A site about nothing...

fimmtudagur, janúar 31, 2008

Í kvöld í USA hefst Lost aftur. Ég hef fylgst með frá byrjun og vissulega kom pínu downer þarna inn á milli en þriðja sería var samt helvíti góð og sérstaklega í lokin. Þetta myndband er gert af einhverjum aðdáanda með alltof mikinn tíma sér á höndum og sýnir flugvélahrapið frá sjónarhorni þessa sem eru á eyjunni ásamt þeim sem eru í vélinni. Þetta er í raun listavel gert.

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Þar sem það lítur jafnvel út fyrir að ég verði heima á Íslandi eins og staðan er í dag þá hef ég tekið upp á því að reyna að finna hvar besta sushi-ið er og hvar maður fær mest fyrir peninginn. Hingað til hef ég heimsótt þrjá staði og á komandi vikum þá ætla ég að reyna að klára þetta svo ég hafi góðan samanburð.

Fiskimarkaðurinn
Fyrsti staðurinn sem ég fór á var Fiskimarkaðurinn og fór ég þangað í hádegismat með bróður mínum. Við pöntuðum okkur báðir einhvern fyrirfram ákveðinn rétt sem var með 6 Nigiri bitum sem höfðu reyktan túnfisk, lax og svo smokkfisk oná. Það voru 2 maki bitar með spicy tuna ef ég man rétt og svo voru 4 sashimi bitar. Þetta kostaði 1800 kall og ég verð að segja að mér fannst þetta ekkert spes. Við fengum reyndar mjög góða miso súpu á undan ásamt Edemame baunum en sushið sjálft var ég ekki svo hrifinn af, ég vil heldur velja hvað ég fæ mér.

Sushi barinn
Sushi barinn varð næstur fyrir valinu og fann ég hann með því að gúgla hvar hægt væri að fá sushi á Íslandi. Þetta er pínku lítill staður, þar sem áður var Gott í gogginn á Laugaveginum, sem er við hliðina á húsunum umdeildu, Laugavegi 4 og 6. Sushi barinn er staður sem er með ágætis matseðil og hentar mér í raun betur því þarna get ég valið hvað ég fæ mér. Það þykir mér betra þar sem ég er hrifnari af svona specialty roles heldur en nigiri sushinu. Þegar ég var þarna, rétt eftir hádegi á virkum degi, þá var enginn inni og því tók ekki langan tíma að fá pöntunina. Ég pantaði mér spicy tuna maki rúllu sem var inside out (sem mér þykir betra) og voru 6 bitar í rúllunni og kostaði hún 900 kall. Einnig fékk ég mér tvo laxa nigiri bita og í heildina þá kostaði þetta rétt tæpar 1300 krónur. Spicy tuna rúllan var virkilega góð fannst mér og nigiri bitarnir voru fínir líka. Almennt þá varð ég saddur af þessu og því myndi ég frekar mæla með þessum stað heldur en t.d. Sjávarréttakjallaranum en honum til varnar að þá er hann alhliða fiskistaður. Allaveganna, ég mæli með Sushi barnum.

Sushi Train í Iðu húsinu
Í hádeginu í dag ákvað ég svo að kíkja á Sushi Train. Ég hef áður borðað eitthvað þar en það er soldið langt síðan og því mundi ég lítið eftir honum. Það sem gerir Sushi Train öðruvísi en t.d. Sushi barinn er einnmitt að það er svona "lest" þar sem diskar með matnum ferðast á og svo velur maður sér hvað maður vill. Diskarnir eru litaðir og er verðlagið mismunandi eftir lit, frá 250 og upp í 500 krónur diskurinn. Það sem ég saknaði að sjá þarna var spicy tuna, enda mitt uppáhald, en í staðinn fékk ég einhvers konar spicy lax held ég og voru bitarnir tveir á hverjum diski mjög matarmiklir. Svo fór að ég fékk mér 3 diska með spicy laxinum og einn laxa nigiri bita og fyrir þetta borgaði ég um 1200 krónur. Bragðið sjálft var gott en eins og áður sagði þá saknaði ég þess að hafa ekki spicy tuna þarna. Það sem er kannski verst við þennan stað að maður getur ekki fengið að velja hvað maður fær, það veltur bara á því hvað kokkarnir búa til hverju sinni en mér heyrðist að einhver kúnninn hafði beðið um spicy tuna og virtust þeir vera að búa það til þegar ég fór.

