A site about nothing...

föstudagur, október 27, 2006

Ég gleymdi í síðasta pósti að tala um eitt skondið atvik sem gerðist á meðan dvöl minni stóð í Seattle. Þannig var mál með vexti að kvöldið sem Tumi náði í mig á bíl þeirra Atla þá kíktum við aðeins út á lífið. Á leiðinni heim þá er eitthvað leiðinlegt í útvarpinu þannig að Tumi setur í gang geisladiskinn sem þar var og lætur það fylgja með að diskurinn hafi verið fastur í bílnum í þrjá mánuði eða svo og þeir hafi ekki náð honum út. Víkur nú sögunni að því þegar Tumi er að skutla mér á flugvöllinn fyrir heimförina. Aftur var eitthvað leiðinlegt í útvarpinu þannig að ég ákveð að reyna að ná diskinum út. Ég ýti á þartilgerðan takka og diskurinn kemur örlítið út en samt nægjanlega þannig að ég náði gripi á honum og togaði hann út. Tumi var ekki lítið hlessa að ég hefði náð þessu en jafnframt mjög ánægður líka, enda ekki gaman að geta bara hlustað á einn disk.

miðvikudagur, október 25, 2006

Þá er maður kominn heim eftir frábærlega vel heppnaða ferð til Seattle þar sem ég meðal annars knúsaði annars Tuma. Það var sko nóg gert og ætla ég að reyna að gera ferðinni stutt skil hér.

Föstudagurinn fór nú í mest lítið enda lenti ég ekki fyrr en á miðnætti eftir tveggja tíma seinkun í Boston. Við náðum nú samt að kíkja aðeins út og maður fékk að hitta einhverja af vinum Tuma þarna úti.
Laugardagurinn var stútfullur af viðburðum og var byrjað á því að keppa í þrír á þrjá í fótboltamóti í þvílíkt góðu veðri. Þetta er tournament og voru leiknir tveir leikir þarna. Fyrsti tapaðist en sá seinni vannst. Eftir þann hamagang var farið í golf á par þrjú velli. Það var algjör snilld enda fátt betra en golf í góðu veðri á góðum velli með góðum félagsskap. Um kvöldið var svo kíkt út að borða á Cheesecake factory, sem var mín fyrsta ferð þangað, og varð ég ekki fyrir vonbrigðum með það. Þaðan var farið á kareokí bar þar sem lagið var tekið og áttum ég og Tumi magnaðan dúett á Hey Jude.
Sunnudagurinn byrjaði á því að Tumi fékk tvær klappstýrur fyrir fótboltaleik sem hann keppti í um morguninn. Klappstýrurnar vorum ég og Mary Frances en við hefðum svo sem getað látað heyra meira í okkur. Eftir leikinn var haldið á markað niðrí bæ sem heitir Public Market og er mjög skemmtilegur markaður með allskonar handverk, blóm og mat. Þar er t.d fyrsti starbucks-staðurinn og auðvitað var tekin mynd fyrir framan hann þó svo ég hafi nú ekki fengið mér 10 dropa.
Svínið sem sést á myndinni er vinsælt ljósmyndaefni hjá gestum markaðarins en vanalega sitja yngri gestir markaðarins á svíninu. Tumi vildi þó endilega að ég sæti þar og eftir nokkrar fortölur ákvað ég að láta undan og lét taka af mér mynd með svíninu. Svo um kvöldið var horft á upptöku af United vs liverpool sem var fyrr um daginn og það var ekki leiðinlegt að sjá mína menn pakka liverpool saman.
Á mánudeginum kíktum við svo á skólann hans Tuma, University of Washington. Svæðið sem skólinn hefur til umráða er flennistórt og virkilega fallegt með frábæru útsýni. Það er mikið af flottum byggingum á skólalóðinni og er t.d. eitt af bókasöfnunum virkilega fallega hannað hús. Ég rölti aðeins um svæðið á meðan Tumi var í tíma og lenti m.a. í einhverri stelpu sem vildi áköf segja mér hvernig heimurinn væri að farast og eitthvað þannig. Ég tók gamla síminn er að hringja á þetta og forðaði mér, eftir 5 mínútna ræðu af hálfu stelpunnar sem horfði á mig eins og ég væri hálfviti því ég vissi ekki um allt hið vonda sem væri að gerast.
Að þessu ævintýri loknu fórum við í Ride The Ducks sem er túr um borgina þar sem sagt er frá sögu hennar í ljótum bíl/bátum. Guide-inn okkar var með lélegasta og mest pirrandi gervihlátur sem sögur fara af og fimmaurabrandararnir hans voru jafnvel verri. Það var hins vegar gaman að vera úti á vatninu með Seattle skyline-ið sem útsýni.
Að lokum vil ég þakka Tuma og Atla kærlega fyrir hýsinguna og gestrisnina og Tuma fyrir góða skipulagningu á frábærri ferð.


