A site about nothing...

mánudagur, janúar 14, 2008

Bloggannáll fyrir árið 2007, part II
Áfram heldur upprifjunin frá árinu sem leið.

Júlí
Það sem stóð hæst upp úr þessum mánuði var 12 daga sumarfrí mitt sem var í tveimur löndum, Danmörku og Ítalíu. Vinnufélagar höfuð að orði að afhverju ætti sumarstarfsmaðurinn að fara í sumarfrí, en ég lét það sem vind um eyru þjóta. Í Danmörku var markmiðið að fara í fyrsta skipti á Hróarskeldu sem reyndist svo vera rigningarmesta Hróarskelduhátíðin frá upphafi. Sem dæmi má nefna að daginn sem við mættum, ég, Sara og Kristín Laufey, þá rigndi meira en rigningarmestu hátíðina þar á undan og í heildina rigndi um tvöfalt meira á þessari hátíð en þeirri sem hafði metið á undan. Þetta varð þess valdandi að stöðuvötn mynduðust og mikil leðja var um allt sem gerði það að verkum að labb milli tónleikastaða sem hefði átt að taka 5 mínútur tók 15 mínútur. En eins merkilegt og það kann að hljóma þá var þetta ekki það sem situr eftir, heldur hversu ótrúlega gaman var. Tónleikar hátíðarinnar að mínu mati var með Annuals og voru tónleikarnir númer 2 í röðinni hjá mér með þeim á árinu. Í spjalli mínu við hljómborðsgelluna kom í ljós að þetta voru þeirra uppáhaldstónleikar á árinu, allaveganna fram að þeim tíma sem við spjölluðum. Einnig var þrælmagnað að standa fremst fyrir framan stóra sviðið þegar Muse spilaði á sunnudeginum, sólin skein og tónlistin var mögnuð.
Svo var förinni heitið til Rómar og var flogið með Sterling. Á Kastrup sannaðist það að Íslendingar finna alltaf hvorn annan og fór svo að ég hitti íslenska stelpu, Eygló, áður en við fórum út í vél sem var að fara að hitta vin sinn Helga (Mr. Wong). Þegar við komum til Rómar þá kom í ljós að ég kannaðist við hann þar sem hann er vinur Bó. Ég hitti þau svo í Róm þar sem við enduðum inni á vínbar sem reyndist vera veitingastaður en við uppgötvuðum það ekki fyrr en við borguðum og kvöldið eftir borðaði ég á þessum stað sem er víst einn besti staður Rómarborgar. Veðrið í Róm var auðvitað miklu betra og ég gisti á frábærum stað, í íbúð sem Heiðrún frænka mín og kærasti hennar höfðu leigt og var um 200 metra frá Colosseum. Frá Colosseum er svo stutt labb á helstu áhugaverðu staðina og því var þetta bara þrælmagnað allt saman.

Annað sem gerðist í Júlí var að ég uppgötvaði að það var komið dress code inn á staði því mér var meinað inngöngu á Ólíver því ég var í rauðu Adidasskónum mínum. Eftir sumarfríið mitt kom ég útbitinn á handarbökum eftir mý í Köben og það var við það að æra mig enda var voða lítið sem sló á kláðann. Ég keppti í golfmóti Bakvinnslu Kaupþings og vann nándarverðlaun og var það mitt eina afrek í því móti þar sem sveiflan var í ruglinu eins og fyrri daginn. Einnig var reunion hjá útskriftarárganginum 2002 og var keppt í nokkrum greinum um daginn, þar sem ég vann kex-viðsnúnings-keppnina, og um kvöldið hittust allir í sal. Mætingin hefði samt mátt vera betri en að sama skapi má segja að skipulagið hefði mátt byrja fyrr, en maður lærir af svona hlutum.
Fjöldi kommenta: 3

