mjög raunsætt. Frekar svona varnarsinnað en mjög effektifan bolta.
Svo sá ég viðtalið um kvöldið sem Snorri Már Helgason tók við Atla og Eggert Magnússon, þar sem hann reyndi að grilla Atla. Mér fannst Atli koma vel út úr þessu viðtali. Hvað er eiginlega málið með pressuna að reyna að vera grilla Atla og landsliðið sérstaklega núna þar sem þeir þurfa að spila 2 leiki röð, til hvers að vera að rífa þá niður? Mér finnst það mjög ósanngjarnt af þeim. Mér finnst að þeir ættu að bíða með þetta þangað til eftir síðari leikinn af 2 og þá tala um það sem fór vel og það sem fór illa, ekki meðan á þessu stendur.

Það sem vantar oft á íslenska leiki er stemmning hjá áhorfendum. Það var ótrúlega gaman að heyra í skotunum syngja, þeir áttu svoleiðis völlinn.

föstudagur, október 11, 2002

Fór í fyrsta prófið mitt í Háskólanum í dag. Það var miðsvetrarpróf í tölvunarfræði og áður en ég fór í það var ég bara ágætlega undirbúinn að mér fannst. Búinn að lesa alla bókina og svona. Kem í prófið og hreinlega kúkaði á mig. Ég mundi ekki einföldustu hluti í forritun, við áttum semsagt að forrita þrjú forrit og það gilti 60 prósent af prófinu. Sem betur fer getur prófið bara hækkað mann upp, það skiptir ekki máli þótt þér gangi illa því þá er það ekki tekið til einkunna en ef þér gengur vel þá gildir það einhver prósentustig af lokaeinkunn.
Síðustu daga hef ég verið að hugsa um að hætta í Tölvunafræði, því þá myndi ég hafa meira tíma fyrir fög eins og Eðlisfræði, sem ég virkilega þarf. Ég held að þetta próf hafi sýnt það að ég eigi að gera það.

Þetta er pjúra snilld. Þýðandi þar sem þú getur meðal annars slegið inn íslensku og látið það þýða á eitthvað annað tungumál. Hef mikið hlegið yfir þessu í dag.

Að lokum ætla ég að tala um nýja geislaspilarann minn sem ég keypti í sumar. Þannig er mál með vexti að þessi spilari er ekkert venjulegur spilari, nei kallinn minn, hann spilar mp3 lög á geisladiskum. Þetta er vitaskuld mikil hagræðing, því það magn af lögum sem kemst á einn disk er gríðarlegt, miðað við þessa venjulegu diska sem taka svona 20 tops ef hvert lag er 3 mín eða svo, er með einn disk núna í með 153 lögum. Allaveganna þá fann ég þennan spilara á netinu, hann er ekki til hérna heima að því er ég best veit, og allstaðar sem ég las um hann þá fékk hann frábæra dóma. Svo fann ég síðu á netinu sem var með hann á hagstæðu verði um 14000 krónur, kostaði 24 þús í Evrópu og pantaði hann því þaðan. Viku síðar er hann kominn til landsins en þá hafði helvítis tollurinn lagt á hann 7000 króna toll, bastarðar. En ég var ennþá að græða því hann kostaði með öllu að panta frá BNA minna en hefði ég tekið hann frá Evrópu. Allaveganna þá er þessi spilari mjög lítill og nettur og very stylish( sjá má mynd hér og líka hér og hérna má lesa helstu upplýsingar um hann). Fyrir mig er þetta mjög góður kostur því þó ég eigi fullt af geisladiskum þá er ég með slatta af lögum á tölvunni og það hentar mér betur að geta skrifað mörg lög á einn disk, heldur en hitt. Svo sakar ekki að hann er með útvarpi líka.

fimmtudagur, október 10, 2002

Svona er það þegar maður er bara að reikna alla daga, maður gleymir hvernig á að tala rétta íslensku. Í síðasta pósti sagði ég:"... kanski í svona eina önn eða svo til að meta hvernig álægið væri..." Ég meinti vitaskuld álagið hehe.

