A site about nothing...

fimmtudagur, febrúar 27, 2003

Í kvöld var síðasti fundur brúarsmiða og var lögð lokahönd á Boga og Böðvar. Þeir líta núna allþokkalega út, þó er Böðvar soldið meira fyrir augað og virkar meira traustvekjandi. Brýrnar eru eins pakkaðar og má vera, alveg um 65g. Svo á morgun er bara að bíða og sjá. Til að fagna því að búið væri að smíða brýrnar var ákveðið að horfa á The Bachelor. Núna voru þrjár stúlkur eftir en einungis tvær rósir!!!. Brúarsmiðir skiptust í tvennt í afskoðun sinni um hverja þeir vildu fá áfram. Ég og Fjalarr vildum fá Helene áfram en Gunni og Sjonni vildu Brooke
Mér og Fjalarri til mikils léttis var Helene valin fyrst og gátum við því andað léttar. Spennan var rafmögnuð, Gunni og Sjonni lögðust á bæn, fiðrildi flögruðu i maganum á þeim. Yrði þeirra stúlka skilin eftir??
Þeim til mikils léttis var svo ekki þannig að nú er það bara barátta.

Ég komst að því í dag eftir samtal mitt við Martin að hann og Tumi bjuggu til brú sem er samblanda af Boga og Böðvari, ekki slæm blanda það. Svo í kvöld þegar ég hitti Tuma var mér tjáð að hún heitir Bender.

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Þegar maður sér þessa mynd þá rifjast upp margir góðir tímar og maður man afhverju þetta voru svona miklir snilldarþættir hehe. David Hasselhoff, snillingur.
http://www.hirespics.de/update-2003-02-23/baywatch/baywatchbabes5_mar2k3_fhm.jpg

þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Mesta vinnan þessa vikuna er að gera 2 stykki brýr fyrir keppni sem er á föstudaginn. Brýr þessar mega ekki vera þyngri en 65gr, verða að vera úr balsaviði, spanna 50cm haf og ætlast er til að þær þoli 200N. Upphaflegt takmark okkar drengja, sem auk mín eru Sjonni, Fjalli og Gunni, var að búa til eina og brjóta hana svo til að sjá hvernig þetta funkerar. Þegar á leið fór okkur að þykja vænt um þá brú sem ber heitið Bogi, því hún hefur boga sem á að gera eitthvað gott. Ekki var mikið reiknað út, svo sem eins og álag og þessháttar heldur meira pælt og allt styrkt til andskotans. Hin brúin er fallega brúin okkar og þvílík meistarasmíð er hún, hún heitir Böðvar og gerum við okkur von um að hún muni þola meira en Bogi. Í gær kláruðum við svo gott sem Boga og fórum með hana á Select að láta vikta hana á svona nammivog. Reyndist Bogi vera 68gr sem voru þvílík vonbrigði. Þannig að við tókum til við að snyrta allt af henni sem við gátum losað og þegar ég mældi hana í gærkveldi á gamaldags vog þá reyndist hún vera um 55g.
Nú er spurningin hvort við höfum komið upp um svindl hjá Select. Því það sem við snyrtum af brúnni hefur í mesta lagi verið svona 9gr. Ætli vogin hjá Select sé þeim í hag???

Hvet alla til að skrifa undir þessa áskorun, Muzik.is er það besta sem hefur komið fram á íslenskum ljósvakamiðli lengi og ég vil ekki sjá hana breytast í eitthvað Radio-x númer 2. Hér er krækjan:
http://www.batman.is/ut/11687

fimmtudagur, febrúar 20, 2003

Djöfull er ljúft að eiga ekki allt eftir á föstudegi. Föstudagar eru vanalega þannig að maður á eftir kanski skiladæmi í 1-2 fögum og klára eitthvað dæmi í öðru. Annað af þessum fögum er alltaf Autocad og helgin fer vanalega í það. Reyndar er Autocad eftir fyrir morgundaginn en maður er byrjaður aðeins. Svo er nóg að gera um helgina. Maður þarf helst að byggja eitt stykki brú, klára eina eðlisfræðiskýrslu, byrja helst á einhverjum heimadæmum eða læra fyrir prófið. Ætli maður muni sofna á árshátíðinni næsta föstudag vegna þreytu? vonandi ekki.