Hingað til myndi ég segja að Sushi Barinn sé bestur af þeim stöðum sem ég hef farið á og á ég eflaust oftast eftir að fara þangað. Ég á eftir hins vegar að prufa staðinn sem er við höfnina, Sushi smiðjan?, og því verður gaman að sjá hvað kemur úr því. Einnig ef einhver lesandi veit um góðan sushi stað þá má sá hinn sami benda mér á hann.
*Edit* Fórum á fiskimarkaðinn en ekki sjávarkjallarann. Rétt skal vera rétt.

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Það er nú sjaldan sem ég tjái mig eitthvað um pólítík enda fylgist ég ekki það mikið með henni. Hins vegar hefur það ekki farið framhjá neinum það sem er að gerast í borgarstjórninni í Reykjavík og er ég þar ekki undanskilinn. Svona eftir að hafa horft á þetta, fylgst með og spekulerað þá get ég ekki annað sagt en Ólafur F. er algjör jóker og Villi lítið betri. Ólafur virðist varla vita í hvorn fótinn hann á að stíga og í fréttum í kvöld þegar rætt var við hann þá fannst mér á líkamstjáningu hans hann vera boginn og beygður. Hann er náttúrulega búinn að vera veikur en maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort hann geti stundað sitt starf og hvað muni gerast ef hann geti ekki mætt á fundi. Mun meirihlutinn falla aftur?

Hvað varðar Villa, þá finnst mér hann koma mér fyrir sjónar sem útsmoginn einstaklingur. Tækifærissinni sem svífst einskis til að bæta eigin hag, ekki ólíkt Binga.

En að öðru hressara. "Fríið" gengur vel bara, ég lifi í svo litlum Groundhog day fílingi þar sem dagurinn byrjar á því að ég vakna klukkan 10. Þá tekur við sturta, morgunmatur og lestur Fréttablaðsins og Moggans (frá öftustu síðu og áfram). Þegar þessu öllu er lokið er klukkan vanalega um hálftólf. Þá taka við íþróttafréttir á RÚV þar sem handboltinn hefur ráðið ríkjum og hlusta ég á samtöl við leikmenn og þjálfarann. Nú tekur við internet rúnturinn og endist hann svona til um 12 eða 12:20. Þá fer ég að pæla í því hvar ég eigi að leita mér að vinnu en einungis til 12:45 því þá byrja Nágrannar. Eftir Granna er mismunandi hvað ég geri, en svona eru morgnanir mínir og vonandi hafið þið haft gaman af því að vita það.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Dexter - Djöfullega góðir þættir
Ég er búinn að vera húkked á þessum þáttum síðustu viku eða tvær. Mæli eindregið með að fólk kíki á þetta magnaða helvíti.

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Í morgun gerðust undur og stórmerki - ég vaknaði fyrir klukkan 10. Síðan ég kom heim 18.des hef ég ekki vaknað svona snemma. Kallið þetta kostir þess að vera í fríi/atvinnulaus eða kallið þetta að vera latur.

Annars þá nenni ég ekki að blogga meira ég er lat..

mánudagur, janúar 14, 2008

Bloggannáll fyrir árið 2007, part II
Áfram heldur upprifjunin frá árinu sem leið.