Annars þá voru midterms í seinustu viku og er ég núna búinn að fá úr þeim. Þau gengu bara mjög vel sem er frábært þvi þau hafa ágætis vægi upp í lokaeinkunnina. Í OR kúrsinum mínum fékk ég 97/100 og í lík og töl kúrsinum fékk ég 92/100 þannig að maður getur ekkert kvartað.

fimmtudagur, október 19, 2006

Ég hef bloggað nokkrum sinnum um einn kúrs sem ég er að taka og mér þykir hafa verið kenndur fremur illa. Nú er búið að skipta honum út og sá sem var fenginn í staðinn kenndi mér meira á þeim 15 mínútum sem ég sat í tímanum hjá honum, er að fara í mikilvægt midterm á morgun sjáiði til, heldur en hinn sem fyrir var. Þetta er víst óheyrt um í sögu skólans að kennara er skipt út á miðri önn en eitthvað varð að gera. Hinn gaurinn er fínn maður og allt það en kennsluaðferðir hans voru hreint út sagt mjög lélegar. Mér líst hins vegar vel á þennan og hann hefur verið að kenna svipað efni þannig að hann ætti að vita sínu viti. Reyndar tók ég líka eftir á þessum 15 mínútum að hann er soldið óskipulagður þegar kemur að því að skrifa á krítartöfluna og því verður maður að fylgjast vel með og glósa almennilega. Spurning hvort þetta verði svona Helgi Ingólfs #2 þar sem hann ritaði á af miklum móð á töfluna og jafnframt dældi út fróðleik sem maður varð að ná líka ætlaði maður að standa sig hjá honum.

Fyrst maður hefur mikið verið að læra upp á síðkastið þá er ýmislegt sem fær að fljóta í gegnum spilarann. Eitt af því sem ég hef verið að hlusta hvað mest á er íslenska tríóið Flís sem gaf út diskinn Vott í fyrra og inniheldur íslenskar dægurlaga perlur í jazz útsetningum og meistaralega spilaðar í þokkabót. Þessi diskur er skyldueign á öllum almennilegum heimilum og perfect fyrir hipp og kúl matarboðin sem maður ætlar að halda.

þriðjudagur, október 17, 2006

Reiður, svartur maður

Eitt af því mest óþolandi hérna úti eru mennirnir og konurnar sem eru úti á fjölförnum stöðum og eru að reyna að troða sinni skoðun upp á þig. Vanalega biðja þessar manneskjur þig um andartak af þínum tíma til að tala um það málefni sem þeim stendur næst og alltaf endar þetta á sama veg, þú verður að gefa pening til málefnisins. Ég lenti í einum svona gaur í dag, þess vegna er titillinn kominn, þegar ég var í mesta sakleysi mínu að njóta góða veðursins á Boylston stræti. Félaginn vatt sér hratt upp að mér þegar hann sá mig og spurði:
"Could I talk to you for a couple of seconds about racial discrimination"
Gaurinn var algjörlega in my face þegar hann sagði þetta og augu hans gáfu mér augntillit dauðans þegar hann reyndi að stara í gegnum svört sólgleraugu mín og inn í augun á mér. Ég sagðist ekki hafa tíma til að spjalla við hann, enda hafði ég lent i honum áður og reyndar félaga hans líka sem var ekki jafn mikið in your face (og ég lagði þá einhvern pening til málefnisins). En aftur að sögunni. Gaurinn vildi ekki gefast upp en ég þráaðist við og sagði að ég hefði ekki tíma meðan gaurinn elti mig bókstaflega. Að endingu gafst hann upp, enda gaf ég honum ekki tækifæri á neinu öðru.