The Bachelor var áðan og ég horfði á hann. Hann sendi heim Angelu sem var ein mesta gellan sem eftir var af þeim 4. Ein þeirra heitir Gwen og hún er einhvern veginn með svona samanþjappað andlit, voðalega fyndið finnst mér, með mjög hátt enni. Allt í lagi falleg en ekki mín týpa. Af þeim sem eftir eru held ég með Helene, hún er svona mín týpa af þeim sem eftir eru, brúnhærð og svona.

miðvikudagur, febrúar 19, 2003

var að skoða bloggið hans páls heimissonar og rakst á þetta. Maður gæti ætlað að Páll Heimisson ynni við að selja hluti eða eitthvað þannig, eða skrifaði jafnvel svona um bækur eða myndbönd eða eitthvað. Hérna er hann að lýsa nýjustu uppgötvun sinni á fólki í bloggheimum, grípum aðeins niðrí þetta:

Albína stendur alltaf fyrir sínu. Hér hjá mínum fyrrverandi MR-kórfélaga má lesa um svaðalegar djammferðir og svo daglegt líf þessa fornleifafræðinema. Alveg must að fyrir alla sem vilja vita hvernig þeir eiga að bera sig að á djamminu.

ekki er verri lýsingin á gunnari páli:

Gunni Palli Kakólandsmaður með meiru er alltaf málefnalegur á sínu bloggi. Hér líkt og á Skólafélagsvefnum (amk. þegar við vorum í 6. bekk) skrifar hann áhugaverða pistla um málefni sem eru í deiglunni og varða okkur miklu. Aðallega um BNA og stríðsrekstur þeirra. Málefnalegt og skemmtilegt blogg hjá manni sem hefur gríðarmikla þekkingu á fjölmörgum málefnum.

Að lokum er það einhver manneskja sem ég kannast ekkert við en ennþá er palli að selja:

Valborg er með mér í lögfræði og því kom skemmtilega á óvart að hún skyldi blogga. Systir hennar hún Herdís var í 5. bekk þegar ég var í 3. bekk og var einmitt einn af verzlunarstjórum Guðjóns en ég vann einmitt í honum alla mánudagsmorgna í 3. bekk. Valborg er harður hægrisinni og lætur gamminn geysa um hvað eina sem henni dettur í hug. Skemmtilegt blogg hjá manneskju sem er óhrædd við að viðra skoðanir sínar.

Náttúruhamfarir
Bróðir minn hringdi í mig í kvöld, þar sem ég var á Þjóðarbókhlöðunni og sagði mér að koma heim með sundgleraugu. Ég varð frekar hvumsa og mundi ekkert eftir því að vera með nein sundgleraugu og spurði hann hvað hann meinti. Þá tjáði hann mér frá því að inni á heimili okkar væru staddir slökkviliðsmenn, lögreglumenn og tryggingamenn því flætt hefði inn í íbúðina okkar og þeirri við hliðina á. Ég hugsaði strax um tölvuna mína sem stendur á gólfinu eða gítarinn minn sem er vanur að vera líka á gólfinu inni í stofu, en sem betur fer var lokað inn til mín og gítarinn var í sófanum. Reyndar fór víst vatnið ekkert nálægt herberginu mínu því svo virðist vera sem einhver halli sé á gólffletinum. Svo þegar ég kem heim núna áðan er allt á tjá og tundri, og mætti halda að maður væri staddur á vindasamasta stað á jarðríki, því það eru einhver svona tæki hérna sem eru að þurrka gólfið og munu verða á í alla nótt, mömmu minni eflaust til mikillar mæðu því hún sefur soldið laust. Það var lán í óláni að mamma og bróðir minn skyldu vera heima því annars hefði getað farið miklu verr.

þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Síðasti þáttur seríunnar af Alias var í kvöld og þvílík bomba. Ég sat í sófanum og horfði á og mér leið eins og mér væri kalt þannig að allir vöðvarnir titruðu en af spennu. Það verður alltof löng bið eftir næstu seríu.

laugardagur, febrúar 15, 2003

Djöfull hlýtur aðsókn að leikjum brasilíska kvennalandsliðsins að vera mikil, þetta eru allt módel sem eru þarna inn á vellinum( sjá meðfylgjandi myndir). Hvenær ætli íslenska kvennalandsliðið geri þetta? Kanski þegar Olga er hætt?
http://www.fotbolti.net/gullkorn/brazil/index.html

Leðjuna til Lettlands, já takk. Mér fannst það snilldarbragð hjá þeim að vera svona snyrtilegir. Ég er búinn að kjósa þá og nú er bara vonandi að fleiri hafi gert slíkt hið sama. Þetta lag hjá þeim minnir mann soldið á það sem þeir voru að gera á fyrstu tveimur plötunum sem er mjög gott því það eru snilldarplötur. Svo er heiða líka með flott lag.

Autocad áfanginn hjá okkur tekur way to much time. Við teiknuðum eina mynd í dag og það tók 5 tíma. Myndin var samt heavy einföld og ég vorkenni þeim sem voru með flóknari hluti en við. Okkar hlutur var myntusími sem ég fékk í gær í vísindaferð til símans.

fimmtudagur, febrúar 13, 2003

Nostalgía
Fyrir um það bil ári var magnað kvöld. Dagurinn var árshátíðardagur Framtíðarinnar, síðasta árshátíð 1982 árgangsins. Þrjú ár á undan höfðu allir farið út að borða á einhvern stað en þetta árið ákváðu drengirnir að elda fyrir liðið. Matseðill var ákveðinn og hljómaði hann svona. Það sem á boðstólnum var: Heilsteiktar nautalundir með rjómasveppapiparsósu, pastaréttur a lá Kiddi (pasta með rjómaostasósu, skinku minnir mig og fleira gúmmúlaði) og Chicken Fajitas. Með þessu var boðið upp á rauðvín og gos fyrir þá sem það vildu. Eldað var heima hjá Heiðu Njólu og komu strákarnir fyrst til hennar og tekið var til við að elda. Svo hægt og rólega mættu gestirnir. Heiðursgestir kvöldsins voru Elías Ólafsson, Elli eðlisfræðikennari og Helgi Ingólfsson. Nú eru allir mættir og við að elda og við erum nottla ekki professional kokkar þannig við vissum ekki alveg hvenær ætti að byrja elda hvað til að þetta yrði allt tilbúið á sama tíma. Þetta virtist vera að stefna í eitthvað klúður en fyrir einhverja guðlega forsjón þá varð allt tilbúið á nánast sama tíma og við gátum borið matinn fram. Maturinn bragðaðist einkar ljúffengt og fengum við strákarnir mikið hrós fyrir. Höfðu Helgi og Elli að orði að ef við féllum um vorið þá gætum við tekið upp eldamennsku. Þetta var svo ótrúlega magnað kvöld að það gleymist seint, miklu skemmtilegra heldur en að fara á einhvern veitingastað og borga einhvern temmilegan pening fyrir mat sem gæti verið lítið skammtaður og ekki allir vildu. Svo var þetta líka mjög ódýrt því hver nemandi borgaði 2000kr og í því var allur matur og rúta á ballið.

Fór í dag í Smáralindina að horfa á Gettu Betur með Önna. Það var frekar fámennt af MR-ingum enda árshátíð í dag og vissi ég um bekki sem áttu pantað borð klukkan 5 eða um það leyti því þeir voru of seinir að panta sér borð. Svo horfði maður bara á keppnina og hún var ágætasta skemmtun. Þó finnst mér eitt skrýtið að hafa keppnina í Smáralindinni, maður hefði haldið að það væri temmileg truflun að hafa mikið af fólki og svoleiðis, krakka gargandi og eitthvað þannig dæmi.

