A site about nothing...

laugardagur, ágúst 20, 2005

Erum við að tala saman eða hvað? Fór í próf í hagverkfræði í gær og fannst mér bara ganga mjög vel. Mæti síðan í vinnuna og sé póst frá einum af þeim einstaklingum á kollegium í Lyngby sem sér um að framleigja herbergi. Pósturinn var frá þriðjudeginum, ég hætti hálfþrjú þá og fór að læra, kom pósturinn svona 20 mínútum eftir að ég hætti vinnu þann daginn. Gaurinn sagðist hafa herbergi handa mér á William Demant kollegiinu sem er nýjasta kollegiið þarna og ég hefði fáa daga til að taka ákvörðun, gæti sent póst ef mig vantaði að vita eitthvað. En hann bað mig um að vera fljótan að taka ákvörðun því það væru fleiri sem væru áhugasamir. Ég dreif mig að senda póst og vonaði innilega að herbergið væri laust ennþá og ég hefði ekki misst af þessu tækifæri. Svo þegar ég var búinn að senda póstinn þá ákvað ég að reyna að finna símanúmerið hjá honum sem tókst og ég hringdi út og herbergið var laust. Ég stökk á það og er því húsnæðis hausverkur minn úr sögunni :D.
Svo um kvöldið var 6-Y partý heima hjá Söru. Þar var komið margt gott fólk og gaman að hitta þá sem maður hittir svona sjaldnar. Svo fór allur hópurinn, vorum svona 15-17 niður í bæ á Hressó þar sem maður tjúttaði allsvakalega og svitnaði eins og maður væri í brennsluæfingu. Enda var ég hálfklístraður þegar ég vaknaði í morgun. En þetta var virkilega gaman og dagurinn í gær bara yfir höfuð snilld.

Nú eru 5 dagar þangað til ég fer út.