A site about nothing...

laugardagur, apríl 23, 2005

Klukkan er að skríða í 4 að nóttu til og hvar er ég? Jú nema hvað á VRII. Ég, Cheeba og Tryggvi Jóns erum að leggja lokahönd á hermunarverkefnið okkar sem við eigum að kynna eftir eina 6 eða 7 tíma þannig að augljóst er að ekki verður mikið um svefn í nótt. En eitt ber þó að hafa í huga að þetta er eflaust án vafa seinasta skiptið sem maður er langt frameftir nóttu hér á VRII.
Annars minnir mig að ég ætlaði að blogga um eitthvað voða sniðugt en heilinn er hálfsofandi þannig að ég man það ekki í augnablikinu.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Ég er búinn að vera í svona furðulegu "ástandi" varðandi vinnu þessa seinustu viku. Þannig er mál með vexti að ég fór í atvinnuviðtal hjá Orkuveitu Reykjavíkur í seinustu viku fyrir sérverkefni sem þeir hafa. Hitti ég þar deildarstjórann fyrir þetta verkefni og einhvern úr starfsmannahaldi. Svo eftir þann fund fór ég með deildarstjóranum og við ræddum betur um verkefnið svo ég vissi örugglega hvað ég væri að fara í og vildi hún vita hvort ég gæti gert þetta. Ég játaði því auðvitað og svo spjölluðum við eitthvað og hún var voðalega jákvæð og sagði nánast allt um það að ég væri ráðinn nema "þú ert ráðinn". Svo vissi ég að í þessari viku ætluðu þeir að klára að ganga frá ráðningum en ég var ekki viss hvort ég væri ráðinn af því ég hafði aldrei heyrt "þú ert ráðinn" heldur sagði deildarstjórinn mér að koma í byrjun maí svo ég gæti "fílað mig" á staðnum(þarna var hún að vísa í talsmáta unga fólksins), svo ég vitni í hana og orðið rólegri varðandi verkefnið áður en ég færi út. Ok eins og þið getið kanski lesið úr þessu þá virkar þetta nokkuð augljóst að maður sé ráðinn en einhvern veginn vill maður heyra orðin, þú ert ráðinn. Svo líður þessi vika og ég fer að fá efasemdir þannig að í dag ákvað ég að senda póst og spurði deildarstjórann út í eitthvað sem hún ætlaði að tala við mig um en hafði ekki gert. Svo fæ ég svar þar sem ég fæ upplýsingarnar og hún biður mig um að hafa samband við sig 3. eða 4. maí. Þannig að ég er víst ráðinn, jei jei jei. Svo sakar ekki að maður þekkir einhverja sem verða að vinna þarna líka.
Maður er óneitanlega ánægður að loksins komast frá Hans Petersen og fá að vinna við eitthvað tengt námi manns. Einnig var OR sá staður sem ég vildi helst vinna hjá í sumar og ég veit að mjög margir sóttu um þannig að þetta hressir aðeins upp á egóið.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Á föstudaginn fór ég og lét skipta um dekk á bílnum. Þvílíka ró og frið hef ég ekki upplifað í lengri tíma þegar ég loksins hætti að heyra hvininn sem myndaðist þegar naglarnir runnu eftir götunni. Þetta var fáránlega góð tilfinning. Svona eins og þegar það er eitthvað lágt suð sem maður hættir að taka eftir eftir smátíma en er til staðar og svo loks finnur maður þegar það hættir alveg hversu gott það er. Þannig leið mér á föstudaginn.
Þessi helgi fór síðan í það að vinna í hermunarverkefninu sem á að skila næsta laugardag. Það má segja að við höfum verið á sama stað i verkefninu frá því á laugardagsmorgun og fram á sunnudagskvöld þegar loksins eitthvað gerðist. Svo voru nú fleiri í skólanum að gera þetta og margir hverjir hugsuðu kennurunum þegjandi þörfina. Það er ansi erfitt að vinna svona viðamikið verkefni þegar kennarinn er svo ekki einu sinni til staðar og allt pikkfast.

