A site about nothing...

þriðjudagur, desember 30, 2003

Ef þið prufið að fara á google.com og skrifa inn andabringur og velja seinustu síðuna af þeim sem koma upp, sjáið hvað gerist :).
Svona er nú google magnað dæmi, hefði aldrei haldið að hún myndi finna þetta á einhverri lítilli bloggsíðu. Spurning hvort ég ætti að prufa að skrifa eitthvað voðalega skrýtið orð hérna eins og æliner, sem er eyeliner, skv. nýju íslensku orðabókinni minni og renna þessu í gegnum google.
Fór í árbæinn í kvöld á jeppanum og varð fyrir vonbrigðum, reyndi ekkert á hann alla leiðina, búið að ryðja allt og svona. Fór til Káka og við tveir ásamt Gbus og Fjalla P. spiluðum hættuspilið. Tókum tvo leiki, annan þar sem ég vann með yfirburðum, en einhverjir sögðu að ég hefði svindlað því ég leyndi aðeins hversu mörg stig ég væri kominn með, en ég neitaði fyrir það auðvitað. Og í seinna spilinu vorum við hnífjafnir undir lokin allir fjórir. Ég byrjaði illa í seinni leiknum, byrjaði að drekka og ekki leið á löngu þangað til Siggi Sýra var búinn að koma mér í hassið og sprauta í æð. En ég náði að rétta úr kútnum og koma ár minni vel fyrir borð og hefði lítið þurft til að ég myndi vinna aftur.

mánudagur, desember 29, 2003

Ég fór á LOTR í gær með Tomma og Ástu. Það hefur verið þannig á hinum tveimur þegar ég sá þær í fyrra skiptið að ég þurfti að pissa í lok myndarinnar útaf því að ég fékk mér kók í hlénu. Í gær var ég með nýtt gameplan, ég fékk mér kókið áður en myndin byrjaði, og þurfti þessvegna að pissa í hlé, sem er betra en að vera í spreng í lok myndarinnar og geta ekki notið hennar. Svo var ég bara góður eftir hlé. Allaveganna þá er myndin náttúrulega snilld og hálfsorglegt að þessu öllu sé lokið. Það er eins og maður hafi verið í þriggja ára ferðalagi og nú er það búið.
Nú þegar búið er að sýna allar myndirnar langar mig að spyrja þá sem lesa þetta blogg hver sé þeirra uppáhaldskarakter úr myndunum, svarið bara í shout out.
Minn er Legolas, ubersvalur karakter.

Þvílíkur glundroði sem blasti við mann í morgun. Búið að fenna eins og ég veit ekki hvað og fólk bara í ruglinu. Ég var svo sniðugur að ákveða að kíkja í bæinn og var þetta einn rosalegasti bíltúr sem ég hef farið á mínum litla bíl. Honum og mér til hróss get ég sagt að ég festist aldrei. Í Rvík skipti ég um bíl og fór í jeppa með frænda mínum og við rúntuðum á milli staða að tjekka á símum, maður sá strætó í einhverju rugli þarna hjá Sprengisandi og fólk fast og svona. Maður er svo óvanur þessu að ég held að margir viti varla lengur hvað eigi að gera þegar svona gerist.
Var að horfa á held ég fyrsta þáttinn af Americas next top model og eitt er víst, það verður fylgst með þessum þætti. Þarna eru samankomnar stelpur sem hafa nægt sjálfsálit fyrir 100 manns þó svo þær voru bara 10 og þetta verður eflaust snilld. T.d. var sýnt þegar stelpurnar fóru í bíkínivax, þar sem þær lágu með lappirnar upp í loftið og heyrði hljóðið þegar hárin voru rifin í burtu og öskrin sem fylgdu. Einnig var ljósmyndataka í bíkíni í þvílíkum kulda að maður hálfvorkennti þeim. Það voru nokkrar þvílíkar bombur þarna og svo voru svona týpur líka. Þær sem mér fannst flottastar voru Nicole og Shannon, mjög svipaðar stelpur útlitslega.