Þetta leiddi samt til þess að ég fór að hugsa að sú afstaða mín að vilja ekki tala við reiðan, svartan mann um racial discrimination gæti virkað á hann sem ég væri á móti svörtu fólki, sem ég er algjörlega ekki. Mín afstaða var miklu meira sú að ég vissi hvert samtalið myndi leiða og ég sem fátækur námsmaður get ekkert verið að gefa allar mínar krónur í þetta málefni. Ég fattaði reyndar ekki á þessum tíma að segja honum að ég hefði látið fé af hendi rakna til félaga hans.

Annars þá var ég að koma úr mínu fyrsta midterm og ég held að það hafi bara gengið ágætlega. Næsta próf verður þó miklu þyngra en gulrótin fyrir það að læra fyrir það próf er að á föstudagskvöldið flýg ég til Seattle þar sem ég ætla að knúsa Tuma aðeins.

sunnudagur, október 15, 2006

Fólk sem er að fylgjast með nýjustu seríunum af Lost, Despó og Grey ættu að tjekka á ABC.com. Þar er hægt að horfa á nýjustu þættina ókeypis, allaveganna ef maður er í bandaríkjunum. Vildi bara láta ykkur vita.

Annars er mest lítið að frétta. Framundan eru midterms og því hafa seinustu dagar einkennst svolítið af því að læra fyrir það, enda er vægi prófanna þokkalegt. Mitt fyrsta er á morgun og ég er ágætlega stemmdur fyrir það. Næsta er á fimmtudaginn og þar verð ég að læra aðeins meira því ég tel að heimaverkefnin muni á engan hátt endurspegla prófið. Svo fer ég til Seattle á föstudeginum, kem aftur á þriðjudagsmorgni og fer svo í heimapróf á miðvikudeginum. Svo er fleira að hlakka til, t.d. halloween og afmæli Whitney, kanadísku vinkonu minnar. Þemað er 80's og hef ég verið ráðinn sem sérlegur tónlistarráðunautur fyrir það partý. Reyndar sama kvöld og afmælið er þá eru Hot Chip að spila og ég ætla þangað en svo mæti ég galvaskur í 80's gallanum sem ég fer væntanlega í á tónleikana líka.

Reyndar er áhugavert að minnast á eitt í lokin sem mismun á milli tveggja eða fleiri menningarheima. Þegar ég og Vanni héldum okkar fyrsta partý þá ætlaði ég nú bara að taka íslensku leiðina á þetta, redda snakkinu og eitthvað þannig en láta fólk koma með drykki fyrir sig sjálft. En þegar ég ræddi um þetta við Vanni þá sagði hann að þeir sem hann þekkti myndu eflaust gera ráð fyrir að drykkir væru í boði. Þetta þótti mér ansi merkilegt. En líklega er okkar afstaða öðruvísi útaf okurverði á áfengi.

Fyrst ég er byrjaður að tala um verð þá er vert að minnast á að eini marktæki munurinn sem ég finn á matvöruverði hérna er á kjöti. Brauð er ef eitthvað er dýrara, ostur er ekki gefins, gos er aðeins ódýrara og snakk er ódýrara en ég kaupi ekki mikið af því. Reyndar er allur skyndibitamatur langtum ódýrari hér enda fáránlega dýr heima.

þriðjudagur, október 10, 2006

Ég ætlaði varla að ná upp á nef mér í dag og það tvisvar. Fyrra skiptið var þegar ég fór í bankann með tvo reikninga og ætlaði að borga þá en var tilkynnt að svoleiðis væri nú ekki gert í bankanum. Heldur ætti ég að senda ávísun í pósti til fyrirtækisins. Talandi um steinaldartækni. Svo í seinna skiptið þá var ég staddur í Macy´s að borga annan af þessum reikningum og ætlaði bara að skella þessu á debetkortið en nei þá var mér tilkynnt að stórverslun eins og Macy´s tæki ekki við debetkorti. Þá mundaði ég kreditkortið en aftur var svarið nei. What the fuck!. Maður gæti haldið að þetta væri árið 1980 eða eitthvað.