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Lag vikunnar
Lag vikunnar er ekki beint lag, heldur svo miklu miklu meira. Þetta er þvílíkur hvalreki sem ég set hér inn fyrir ykkur að þið ættuð að bugta ykkur og beygja og lofsyngja nafn mitt. Ég set inn fyrir lag vikunnar simpson þátt úr næstnýjustu seriu og heitir þátturinn blame it on lisa. Þarna fer simpson fjölskyldan til Brasilíu og þess má til gamans geta að þau voru held ég kærð fyrir þennan þátt af brasilíumönnum, því þátturinn þótti eyðileggja allt það starf sem ferðamannaiðnaðurinn hafði lagt í að bæta ímynd Brasilíu. Einnig vil ég geta þess að þetta er einn besti þáttur sem ég hef séð og ég hló mikið og hátt.
Njótið vel

ps. þið þurfið að hafa real media spilara

Búið er að tilkynna hvaða myndir koma til greina til að hljóta óskarsverðlaun. Helst ber að nefna þrjár myndir sem en þær eru The hours með 9, gangs of new york með 10 og Chicago með 13 tilnefningar. Eins og hefur alltaf verið þá er litið soldið framhjá þeim myndum sem koma í upphafi árs. T.d. eiga þessar þrjár myndir það sameiginlegt að hafa allar komið út nú fyrir stuttu og eru því í minnistæðar, ekki man ég hvað kom út fyrir um það bil ári og myndi þarafleiðandi eiga kost á að fá verðlaun. En þó er ein mynd sem mér finnst vera litið yfir og það er Minority Report. Eina tilnefningin sem hún fær er fyrir bestu hljóðeffektana. Ég hefði jafnvel tilnefnt hana sem bestu myndina en eins og áður sagði þá eru það myndirnar sem koma frekar seint sem eru líklegastar til að hljóta þá tilnefningu.

Það sem skiptir miklu máli að mínu mati þegar maður er að velja sér bíl er það að hann sé fljótur að hitna og hafi góðan lappahitara. Ég er nefnilega með svona kerlingarblóðrás og er ansi fótkalt oft á tíðum og því skiptir þessi hlutur miklu máli fyrir mig, þ.e. lappahitarinn. Að bílinn sé fljótur að hitna er eitthvað sem ég held að allir vilji því það er ömurlegt að vera frjósa inni í bílnum þegar þú kemur út fyrst á morgnana. Það liggur stundum við að það sé kaldara inni í bílnum heldur en úti. Þannig að þetta eru tveir mikilvægir þættir. Svo er brjálaður plús ef græjurnar eru góðar, svo að maður geti nú hækkað aðeins í þeim og fílað sig. Alla þessa þrjá hluti hefur bílinn minn og telst því lúxuskerra.

Djöfull er það óþolandi að vera í lokuðum skóm allan daginn. Mér byrjar oft að hitna á löppunum og ef maður situr í tíma þá er það sure aðferð að maður sofni, því ef manni er kalt á útlimum þá eru minni líkur á að maður sofni, finnst mér. Svo vill maður ekki fara úr skónum því þá gýs upp táfýla dauðans og það eru allir orðnir svo miklar teprur í dag að það þolir ekki táfýlulykt og maður vill ekki fá á sig orð fyrir að vera einhver táfýlugaur. En annars reyni ég alltaf að fara úr skónum ef tækifæri gefst til þess, þá líður mér bara svo miklu betur.

mánudagur, febrúar 10, 2003

Tölvur geta verið meira helvítis vesenið. Um helgina þurfti ég að starta tölvunni til að ná í einhver gögn sem ég ætlaði svo að nota uppi í skóla. Tölvan fer ekki í gang. Ég reyni að átta mig í fljótu bragði hvað gæti verið að. Ég útiloka strax að rafmagnið sé farið því ég var með loftljósið kveikt, en ég finn ekkert sem gæti verið að. Þannig að ég þurfti að fara í skólann án gagnanna og þegar ég kem heim held ég áfram að rannsaka þetta. Ég aðgæti aftur allar rafmagnssnúrur, opna tölvukassann og aðgæti öll tengi og ekkert virðist vera að. Ég prufa að setja aðra rafmagnssnúru í en ekkert gerist. Svo þegar ég ýtti 2-3 í röð á start takkann þá kemur hár hvellur og það byrjar að rjúka úr tölvunni. Jíbbí. Sem betur fer var þetta ekkert alvarlegt og ég gat skipt um stykkið sem sprakk. En þetta var samt mjög leiðinlegt, ég hefði alveg viljað gera eitthvað annað við 4000þús krónurnar sem fóru í að laga þetta.
En þess má einmitt til gamans geta að mér hefur líka tekist að láta kveikja í tölvu. Þá var ég ungur og óreyndur í svona tölvumálum, þ.e. að setja inn nýja hluti og þannig og setti vitlausa snúru í eitthvað. Það skiptir engum togum að þegar ég starta tölvunni þá byrjar bara að rjúka úr kaplinum. Ég náttúrulega rýk til og ríf rafmagnsnúruna úr sambandi og blæs á eldinn, hann var ekki það mikill. Þá lærði ég mikla lexíu og hef ekki kveikt í tölvu síðan þá með einhverju fikti. Þess má einnig til gamans geta að ég notaði þennan kapal áfram og ekkert var að.

