A site about nothing...

sunnudagur, júlí 29, 2007

Hróarskelda - nýtt upphaf

Eftir að hafa flúð til Köben á aðfararnótt föstudagsins var mikið rætt um hvernig við skildum bera okkur að fyrir framhaldið. Spáin var á þá leið að það gæti rignt og eftir að hafa brennt okkur á því frá deginum á undan ákváðum við að best væri að leigja bíl og þá hafa möguleika á því að leita aftur niðrí Köben ef veðrið skyldi verða eitthvað svipað og það var deginum á undan. Sem betur fór kom þó ekki til þess.

Við vorum komin um 6 leytið á svæðið eftir að hafa lagt hjá íbúðarhúsnæðum sem voru í pínu göngufjarlægð frá svæðinu þar sem bílastæði nálægt svæðinu voru annaðhvort ónothæf eða full.


Þegar okkur bar að garði hjá Orange sviðinu voru Beastie Boys að spila. Þeir tóku blöndu af gamla efninu sínu ásamt því nýja sem er víst eitthvað instrumental jazz bræðingur og af því sem ég heyrði þá var Intergalactic lang besta lagið. Sérstaklega flott þótti mér svona instrumental kafli sem kom í miðju lagi þar sem þeir fóru um víðan völl í tónlistarsögunni. Eftir tónleikana var ég orðinn ansi svangur og rölti því að Arena svæðinu þar sem Trentemöller var að spila ásamt hljómsveit. Arena tjaldið var pakkað enda er Trentemöller svona golden boy í Danmörku um þessar mundir og það virtist vera rosalega góð stemmning. Ég hinsvegar heyrði bara tónlistina meðan ég beið í svona 40 mínútur eftir því að fá hamborgara, franskar og ávaxtasafa. Já, ávaxtasafa. Málið er að veitingastaðirnir sem ég fór á í það minnsta seldu ekki gos heldur bara einhvers konar ávaxtasafa og því ef maður vildi kók þurfti maður að fara í tvær raðir. Tónlist Trentemöller hljómaði bara ágætlega meðan ég beið eftir borgaranum en það hefur eflaust verið þrælmagnað að vera í stútfullu tjaldinu og að tjútta.

Næstir á dagskrá voru Queens of the Stone Age á Orange sviðinu klukkan 22:30. Ég ætlaði nú reyndar bara að staldra stutt við þar sem ég hafði sagt að ég myndi skrifa um Annuals sem voru að spila klukkan 23 í Pavilion tjaldinu. Ég náði einum þremur lögum með Queens en svona eftir á að hyggja sé ég ekki eftir að hafa farið af tónleikunum því þeir voru víst slakir. Ég var mættir um 20 mínútum fyrir Annuals tónleikana og kom mér fyrir fremst. Þetta voru held ég án vafa einir bestu tónleikarnir sem ég sá á hátíðinni eins og má lesa í umfjöllun sem birtist á Rjómanum á næstu dögum. Þar má t.d. sjá myndir og vídjó þannig að allir að kíkja á það.

Eftir magnaða Annuals tónleika hitti ég Tryggva, Þórhildi, Gunna Gamla, Adda Inga og fleira gott fólk áður en við héldum á Brian Jonestown Massacre sem spiluðu upp úr 2. Ef þið lesið þessa umfjöllun þá má sjá að mikið gekk á tónleikunum. Það fyndna er að ég missti af því öllu. Fyrir mér þá voru þessir tónleikar bara rólegir og það sem kom mér helst á óvart var hversu poppaðir þeir voru. Ég hefði haldið að miðað við nafnið væri þetta einhver sýrutónlist en ekki þetta popp sem mér fannst ég heyra.

Það er nú kannski vert að nefna að á þessum tímapunkti þá vorum við ekki búin að tjalda. Við vorum ekki einu sinni með tjaldið hennar Kristínar Laufeyjar sem hún var svo góð að leyfa mér að gista í. Á Brian Jonestown tónleikunum hittum við Birnu og Gígju og eitthvað vorum við Birna þreytt þannig að við röltum á tjaldsvæðið upp úr þrjú meðan Gígja, Sara og Kristín Laufey héldu áfram. Þar sem Gígja og Birna voru búnar að tjalda þá fékk ég að crasha þar og Gígja fékk þess í stað að crasha í mínu plássi í tjaldinu sem var á þessum tímapunkti ótjaldað hehe. Því má segja að ég hafi sloppið ansi vel. Þær stelpurnar héldu víst áfram til 5 eða 6 að djamma og fóru svo í leiðangur að ná í dót í bílinn, sem reyndar kom í hlut Söru af því að Gígja og Kristín Laufey máttu víst ekki fara einhverja ákveðna leið og svo tjölduðu þær. Á meðan svaf ég og rumskaði ekki við mér þó svo ég hafi sofið ofan á tjaldinu hennar Kristínar (segir sagan) og Gígja togað það undan mér þarna um nóttina. Og ég sem segist ekki geta sofið í tjaldi.