Júlí
Það sem stóð hæst upp úr þessum mánuði var 12 daga sumarfrí mitt sem var í tveimur löndum, Danmörku og Ítalíu. Vinnufélagar höfuð að orði að afhverju ætti sumarstarfsmaðurinn að fara í sumarfrí, en ég lét það sem vind um eyru þjóta. Í Danmörku var markmiðið að fara í fyrsta skipti á Hróarskeldu sem reyndist svo vera rigningarmesta Hróarskelduhátíðin frá upphafi. Sem dæmi má nefna að daginn sem við mættum, ég, Sara og Kristín Laufey, þá rigndi meira en rigningarmestu hátíðina þar á undan og í heildina rigndi um tvöfalt meira á þessari hátíð en þeirri sem hafði metið á undan. Þetta varð þess valdandi að stöðuvötn mynduðust og mikil leðja var um allt sem gerði það að verkum að labb milli tónleikastaða sem hefði átt að taka 5 mínútur tók 15 mínútur. En eins merkilegt og það kann að hljóma þá var þetta ekki það sem situr eftir, heldur hversu ótrúlega gaman var. Tónleikar hátíðarinnar að mínu mati var með Annuals og voru tónleikarnir númer 2 í röðinni hjá mér með þeim á árinu. Í spjalli mínu við hljómborðsgelluna kom í ljós að þetta voru þeirra uppáhaldstónleikar á árinu, allaveganna fram að þeim tíma sem við spjölluðum. Einnig var þrælmagnað að standa fremst fyrir framan stóra sviðið þegar Muse spilaði á sunnudeginum, sólin skein og tónlistin var mögnuð.
Svo var förinni heitið til Rómar og var flogið með Sterling. Á Kastrup sannaðist það að Íslendingar finna alltaf hvorn annan og fór svo að ég hitti íslenska stelpu, Eygló, áður en við fórum út í vél sem var að fara að hitta vin sinn Helga (Mr. Wong). Þegar við komum til Rómar þá kom í ljós að ég kannaðist við hann þar sem hann er vinur Bó. Ég hitti þau svo í Róm þar sem við enduðum inni á vínbar sem reyndist vera veitingastaður en við uppgötvuðum það ekki fyrr en við borguðum og kvöldið eftir borðaði ég á þessum stað sem er víst einn besti staður Rómarborgar. Veðrið í Róm var auðvitað miklu betra og ég gisti á frábærum stað, í íbúð sem Heiðrún frænka mín og kærasti hennar höfðu leigt og var um 200 metra frá Colosseum. Frá Colosseum er svo stutt labb á helstu áhugaverðu staðina og því var þetta bara þrælmagnað allt saman.

Annað sem gerðist í Júlí var að ég uppgötvaði að það var komið dress code inn á staði því mér var meinað inngöngu á Ólíver því ég var í rauðu Adidasskónum mínum. Eftir sumarfríið mitt kom ég útbitinn á handarbökum eftir mý í Köben og það var við það að æra mig enda var voða lítið sem sló á kláðann. Ég keppti í golfmóti Bakvinnslu Kaupþings og vann nándarverðlaun og var það mitt eina afrek í því móti þar sem sveiflan var í ruglinu eins og fyrri daginn. Einnig var reunion hjá útskriftarárganginum 2002 og var keppt í nokkrum greinum um daginn, þar sem ég vann kex-viðsnúnings-keppnina, og um kvöldið hittust allir í sal. Mætingin hefði samt mátt vera betri en að sama skapi má segja að skipulagið hefði mátt byrja fyrr, en maður lærir af svona hlutum.
Fjöldi kommenta: 3

Ágúst
Ég gerðist latur bloggari og fleygði frekar inn myndum heldur en að skrifa um hlutina sem gerðust. Reyndar átti ég met langa færslu um hróarskeldu hátíðina. Menningarnótt var vitaskuld í Ágúst og ég bloggaði um hana í myndafærslu. Mér tókst að ruglast á nöfnum á dreifingum út frá mynd og ég borðaði fisk tvisvar sama daginn, eitthvað sem bara gerist ekki. 6-Y sem margir tala um sem besta bekkinn úr MR hélt gríðarlega gott partý og má sjá skemmtilega mynd frá því kvöldi hér. Þetta sama kvöld vorum ég, Kiddi, Fjalli Palli, Káki og Gunni B stöðvaðir af löggunni rétt hjá Bernhöftsbakarí því bakarinn var hræddur um bílinn sinn og svo fór að Fjalarr, þessi rebel, sagðist ekki vera með skilríkin sín og löggan tók hann inn í sendibifreiðina til að tjekka á persónuupplýsingum. Þetta vissum við ekki og Kiddi kom með setningu sumarsins "Hva, eruð þið að setja í hann þvaglegg?". Ég lagðist næstum í jörðina af hlátri. Ég byrjaði að horfa á the office, amerísku útgáfuna og kolféll fyrir því. 31. ágúst flaug ég svo aftur til Boston en átti faktíst séð ekki bókað flug þennan dag. Þetta uppgötvaði ég 10 mínútum áður en ég ætlaði að leggja af stað út á flugvöll en hlutunum var reddað og ég fór í flugið.
Hér fyrir neðan má svo sjá tvær af mínum uppáhalds myndum frá Hróarskeldu.
Fjöldi kommenta: 13



