A site about nothing...

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Annáll ársins 2007
Þá er komið að því sem allir hafa verið að bíða eftir, annáli ársins 2007. Ég ætla að fjalla stuttlega um hvað gerðist í hverjum mánuði og látum því bara partýið byrja með fyrstu 6 mánuðum ársins 2007!

Janúar
Það sem gerðist helst í þessum mánuði var að ég hélt upp á 25 ára afmælið mitt, tvisvar! Þegar ég hélt upp á það í seinna skiptið gerði ég það í samvinnu við Vanni og úr varð heljarinnar gott partý sem margir mættu í þrátt fyrir að úti væri skítakuldi. Það mætti segja að Janúar hafi farið í það að versla enda útsölur og ég nýbúinn að eiga afmæli og að djamma. Eitt af þessum djömmum var svo hið árlega Snjóball Northeastern sem var ansi merkileg upplifun því allar amerísku stelpurnar mættu í Prom kjólnum sínum sem voru margir hverjir gasalega fallegir. Þarna var líka bar en hann var í einhverju herbergi úti í horni og þurfti maður að sýna lögreglu skilríki. Í skólanum var bókstaflega ekkert að gera. Ég fór á mína fyrstu Annuals tónleika ársins (urðu þrennir þegar árið var liðið).
Fjöldi kommenta: 9

Febrúar
Ég ákvað að byrja að tala í gátum og ber fyrsta blogg febrúar mánuðs þess augljós merki. Það hélst hins vegar ekki lengi. Justin Timberlake var borin augum á mögnuðum tónleikum í TD Banknorth Garden og ég bauðst til að aðstoða með að hjálpa til á tískusýningu sem samtök erlendra nemenda við Northeastern ætluðu að standa að. Einnig skráði ég mig í golfkennslu hjá PGA kennara, ekki að það hafi hjálpað mikið um sumarið. Kossaserían fræga varð til,ég fór í fyrsta skipti á ævi minni í jóga (í 40 gráðu heitu herbergi, hvorki meira né minna), ég efaðist um geðheilsu mína því ég mundi ekki hvort mig hafi dreymt eitthvað eða það gerðist í alvörunni og ég kenndi útlendingum íslensku.
Fjöldi kommenta: 18

Mars
Það má sjá á færslum mars mánaðar að skólinn var fyrirferðameiri en fyrstu tvo mánuðina enda ekki furða þar sem farið var að síga á seinni hlutann. Mér tókst nú samt að fara til Las Vegas þar sem ég hitti Tuma og Kára og svo fórum við Kári og kíktum á Miklagljúfur og bæ sem heitir Flagstaff. Tískusýningin fór fram og heppnaðist mjög vel, enda var ég hljóðmaður. Mars verður einnig minnst sem mánaðarins sem ég uppgötvaði Scrubs og gleypti það alveg í mig, líkt og um trúarbrögð væru að ræða. Við íbúar 52 Westlands vorum með gest mest allan mánuðinn en það var Elsa, kærasta Romains, sem lífgaði upp á íbúðina í margskonar skilningi t.d. með því að þrífa hehe. Mánuðinn endaði ég svo með því að sjá Bloc Party á tónleikum.
Fjöldi kommenta: 8

Apríl
Þar sem þetta voru fyrstu páskarnir þar sem ég er ekki heima þá efndi ég til páskaboðs og úr varð að 9 manns, frá hinum ýmsu löndum en mest megnis Íslendingar, mættu. Ef einhver hefur verið í vafa um að mér finnist lakkrís góður þá mun eftirfarandi færsla gulltryggja að fólk viti það:
Í gær, laugardag, þá loksins opnaði ég lakkrís pokann minn sem ég hef átt í skúffunni minni í 3 vikur eða svo. Himnarnir opnuðust og sólargeisli skein inn um gluggann um leið og ég opnaði pokann og furðulegt nokk þá heyrði ég Hallelujah kórinn þegar anganinn barst vitum mér. Ég var auðvitað með ískalt mjólkurglas mér við hlið og eftir að hafa þefað nokkrum sinnum af lakkrísnum fékk ég mér fyrsta molann, saup á mjólkinni og leyfði þessum kokteil mjólkur og lakkrís leika um bragðlaukana. Hann var guðdómlegur, miklu betri en nokkurt páskaegg.

Biðraðafræði var mér ofarlega í huga í þessum mánuði og álagið í skólanum lét loksins segja til sín enda síðasti mánuður vormisseris. Það að álagið varð meira í þessum mánuði sést einmitt í fleiri bloggfærslum heldur en í mánuðunum á undan og sannast þar með það sem allir nemendur segja; maður gerir vanalega allt annað en að læra. Það sem ég mun minnast frá þessum mánuði líka er að þarna fór ég fyrsta skipti á Douzo sem er veitingastaður sem býr til besta sushi sem ég hef fengið. Ég fékk VIP miða á Hróarskeldu.
Fjöldi kommenta: 17

Maí
Mánuðurinn byrjaði á því að ég og Vanni pökkuðum okkar dóti og settum í geymslu. Einnig aðstoðaði ég Ingu við það. Svo var komið að því að fara heim. Ég get alveg viðurkennt núna að ég var ekki gríðarspenntur að fara heim, vitandi að í gegnum tíðina að veðrið að sumri til er ekkert spes og ég hef aldrei búið í landi þar sem er gott veður í gegnum allt sumarið, eitthvað sem mig hefur alltaf langað. Þetta átti þó eftir að breytast talsvert eins og allir vita. Mér tókst að iðka andann með því að fara á tvær listasýningar og Þórunn kærasta Kidda átti hluti á báðum sýningunum. Ég skilaði mínum síðasta dómi á Rjómanum þetta árið en skrifaði nokkrar umfjallanir síðar, t.d. um Hróarskeldu. Hugmyndin að heilsumánuði kviknaði og hófst hann í júní.
Fjöldi kommenta: 10

Júní
Heilsumánuðurinn byrjaði með breyttu mataræði þar sem gætt var hófs í því sem borðað var og gosdrykkja var jafnt og þétt minnkuð niður. Jafnframt reyndi ég að æfa af kappi með þessu og gott ef ég náði ekki að plata Fjalla Palla með mér að æfa. Ég gerðist blaðamaður um stund og þóttist vera blaðamaður frá snepli í Boston þar sem ég var fyrir utan Barinn og bullaði á ensku í íslenskum stelpum sem stóðu þar fyrir utan reykjandi, enda fyrsta helgin eftir lagasetninguna. Ég fór í útskriftarveislu hjá Árna Braga og Káka og söng Gangstah's Paradise með Cooooolio á Ölveri þegar það var staffapartý í vinnunni. Ætli ég hafi ekki líka ansi mikið verið að njóta góða veðursins því lítið er um færslur.
Fjöldi kommenta: 5