laugardagur, apríl 16, 2005

Hafi mig einhvern tíma langað til að sjá allan Hafnarfjörð og þá meina ég allan þá fékk ég tækifæri til þess í gær. Sama hversu lítil gatan var, ég sá hana. Þannig er mál með vexti að ég og Ingi Sturla bárum út Vélabrögð 2005 í gær og okkar hverfi var allur Hafnarfjörðurinn en einungis um 230 blöð eða svo. Þar sem við erum í pulsuverkfræði beittum við lógískri bestun á þá leið sem við fórum að bera blöðin út. Við sorteruðum blöðin eftir hverfum, svo eftir götum í hverfunum og þar næst eftir húsanúmerum. Svo með liðsinnis korts og hyggjuvits röðuðum við blöðunum í þá röð sem þau myndu vera borin út í. Það verður að segjast að leiðin hefði varla geta verið betur valin og var rúnturinn okkar, sem tók reyndar um 6 tíma með klukkutíma í matarhlé, nánast bara bein leið og ekkert að hringsóla. Þannig að þarna fékk ég frábært tækifæri til að sjá þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Firðinum auk þess sem maður naut útsýnisins enda Fjörðurinn fallegasti bær landsins.
Svo í gærkveldi eftir að hafa borið út þetta blað og kíkt í World Class skellti ég mér á kvikmyndahátið með Einar, sem ég hafði ekki séð í svona 2 mánuði, á myndina Der Untergang. Hún fjallar um seinustu daga Hitlers og þá geðsýki sem ríkti í byrgi hans. Sagan er nokkurn veginn sögð frá sjónarhorni einkaritara Hitlers, Traudl Junge sem er þokkalega hot þ.e. allaveganna leikkonan sem lék hana. Og ef mark er takandi á þessari mynd þá var Eva Braun úr tengslum við raunveruleikann fannst mér því hún vildi bara halda fyllerí og dansa þegar Rússarnir voru skammt frá. Göbbels og frú voru geðsjúk og minnti Göbbels mig á dreng sem vill viðurkenningu frá föður sínum en fær ekki. Það var mjög áhugavert að sjá þetta frá þessu sjónarhorni því mér hefur alltaf þótt seinni heimstyrjöldin eitt áhugaverðasta tímabil mannkynssögunnar og hafði virkilega gaman af því að læra um hana í MR. Annars er verst hvað maður hefur lítinn tíma og er fátækur því þessi hátið er með þvílíkt mikið magn af áhugaverðum myndum sem gaman væri að sjá.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hnéblogg
Menn báðu um þetta og því verður bloggað um þetta. Þannig er mál með vexti að fyrir svona þremur vikum fór ég að finna til í hnénu á mér af einhverjum ástæðum sem eru mér ókunnugar. Kannski tók maður svona hrikalega á því í klassanum að hnéð ákvað að kvarta, ég veit ekki, en allaveganna þá var það ansi slæmt. Ég fann til í hnénu þegar ég labbaði en ákvað samt að láta reyna á það í fótboltanum á miðvikudagskvöldum í sömu viku. Það var ekki sniðugt!. Hnéð versnaði ef eitthvað var, því ég var í sífellu að bomba á markið úr öftustu línu, þar sem ég var markmaður vegna þess að ég vildi ekki reyna á hnéð of mikið með hlaupum. Ekki alveg klárasti gaurinn á svæðinu. Jæja líður vika og hnéð er aðeins farið að sýna batamerki þegar ég fer aftur í fótbolta á miðvikudagskveldi. Við erum eitthvað að bíða eftir einhverjum og ég tek skot á markið og fann hvernig hnéð fór í sama ástand og það hafði verið í fyrir svona viku. Ég spilaði þó allan tímann en hnéð var ekki gott. Svo í seinustu viku ákvað ég að vera klár strákur og sleppa fótboltanum auk þess sem ef ég fór að æfa gerði ég engar lappaæfingar. Þetta er greinilega að bera árangur þar sem hnéð virðist vera betra, sjö níu þrettán. T.d. í gær gat ég tekið fótaæfingu án þess að finna mikið fyrir því en ég hef ekki enn látið reyna á hnéð með hlaupum síðan það varð betra. Nú er stóra spurningin hvort ég eigi að reyna á það á morgun.

Það var orðið löngu tímabært að bæta Einari "Odda" Odds inn á tenglalistann og er það nú gjört. Kíkið á kallinn. Og ekki má gleyma Ara Björns, hann er líka mættur á svæðið.

mánudagur, apríl 11, 2005

Kláraði eitt fag á önninni í dag þegar ég skilaði inn seinasta skriflega verkefninu. Þetta er náttúrulega mjög hentugt þegar geðveikin í öðrum fögum fer að hrannast upp. Adios tjáning og samskipti.
Ligg upp i rúmi og veit ekki hvað ég á að blogga um svo þetta blogg verði ekki minnsta blogg Íslandssögunnar. Gæti bloggað um hnéð á mér sem hefur verið til vandræða seinustu tvær eða þrjár vikur en virðist núna vera að lagast, 7, 9, 13. Þá get ég farið að gera lappaæfingar aftur í world class. Eða ég gæti bloggað um spenning minn fyrir ferðinni út í vor, en ég hef svo oft gert það áður þannig að ég sleppi því.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Myndir frá aðalfundi eru komnar inn, check it out.