laugardagur, desember 27, 2003

Ljúf jól að baki. Gjafir voru ekki margar enda er maður á þeim aldri að þeim fækkar soldið og maður vissi líka hvað maður fengi í flestum tilvikum enda fólk óvisst hvað það eigi að gefa svona ungum mönnum. Þessvegna finnst mér alltaf gaman að fá eitthvað sem ég veit ekki um. T.d. gaf amma mér íslenska orðabók sem var frábært að eignast, svo fékk ég voða flottar golfkylfur og svona golfhandklæði merkt St. Andrews sem notað er til að hreinsa golfkúlur frá systur mömmu og fjölskyldu hennar. Systir mín gaf mér svo mjög flott bindi sem er í íslensku fánalitunum.
Jólamaturinn var líkt og í fyrra franskar andabringur og ágætar sem slíkar, engar rjúpur svosem en smakkaðist samt ágætlega.
Svo var boð á jóladag hjá okkur þar sem systkini mömmu koma og við borðum hangikjöt og meðlæti með því, en annan í jólum var bara tjill.
Svo er ég búinn að horfa á allan family guy seríu 2 sem ég fékk á dvd í jólagjöf yfir jólin og bara á sjónvarp almennt mjög mikið. Þannig að maður er bara vel haldinn.

miðvikudagur, desember 24, 2003

Bíllinn var þvílíkt skítugur þannig að ég ákvað að þvo hann í dag. Baðaði hann í tjöruhreinsi, fékk hluta af honum í augun sem er ekki gott. Svo held ég að ég ætli aldrei aftur að handþvo bílinn. Þessir burstar sem maður fær skilja oft eftir skít á bílnum ef maður er eitthvað að skrúbba bílinn, svo er þetta leiðinlegt og maður fær verki í handleggina á stöðum sem maður fær vanalega aldrei verki.
Fór í bæinn í kvöld. Þetta er held ég í annað skipti á ævi minni sem ég fer i bæinn á Þorláksmessu, því seinustu ár hef ég verið að vinna og svo þar fyrir utan þá þegar ég var yngri þá var alltaf jólatréð skreytt. Anyhoo þá fór ég með Tuma, Martin, Helgu, Ella og Heiðdísi á Bubbatónleika. Ég var næstum hættur við þegar ég heyrði verðið, heilar 2500 krónur takk fyrir. Svo áður en tónleikarnir hófust fórum við aðeins á laugarveginn. Ég þurfti að kaupa eina gjöf og fór því að gera það. En hætti snögglega við þegar ég sá röðina í þeirri búð sem ég ætlaði í. Kaupi gjöfina bara á morgun.
Bubbi tók alla smellina, eða svona hérumbil. Dissaði fulla fólkið sem hrópaði á milli laga og alþingismenn. Kallinn spilaði í tvo og hálfan tíma sem gerir 1000 kall á klukkutímann. Þannig að hann fær hrós fyrir að vera svona lengi. Nú tónleikarnir kláruðust um tólf leytið og þá fórum við á Ingólfstorg þar sem okkur hafði verið sagt að fólk myndi ganga í kringum einiberjarunn og syngja. Þarna var komið alveg 30 manns eða svo og helstu jólalög tekin. Svo óskaði maður öllum gleðilegra jóla og svo er maður bara kominn heim. Verkefni morgundagsins er að redda jólagjöf, það reddast.

þriðjudagur, desember 23, 2003

Dreymdi ansi furðulegan draum í nótt. Í stuttu máli var hann þannig að ég ásamt vinum úr grunnskóla og framhaldsskóla ætlaði að ræna banka. Þarna var mikið af fólki en ég vaknaði áður en ránið var framið. Mjög skrýtið allt saman.
Deginum í dag eyddi ég í það að hjálpa ömmu minni og fórum við vítt og breytt um bæinn. Svo skar ég niður rauðkál fyrir hana, setti upp svona grýlukertajólaseríu og ýmislegt fleira. Svo var það bara chill eftir að ég kom heim. Svo er spurning hvað gert verður annaðkvöld. Spurning hvort maður taki röltið á laugarveginum, eða fari á bubbatónleika, hvort maður dansi í kringum jólatré niðrí bæ. Það eru ýmsir möguleikar.

