A site about nothing...

sunnudagur, janúar 28, 2007

Tvö blogg á sama degi, hvað er eiginlega að gerast?
Síðan ég flutti hingað út hef ég farið á talsvert marga tónleika og allir hafa þeir verið rokk og ról í einhverju formi. Þessari staðreynd langaði mig til að breyta og þegar ég sá auglýsingu á húsi Sinfóníu Boston, sem er rétt hjá mér, um tónleika píanóleikara að nafni Lang Lang þá ákvað ég að skella mér. Lang Lang þessi er 24 ára gamall og hefur verið þekktur í mörg ár því hann þykir vera undrabarn á píanó. Það hafa verið ein eða tvær umfjallanir um hann t.d. í 60 mínútum og því var það áhugavert að fá tækifæri til að sjá hann spila. Úr varð að ég og Romain skelltum okkur í dag og sjáum svo sannarlega ekki eftir því. Fyrri helmingin var rólegri stemmning og þar sem þetta var svo róandi þá rannsakaði ég augnlokin að innanverðu einstaka sinnum en þó aldrei alvarlega. Eftir hlé þá fór að færast fútt í þetta og það verður að segjast að það er eitthvað magnað við það að sjá mann spila í einhverri geðveiki og hamagang. Hendurnar upp og niður nótnaborðið og aldrei feilnóta slegin. Eftir að venjulega prógramminu lauk þá spilaði hann ekki bara eitt uppklappslag heldur 4 og fólk vissi varla hvort það átti að koma eða fara því alltaf hélt hann áfram. En það var samt frábært að sjá þetta og spurning hvort maður reyni ekki að vera duglegri að fara á klassíska tónleika. Næst á dagskránni er trúbador frá Bretlandi og svo er það Justin Timberlake.