Snilldar aðalfundur í gær sem haldinn var í Ýmishúsinu. Addi Hjartar, gírkassakóngur, gerði tilkall til þess að vera fullasti maðurinn á svæðinu og vakti mikla lukku með bjórkönnuna sína teipaða í lófann. Einsi Odds skellti einum blautum á vanga minn fyrir það að koma honum í útskriftarferðina sem var nú hið minnsta mál, alltaf gott að fá gott fólk með. Tryggvi Sveins, ætlaði að senda Tuma sms um mig en sendi mér sms-ið, kom ekkert slæmt þar fram svosem hehe. Fundurinn var búinn helst til snemma, um eitt leytið, og þá var farið í bæinn og fólk fór á mismunandi staði. Fín stemmning var á Ara í Ögri og Hvebbanum og einnig hjá bitavagninum rétt áður en farið var heim. Myndir, eitthvað í kringum 150, koma fljótlega.
Kortasíða google er ein mesta snilld sem undirritaður hefur séð lengi á vefnum. Þetta fyrirtækið er svo fáránlega uppátækjasamt að það hálfa væri nóg. Þessi síða semsagt snýst um kort eins og linkurinn gefur til kynna og er búið að kortleggja öll bandaríkin. Þannig að hægt er að slá inn eitthvað hótel eða frægan stað og finna hvar það er. En þetta stoppar ekki þar, því hægt er að fara í svona satellite mode og þá fást loftmyndir af svæðinu, sem er hægt að zooma inn og út, fyrir meiri nákvæmni. Svo tók ég eftir áðan að hægt er að fá leiðarvísi, þ.e. hvernig á að keyra milli tveggja staða og það er hægt jafnvel í satellite mode. Mæli með að fólk kíki á þetta.

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Jæja þá er blaðið loksins komið út og er bara almenn ánægja með það. Sif ljómaði öll og nánast grét af fögnuði þegar hún sá blaðið. Svo er dreifing framundan og svo fer vonandi peningurinn að rúlla inn.
Aðalfundur á morgun og verður fróðlegt að sjá hverjir bjóða sig fram og verða kosnir. Ég er í kjörstjórn með Hiddu og Inga Sturlu, en ég var fenginn inn þar sem þau kunna ekki að telja.
Annars er ekkert í fréttum svo sem.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Allt í plati, fyrsti apríl
Já maður er vondur. Ég ásamt Gunna B og Adda Hjartar skipulögðum aprílgabb til að láta fólk hlaupa apríl. Þannig er mál með vexti að það átti að vera fundur fyrir útskriftarnemendur í þriðja árs stofunni. Okkur datt í hug að plata fólk og segja að þar sem 66°Norður vildi kynna peysur sem við erum að selja, fyrir fleiri deildum að fundurinn myndi flytjast þangað. Þá þurfti að láta, Huldu, Hiddu og Þórhildi vita af gabbinu því ef einhver spyrði þær yrði allt ónýtt. En svo á fimmtudeginum var peysumátun í stofunni og þar fór það. Við veltum fyrir okkur hvernig við gætum blekkt fólk og þá datt okkur í hug Vélabrögð. Tryggvi Jóns var búinn að senda póst fyrr um daginn sem sagði að sökum óviðráðanlegra ástæðna kæmi blaðið ekki fyrr en á mánudag. En ég sendi út póst þar sem ég sagði að hringt hefði verið í Tryggva og prentsmiðjan kæmi blaðinu út þar sem þeir væru líka að gera blað fyrir aðra deild og þeir vildu koma báðum blöðunum út. En það var pínu skilyrði, við þyrftum að sækja blaðið út í Árnagarð. Þannig að ég bað alla að mæta þangað klukkan 12:20 og ná í blaðið og svo yrði fundurinn eins og til stóð. Það voru svona 10-15 manns sem keyptu þetta og fóru yfir í Árnagarð og svo komum ég og Tryggi, ég þurfti að fá hann í lið með mér til að eyðileggja þetta ekki, svona 10 mín seinna, með ís í hönd og sögðum fólki að þetta væri gabb.
Seinasta vísindaferð mín og okkar flestra á þriðja ári í gær í HÍ, nema við förum í mastersnám. Ferðin var farin í flugkerfi og var ein besta sem ég hef farið í. Stutt kynning og svo mátti bara rölta um fyrirtækið og spjalla við starfsmenn. Eftir þetta kíkti ég með Inga Sturlu, Guðbjörgu og Svölu á Subway og þaðan á Pravda, sem var líka svona í eitt af síðustu skiptunum í langan tíma sem maður fer þangað. Svo fórum við þónokkur á ball með Ný dönsk á Nasa og það var virkilega gaman þar, góður félagsskapur, góð tónlist og góð stemmning. Ekki sakaði að það kostaði einungis 500 kall inn.
Fór í kvöld á snilldarmynd, the life aquatic with steve zissou. Allt við þessa mynd er gott. Sagan fær að njóta sín, karakterarnir fá tíma til að þróast, tónlistin snilld og svo er Bill Murray snillingur. Hann hefur verið þvílíkt on a roll upp á síðkastið. Ekki sakar fyrir að Wes Anderson leikstýrir en myndir hans eru vanalega soldið öðruvísi en gengur og gerist í hollyvúdd. Virkilega góð mynd sem auðvelt er að mæla með að fólk fari og sjái.