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Hróarskelda 2007 a.k.a. Wetfest 07 MYNDIR

Gamla reglan gildir, ef það er mynd þarna sem fólk er ósátt með þá getur það sent mér póst og beðið mig um að fjarlægja hana. Ég reyndi að hafa ekki ótrúlega slæmar myndir þarna en stundum er mat mitt annað en mat annars fólks :). Póstfangið er ottarv hja gmail.com.

Myndirnar eru hér. Njótið.

p.s. texti við myndirnar kemur hægt og rólega.

mánudagur, júlí 23, 2007

Enn ein helgin að baki og farið að styttast ískyggilega í lok sumarsins hjá mér á Íslandi. Ég stefni að því að fara út einhvern tíma á bilinu 25. - 30. ágúst og því er ekki mikill tími eftir.

Helgin var frekar pökkuð og hófst með golfmóti Bakvinnslunnar á föstudaginn. Ég spilaði að venju frekar illa kannski af því að ég var að nota tvær mismunandi sveiflur og skipti í miðjum klíðum, sem er ekki sniðugt. Mér tókst þó að vinna til verðlauna með því að vera næst pinna á par þrjú holu einungis 4,4 metra frá.
Laugardagurinn var lagður undir MR reunion. Um daginn var keppt í leikjum og má segja að mætingin hefði mátt vera miklu betri. Ég var einn úr 6-Y og var það einungis 6-X sem hafði einhvern fjölda að keppa. Leikirnir reyndu þó líkamlega ekkert á mann heldur reyndi meira á vitneskju um hluti í MR og sköpunargáfu og svo leikni í því að snúa við kexi í munninum án þess þó að nota hendur. Þar sýndi ég snilli mína með því að snúa 6 kexkökum einar 180 gráður án þess að nota hendur og fékk því nokkur stig þar.
Um kvöldið var svo byrjað á því að fara í grill til Söru á Bergstaðarstrætið og svo á reunion-ið sem haldið var í sal Sjálfstæðisfélagsins úti á Seltjarnarnesi. Mætingin var svosem ágæt sérstaklega í ljósi þess að þessi árgangur er líklega einn sá minnsti í seinni tíð enda þurfti á sínum tíma að auglýsa eftir nemendum. Ég áætla að rétt um helmingur hafi mætt og miðað við þann tíma sem þetta var auglýst og svona þá er það svosem ásættanlegt en vonandi verður nú miklu betri mæting eftir 5 ár.

Myndir frá reunioninu gætu dottið inn í kvöld en þó er líklegra að fólk þurfi aðeins að bíða þar sem ég þarf fara í gegnum 5-600 myndir frá ferðalaginu, sortera og rétta af þær myndir sem ekki snúa rétt, þannig að ég bið ykkur bara um að bíða spök. Svo er vonandi næsti kafli af ferðasögunni væntanlegur og þá fáið þið forsmekk af myndunum.

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Hér með hefst Hróarskeldu umfjöllun mín. Hver dagur verður eitt blog og jafnvel verða myndir og vídjó með. Fyrsta bloggið er bara texti en ég lofa að það verða myndir með hinu, svona til að brjóta þetta upp hehe.

Fimmtudagur

Það er ekki laust við að það hafi verið mikil tilhlökkun hjá mér fyrir fimmtudeginum svona áður en að deginum sjálfum kom. Arcade Fire, band sem er í uppáhaldi átti að spila, og ég ætlaði mér svo sannarlega að vera fremstur en svo var það lítill hlutur sem við köllum rigning. Já það rigndi þegar við lentum, það rigndi á leiðinni til Hróarskeldu og það rigndi meðan við biðum eftir leigubíl. Svo rigndi á meðan öllum tónleikunum stóð. Ekki glæsileg byrjun og má segja að ákveðið vonleysi fyrir hátíðinni hafi byrjað að læðast aftan að manni.