Ansi viðburðarrík helgi er að baki og var mikið gert. Í mjög stuttu máli var eftirfarandi gert:
Föstudagur: Fór á Rumour sem er posh klúbbur. Hann var leiðinlegur.
Laugardagur: Út að borða, bíó og drykkir með Olgu og Garðari. Enduðum í Cambridge á Middle East og löbbuðum þaðan heim.
Sunnudagur: Fór með Olgu og Garðari í bongóblíðu á íslendingahitting í Cambridge. Seinna um kvöldið þá var það partý, uppáklæddur í skyrtu, bindi og fínu skónum og þaðan hélt fólk niður á höfn þar sem snekkja beið þeirra. Við tók matur, tónlist og dans frameftir nóttu, eða til 1:30 (allt lokar 2 hérna). Kynntist ógeðslega leiðinlegum breta og sá synkróníseraðan dans hjá indverjum við MC Punjabi lagið, það var fyndð/töff.

Framundan eru síðan midterms og ferð til Seattle og eitt midterm eftir heimkomu.

Að lokum þá vil ég hvetja alla sem vilja heyra í Óttari sínum að bjalla í 4990701 og heyra hljóðið í kappanum. Þið borgið bara innanbæjartaxta þannig að þetta er ekki spurning.

laugardagur, október 07, 2006

Þar sem ég nennti ekki að læra, þá ákvað ég að jútjúba þessar auglýsingar sem er verið að sýna í USA og þið getið séð hér fyrir neðan. Þetta eru flottustu auglýsingarnar hérna að mínu mati.

Don LaFontaine GEICO Spot

Þessi rödd er bara of svöl.

Mark Cuban HP Spot

Eigandi Dallas Mavs.

Keanu HP Commercial

The Chosen one.

HP Personal Again Pharrell (Intergalactic Artist)

Núna er það Pharrell Williams (NERD meðlimur og sóló-artisti)

HP Personal - Jay-Z (CEO of Hip-Hop)

HP auglýsingin með Jay-Z.

fimmtudagur, október 05, 2006

Ameriga

Það er nú margt skondið í ameríkunni og eitt af því er kurteisin í fólki. T.d. á bókasafninu þá er svona suggestion wall þar sem notendur safnsins geta komið með ábendingar. Kerfið virkar þannig að notandinn skrifar eitthvað sem honum finnst betur mætti færa og svo er það prentað, þ.e. ábendingin, ásamt svarinu frá bókasafninu. Ég rakst á þetta í gær og það var mjög skondið að lesa þetta. Fólk var almennt frekar pirrað yfir allskonar hlutum og sumir voru mjög reiðir og létu það í ljós vanalega með að rakka niður safnið á einhvern hátt. Það fyndna var samt svarið sem vanalega var alltaf voða almennilegt og byrjaði á því að þakka fyrir koma með svona góða tillögu (þó svo tillagan hafi verið að rakka niður safnið), þó svo hún hafi alls ekki verið góð.

Annað sem er fyndið eru auglýsingar, sérstaklega fyrir framboð. Hérna er minna gert úr því að upphefja sjálfan sig og meira gert af því að rakka hinn niður. "XXXX said that smoking crack is ok, I'm against it" Svo fylgir vanalega texti í lokin sem segir "payed for by the YYYY for governor fund". Einnig þykir ekki tiltökumál þegar vörur eru auglýstar að rakka keppinautinn. Ein auglýsing frá Quiznos er t.d. með Subway og Quiznos bát hlið við hlið og allir mæra hvernig kjötið flæðir úr Quiznosnum á meðan Subwayinn sé lítill og aumingjalegur. Sjensinn að svona auglýsing yrði leyfð heima. Fyndnustu auglýsingarnar eru samt "heimatilbúnu" auglýsingarnar t.d. frá lögfræðifyrirtækjum, sem eru svo fáránlega illa gerðar og leiknar að það er hreinlega kómískt.

Annars þá sýnist mér stefna í uppreisn gegn kennaranum í einum kúrsinum mínum. Ég hef eflaust minnst á þann kúrs þrisvar hingað til útaf því hvað hann er lélegur. Ég held ég geti án vafa sagt að ég gæti kennt þennan kúrs betur þar sem efnið er að stórum hluta Hagverkfræði auk fleiri fjármálalegra efna. Ég er einmitt á leiðinni að semja eitt stykki bréf og senda yfirmönnum deildarinnar.

miðvikudagur, október 04, 2006

European Large = American Medium?