mánudagur, desember 22, 2003

Það er loksins komið þetta alvöru íslenska vetrarveður eins og ég minnist að þau hafi verið. Var að keyra heim frá Fjalarri áðan og ég keyrði á svona 60 alla leiðina úr Reykjavík og flestir gerðu það líka nema einhver jeppahálfviti sem keyrði eins og það væri sumar og toppaðstæður til að keyra, fáviti.
Það var fagnað próflokum í gær, fyrst partý hjá Dabba svo þaðan var farið í Skeifuna þar sem verkfræðideildirnar voru með djamm. Þar var fínasta stemmning og gaman að hitta allt það lið sem þar kom. 6.Y var þarna fjölmenntur því fyrir utan þau okkar sem erum í verkfræðinni núna komu Ragnhildur frá Danmörku, Ásta frá Frakklandi og Marta sem er að læra lögfræði. Það lá við að ég þekkti ekki Tomma enda kallinn kominn með langa ljósa lokka sem hann sveiflar þegar hann labbar, spurning hvort hann eða Ásta hafi síðara hár? Svo var farið í bæinn eftir Skeifudjammið. Sjaldan hef ég verið jafnfeginn að vera í úlpu og í gær, það var suddalega kalt í bænum. Það var svo kalt að nefið á mér var dofið meðan ég stóð í biðröð fyrir utan Celtic Cross, já þið lásuð rétt Celtic Cross. Ég hef aldrei lent í biðröð þar en þetta sýnir kanski hversu margir voru að djamma í gær. Enda voru margir að klára framhaldsskólann og svo Háskólakrakkar að fagna próflokum. Ég fór svo tiltölulega snemma heim. Svo svaf ég út í morgun sem var fáránlega þæginlegt, að liggja svona lúrandi vitandi það að maður þarf ekkert að skríða fram úr frekar en maður vill. Snilld.
Mér er strax farið að líka við þessa jólagjöf til mín, þ.e. að vinna ekki um jólin.

laugardagur, desember 20, 2003

Jæja loksins loksins er maður búinn í prófum. Í dag lauk mánaðartímabili þar sem ég bókstaflega bjó á VRII og er maður einkar sáttur við að vera búinn. Prófið í dag var skondið og veit ég ekkert hvernig ég stend, ég reyndi að bulla í sem flestu til að skora stig. Í kvöld verður djammað og svo á morgun verður sofið út, ó já það geturu bókað.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Það er bara komið chill eftir að ég ákvað að sleppa efnafræðinni, nú getur maður tekið sér feitar pásur, mætt seinna á morgnana og svona. Og í kvöld t.d. hætti ég hálfsjö eða eitthvað fór heim, á Subway með Einari. Horfði svo á úrslitaþáttinn af Amazing Race. Ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum því það lið sem ég hélt upp á af þeim sem eftir voru bara klúðruðu sínum málum bigtime og það fór óendanlega í taugarnar á mér. Svo varð þetta aldrei spennandi og maður vissi hver myndi vinna. Eitt annað reyndar sem fór í taugarnar á mér þegar sigurvegararnir töluðu um reynslu sína og svoleiðis í lokin. Endalaust steikt þegar samkynhneigði gaurinn sagði: "Við sýndum að samkynhneigt er eins og annað fólk og getur gert hluti eins og venjulegt fólk" eitthvað á þessa leið. Döh hver veit ekki að samkynhneigt fólk geti gert það, heldur gaurinn þetta virkilega að allir aðrir haldi að samkynhneigt fólk sé eins og t.d. fatlað fólk og geti ekki gert alla hluti sem gagnkynhneigt fólk geti gert? Þetta fannst mér mjög heimskulegt.
Í gær bilaði bílinn endanlega. Ætlaði að fara í bankann og redda einhverju máli þegar bíllinn neitaði að fara í gang í skólanum. Ég hringdi í einhvern gaur, lýsti þessu fyrir honum og leyfði honum að heyra hljóðið í vélinni, hann sagði: "þetta er svissbotninn" og ég sem hélt að startarinn væri fucked up, miðað við sem annar viðgerðaraðili hafði sagt. Well ég fór og keypti stykkið sem vantaði með hjálp bróður míns og var þetta stykki svona einn sentimeter í breidd og tveir að lengd, hringlaga. Þegar ég heyrði orðið svissbotn hélt ég að þetta væri eitthvað huges stórt. Svo kom Árni Béé frændi minn og dró mig á verkstæðið.
Þegar við vorum komnir hjá BSÍ sá ég ekki neitt því það var rigning og rúðuþurrkurnar virkuðu ekki. En ég þurfti auðvitað að sjá útum gluggann til að sjá bremsuljósin hjá honum og hvort taugin væri ekki strekkt. Brá ég því á það ráð að taka blaðið af rúðuþurrkunni, hafa rúðuna opna og var svona "mennsk rúðuþurrka" alla leiðina á verkstæðið, frekar fyndið.
Svo ég víki aftur að kvöldinu í kvöld þá eftir Amazing fór ég með Einari á eitthvað svona getogether hjá fyrsta árinu í lækninum og þar heyrði ég snilldarsögu um þá samkeppni sem ríkir í klásus. Ein stelpan sagði frá því að það hefði verið stelpa á sama tíma og hún í klásus og var alltaf eitthvað leiðinleg við hana þar sem þær voru að læra á bókhlöðunni. Varð þetta svo slæmt að þessi stelpa reyndi einhverju sinni að hrinda stelpunni sem sagði frá í stiga. Hversu langt þarf fólk að ganga í samkeppni að vilja hrinda fólki í stiga?

