Ég er víst kominn tilbaka frá Vegas og Spring Break er búið, því er nú verr og miður. Vegas var hins vegar rosalega skemmtilegt. Gott að komast úr kuldanum sem hafði verið að hrjá Bustúnir og hélt áfram eftir að ég fór yfir á Vesturströndina og að tjilla í stullum á daginn í góðum félagsskap. Það er óhætt að segja að Vegas sé svolítið spes. Ef maður pælir í því þá er eiginlega allt sem maður vill sjá á einni götu sem heitir The Strip. Þar getur maður farið til Parísar, Lake Como í Ítalíu, aftur til tíma Cesars eða heimsótt New York. Þessir staðir eru listalega vel gerðir enda eyddum við oft deginum bara að labba á milli þeirra og skoða hvað hver staður hafði upp á að bjóða. En ef farið er á einhverja af þeim götum sem liggja samhliða strippinu þá er þar ekki mikið að sjá og flest fyrir utan strippið frekar óspennandi bara, svona borgarlega séð allaveganna.
Til að spara pening þá pöntuðum við okkur tveggja manna herbergi og sváfum í því þrír. Þeir sem kunna að reikna hafa þá væntanlega fattað að einhverjir tveir deildu rúmi og úr varð að ég og Tumi kúrðum saman. Ég verð að segja að Tumi er helvíti graður á plássið í rúminu og á lakið. Enda svaf ég fyrstu nóttina á mörkum þess að falla úr rúminu og lakið huldi bara hálfan líkama minn. Þetta skánaði þó næstu tvær nætur en það voru engin vandræðaleg móment sem urðu um miðja nótt, ef einhver hélt það. Reyndar var eitt "skondið" atvik sem gerðist. Klukkan 6 um morguninn fyrstu nóttina sem við vorum þarna þá fór einhver helvítis útvarpsvekjaraklukka í gang. Ég virtist vera sá eini sem vaknaði, komst að því síðar að Tumi gisti með eyrnatappa, og reyndi að slökkva á einhverju mexikósku blaðri sem blastaðist úr þessu. Eftir pínu stapp við þetta þá tókst mér loksins að finna út hvernig ætti að slökkva á þessu og gat því sofnað aftur. Næstu nótt þá gerist þetta aftur sem er furðulegt því ekki man ég eftir að hafa kveikt á helvítinu. Núna vaknaði Kári líka, Tumi var enn með eyrnartappana, og þar sem ég ligg þá sé ég hann berjast við klukkuna að reyna að rífa hana úr sambandi sem var mjög kómískt. Á endanum náði hann einhvern veginn að slökkva á henni án þess þó að rífa hana úr veggnum.
Á mánudeginum fór svo Tumi aftur til Sí-Atla, Seattle og Mary Frances en við náðum samt að kíkja á Hoover Dam í bongó blíðu. Svo eftir að hafa skutlað af okkur Tuma fórum við Kári áleiðis til Flagstaff þar sem við eyddum næstu tveimur nóttum.
Þriðjudagurinn var svo nýttur í að skoða Miklagljúfur sem stendur fyllilega undir nafni og er hálf erfitt að lýsa nema bara að sjá það.
Svo á miðvikudeginum var flug aftur til Boston. Veðrið í Vegas þennan dag var í kringum 72 gráður fahrenheit en þegar ég lenti í Boston morguninn eftir þá var 17 gráður fahrenheit, djöfulsins kuldi hreint út sagt.
Síðan ég kom aftur hef ég aðallega verið að fara út að borða, enda er maður í fríi og jú að sofa líka. Svaf aðeins út á sunnudeginum.
Myndir munu koma seint og um síðar meir, þar sem ég er latur en þær eru komnar á facebook fyrir þau ykkar sem hafa aðgang að því.