Þegar við komum til Hróarskeldu um 3 leytið þá tók við bið eftir leigubíl. Ég og Sara þurftum að ná í media miðann okkar og þar sem hvorugt okkar rataði að þeim stað þar sem þeir voru og fólk mælti ekki með að maður dröslaði farangrinum þangað,þá ákváðum við að taka leigubíl. Sú bið varði í einn og hálfan tíma og ég held ég geti alveg viðurkennt að á þeirri stundu vildi ég helst bara vera inni í hlýjunni. Einnig þá sáum við fram á að það yrði knappur tími frá því að við kæmum á svæðið og þangað til Arcade Fire myndu byrja. Fyrir hátíðina hafði ég sagt að ég ætlaði að vera mættur 1-2 tímum fyrir tónleikana til að tryggja mér pláss. Svo fór ekki. Tíminn leið og það styttist alltaf meira og meira í tónleikana. Þegar um hálftími var í að þeir myndu byrja þá vorum við ennþá bara með töskurnar okkar að reyna að ákveða hvað skyldi gera. Úr varð að við fórum á media tjaldsvæðið, hentum upp tjaldinu sem frænka mín sem býr í Danmörku hafði látið vinkonu sína kaupa handa mér og var án himins (gott í rigningunni). Þarna var klukkan orðin 6, tónleikarnir byrjaðir og við á media tjaldsvæðinu sem var fyrir norðan Orange sviðið. Við fleygðum dótinu í tjaldið, því við ætluðum bara að geyma það meðan við færum á tónleikana, og lögðum af stað. Þar sem við rötuðum auðvitað ekkert þá vorum við aðeins lengur að komast á tónleikana en komumst þó loksins. Tónleikasvæðið var ansi illa leikið með mikið af pollum og Arena tjaldið, þar sem Arcade Fire spiluðu, var troðfullt svo við þurftum að standa fyrir utan að horfa eða kannski meira hlusta á tónleikana. Vonleysið var orðið nokkurt á þessari stundu. Standandi úti í rigningunni sem dundi á manni, að vera ekki framarlega og sjá tónleikana og fleira til gerðu það að verkum að manni leið ekki kannski sem best. En frábær tónlist hefur máttinn til að gefa manni styrk til að takast á við mótlætið og það gerðu Arcade Fire svo sannarlega. Þegar þeir tóku Tunnels og Wake Up, söng maður með og aðrir dönsuðu og í skamman tíma gleymdi maður stað og stund.

Mótlæti og vonleysi
Við höfðum ákveðið, Ég, Sara og Kristín Laufey að við ætluðum aftur til Kaupmannahafnar og gista þar í stað þess að reyna að finna tjaldsvæði og tjalda í rigningunni. Við tók labb að ná í dót Kristínar lengst hjá F tjaldsvæðinu (sem er eins sunnarlega og hægt er að komast), þaðan löbbuðum við alla leið að media svæðinu (í gegnum allt tónleikasvæðið og tjaldsvæðin á undan því) þar sem dótið okkar var og þaðan löbbuðum við niður í Hróarskeldu. Þessi göngutúr okkar tók um 3 tíma og við lögðum í hann eftir fína tónleika Bjarkar. Þegar við komum niðrí Hróarskeldu var hætt að rigna og á lestarstöðinni blasti við okkur lest og svona um 500 manns að reyna að komast inn í hana. Enginn önnur lest var á leiðinni og nú voru góð ráð dýr. Við ákváðum að reyna að fara í leigubílaröðina. Þar hittum við Íslendinga sem sögðu okkur að síðasti leigubíll sem hafði komið var fyrir tveimur tímum. Þarna, um tvö leytið sá ég fram á að við þyrftum að vera úti við þangað til lestarnar byrjuðu að ganga aftur um 6 leytið og mér fannst þetta mikið mótlæti en samt var ég einhvern veginn farinn að gíra mig fyrir það. Einhverjir tyrkja-leigubílar áttu leið sína hjá en prísinn sem þeir tóku fyrir að keyra niðrí köben var svo geigvænlegur að við þrjú neituðum að láta plata okkur í eitthvað þannig. Úr varð að loksins kom venjulegur leigubíll og var það lukka okkar að hann gekk á röðina, við vorum ekki fremst, spyrjandi hvert fólk var að fara. Þar sem við förum því sem næst að fara á flugvöllinn þá urðum við þau heppnu sem fórum í leigubílinn og um hálftíma síðar vorum við komin inn í heitt hús og undir sæng.