September
Árni Bragi kom í heimsókn. Við brölluðum heilmikið og Árni náði að stokka sig upp af plötum og fötum. Við kíktum svo til New York sem var þrælmögnuð ferð og mikið skemmtilegt gert. Það var gríðarlega heitt á tímabili í Boston og svitnaði maður við að hugsa í orðsins fyllstu merkingu. Ég fékk nýjan herbergisfélaga sem var/er þvílíkur snilldargaur. Ég fjárfesti í plötuspilara og borgaði einungis 20 dollara fyrir, án vafa kaup ársins. Ég tók myndirnar hérna fyrir neðan sem ég lét svo prenta á striga og fengu að prýða herbergið mitt. Atvinnuleit mín í Bandaríkjunum hófst og ég kvartaði sáran yfir ferilskráagerð.
Fjöldi kommenta: 8


Október
Ég átti 5 ára bloggafmæli en hélt nú lítið upp á það. Atvinnuleitin hélt áfram og Northeastern stóð fyrir Career Fair. Þetta er mjög merkilegt fyrirbæri þetta Career Fair og segja sumir að nánast eina leiðin fyrir nemendur til að fá vinnu er í gegnum Career Fairs. Þarna voru samankomin eitthvað um 200 fyrirtæki og labbaði maður á milli og reyndi að vekja athygli á sjálfum sér með því að spjalla við fulltrúa viðkomandi fyrirtækis og koma inn ferilskránni sinni til þeirra. Út frá þessu fékk ég boð um að koma í viðtal til fyrirtækis sem heitir Green Beacon Solutions og fór það fram í skólanum og svo var mér boðið í höfuðstöðvarnar en á endanum fór það svo að ég fékk ekki vinnu. Það merkilega er að þetta var eina fyrirtækið sem ég komst í viðtal hjá meðan ég var úti og kom það til af því að mér hefur tekist að vekja athygli á mér á Career Fair. Mér gekk alls ekki jafn vel með "venjulegar" umsóknir.
Mamma kom í heimsókn og var í viku. Hún fékk að sjá svona það helsta og náði að versla eitthvað og við fórum þónokkuð oft út að borða, sem er auðvitað bara gaman.
Ég fann mér nýjan uppáhaldsþátt, Tila Tequila a Shot at Love, sem ég og Richard horfðum alltaf á og síðar meir komu Hannah og Domenica nágrannar okkar og samnemendur og horfðu með okkur á þetta. Tölvan mín fékk vírus en snillingarnir í skólanum redduðu þessu fyrir mig og kostaði það ekkert. Þessir gaurar hafa áður aðstoðað mig og ég hef sparað þvílíkan pening á að hafa svona snillinga í skólanum. Ég datt líka ansi vel inn í ruðninginn enda New England Patriots að gera frábæra hluti.
Hrekkjavaka er svo stærsti viðburður Október og úr varð að ég var Captain N. Upphaflega hugmyndin var að ég og Richard myndum vera einhvers konar heimatilbúnar ofurhetjur með nintendo fjarstýringar belti og byssuna ásamt annarri múnderingu en allir aukahlutir komu ekki til okkar í tæka tíð og úr varð að ég fékk að vera Captain N sem var teiknimynd in the 80's og Richard var Crocadile Dundee. Ég upplifði svo mitt fyrsta black-out.
Fjöldi kommenta: 5

