A site about nothing...

föstudagur, desember 08, 2006

Fiskurinn fer!

Ég man ekki hvort ég hafi áður talað um Fiskinn, betur þekktur sem þriðji herbergisfélaginn. Fiskurinn er furðulegur fýr svo mikið er víst. Af hverju hann er kallaður Fiskurinn er af þeirri ástæðu að hann á það til að taka klukkustundar langa sturtu, tvisvar á dag! Það er reyndar frekar algengt. Vanalega er okkur sama því hann gerir þetta á tímum sem trufla ekki okkar dagskrá en eina vikuna þá stundaði hann þetta klukkan 8 á morgnana, þegar bæði ég og Vanni vöknum vanalega og þetta tafði okkur þvílíkt. Þetta þróaðist seinna meir í það að hann fór í þessar sturtur kannski tvö að nóttu til eða á öðrum ankannalegum tímum.
Þó svo þetta sé slæmt þá er margt í fari hans sem er stórfurðulegt. Þegar hann hittir einhvern úti á götu, hvort sem það er ég, Vanni eða Kanadísku stelpurnar þá er hann ekkert að heilsa að fyrra bragði og ef hann getur þá heilsar hann bara alls ekkert.
Þegar hann er heima þá hangir hann inni í herbergi og rétt svo kemur fram til að fara á baðið eða í sturtu eða til að ná sér í mat, ég held ég hafi einu sinni séð hann elda. Einu sinni vorum við með partý og auðvitað buðum honum að vera með. Partýið dróst eitthvað á langinn og slatti af liði var hérna. Daginn eftir komumst við svo að því að hann hafði verið heima allan tímann og lét ekki einu sinni sjá sig.
Fleira sem fer í taugarnar á okkur, látum okkur sjá. Hann þvær aldrei upp eftir sig, hann fer aldrei út með ruslið, þegar hann fer í bað þá er það vanalega á floti á eftir. Þetta var farið að fara svo í taugarnar á mér að ég sagði honum að þetta væri nett pirrandi og bað hann um að minnsta kosti þurrka baðherbergisgólfið. Þegar ég bað hann um þetta var svar hans eins og honum hafði aldrei dottið þetta í hug fyrr.
Höldum áfram, hann pissar með setuna niðri og þurrkar ekki eftir sig ef hann hittir ekki. Þetta er náttúrulega fáránlegt. Annað hvort hefur hann her af þjónum heima hjá sér, sem ég efa því hann er að reyna að komast sem ódýrast frá þessu, eða þá að mamma hans kenndi honum þetta aldrei sem mér finnst líka ótrúlegt.
Allaveganna þá fengum við Vanni bréf frá housing life innan skólans þar sem kom fram hvernig herbergisskipan yrði næsta vormisseri. Kemur í ljós að Fiskurinn verður ekki, okkur til mikillar ánægju, en samt sagði hann okkur ekki frá því. Svo í dag fengum við annað bréf og núna vitum við hvað nýi herbergisfélagi okkar heitir. Af nafninu að dæma er hann franskur og ég held að það sé gott enda hefur það sýnt sig að við Evrópubúarnir höfum svipuð gildi.
Læt ég hér með lokið rausi mínu um Fiskinn.

Núna eru 9 dagar þangað til ég flýg heim og 6 dagar þangað til ég klára prófin. Time flies eins og þar segir. Þannig að ef fólk vill bjóða mér í heimsókn eða óskar eftir nærveru minni um jólin þá er hægt að senda mér póst eða hringja í gamla númerið mitt eftir 18. des.