A site about nothing...

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Hér með hefst Hróarskeldu umfjöllun mín. Hver dagur verður eitt blog og jafnvel verða myndir og vídjó með. Fyrsta bloggið er bara texti en ég lofa að það verða myndir með hinu, svona til að brjóta þetta upp hehe.

Fimmtudagur

Það er ekki laust við að það hafi verið mikil tilhlökkun hjá mér fyrir fimmtudeginum svona áður en að deginum sjálfum kom. Arcade Fire, band sem er í uppáhaldi átti að spila, og ég ætlaði mér svo sannarlega að vera fremstur en svo var það lítill hlutur sem við köllum rigning. Já það rigndi þegar við lentum, það rigndi á leiðinni til Hróarskeldu og það rigndi meðan við biðum eftir leigubíl. Svo rigndi á meðan öllum tónleikunum stóð. Ekki glæsileg byrjun og má segja að ákveðið vonleysi fyrir hátíðinni hafi byrjað að læðast aftan að manni.

Þegar við komum til Hróarskeldu um 3 leytið þá tók við bið eftir leigubíl. Ég og Sara þurftum að ná í media miðann okkar og þar sem hvorugt okkar rataði að þeim stað þar sem þeir voru og fólk mælti ekki með að maður dröslaði farangrinum þangað,þá ákváðum við að taka leigubíl. Sú bið varði í einn og hálfan tíma og ég held ég geti alveg viðurkennt að á þeirri stundu vildi ég helst bara vera inni í hlýjunni. Einnig þá sáum við fram á að það yrði knappur tími frá því að við kæmum á svæðið og þangað til Arcade Fire myndu byrja. Fyrir hátíðina hafði ég sagt að ég ætlaði að vera mættur 1-2 tímum fyrir tónleikana til að tryggja mér pláss. Svo fór ekki. Tíminn leið og það styttist alltaf meira og meira í tónleikana. Þegar um hálftími var í að þeir myndu byrja þá vorum við ennþá bara með töskurnar okkar að reyna að ákveða hvað skyldi gera. Úr varð að við fórum á media tjaldsvæðið, hentum upp tjaldinu sem frænka mín sem býr í Danmörku hafði látið vinkonu sína kaupa handa mér og var án himins (gott í rigningunni). Þarna var klukkan orðin 6, tónleikarnir byrjaðir og við á media tjaldsvæðinu sem var fyrir norðan Orange sviðið. Við fleygðum dótinu í tjaldið, því við ætluðum bara að geyma það meðan við færum á tónleikana, og lögðum af stað. Þar sem við rötuðum auðvitað ekkert þá vorum við aðeins lengur að komast á tónleikana en komumst þó loksins. Tónleikasvæðið var ansi illa leikið með mikið af pollum og Arena tjaldið, þar sem Arcade Fire spiluðu, var troðfullt svo við þurftum að standa fyrir utan að horfa eða kannski meira hlusta á tónleikana. Vonleysið var orðið nokkurt á þessari stundu. Standandi úti í rigningunni sem dundi á manni, að vera ekki framarlega og sjá tónleikana og fleira til gerðu það að verkum að manni leið ekki kannski sem best. En frábær tónlist hefur máttinn til að gefa manni styrk til að takast á við mótlætið og það gerðu Arcade Fire svo sannarlega. Þegar þeir tóku Tunnels og Wake Up, söng maður með og aðrir dönsuðu og í skamman tíma gleymdi maður stað og stund.

Mótlæti og vonleysi
Við höfðum ákveðið, Ég, Sara og Kristín Laufey að við ætluðum aftur til Kaupmannahafnar og gista þar í stað þess að reyna að finna tjaldsvæði og tjalda í rigningunni. Við tók labb að ná í dót Kristínar lengst hjá F tjaldsvæðinu (sem er eins sunnarlega og hægt er að komast), þaðan löbbuðum við alla leið að media svæðinu (í gegnum allt tónleikasvæðið og tjaldsvæðin á undan því) þar sem dótið okkar var og þaðan löbbuðum við niður í Hróarskeldu. Þessi göngutúr okkar tók um 3 tíma og við lögðum í hann eftir fína tónleika Bjarkar. Þegar við komum niðrí Hróarskeldu var hætt að rigna og á lestarstöðinni blasti við okkur lest og svona um 500 manns að reyna að komast inn í hana. Enginn önnur lest var á leiðinni og nú voru góð ráð dýr. Við ákváðum að reyna að fara í leigubílaröðina. Þar hittum við Íslendinga sem sögðu okkur að síðasti leigubíll sem hafði komið var fyrir tveimur tímum. Þarna, um tvö leytið sá ég fram á að við þyrftum að vera úti við þangað til lestarnar byrjuðu að ganga aftur um 6 leytið og mér fannst þetta mikið mótlæti en samt var ég einhvern veginn farinn að gíra mig fyrir það. Einhverjir tyrkja-leigubílar áttu leið sína hjá en prísinn sem þeir tóku fyrir að keyra niðrí köben var svo geigvænlegur að við þrjú neituðum að láta plata okkur í eitthvað þannig. Úr varð að loksins kom venjulegur leigubíll og var það lukka okkar að hann gekk á röðina, við vorum ekki fremst, spyrjandi hvert fólk var að fara. Þar sem við förum því sem næst að fara á flugvöllinn þá urðum við þau heppnu sem fórum í leigubílinn og um hálftíma síðar vorum við komin inn í heitt hús og undir sæng.