Eitt skondið sem ég hef rekist á hérna er það að þegar ég versla föt að þá vanalega enda ég á því að kaupa medium í stað large sem ég geri vanalega i Evrópu. Nú eftir því sem ég best veit þá eru small, medium og large eflaust mjög svipuð eftir því hvar þú ert í heiminum, nema ef vera skyldi Zöru búðirnar, og því hefur þetta komið mér nett á óvart. Ég hef verið að meta hvort kaninn í ljósi offitu hafi ákveðið að endurskilgreina stærðir svo að fitubollurnar fengu ekki samviskubit að vera í XL eða XXL eða eitthvað verra og væru númeri minna en vanalega. Þetta minnir mig á skemmtilega auglýsingu í strætóunum í Köben og nágrenni frá fatafyrirtækinu Stóra Róbert eða Róbert Bangsa (man ekki hvort). Í þeirri verslun eru seld föt fyrir stóra karlmenn og konur og var búið að skilgreina stærðið >(lesist stærra en)XXXXL með nýjum bókstöfum sem ég því miður man ekki. Líklegast þykir mér að þetta hafi verið gert til að eigandi fatanna fengi ekki jafnmikið sjokk þegar hann/hún færi í XXXXXXXL peysuna sína.

Annars er alltaf pirrandi þegar eitthvað vekur kátínu manns og maður ætlar sko að muna það og svo þegar sest er við tölvuna að blogga þá er það löngu gleymt.

Komst að þvi í dag að ég mun missa af homecoming hérna í NEU því ég verð í Seattle. Þess vegna mun ég ekki sjá hver verður krýnd Homecoming Queen eða fótboltaleikinn sem verður á sunnudeginum. Einnig mun ég ekki geta tekið þátt í 4 daga dagskránni sem er skipulögð með skrúðgöngum og ég veit ekki hvað.

Svo verð ég að minnast á merkilega lífsreynslu sem ég lenti í á föstudaginn. Ég hef tekið eftir að margir Íslendingar í USA blogga um það hversu oft þeir lendi í því að Kanarnir slái um sig með því að vita að Ísland er grænt og Grænland er ís. Eftir að hafa verið í mánuð hérna hafði ég aldrei lent í þessu, fyrr en á föstudaginn. Þá kom ein mannvitsbrekkan með þetta og ég laug að henni að þetta væri plott hjá okkur til að hafa landið útaf fyrir okkur. Stelpan trúði mér reyndar ekki.

þriðjudagur, október 03, 2006

It's crunch time

Shit, var að uppgötva að það eru einungis 13 dagar þangað til ég tek mitt fyrsta midterm próf. Nú gildir að fara að læra eins og mófó og reyna að massa midtermin því þau þónokkuð af lokaeinkuninni. Að því er ég best veit þá fer ég bara í tvö, ég held að lélegi kennarinn minn geti ekki prófað okkur í neinu því hann hefur voða lítið kennt okkur so far. En það er tilhlökkunarefni líka framundan því eftir 17 daga, held ég, er förinni heitið til Seattle að berja goðið augum. Hann er búinn að lofa mér þvílíkri dagskrá þannig að ég er farinn að hlakka til. Honum vil ég tileinka þetta lag, því þetta er svona lag sem hann fílar. Það heitir I Swear og er með The Rushes. Það var Sara sem hjálpaði mér að finna það einhvern tíma í maí á þessu ári eftir mikla leit að minni hálfu og fær hún bestu þakkir fyrir fundvísina.

Maður er kannski soldið seinn í þessu en ég þekki þrjár manneskjur sem áttu afmæli núna á allra síðustu dögum. Fyrst ber að nefna móður mína sem átti merkisafmæli og kaus að fagna því í Tyrklandi með vinkonum sínum. Svo er það systir mín sem átti afmæli í dag, annan okt, og svo er það góðvinkona mín hún Anna Regína en hún kaus einmitt líka að dvelja erlendis á afmælisdeginum. Til hamingju allar :)

Á afmælisdegi móður minnar, 30. sept, þá héldum ég og Vanni partý og þetta var sko fjölmennt partý. Allra þjóða kvikindi létu sjá sig en mest var þó af íslendingum. Þegar mest var þá mátti finna fólk frá; Íslandi, Ítalíu, Frakklandi, Þýskalandi, Kanada og Spáni. Svo gott var partýið að fólk fór eftir að gestgjafarnir voru báðir sofnaðir.