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Kominn heim eftir æðislegt frí. Mikið oplevelse, mikið gerðist og mikið að segja frá. Líklega fara næstu dagar í það. Svo má vænta mynda í vikunni á bæði Facebook og Fotki síðunni, ég ætla að hætta að vera latur.

Núna þegar ég sit þetta og skrifa þá er ég að deyja úr kláða á handabaki hvorrar handar. Á sunnudaginn í Köben þá náði mýið að bíta mig og úr varð þessi kláði sem hefur verið að gera mig geðveikan. Einnig fékk ég bit á lappirnar en það virðist ekki vera eftir mý heldur eitthvað annað kvikindi, það lítur líka verra út. Til að berjast gegn kláðanum er ég með hydrocortizon krem sem ég ber á þetta og það virðist því miður ekki hafa nægjanlega langvarandi áhrif því ég þarf reglulega að bera það á mig og svo er það bara viljastyrkurinn sem heldur mér frá því að grafa neglurnar í handabökin og klóra mig til blóðs. Það sem virkar hins vegar betur er að setja hendurnar undir kalt/ylvolgt vatn og leyfa þeim að vera þar aðeins undir. Hins vegar vonast ég til að á morgun verði þetta nú orðið betra, ef ekki þá fer ég á læknavaktina.

Svona að lokum þá langar mig að minnast á hundinn Lúkas og það dæmi allt. Ég er langt í frá að vera fyrsti maðurinn sem bloggar um þetta og verð eflaust ekki sá síðasti en það er ekki laust við að hreinlega skilji ekki hvernig gaurinn gat verið "dæmdur" svona án dóms og laga. Ég sé einnig ekki fram á að þeir sem höfðu sig í mest frammi og voru með hótanir og hvað eina munu eitthvað biðjast afsökunar. Í dag er svo auðvelt að koma af stað orðrómi og ráðast á annað fólk, allt í skjóli nafnleyndar á netinu. Maður þarf að vera var um sig hvað maður les (jafnvel á wikipedia, sem ég hef oft notað sem heimild) og hverju maður trúir og það er eflaust gott að muna að allir eru saklausir uns sekt er sönnuð.

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Annað kvöld hefst "sumarfríið" mitt. Þá verður haldið út á Keflavíkurflugvöll eða flugstöð Leifs Eiríkssonar eins og einhverjir þekkja hana sem og þaðan mun flug apparat flytja mig til DK. Af veðurspánni að dæma þá verður þetta ferð tveggja veðra. Í DK er spáð rigningu nánast allan tímann sem ég er þar en spáin fyrir Róm er, heiðskýrt og 30 stiga hiti, þannig að þið vitið ef ég kem ekki með base tanið á hreinu heim af hverju það er. Rigning í DK.

Þar sem ég man ekki hvað ég ætlaði eiginlega að blogga um meira þá kemur svona "helgar" blogg bara.
Það var kíkt tvisvar í bæinn um helgina. Á föstudaginn hélt Ari kveðjupartý sem haldið var úti í góða veðrinu og þar sat fólk úti, grillaði, spjallaði, tók froskinn, stóð á höndum og hafði það almennt séð gaman þangað til tími var kominn til að fara í bæinn. Þegar í bæinn var komið þá ætlaði ég að fara á Ólíver til að hitta Ara Björns, sem hafði einmitt verið hjá Ara Tómasar, en mér var ekki hleypt inn útaf því að ég var í rauðu Adidas skónum mínum og bol með neon stöfum á. Já það er kominn dresskóði á Íslandi, go figure. Ég nennti ekkert að æsa mig yfir þessu þannig að ég hélt bara áfram á öðrum stöðum.
Laugardagurinn var síðan temmilega sweet. Mér leið eins og útlendingi í borginni. Ég, Árni Guðjóns og Káki fórum á Austurvöll og svo þaðan á Vegó að borða og god damn hvað það er góður matur þarna. Eftir matinn var farið í vinnuna til Árna sem er í TM húsinu við Ingólfstorg þangað til haldið var í bæinn. Í bænum vissum við að Lundúnarbúarnir, Hildur og Sigurjón, voru ásamt fríðu erlendu föruneyti sínu og því var stefnt á að hitta þau sem og gerðist og það var mjög gaman að hitta þau, enda langt síðan síðast.
Á sunnudeginum fór ég svo á Die Hard 4.0 og það er óhætt að segja að þetta er svona ekta sumarmynd, eitthvað sem maður sér og bara slekkur á heilanum og goes along for the ride.

En ég býst nú ekki við að ég bloggi áður en ég fari út svo ég segi bara, Arrivaderci!