Nóvember
Nóvember byrjaði á því að ég fór á mína þriðju Annuals tónleika á árinu og eftir tónleikana spjallaði ég heillengi við gelluna í bandinu sem gerði þetta auðvitað mun skemmtilegra.
Whitney, sem bjó á undan mér í íbúðinni sem ég og Richard bjuggum í, hélt upp á afmælið sitt og þemað var White Trash. Ég vakti mikla lukku með búningnum sem sést hér fyrir neðan og náði að láta langþráðan draum minn rætast, fara á djammið með yfirvaraskegg. Fordómar mínir gagnvart tattoo hurfu eftir að fylgjast ansi vel með þáttum eins og LA Ink og Miami Ink og má segja að ég hafi öðlast virðingu fyrir þeim sem vinna við þetta enda margir hverjir miklir listamenn. Ég sá minn fyrsta NBA leik, enda var liðið í fyrra svo fáránlega lélegt að það hefði þurft að borga mér fyrir að sjá þá, en núna eru þeir að rúlla upp deildinni með þríeykið Paul Pierce, Ray Allen og Kevin Garnett.
Hvað ég myndi gera í framtíðinni lá mikið á mér, hvort ég ætti að vera erlendis, koma heim eða reyna fyrir mér annarsstaðar og úr varð að ég tók ekki ákvörðunina fyrr en í desember.
Ég keypti mína fyrstu high end sneakers og fyrir valinu voru skór hannaðir af eigendum eða starfsmönnum svölustu búðar Boston, Bodega, og unnir í samvinnu með Converse.
Fjöldi kommenta: 11


Desember
Síðasti mánuðurinn minn í Boston. Skólinn var fyrirferðamikill enda próf, þau síðustu sem ég myndi taka, í dágóðan tíma allaveganna. Ég sá einn mest spennandi leik þessa tímabils hjá Patriots, sem höfðu verið að valta yfir andstæðingana fram að þessu, þegar þeir spiluðu á móti Ravens og mörðu sigur í blálokin. Það var ekki laust við að eftir að ég tók þá ákvörðun um að flytja heim þá hafi ég verið svolítið sorgmæddur enda hefur þessi tími minn þarna verið frábær að flestu leyti. Það fyndna er samt að atvinnuleyfið mitt sem ég hafði verið að bíða eftir og hefði geta verið þess valdandi að ég hefði verið í Boston yfir jólin, ef það hefði ekki verið komið, kom á mánudeginum eftir helgina þar sem ég tók ákvörðun um að flytja heim.
Að prófum loknum tók við að ganga frá ýmsum endum, kveðja vini, kaupa hitt og þetta (alltaf vinsælt að vera Íslendingur á heimleið frá USA). Daginn áður en ég flutti heim fór ég á stefnumót með stelpu sem ég kynntist í partýi föstudeginum á undan. Tímasetningin afleit en við vorum bæði fegin að hafa látið verða af þessu.
Eftir að ég kom heim þá tók við svona venjulegt jólastúss og ég lét lítið fyrir mér fara. Jólin voru svo voða fín. Sonur bróður míns upplifði sín fyrstu jól og fengum við fjölskyldan að upplifa það með honum.
Fjöldi kommenta: 13

Allt í allt var þetta virkilega gott ár. Ég held að ég hafi þroskast mjög mikið á þessum tíma og náð að byrja að breyta ákveðnum hlutum í mínu fari sem ég hef ekki verið sáttur með. Sú vinna mun auðvitað halda áfram á nýju ári og ég held að ég muni uppskera í samræmi við það. Eins og staðan er í dag þá veit ég ekki hvar ég mun eyða árinu en það vonandi kemur í ljós fljótlega.

föstudagur, janúar 11, 2008

Þegar ég fer á heimasíður hjá fyrirtækjum og atvinnurekendum og er beðinn um að fylla út upplýsingar um menntun, fyrri störf og almennan awesomeness þá fæ ég hreinlega grænar bólur og lati gaurinn kemur upp í mér sem nennir ekki að standa í þessu.

Sagði einhver Dexter....

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Annáll ársins 2007
Þá er komið að því sem allir hafa verið að bíða eftir, annáli ársins 2007. Ég ætla að fjalla stuttlega um hvað gerðist í hverjum mánuði og látum því bara partýið byrja með fyrstu 6 mánuðum ársins 2007!