Ágúst
Ég gerðist latur bloggari og fleygði frekar inn myndum heldur en að skrifa um hlutina sem gerðust. Reyndar átti ég met langa færslu um hróarskeldu hátíðina. Menningarnótt var vitaskuld í Ágúst og ég bloggaði um hana í myndafærslu. Mér tókst að ruglast á nöfnum á dreifingum út frá mynd og ég borðaði fisk tvisvar sama daginn, eitthvað sem bara gerist ekki. 6-Y sem margir tala um sem besta bekkinn úr MR hélt gríðarlega gott partý og má sjá skemmtilega mynd frá því kvöldi hér. Þetta sama kvöld vorum ég, Kiddi, Fjalli Palli, Káki og Gunni B stöðvaðir af löggunni rétt hjá Bernhöftsbakarí því bakarinn var hræddur um bílinn sinn og svo fór að Fjalarr, þessi rebel, sagðist ekki vera með skilríkin sín og löggan tók hann inn í sendibifreiðina til að tjekka á persónuupplýsingum. Þetta vissum við ekki og Kiddi kom með setningu sumarsins "Hva, eruð þið að setja í hann þvaglegg?". Ég lagðist næstum í jörðina af hlátri. Ég byrjaði að horfa á the office, amerísku útgáfuna og kolféll fyrir því. 31. ágúst flaug ég svo aftur til Boston en átti faktíst séð ekki bókað flug þennan dag. Þetta uppgötvaði ég 10 mínútum áður en ég ætlaði að leggja af stað út á flugvöll en hlutunum var reddað og ég fór í flugið.
Hér fyrir neðan má svo sjá tvær af mínum uppáhalds myndum frá Hróarskeldu.
Fjöldi kommenta: 13



September
Árni Bragi kom í heimsókn. Við brölluðum heilmikið og Árni náði að stokka sig upp af plötum og fötum. Við kíktum svo til New York sem var þrælmögnuð ferð og mikið skemmtilegt gert. Það var gríðarlega heitt á tímabili í Boston og svitnaði maður við að hugsa í orðsins fyllstu merkingu. Ég fékk nýjan herbergisfélaga sem var/er þvílíkur snilldargaur. Ég fjárfesti í plötuspilara og borgaði einungis 20 dollara fyrir, án vafa kaup ársins. Ég tók myndirnar hérna fyrir neðan sem ég lét svo prenta á striga og fengu að prýða herbergið mitt. Atvinnuleit mín í Bandaríkjunum hófst og ég kvartaði sáran yfir ferilskráagerð.
Fjöldi kommenta: 8


Október
Ég átti 5 ára bloggafmæli en hélt nú lítið upp á það. Atvinnuleitin hélt áfram og Northeastern stóð fyrir Career Fair. Þetta er mjög merkilegt fyrirbæri þetta Career Fair og segja sumir að nánast eina leiðin fyrir nemendur til að fá vinnu er í gegnum Career Fairs. Þarna voru samankomin eitthvað um 200 fyrirtæki og labbaði maður á milli og reyndi að vekja athygli á sjálfum sér með því að spjalla við fulltrúa viðkomandi fyrirtækis og koma inn ferilskránni sinni til þeirra. Út frá þessu fékk ég boð um að koma í viðtal til fyrirtækis sem heitir Green Beacon Solutions og fór það fram í skólanum og svo var mér boðið í höfuðstöðvarnar en á endanum fór það svo að ég fékk ekki vinnu. Það merkilega er að þetta var eina fyrirtækið sem ég komst í viðtal hjá meðan ég var úti og kom það til af því að mér hefur tekist að vekja athygli á mér á Career Fair. Mér gekk alls ekki jafn vel með "venjulegar" umsóknir.
Mamma kom í heimsókn og var í viku. Hún fékk að sjá svona það helsta og náði að versla eitthvað og við fórum þónokkuð oft út að borða, sem er auðvitað bara gaman.
Ég fann mér nýjan uppáhaldsþátt, Tila Tequila a Shot at Love, sem ég og Richard horfðum alltaf á og síðar meir komu Hannah og Domenica nágrannar okkar og samnemendur og horfðu með okkur á þetta. Tölvan mín fékk vírus en snillingarnir í skólanum redduðu þessu fyrir mig og kostaði það ekkert. Þessir gaurar hafa áður aðstoðað mig og ég hef sparað þvílíkan pening á að hafa svona snillinga í skólanum. Ég datt líka ansi vel inn í ruðninginn enda New England Patriots að gera frábæra hluti.
Hrekkjavaka er svo stærsti viðburður Október og úr varð að ég var Captain N. Upphaflega hugmyndin var að ég og Richard myndum vera einhvers konar heimatilbúnar ofurhetjur með nintendo fjarstýringar belti og byssuna ásamt annarri múnderingu en allir aukahlutir komu ekki til okkar í tæka tíð og úr varð að ég fékk að vera Captain N sem var teiknimynd in the 80's og Richard var Crocadile Dundee. Ég upplifði svo mitt fyrsta black-out.
Fjöldi kommenta: 5

