Allt í plati, fyrsti aprílJá maður er vondur. Ég ásamt Gunna B og Adda Hjartar skipulögðum aprílgabb til að láta fólk hlaupa apríl. Þannig er mál með vexti að það átti að vera fundur fyrir útskriftarnemendur í þriðja árs stofunni. Okkur datt í hug að plata fólk og segja að þar sem 66°Norður vildi kynna peysur sem við erum að selja, fyrir fleiri deildum að fundurinn myndi flytjast þangað. Þá þurfti að láta, Huldu, Hiddu og Þórhildi vita af gabbinu því ef einhver spyrði þær yrði allt ónýtt. En svo á fimmtudeginum var peysumátun í stofunni og þar fór það. Við veltum fyrir okkur hvernig við gætum blekkt fólk og þá datt okkur í hug Vélabrögð. Tryggvi Jóns var búinn að senda póst fyrr um daginn sem sagði að sökum óviðráðanlegra ástæðna kæmi blaðið ekki fyrr en á mánudag. En ég sendi út póst þar sem ég sagði að hringt hefði verið í Tryggva og prentsmiðjan kæmi blaðinu út þar sem þeir væru líka að gera blað fyrir aðra deild og þeir vildu koma báðum blöðunum út. En það var pínu skilyrði, við þyrftum að sækja blaðið út í Árnagarð. Þannig að ég bað alla að mæta þangað klukkan 12:20 og ná í blaðið og svo yrði fundurinn eins og til stóð. Það voru svona 10-15 manns sem keyptu þetta og fóru yfir í Árnagarð og svo komum ég og Tryggi, ég þurfti að fá hann í lið með mér til að eyðileggja þetta ekki, svona 10 mín seinna, með ís í hönd og sögðum fólki að þetta væri gabb.
Seinasta vísindaferð mín og okkar flestra á þriðja ári í gær í HÍ, nema við förum í mastersnám. Ferðin var farin í flugkerfi og var ein besta sem ég hef farið í. Stutt kynning og svo mátti bara rölta um fyrirtækið og spjalla við starfsmenn. Eftir þetta kíkti ég með Inga Sturlu, Guðbjörgu og Svölu á Subway og þaðan á Pravda, sem var líka svona í eitt af síðustu skiptunum í langan tíma sem maður fer þangað. Svo fórum við þónokkur á ball með Ný dönsk á Nasa og það var virkilega gaman þar, góður félagsskapur, góð tónlist og góð stemmning. Ekki sakaði að það kostaði einungis 500 kall inn.
Fór í kvöld á snilldarmynd, the life aquatic with steve zissou. Allt við þessa mynd er gott. Sagan fær að njóta sín, karakterarnir fá tíma til að þróast, tónlistin snilld og svo er Bill Murray snillingur. Hann hefur verið þvílíkt on a roll upp á síðkastið. Ekki sakar fyrir að Wes Anderson leikstýrir en myndir hans eru vanalega soldið öðruvísi en gengur og gerist í hollyvúdd. Virkilega góð mynd sem auðvelt er að mæla með að fólk fari og sjái.