laugardagur, febrúar 08, 2003

Fyrir meira en viku sótti ég um lykilorð í íslendingabók, vinsælasta vefsvæði íslendinga um þessar mundir, og nú fyrir helgi kom loksins lykilorðið. Þar sem ekkert er net heima hjá mér hef ég ekki getað skoðað þetta svæði, en ég hef haft nasasjón af því hjá öðrum. Mér finnst þetta vera þvílíkt gott framtak. Ég man að þegar ég var svona í 5.bekk í grunnskóla þá var mikill ættfræðiáhugi hjá okkur krökkunum. Að sjá hverjir væru frændur og frænkur og þessháttar. Þá hefði verið gott að hafa þetta forrit.

Ég verð að segja að mér finnst eitt soldið fáránlegt þarna í USA, það er reyndar meira sem er fáránlegt en ég ætla bara að tiltaka eitt, og það er sjónvarpsefni. Nú þykir ekki mikið mál í þáttum framleiddum í USA að fólk sé lamið, barið og drepið, en að það sjáist brjóst kvenna eða kynlíf eða eitthvað þessháttar það þykir mikið mál. Mér finnst þessi forgangsröðun soldið skrýtin. Það hlýtur hver maður að sjá að allt þetta ofbeldi sem sýnt er í sjónvarpinu þarna úti hafi áhrif á krakkana sem horfa á þetta, þau gera sér ekki oft grein fyrir því hvað sé satt og hvað sé leikið og herma eftir. Enda er mikið að í USA, börn eru að fara í skólann sinn vopnað einhverjum brjáluðum rifflum og alsjálvirkum vopnum og dúndra niður félaga sína. En tilhvers er verið að vernda börn svona mikið við því að sjá eitthvað sem er svo eðlilegt, t.d. brjóst og kynlíf og þessháttar? Ég hreinlega held að það fari ekki illa með þau að sjá þessa hluti því þetta er miklu eðlilegri hlutir en t.d. ofbeldi. Hvort ofbeldisþættirnir eigi að virka sem einhver varnarskjöldur og sýna hversu lífið getur verið rosalegt og erfitt veit ég því miður ekki.

fimmtudagur, febrúar 06, 2003

The pain
Ég og Tommi fórum að lyfta í gær í íþróttahúsi Háskólans. Tommi var svona að sýna mér hvaða æfingar væru góðar og svona og svo gerði ég þær og tók bara ágætlega á. Það er nú langt síðan ég var að lyfta eitthvað síðast þannig að maður bjóst við jafnvel einhverjum harðsperrum. Svo um daginn í gær fann ég svona slæd fyrir því að ég hafði verið að lyfta og bjóst nú ekki við að þetta yrði mikið meira. Svo um nóttina vakna ég útaf því að ég var með svo hrikalegar harðsperrur að ég gat varla rétt úr vinstri höndinni en náði nú samt að sofna aftur. Svo í morgun þegar ég var að koma mér af stað þá var hvert verk svona tíu sinnum erfiðara en venjulega. Ég gat ekki rétt alveg úr vinstri höndinni, eða teygt hendurnar aftur fyrir mig. Sem gerði það að verkum að mjög erfitt var að komast í úlpuna og núna þegar ég sit hérna á bókhlöðunni úr henni. Þetta eru eflaust einhverjar mestu harðsperrur sem ég hef fengið. Reyndar man ég eftir öðru skipti þar sem ég fékk meiri harðsperrur en þá hafði ég verið rotaður með lyfjum og daginn eftir aðgerðina þá vaknaði ég með harðsperrur allstaðar í líkamanum. Það var ekki vöðvi í líkamanum sem fann ekki til. Mig minnir að ég hafi verið með harðsperrur í stóru tánni, svo mikið fann ég til.