Janúar
Það sem gerðist helst í þessum mánuði var að ég hélt upp á 25 ára afmælið mitt, tvisvar! Þegar ég hélt upp á það í seinna skiptið gerði ég það í samvinnu við Vanni og úr varð heljarinnar gott partý sem margir mættu í þrátt fyrir að úti væri skítakuldi. Það mætti segja að Janúar hafi farið í það að versla enda útsölur og ég nýbúinn að eiga afmæli og að djamma. Eitt af þessum djömmum var svo hið árlega Snjóball Northeastern sem var ansi merkileg upplifun því allar amerísku stelpurnar mættu í Prom kjólnum sínum sem voru margir hverjir gasalega fallegir. Þarna var líka bar en hann var í einhverju herbergi úti í horni og þurfti maður að sýna lögreglu skilríki. Í skólanum var bókstaflega ekkert að gera. Ég fór á mína fyrstu Annuals tónleika ársins (urðu þrennir þegar árið var liðið).
Fjöldi kommenta: 9

Febrúar
Ég ákvað að byrja að tala í gátum og ber fyrsta blogg febrúar mánuðs þess augljós merki. Það hélst hins vegar ekki lengi. Justin Timberlake var borin augum á mögnuðum tónleikum í TD Banknorth Garden og ég bauðst til að aðstoða með að hjálpa til á tískusýningu sem samtök erlendra nemenda við Northeastern ætluðu að standa að. Einnig skráði ég mig í golfkennslu hjá PGA kennara, ekki að það hafi hjálpað mikið um sumarið. Kossaserían fræga varð til,ég fór í fyrsta skipti á ævi minni í jóga (í 40 gráðu heitu herbergi, hvorki meira né minna), ég efaðist um geðheilsu mína því ég mundi ekki hvort mig hafi dreymt eitthvað eða það gerðist í alvörunni og ég kenndi útlendingum íslensku.
Fjöldi kommenta: 18

Mars
Það má sjá á færslum mars mánaðar að skólinn var fyrirferðameiri en fyrstu tvo mánuðina enda ekki furða þar sem farið var að síga á seinni hlutann. Mér tókst nú samt að fara til Las Vegas þar sem ég hitti Tuma og Kára og svo fórum við Kári og kíktum á Miklagljúfur og bæ sem heitir Flagstaff. Tískusýningin fór fram og heppnaðist mjög vel, enda var ég hljóðmaður. Mars verður einnig minnst sem mánaðarins sem ég uppgötvaði Scrubs og gleypti það alveg í mig, líkt og um trúarbrögð væru að ræða. Við íbúar 52 Westlands vorum með gest mest allan mánuðinn en það var Elsa, kærasta Romains, sem lífgaði upp á íbúðina í margskonar skilningi t.d. með því að þrífa hehe. Mánuðinn endaði ég svo með því að sjá Bloc Party á tónleikum.
Fjöldi kommenta: 8

Apríl
Þar sem þetta voru fyrstu páskarnir þar sem ég er ekki heima þá efndi ég til páskaboðs og úr varð að 9 manns, frá hinum ýmsu löndum en mest megnis Íslendingar, mættu. Ef einhver hefur verið í vafa um að mér finnist lakkrís góður þá mun eftirfarandi færsla gulltryggja að fólk viti það:
Í gær, laugardag, þá loksins opnaði ég lakkrís pokann minn sem ég hef átt í skúffunni minni í 3 vikur eða svo. Himnarnir opnuðust og sólargeisli skein inn um gluggann um leið og ég opnaði pokann og furðulegt nokk þá heyrði ég Hallelujah kórinn þegar anganinn barst vitum mér. Ég var auðvitað með ískalt mjólkurglas mér við hlið og eftir að hafa þefað nokkrum sinnum af lakkrísnum fékk ég mér fyrsta molann, saup á mjólkinni og leyfði þessum kokteil mjólkur og lakkrís leika um bragðlaukana. Hann var guðdómlegur, miklu betri en nokkurt páskaegg.