Jæja þetta var hrikalega löng færsla.
góða nótt

mánudagur, desember 15, 2003

Tók ákvörðun í kvöld. Fer ekki í efnafræði. Þessi ákvörðun kom eftir að hafa skoðað próf í ör á mæl frá fyrri árum. Ég sá fram á að það gæti orðið soldið erfitt að ná þessum tveimur prófum miðað við þann tíma sem ég hafði.
Fór á Todmobile í gær með Tuma kallinum. Við mættum þarna tíu mínútur í tólf eða eitthvað og það var ekki sála í húsinu þannig að við náðum í miðann og fórum á Café París meðan við biðum. Svo hálfeitt eða eitthvað fórum við aftur og þá var nú fólk mætt. Todmobile lét bíða aðeins eftir sér og nýttum við Tumi tímann í það að horfa á einhverja tvo gaura rífast sem var einkar skemmtilegt á að horfa. Einnig fórum við í leik sem er þannig að annar segir fótboltamann og stafurinn sem nafnið hans endar á er byrjunarstafur mannsins sem næsti segir. Við komumst að því að N er vandræðastafur í þessum leik enda eftir nokkrar umferðir man maður ekki fleiri gaura sem byrja á n. Svo fékk ég stafinn R til að byrja á og gróf þá upp í heilabúinu Ruel Fox, nú það er enginn gaur sem byrjar á X þannig að ég vann :).
Keypti mér aðalbúning Manchester United í kvöld enda á kjaraverði fyrir viðskiptavini Og Vodafone, eiginlega of gott tilboð til að hafna. Kostaði búningurinn 3900 krónur en kostar vanalega svona 6500 - 6900kr. Maður er sáttur við þetta. Nú er bara spurning hvaða númer maður ætti að setja aftan á og hvaða nafn. Ætti maður að fá sér einhvern sem spilar fyrir Man Utd eða sitt eigið nafn? Það er spurningin.

