A site about nothing...

sunnudagur, desember 31, 2006Meðan þið lesið þessa færslu ættuð þið klárlega að hlusta á lag ársins 2006, Hot Chip - Over and over. Bjöllurnar í byrjun lagsins og svo takturinn sem grípur þig og lætur þig hrista alla skanka, snilld.

Nú er árið 2006 senn á enda og því er um að gera að kveðja það með einni bloggfærslu. Svo vonandi, gefið að ég verði ekki ógeðslega latur, þá fylgja einhverjir annálar á næstu dögum. Árið 2006 hefur bara verið ansi gott verður að segjast. Eyddi 8 mánuðum á klakanum og tók djammpakkann ansi vel á þeim tíma. Náði að fara hringinn í kringum landið og sá bestu tónleika sumarsins á heimaslóðum (á ættir að rekja þangað) á Borgarfirði Eystri. Í lok ágúst var svo flutt til Boston og þar uni ég hag mínum vel í meistaranáminu.
Já það er lítið sem hægt er að kvarta yfir frá þessu ári og vonandi verður 2007 bara enn betra.

Til allra lesenda síðunnar þá óska ég ykkur gleðilegs árs, þakka fyrir stundirnar á árinu sem er að líða og vonandi eiga þær eftir að verða enn fleiri á komandi ári.

sunnudagur, desember 24, 2006

fimmtudagur, desember 21, 2006

Þá er maður loksins kominn heim. Lent var á Keflavíkurflugvelli upp úr 11 á þriðjudagsmorgun sem er seinkun upp á næstum 30 tíma.
Á sunnudagskvöldið þegar ég kom á flugvöllinn þá hitti ég Þórólf Nielsen sem var einmitt að koma frá Vesturströndinni og á leið sinni heim. Hann hafði aldrei séð Boston og því var hann ekkert fúll yfir þessari seinkun. Mér var eiginlega sama því ég vissi að ekkert væri hægt að gera. Úr varð að daginn eftir, á mánudeginum, sýndi ég Þórólfi Boston og sýndi honum meðal annars skólann minn, Boston Common, Downtown, höfnina og Quincy Market. Þetta var fínn dagur sem við áttum og við mættum svo aftur út á flugvöll klukkan 17 því flugið okkar átti að fara klukkan 19. Það varð ekki raunin heldur fórum við í loftið hálf tvö því eftir að við komum út í vél, upp úr miðnætti, fattaði einhver snillingur að hjartarlyfið hans væri í töskunni sem var í farangursrýminu og var búin að vera þar í sólarhring og því þurfti að finna þá tösku og tók það talsverðan tíma. En á endanum komumst við heim.

fimmtudagur, desember 14, 2006Þegar ég heyrði Stephen Hawking "syngja": "...still cries at a good film, still kisses with saliva" í Fitter Happier af Ok Computer með Radiohead sem er besta plata sem ég hef heyrt þá fór ég að velta því fyrir mér hvort ég hefði einhvern tíma fellt tár yfir kvikmynd. Eftir pínu umhugsun þá komst ég að þeirri niðurstöðu að svo væri líklega ekki þó er My Girl þar sem Macauley Culkin deyr afar sorgleg mynd og ég gæti hafa fellt tár yfir henni. Þegar ég var yngri þá fannst mér ekkert kúl að fella tár yfir hlutum eins og bíómyndum og svona þannig að ég reyndi alltaf að vera rosalega harður. En eftir því sem árin færast yfir þá hef ég orðið meira meyr en ég var og í dag þá klökkna ég stundum þegar ég horfi á sjónvarpið t.d. ef Oprah Winfrey gerir eitthvað gott eða Ty í Extreme Makeover: Home Edition fyrir þá sem minna mega sín. Hver veit, kannski verð ég á endanum eins og maðurinn sem Stephen Hawking syngur um í Fitter Happier og grenja yfir góðri mynd.

Annars mæli ég með því að fólk hlusti á lagið hér í titlinum. Þetta er frændi okkar, Norðmaðurinn Magnet, sem tekur Dylan lagið Lay Lady Lay í virkilega töff og tjillaðri útsetningu ásamt söngkonunni Gemmu Hays.

mánudagur, desember 11, 2006

Í dag náði ég loksins solid lærdómsdegi og ekki seinna að vænna, fyrsta lokaprófið á morgun. Það er búið að vera einhver lærdómsdoði yfir mér miðað við undangengin ár á sama tíma. Munurinn er líklega sá að í gamla daga að þá var maður alltaf í nettu rugli og að fara í 90-100% próf, þurfandi jafnvel að læra ágætis hluta af námsefninu í undirbúningnum tryggði að maður var á bókasafninu, alltaf. En í ár er þessu öðruvísi farið. Í þeim fögum sem ég er núna er ég búinn kannski með 50-60% af lokaeinkunn áður en lokaprófið er og því er lærdómur þessa árs meiri upprifjun heldur en að læra eitthvað nýtt. Það kann að vera að ég hreinlega kunni ekki að læra fyrir próf þar sem ég þarf að rifja upp því mér hefur ekki gengið það sérlega vel hingað til. Hafa ber þó í huga að dagana á undan þessum þá var ég að læra fyrir próf sem verður á næsta fimmtudag og mér hefur gengið mjög vel í hingað til. Þess vegna hefur verið erfitt að mótivera sjálfan sig. Mig grunar þó að þeir dagar sem framundan eru verði pródúktívir enda komin pressa og þá er einbeitingin vanalega best hjá mér.
Eins og áður sagði þá var þetta góður lærdómsdagur. Ég var mættur 9:15 á bókasafnið en það opnaði ekki fyrr en 10 þannig að ég þurfti að finna mér eitthvað til dundurs í 45 mínútur. Svo í kvöld upp úr 23 fór brunavarnarkerfið í gang og auðvitað þurfti að rýma bygginguna(eitthvað sem hefði ekki gerst heima), þá ákvað ég að nóg væri komið að lærdómi og restin yrði tekin á morgun.

föstudagur, desember 08, 2006

Fiskurinn fer!