Biðraðafræði var mér ofarlega í huga í þessum mánuði og álagið í skólanum lét loksins segja til sín enda síðasti mánuður vormisseris. Það að álagið varð meira í þessum mánuði sést einmitt í fleiri bloggfærslum heldur en í mánuðunum á undan og sannast þar með það sem allir nemendur segja; maður gerir vanalega allt annað en að læra. Það sem ég mun minnast frá þessum mánuði líka er að þarna fór ég fyrsta skipti á Douzo sem er veitingastaður sem býr til besta sushi sem ég hef fengið. Ég fékk VIP miða á Hróarskeldu.
Fjöldi kommenta: 17

Maí
Mánuðurinn byrjaði á því að ég og Vanni pökkuðum okkar dóti og settum í geymslu. Einnig aðstoðaði ég Ingu við það. Svo var komið að því að fara heim. Ég get alveg viðurkennt núna að ég var ekki gríðarspenntur að fara heim, vitandi að í gegnum tíðina að veðrið að sumri til er ekkert spes og ég hef aldrei búið í landi þar sem er gott veður í gegnum allt sumarið, eitthvað sem mig hefur alltaf langað. Þetta átti þó eftir að breytast talsvert eins og allir vita. Mér tókst að iðka andann með því að fara á tvær listasýningar og Þórunn kærasta Kidda átti hluti á báðum sýningunum. Ég skilaði mínum síðasta dómi á Rjómanum þetta árið en skrifaði nokkrar umfjallanir síðar, t.d. um Hróarskeldu. Hugmyndin að heilsumánuði kviknaði og hófst hann í júní.
Fjöldi kommenta: 10

Júní
Heilsumánuðurinn byrjaði með breyttu mataræði þar sem gætt var hófs í því sem borðað var og gosdrykkja var jafnt og þétt minnkuð niður. Jafnframt reyndi ég að æfa af kappi með þessu og gott ef ég náði ekki að plata Fjalla Palla með mér að æfa. Ég gerðist blaðamaður um stund og þóttist vera blaðamaður frá snepli í Boston þar sem ég var fyrir utan Barinn og bullaði á ensku í íslenskum stelpum sem stóðu þar fyrir utan reykjandi, enda fyrsta helgin eftir lagasetninguna. Ég fór í útskriftarveislu hjá Árna Braga og Káka og söng Gangstah's Paradise með Cooooolio á Ölveri þegar það var staffapartý í vinnunni. Ætli ég hafi ekki líka ansi mikið verið að njóta góða veðursins því lítið er um færslur.
Fjöldi kommenta: 5

mánudagur, janúar 07, 2008

Nú er árið liðið og var það einkar gott í tónlist. Hvort sem um ræðir íslenska eða erlenda þá var mjög mikið af góðum plötum sem komu út. Í tilefni af því bjó Rjóminn til árslista og ég sendi inn minn lista sem var svo notaður í heildarlistann. Ég gerði bara erlendan lista þar sem ég því miður náði ekki að hlusta á 10 íslenskar plötur á árinu en þær sem ég hlustaði á voru virkilega góðar. Þó svo maður reyni að vera aktífur í að ná sér í nýja tónlist og svona þá er alveg tonn sem fer framhjá manni og markmið mitt á hverju ári er að hlusta á meiri músik en ég gerði á árinu á undan.

Þrátt fyrir gríðarlegar væntingar af minni hálfu fyrir Arcade Fire plötunni, sérstaklega í ljósi þess að Funeral er klassísk plata, þá kom mér á óvart hversu fáránlega góð Neon Bible er. LCD Soundsystem er líklega sú plata sem kom mér hvað mest á óvart. Ég hafði heyrt frumburðinn og ég þoldi ekki röddina í söngvaranum en eitthvað hefur gerst milli þessara platna því allt í einu fíla ég röddina og platan er frábær. Justice komu líka mjög á óvart með mjög heilsteyptri plötu þar sem er að finna hvert góða lagið á fætur öðru. Það sem gerði þetta ár enn betra er að ég sá allar þessar hljómsveitir live og sumar tvisvar. Radiohead platan kom náttúrulega síðan eins og skrattinn úr sauðalæknum og þó svo ég hafi heyrt fæst af þessum lögum fyrr en á In Rainbows þá féll ég fyrir henni. En listinn er eftirfarandi:
1. Arcade Fire - Neon Bible
2. LCD Soundsystem - Sound of Silver
3. Radiohead - In Rainbows
4. Feist - The Reminder
5. Justice - Cross
6. Kanye West - Graduation
7. Okkervil River - Stage Names
8. Air - Pocket Symphony
9. Bloc Party - A Weekend in the City
10. Soulwax - Most of the remixes

Vídjóið sýnir svo Arcade Fire taka Neon Bible lagið af samnefndri plötu í æðislegri útgáfu.


