Una talar um það að tvær stærfræðihnátur hafi verið að hallmæla íslenskukennslunni í 5.bekk. Nú var ég á eðlisfræðideild II og íslenska í 5.bekk var eitt mitt uppáhaldsfag. Hávamál eru t.d. eitthvað það magnaðasta sem ég las, ásamt Brennu-Njáls sögu því þetta er þvílíkur hafsjór af fróðleik og eitthvað sem ætti að skylda alla til að lesa. Ef ekki væri fyrir svona fög þá hefði maður morknað, því vægi við raungreinar þarf að vera og góð íslenskukunnátta er mikilvæg, sem og sögukunnátta, sem var einmitt mitt uppáhaldsfag í 6.bekk. Þar kenndi snillingurinn Helgi Ingólfs okkur, í annað skipti(hitt var í 3.bekk), og maðurinn var að brillera í tímum. Vissulega skrifar hann hratt og talar en þvílíkt magn fróðleiks sem upp úr honum kom, það var hreint ótrúlegt.
Sökum Símans þurfum við að hætta með tenginguna okkar heima, þ.e. loftnet Skýrr sem hefur verið ótrúlega góð tenging. Eitthvað vandamál er með lagnirnar að húsinu og svo virðist sem ekki sé hægt að hafa síma og internetið þar í. Þetta er náttúrulega mjög leiðinlegt og erum við bræður að íhuga hvaða kost skuli velja. Það kemur náttúrulega ekkert annað til greina heldur en sítenging og ekki með minni gagnahraða en loftnetið var með, eða 1mb. Loftnet Skýrr þetta kom til okkar fyrir um 4 árum eða svo og var þá tilraunaverkefni sem blokkin mín tók þátt í. Upphaflega átti verkefnið að standa í einhverja mánuði og okkur að kostnaðarlausu, en svo liðu árin og ekkert þurftum við að borga og unuðum við okkur mjög vel með það. Svo kom þó að því að fyrir ári þá fóru þeir að rukka. En ekki var það hátt, þó svo að þeir reyndu það, því það hefði kostað þá svo mikinn pening að rífa allan búnaðinn í burtu. En núna er þetta allt farið.
Fékk mér Gaujabita í kvöldmatinn, þetta voru núðlur með kjúklingi sem maður hitaði í örbylgjunni og bragðaðist ágætlega bara og alls ekki dýrt. En það var eitt sem ég fór að pæla í. Fyrir mörgum árum fór Gauji í þetta átak þar sem hann losaði sig við mörg kíló og kom sér í betra form. En núna þegar maður sér hann þá finnst mér hann ekkert hafa misst mikið meira síðan hann kláraði þetta átak sitt. Hann er eflaust búinn að bæta á sig vöðvamassa og eitthvað þannig en hann virðist ekkert hafa grennst mikið meira. Ég veit ekki kanski er þetta bara rugl í mér og ef einhver veit sannleikann um þetta mál þá má sá hinn sami fræða mig um það.