Ég man ekki hvort ég hafi áður talað um Fiskinn, betur þekktur sem þriðji herbergisfélaginn. Fiskurinn er furðulegur fýr svo mikið er víst. Af hverju hann er kallaður Fiskurinn er af þeirri ástæðu að hann á það til að taka klukkustundar langa sturtu, tvisvar á dag! Það er reyndar frekar algengt. Vanalega er okkur sama því hann gerir þetta á tímum sem trufla ekki okkar dagskrá en eina vikuna þá stundaði hann þetta klukkan 8 á morgnana, þegar bæði ég og Vanni vöknum vanalega og þetta tafði okkur þvílíkt. Þetta þróaðist seinna meir í það að hann fór í þessar sturtur kannski tvö að nóttu til eða á öðrum ankannalegum tímum.
Þó svo þetta sé slæmt þá er margt í fari hans sem er stórfurðulegt. Þegar hann hittir einhvern úti á götu, hvort sem það er ég, Vanni eða Kanadísku stelpurnar þá er hann ekkert að heilsa að fyrra bragði og ef hann getur þá heilsar hann bara alls ekkert.
Þegar hann er heima þá hangir hann inni í herbergi og rétt svo kemur fram til að fara á baðið eða í sturtu eða til að ná sér í mat, ég held ég hafi einu sinni séð hann elda. Einu sinni vorum við með partý og auðvitað buðum honum að vera með. Partýið dróst eitthvað á langinn og slatti af liði var hérna. Daginn eftir komumst við svo að því að hann hafði verið heima allan tímann og lét ekki einu sinni sjá sig.
Fleira sem fer í taugarnar á okkur, látum okkur sjá. Hann þvær aldrei upp eftir sig, hann fer aldrei út með ruslið, þegar hann fer í bað þá er það vanalega á floti á eftir. Þetta var farið að fara svo í taugarnar á mér að ég sagði honum að þetta væri nett pirrandi og bað hann um að minnsta kosti þurrka baðherbergisgólfið. Þegar ég bað hann um þetta var svar hans eins og honum hafði aldrei dottið þetta í hug fyrr.
Höldum áfram, hann pissar með setuna niðri og þurrkar ekki eftir sig ef hann hittir ekki. Þetta er náttúrulega fáránlegt. Annað hvort hefur hann her af þjónum heima hjá sér, sem ég efa því hann er að reyna að komast sem ódýrast frá þessu, eða þá að mamma hans kenndi honum þetta aldrei sem mér finnst líka ótrúlegt.
Allaveganna þá fengum við Vanni bréf frá housing life innan skólans þar sem kom fram hvernig herbergisskipan yrði næsta vormisseri. Kemur í ljós að Fiskurinn verður ekki, okkur til mikillar ánægju, en samt sagði hann okkur ekki frá því. Svo í dag fengum við annað bréf og núna vitum við hvað nýi herbergisfélagi okkar heitir. Af nafninu að dæma er hann franskur og ég held að það sé gott enda hefur það sýnt sig að við Evrópubúarnir höfum svipuð gildi.
Læt ég hér með lokið rausi mínu um Fiskinn.

Núna eru 9 dagar þangað til ég flýg heim og 6 dagar þangað til ég klára prófin. Time flies eins og þar segir. Þannig að ef fólk vill bjóða mér í heimsókn eða óskar eftir nærveru minni um jólin þá er hægt að senda mér póst eða hringja í gamla númerið mitt eftir 18. des.

mánudagur, desember 04, 2006

Belle and Sebastian - Lord Anthony

Ég á vinkonu sem heitir Bettý. Nánar tiltekið Bettý Crocker. Ég og Bettý erum hinir mestu mátar og þegar við höngum saman þá vanalega bökum við enda finnst okkur það ekki leiðinlegt. Bettý á ráð undir rifi hverju og það eru ófá augnablikin þar sem hún hefur reddað mér fyrir horn þegar ég var að fara að gera einhverja vitleysu. Í kvöld þá var eitt þeirra skipta sem ég og Bettý höngum saman og bökuðum og það var afraksturinn var virkilega góður miðað við þær 4 mínútur sem það tók að baka. Við bökuðum hot brownie með fudge og alles og svo var það borðað með bestu lyst. Hins vegar þarf ég að passa mig á því að baka þetta ekki of oft með Bettý því það gæti haft slæmar afleiðingar fyrir holdafar mitt. Sérstaklega í ljósi þess að síðustu daga tóku vöðvarnir í hægri fótlegg við sköflunginn einhliða ákvörðun um að vera með leiðindi sem veldur því að ég á erfitt með gang. Ég þarf að reyna að endursemja þennan samning við vöðvana og vona að þeir verði til friðs t.d. ef ég býðst til að reyna að hvíla þá eins og frekast er kostur en það versta er samt að þeir eru bara til ófriðs ef ég labba. Annars er allt í gúddí.

Annars er það í fréttum að það eru 2 vikur þangað til ég stíg upp í flugvél og held heim á leið í jólafrí. Réttar væri að segja vinnufrí þar sem ég ætla að vinna í fríinu hjá KB.