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Una talar um það að tvær stærfræðihnátur hafi verið að hallmæla íslenskukennslunni í 5.bekk. Nú var ég á eðlisfræðideild II og íslenska í 5.bekk var eitt mitt uppáhaldsfag. Hávamál eru t.d. eitthvað það magnaðasta sem ég las, ásamt Brennu-Njáls sögu því þetta er þvílíkur hafsjór af fróðleik og eitthvað sem ætti að skylda alla til að lesa. Ef ekki væri fyrir svona fög þá hefði maður morknað, því vægi við raungreinar þarf að vera og góð íslenskukunnátta er mikilvæg, sem og sögukunnátta, sem var einmitt mitt uppáhaldsfag í 6.bekk. Þar kenndi snillingurinn Helgi Ingólfs okkur, í annað skipti(hitt var í 3.bekk), og maðurinn var að brillera í tímum. Vissulega skrifar hann hratt og talar en þvílíkt magn fróðleiks sem upp úr honum kom, það var hreint ótrúlegt.

Sökum Símans þurfum við að hætta með tenginguna okkar heima, þ.e. loftnet Skýrr sem hefur verið ótrúlega góð tenging. Eitthvað vandamál er með lagnirnar að húsinu og svo virðist sem ekki sé hægt að hafa síma og internetið þar í. Þetta er náttúrulega mjög leiðinlegt og erum við bræður að íhuga hvaða kost skuli velja. Það kemur náttúrulega ekkert annað til greina heldur en sítenging og ekki með minni gagnahraða en loftnetið var með, eða 1mb. Loftnet Skýrr þetta kom til okkar fyrir um 4 árum eða svo og var þá tilraunaverkefni sem blokkin mín tók þátt í. Upphaflega átti verkefnið að standa í einhverja mánuði og okkur að kostnaðarlausu, en svo liðu árin og ekkert þurftum við að borga og unuðum við okkur mjög vel með það. Svo kom þó að því að fyrir ári þá fóru þeir að rukka. En ekki var það hátt, þó svo að þeir reyndu það, því það hefði kostað þá svo mikinn pening að rífa allan búnaðinn í burtu. En núna er þetta allt farið.

Fékk mér Gaujabita í kvöldmatinn, þetta voru núðlur með kjúklingi sem maður hitaði í örbylgjunni og bragðaðist ágætlega bara og alls ekki dýrt. En það var eitt sem ég fór að pæla í. Fyrir mörgum árum fór Gauji í þetta átak þar sem hann losaði sig við mörg kíló og kom sér í betra form. En núna þegar maður sér hann þá finnst mér hann ekkert hafa misst mikið meira síðan hann kláraði þetta átak sitt. Hann er eflaust búinn að bæta á sig vöðvamassa og eitthvað þannig en hann virðist ekkert hafa grennst mikið meira. Ég veit ekki kanski er þetta bara rugl í mér og ef einhver veit sannleikann um þetta mál þá má sá hinn sami fræða mig um það.

sunnudagur, febrúar 02, 2003

Síðasta mánuðinn eða svo hefur maður verið að fá bréf þar sem er verið að benda manni á að ef maður sendi ekki bréfið áfram til 15-20 hotmail notenda þá muni reikningi manns verða lokað. Fyrstu bréfin voru soldið dodgy og maður var ekki viss hvort þetta væri satt, en sendi þetta samt. Útlit siðasta bréfsins lítur út fyrir að vera the real deal, en ég var að pæla afhverju er ég þá að fá þetta bréf í fwd skilaboðum. Afhverju hefur msn ekki sent mér bréf og sagt mér að þeir séu að gera þetta. Þetta er pottþétt gabb það hlýtur að vera. Og ef ekki, þá er maður bara í vondum málum. En ef þetta er gabb, hvað fær þá fólk til þess að vera blekkja fólk svona. Ætli það sé einhver cookies í þessu sem eru að fylgjast með því hvað maður geri á netinu? Þetta er allt hið furðulegasta mál.