Ég gerði þvílík reyfarakaup um síðustu helgi. Leit við í Skífunni og þá voru þar einhverjir diskar á mjög góðu tilboði, svona 400-1000kr stykkið. Fann þarna nokkra diska sem mig langaði í en endaði bara á því að fá mér tvo. Annar var diskur sem ég hafði eitt sinn átt og hlustað mikið á, en honum ásamt 20 öðrum var stolið og var það mikill missir í því. Þann disk fékk ég á 500kall eða svo, helvíti gott. Svo keypti ég disk með hinum belgísku Dewaele bræðrum í hljómsveitinni Soulwax, það er skal ég ykkur segja snilldardiskur. Og ekki skemmdi fyrir að hann kostaði aðeins skitnar 400 krónur.
Ég held að ég sé með geisladiska eins og konur eru með skó, ég verð að fá fleiri.

miðvikudagur, október 09, 2002

Þegar ég var í MR þá langaði mig alltaf að prufa að vera í einhverjum öðrum skóla, svona kanski í eina önn eða svo til að meta hvernig álægið væri þar miðað við MR, því nóg fannst mér það vera í MR og fannst mér stundum ég alltaf vera að læra. Svo fór ég í Háskóla. Þar er mikið að læra. Ég byrjaði svona frekar rólega en samt gerði ég meira en ég var vanur á meðaldegi, það var ekki nóg. Því hef ég spýtt í lófana og eyði umstalsverðum tíma af hverjum degi í að læra. Milli tíma og eftir að ég kem heim á daginn. Því hef ég sagt það svona í gríni að ef ég hefði eytt jafnmiklum tíma í að læra frá byrjun í MR og ég geri núna, þá hefði ég líklega útskrifast með 10,2 í meðaleinkunn.

Djöfull er það pirrandi þegar maður vaknar á morgnana svona 5 mínútum áður en klukkan hringir, dauðþreyttur. Það fer ótrúlega í mig að þetta skuli gerast hjá mér. Mér finnst að ég eigi bara að vera sofandi þangað til klukkan hringir og vakna þá útsofinn. En þannig er það nú sjaldnast, því oftast heyi ég baráttu við líkama minn og vilja hans til að sofna meðan ég er í fyrirlestrum. Hvor okkar vinnur er upp og ofan.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá er farinn að hugsa til jólanna. Og það er mikil tilhlökkun í þeirri hugsun, sökum þess að líklega mun ég ekki vinna þessi jól, heldur fæ ég tækifæri til að njóta þeirra almennilega og slappa svolítið af eftir jólaprófin, það verður eflaust sweet :Ð.

sunnudagur, október 06, 2002

Á laugardaginn var ég að horfa á popptíví sem er ekki frásögu færandi nema hvað að það var endalaust af þessum leiðinda R´n´B myndböndum með vitleysingum eins og Ja Rule og þannig guttum. Og það sem var svo fyndið við þetta allt saman var að öll myndböndin voru eins, svona bling bling týpu myndbönd þar sem gaurarnir eru að sýna hvað þeir eru ríkir, með alla homie-anna hjá sér í einhverju feitu partýi þar sem kampavínið flæðir og kellingarnar eru aldrei klæddar í meira en bíkini. Fáránlegt. En þeir verða jú einhvern veginn að hylja það víst hvað þessi lög eru léleg.

Svo var þarna eitt lag með henni J-lo og það var fáránlegast af öllu. Allt í einu, out of the blue, í miðju mynbandi kemur einhver rosa danskafli, þar sem ekkert er sungið og á greinilega að sýna öllum hversu góður dansari hún er, gott ef þetta var ekki myndband #2 með henni sem ég man eftir þar sem hún er að gera þetta. Hvað er málið, er hún að reyna að sanna fyrir einhverjum að hún geti dansað?

laugardagur, október 05, 2002

Ætli maður verði ekki að taka þátt í nýjasta æðinu. Það er nefnilega ýmislegt sem ég hef verið að pæla í að undanförnu sem mig langar til að deila með öðrum. En ég verð væntanlega ekki brjálað aktífur því ég eyði nærri öllum stundum í það að læra.