Nóvember
Nóvember byrjaði á því að ég fór á mína þriðju Annuals tónleika á árinu og eftir tónleikana spjallaði ég heillengi við gelluna í bandinu sem gerði þetta auðvitað mun skemmtilegra.
Whitney, sem bjó á undan mér í íbúðinni sem ég og Richard bjuggum í, hélt upp á afmælið sitt og þemað var White Trash. Ég vakti mikla lukku með búningnum sem sést hér fyrir neðan og náði að láta langþráðan draum minn rætast, fara á djammið með yfirvaraskegg. Fordómar mínir gagnvart tattoo hurfu eftir að fylgjast ansi vel með þáttum eins og LA Ink og Miami Ink og má segja að ég hafi öðlast virðingu fyrir þeim sem vinna við þetta enda margir hverjir miklir listamenn. Ég sá minn fyrsta NBA leik, enda var liðið í fyrra svo fáránlega lélegt að það hefði þurft að borga mér fyrir að sjá þá, en núna eru þeir að rúlla upp deildinni með þríeykið Paul Pierce, Ray Allen og Kevin Garnett.
Hvað ég myndi gera í framtíðinni lá mikið á mér, hvort ég ætti að vera erlendis, koma heim eða reyna fyrir mér annarsstaðar og úr varð að ég tók ekki ákvörðunina fyrr en í desember.
Ég keypti mína fyrstu high end sneakers og fyrir valinu voru skór hannaðir af eigendum eða starfsmönnum svölustu búðar Boston, Bodega, og unnir í samvinnu með Converse.
Fjöldi kommenta: 11


Desember
Síðasti mánuðurinn minn í Boston. Skólinn var fyrirferðamikill enda próf, þau síðustu sem ég myndi taka, í dágóðan tíma allaveganna. Ég sá einn mest spennandi leik þessa tímabils hjá Patriots, sem höfðu verið að valta yfir andstæðingana fram að þessu, þegar þeir spiluðu á móti Ravens og mörðu sigur í blálokin. Það var ekki laust við að eftir að ég tók þá ákvörðun um að flytja heim þá hafi ég verið svolítið sorgmæddur enda hefur þessi tími minn þarna verið frábær að flestu leyti. Það fyndna er samt að atvinnuleyfið mitt sem ég hafði verið að bíða eftir og hefði geta verið þess valdandi að ég hefði verið í Boston yfir jólin, ef það hefði ekki verið komið, kom á mánudeginum eftir helgina þar sem ég tók ákvörðun um að flytja heim.
Að prófum loknum tók við að ganga frá ýmsum endum, kveðja vini, kaupa hitt og þetta (alltaf vinsælt að vera Íslendingur á heimleið frá USA). Daginn áður en ég flutti heim fór ég á stefnumót með stelpu sem ég kynntist í partýi föstudeginum á undan. Tímasetningin afleit en við vorum bæði fegin að hafa látið verða af þessu.
Eftir að ég kom heim þá tók við svona venjulegt jólastúss og ég lét lítið fyrir mér fara. Jólin voru svo voða fín. Sonur bróður míns upplifði sín fyrstu jól og fengum við fjölskyldan að upplifa það með honum.
Fjöldi kommenta: 13

Allt í allt var þetta virkilega gott ár. Ég held að ég hafi þroskast mjög mikið á þessum tíma og náð að byrja að breyta ákveðnum hlutum í mínu fari sem ég hef ekki verið sáttur með. Sú vinna mun auðvitað halda áfram á nýju ári og ég held að ég muni uppskera í samræmi við það. Eins og staðan er í dag þá veit ég ekki hvar ég mun eyða árinu en það vonandi kemur í ljós fljótlega.