laugardagur, desember 13, 2003

Nú er maður bara búinn með meir en helming prófanna þessi jól. Fór í próf í dag í Eirbergi og fékk sæti við glugga. Til að byrja með þá var ég að frjósa, enda skítakuldi úti og svo undir lok prófsins þá get ég svo svarið það að eitthvað skip var að nota flautuna með svona 10 sek millibili og maður heyrði óminn af því, frekar pirrandi. Prófið gekk ekkert spes og ég vissi áður en ég fór í prófið að þetta ætti ekki eftir að vera söltun þannig að það kom manni ekkert á óvart.
Svo í kvöld eru það Todmobile tónleikar sem verður gaman að sjá enda fíla ég hana mjög og svo er það spurning hvort maður reyni að læra eitthvað heima áður en maður fer, eða kíkir á VR í svona tvo tíma eftir mat.
Annars vil ég bara þakka John Terry fyrir sitt framlag í leikjum dagsins, hann lengi lifi: húrra húrra húrra.
Greinilegt að Chelsea getur ekkert án Eiðs, þeir hafa víst unnið alla leiki sem hann hefur byrjað inni á.

föstudagur, desember 12, 2003

2 próf búin, eitt bíður eftir manni á morgun. Eftir það um kvöldið verður svo farið á Nasa og horft á Todmobile.
Sá auglýsingu á batman.is í dag að Stuðmenn myndu spila á jólaballi MR. Afhverju voru Stuðmenn aldrei þegar ég var í MR? Ég veit að áhuginn var fyrir því. Stuðmenn voru eiginlega eina hljómsveitin sem ég átti eftir að fara á ball með, eftir að hafa verið í MR. T.d. hefði eitthvert árið mátt sleppa því að hafa Sálina í þriðja skiptið.
Snilldarleikur hérá ferð.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Svimi svimi svitabað söng Stefán Hilmarz hér um árið og það átti svo sannarlega við í kvöld þegar 5000+ manns börðu Muse liða augum. Þegar inn var komið hélt ég að þetta væri árshátíð hjá unglingadeild Hagaskóla, slíkur var fjöldinn af þessu dvergum og mörg hver voru frekar ölvuð. En þegar í salinn var komið sá maður fólk á manns eigin aldri og eldri. Við, þ.e. ég, Tumi, Martin, Ari, Viðar vinur Ara og Elli Tomm vinur Tuma og Martins, fyrir miðju og biðum í góðan kortér áður en Muse byrjaði. Þeir komu með hvern slagarann á fætur öðrum og var ég virkilega sáttur við lagavalið. T.d. kom eitt lag af Hullabaloo sem er heavy töff og var gaman að heyra það live. Svo var rosalegt að sjá Bellamy, sem er eflaust einhver ofvirkasti maður sem ég hef séð, spila píanókaflann í Space Dementia. Það var sýnt á svona tjaldi bakvið þá. Þar sá maður hvernig hann spilaði þennan kafla með því að nota m.e. fingur hægri handar svona hlaupa niður nótnaborðið, virkilega flott. Í heildina þá verður að segjast að þetta voru frábærir tónleikar, enda ekki við öðru að búast.
Svo langar mig aðeins að ræða um eitt. Ég skil ekki fólk sem fer sótölvað á tónleika. Hvar er stemmningin í því. Þú veist ekkert hvar þú ert, nýtur ekki tónlistarinnar, og tekur miða frá einhverjum öðrum sem hefði miklu frekar vilja njóta tónlistarinnar heldur en að vera sótölvaður á tónleikunum og sjá ekki neitt. Einnig finnst mér að það eigi að vera aldurstakmark því mikið af þessum yngri krökkum hékk frammi og var ekkert að hlusta á þetta.
Gott að vera loksins byrjaður í prófum eftir þriggja vikna lærdómstörn. Það er alltaf ánægjulegt að geta algjörlega gleymt einhverju fagi, og ekki verra að byrja ágætlega. Þessa vikuna er soldil törn hjá mér í prófum. Föstudagur er Greining, laugardagur er Tölvunarfræði þannig að þetta verður stíft prógram, en svo er ekki próf fyrr en fimmtudag í næstu viku.
Bíllinn aftur kominn á verkstæði. Nú er hann farinn að taka upp á því að fara bara ekkert í á morgnana og í dag af öllum dögum ákvað hann að byrja á þessu alvarlega. Þ.e. þetta hafði gerst einu sinni áður í þessari viku, merkilegt nokk daginn eftir viðgerðina, en hann fór samt í gang stuttu seinna. En allaveganna í morgun fór hann bara ekkert í gang og ég á leiðinni í próf. Ég þurfti að taka leigubíl og svo eftir prófið þurfti ég að stússast í því að reyna finna út hvað væri að. Við prufuðum að gefa honum start en ekkert gerðist, svo ákvað ég að láta draga hann og Árni frændi minn kom og dróg mig á jeppanum þeirra. Það gekk furðuvel fyrir sig, einstaka svona högg þegar slaknaði á tauginni en gekk samt vel miðað við lengdina. Svo er ég kominn á planið fyrir utan verkstæðið og ætla að leggja honum, set lyklana í svo ég get stýrt, fer hann bara ekki í gang.
Við ákváðum samt að láta hann vera á verkstæðinu yfir nótt og vélvirkinn ætlar að athuga í fyrramálið hvort hann fari í gang, eða hvort það þurfi að laga eitthvað.