Ef ég ætti að búa til topp 5 íslenskan lista þá yrði hann einhvern veginn svona en ekki jafn mikið útpældur og hinn erlendi.

1. Seabear - The Ghost That Carried Us Away
2. Hjaltalín - A Sleepdrunk Session
3. Björk - Volta

Þetta sannar bara hversu lítið ég hlustaði á heilar plötur sem gerðar voru á Íslandi. Enda kannski ekki furða þar sem ég var erlendis 8 mánuði. Ég heyrði hins vegar mikið af lögum og þau gefa góð fyrirheit og vonandi get ég lagst betur yfir íslensku plöturnar bráðlega.

föstudagur, janúar 04, 2008

Þar sem ég veit að þeir sem lesa þetta blogg hafa nægan tíma, hvort sem það er í vinnu eða skóla, þá vil ég mæla með þessum lista frá síðunni cracked.com sem ég talaði um ekki fyrir svo löngu. Listinn er um 10 hluti sem seldir hafa verið í sjónvarpi og eru vita gagnslausir.
Dæmi um hlut sem er á listanum er Listen up!

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur aktífasta bloggs Íslands!

Enn eitt árið er runnið upp og nú í byrjun árs pælir maður í því sem gerðist á síðasta ári og hvert vegurinn liggur á komandi ári. Líklega mun ég gera upp síðasta ár í sérstökum annál þannig að ég læt það vera í þessu bloggi. Hins vegar þá er það framtíðin sem bíður og er eiginlega algjörlega ófyrirséð. Síðan ég kláraði hef ég lítið af viti gert og eiginlega bara verið í, að mínu mati, verðskulduðu fríi. En maður verður víst að hafa tekjur svo hægt sé að borga reikninga og að lifa, enda dýrt að lifa, og því þarf að finna vinnu. Það ferli fer í gang núna á þessum dögum og er það bæði spennandi og á vissan hátt leiðinlegt. Þegar ég segi leiðinlegt þá meina ég ekki, taka til í herberginu leiðinlegt, heldur er leiðinlegt að þurfa að bíða eftir niðurstöðu úr þessu verkefni. Það er nefnilega svo að ég vil helst sjá árangur strax en eins og ég hef rekið mig á í mörgum stærri verkefnum mínum síðustu árin þá þurfa þau meiri tíma og því þarf maður að reyna að sýna þolinmæði. Veröldin er mín ostra mætti segja því í rauninni útiloka ég ekkert um hvar ég muni vinna á næsta eða jafnvel næstu árum. Ég hef sagt það áður að ég vilji fara til Köben og þangað er líklegasta staðurinn en Boston er aðeins svolítið inni í myndinni þó svo það verði að teljast óraunhæft miðað við að ekkert gekk fyrir jól. Reykjavík er svosem pínu inni í myndinni en mér finnst eins og ég eigi að vera aðeins lengur erlendis, enda kann ég því mjög vel.

Það er sagt að til þess að ná árangri í markmiðum eigi maður að láta sem flesta vita, því líklega er hættan á því að maður beili þeim mun meiri ef maður er sá eini sem veit af markmiðinu. Þetta á kannski sérstaklega við stærri markmið, eins og að léttast eða hætta einhverju, t.d. reykingum, en þetta er sniðugt líka ef maður er að leita að vinnu. Því maður veit aldrei hvaðan maður fær upplýsingarnar sem gætu breytt lífi manns. Landað vinnunni sem maður sækist svo eftir. Því megið þið kæru lesendur hafa augun og eyrun opin og láta mig vita ef þið vitið af góðu tækifæri. Væri t.d. ekki verra ef þið vissuð um íslenskt fyrirtæki sem er með starfstöð í Köben eða í Boston/New York.