A site about nothing...

sunnudagur, júlí 29, 2007

Hróarskelda - nýtt upphaf

Eftir að hafa flúð til Köben á aðfararnótt föstudagsins var mikið rætt um hvernig við skildum bera okkur að fyrir framhaldið. Spáin var á þá leið að það gæti rignt og eftir að hafa brennt okkur á því frá deginum á undan ákváðum við að best væri að leigja bíl og þá hafa möguleika á því að leita aftur niðrí Köben ef veðrið skyldi verða eitthvað svipað og það var deginum á undan. Sem betur fór kom þó ekki til þess.

Við vorum komin um 6 leytið á svæðið eftir að hafa lagt hjá íbúðarhúsnæðum sem voru í pínu göngufjarlægð frá svæðinu þar sem bílastæði nálægt svæðinu voru annaðhvort ónothæf eða full.


Þegar okkur bar að garði hjá Orange sviðinu voru Beastie Boys að spila. Þeir tóku blöndu af gamla efninu sínu ásamt því nýja sem er víst eitthvað instrumental jazz bræðingur og af því sem ég heyrði þá var Intergalactic lang besta lagið. Sérstaklega flott þótti mér svona instrumental kafli sem kom í miðju lagi þar sem þeir fóru um víðan völl í tónlistarsögunni. Eftir tónleikana var ég orðinn ansi svangur og rölti því að Arena svæðinu þar sem Trentemöller var að spila ásamt hljómsveit. Arena tjaldið var pakkað enda er Trentemöller svona golden boy í Danmörku um þessar mundir og það virtist vera rosalega góð stemmning. Ég hinsvegar heyrði bara tónlistina meðan ég beið í svona 40 mínútur eftir því að fá hamborgara, franskar og ávaxtasafa. Já, ávaxtasafa. Málið er að veitingastaðirnir sem ég fór á í það minnsta seldu ekki gos heldur bara einhvers konar ávaxtasafa og því ef maður vildi kók þurfti maður að fara í tvær raðir. Tónlist Trentemöller hljómaði bara ágætlega meðan ég beið eftir borgaranum en það hefur eflaust verið þrælmagnað að vera í stútfullu tjaldinu og að tjútta.

Næstir á dagskrá voru Queens of the Stone Age á Orange sviðinu klukkan 22:30. Ég ætlaði nú reyndar bara að staldra stutt við þar sem ég hafði sagt að ég myndi skrifa um Annuals sem voru að spila klukkan 23 í Pavilion tjaldinu. Ég náði einum þremur lögum með Queens en svona eftir á að hyggja sé ég ekki eftir að hafa farið af tónleikunum því þeir voru víst slakir. Ég var mættir um 20 mínútum fyrir Annuals tónleikana og kom mér fyrir fremst. Þetta voru held ég án vafa einir bestu tónleikarnir sem ég sá á hátíðinni eins og má lesa í umfjöllun sem birtist á Rjómanum á næstu dögum. Þar má t.d. sjá myndir og vídjó þannig að allir að kíkja á það.

Eftir magnaða Annuals tónleika hitti ég Tryggva, Þórhildi, Gunna Gamla, Adda Inga og fleira gott fólk áður en við héldum á Brian Jonestown Massacre sem spiluðu upp úr 2. Ef þið lesið þessa umfjöllun þá má sjá að mikið gekk á tónleikunum. Það fyndna er að ég missti af því öllu. Fyrir mér þá voru þessir tónleikar bara rólegir og það sem kom mér helst á óvart var hversu poppaðir þeir voru. Ég hefði haldið að miðað við nafnið væri þetta einhver sýrutónlist en ekki þetta popp sem mér fannst ég heyra.

Það er nú kannski vert að nefna að á þessum tímapunkti þá vorum við ekki búin að tjalda. Við vorum ekki einu sinni með tjaldið hennar Kristínar Laufeyjar sem hún var svo góð að leyfa mér að gista í. Á Brian Jonestown tónleikunum hittum við Birnu og Gígju og eitthvað vorum við Birna þreytt þannig að við röltum á tjaldsvæðið upp úr þrjú meðan Gígja, Sara og Kristín Laufey héldu áfram. Þar sem Gígja og Birna voru búnar að tjalda þá fékk ég að crasha þar og Gígja fékk þess í stað að crasha í mínu plássi í tjaldinu sem var á þessum tímapunkti ótjaldað hehe. Því má segja að ég hafi sloppið ansi vel. Þær stelpurnar héldu víst áfram til 5 eða 6 að djamma og fóru svo í leiðangur að ná í dót í bílinn, sem reyndar kom í hlut Söru af því að Gígja og Kristín Laufey máttu víst ekki fara einhverja ákveðna leið og svo tjölduðu þær. Á meðan svaf ég og rumskaði ekki við mér þó svo ég hafi sofið ofan á tjaldinu hennar Kristínar (segir sagan) og Gígja togað það undan mér þarna um nóttina. Og ég sem segist ekki geta sofið í tjaldi.