föstudagur, desember 05, 2003

Jæja nú er búið að laga fjandans bípið. Ég var að verða geðveikur á þessu hljóði og reyndi að kaffæra því með því að blasta græjurnar, en eins og óþolandi hljóðum er lagið náði það alltaf að láta í sér heyra.
Fyrsta úrslitakvöldið í Idol búið. Mér finnst áhorfendurnir í salnum soldið slakir. Dómnefndin sagði álit sitt á söngvurunum og sumir bauluðu á þeirra mat. Minn maður Helgi þótti víst standa sig illa en datt samt ekki út og á ég von á honum tvíefldum í næstu viku. Vonandi hættir hann að syngja einhverja ástarserenöður til kærustunnar og setur í rokkgírinn. Reyndar er diskó þannig að það gengur ekki alveg, en hann verður vonandi betri.
Dregið var í riðla í dag í undankeppni HM. Mér líst persónulega ágætlega á þennan riðil og því spurning hvort maður fjárfesti ekki í miða til Þýskalands 2006 :).

fimmtudagur, desember 04, 2003

Bíllinn minn er aftur hvatning að bloggi hjá mér. Þannig er mál með vexti að ég fór út í búð í kvöld að kaupa mér nesti. Svo kem ég aftur að bílnum og þá er ljósið inni í bilnum kveikt, sem er mjög óvanalegt. Svo opna ég bílinn og þá heyri ég svona, bíp bíp bíp bíp, stanslaust. Ekkert rosalega hátt en hljóðið kom einhversstaðar frá mælaborðinu eða þar í kring. Ég aðgæti hvort þetta gæti verið ljósin, einhver hurð opin og ýmislegt fleira en finn ekkert og bípið heldur áfram. Ég keyri heim og bípið er í gangi. Þegar ég fer úr bílnum er bípið í gangi og samlæsingin virkar ekki. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég hafi triggerað þjófavörnina þegar ég fór úr bílnum inn í búðina en ég verð að finna hvað þetta gæti verið því ég verð pottþétt geðveikur á þessu bípi ef það heldur eitthvað áfram.

þriðjudagur, desember 02, 2003

Ég var að pæla. Nú er bíllinn minn ansi skítugur enda eru nagladekkin á bílum borgarinnar búin að éta upp malbikið og tjaran og skíturinn leggst á bílana. Segjum sem svo að það komi massarigning, gæti maður sett tjöruhreinsi og eitthvað svona dæmi til að þvo bíla á bílinn og látið rigninguna bara sjá um verkið? Það væri snilld ef það er hægt því það er leiðinlegra en allt að þvo bíla.
Nú eru 17 dagar þangað til prófin verða búin og ég er eiginlega búinn að ákveða hvað ég ætla að gefa sjálfum mér í jólagjöf. Það er frí frá því að vinna í HP um jólin. Tilhugsunin um að fá að taka þátt í jólaundirbúningnum er mjög heillandi enda hef ég síðustu 4 ár unnið um jólin. Fríið á svo að nýta í að spila CM og Fifa 2004 af miklum móð og éta á sig gat. Kanski maður láti sjá sig í einhverjum jólaboðum og hitti vinina en það er spurning sko.