A site about nothing...

mánudagur, nóvember 27, 2006

"Þrír fílar lögðu af stað í leiðangur..." til NYC
Var að detta inn úr durunum (ég veit að það er dyrunum) eftir 5 tíma rútuferð frá Manhattan og aftur til Boston. 5 tímar er ekki slæmt, sérstaklega í ljósi þess að þetta er þvílík ferðahelgi, við fórum frekar seint af stað, það var 20 mínútna pissu/matarhlé og rútubílstjórinn náði að týnast í Boston í góðar 20 mínútur líka.
Hvað er hægt að segja um borg eins og New York, frábær borg sem býr yfir svo miklum krafti og er svo lifandi að maður nærist hreinlega af því. Svo þegar það bætist við jöfnuna frábær félagskapur, Inga og Pia svo Varði síðar meir, og ótrúlega gott veður, sól og 10-15 stiga hiti, þá getur þetta varla klikkað.
Núna tekur við hversdagsleikinn og grámyglan sem einkennist af því að gera heimadæmi og annað sem stúdentar eiga víst að gera þegar þeir eru í námi. En maður mun lifa á svona ferðalagi og þetta mun koma manni í gegnum prófin þangað til ferðalagið heim hefst.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

2006 Pride of Arizona Radiohead Part1 and 2 (UW Game)

Þetta sýnir ágætlega hversu "versatile" tónlist radiohead er, hún er góð jafnvel í svona búningi. Hérna má heyra, Airbag, Paranoid Android og National Anthem.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Ég komst að því í kvöld hversu ópraktískt það er að eiga einn hvítan bol þegar restin af fötunum þínum er annaðhvort svört eða í einhverjum lit sem þú þværð ekki með hvítum. Því þarf maður helst að fá að koma þessari hvítu flík í þvott hjá einhverjum öðrum sem er að þvo hvítt en á meira af hvítu en maður sjálfur. Það er ekki beint eðilegt spurning að spyrja fólk að því þannig að það gæti endað þannig að bolurinn fái að þeytivindast einn og yfirgefinn í þvottavél.

Í kvöld kláraðist svo seinni midterms vikan mín. Engar niðurstöður af árangir eru komnar en mér gekk ágætlega tel ég. Í tilefni af því að þessu er lokið og löngum setum á bókasafninu er lokið að bili þá ætla ég að vera góður við sjálfan mig á morgun og er stefnan tekin á að heimsækja Cambridge í leit að bakaríi sem selur íslenskar bakaríis vörur. Svo ef maður er í stuði þá er aldrei að vita nema maður fari í whole foods og reyni að finna íslenska skyrið sem á að vera til þar. Þannig að dagurinn á morgun gæti verið með svolitlu íslensku yfirbragði. Planið annaðkvöld er svo að fara út að borða og fara svo að sjá Daniel Craig sem Bond, bind ágætis væntingar við myndina því af trailerum að dæma þá virðist myndin hverfa aftur til hluta sem eru raunhæfir en ekki eins ruglið sem myndirnar voru komnar í. Hver veit svo nema maður kíki eitthvað út á eftir, það kæmi mér ekki á óvart.

Ég er ekki frá því að enduruppgötvun ársins 2006 hafi verið Belle and Sebastian hjá mér. Ég hlustaði talsvert á The Boy With The Arab Strap þegar hún kom út og líkaði vel en hætti einhvern veginn eftir það að hlusta á hljómsveitina. Svo auðvitað kom hljómsveitin í sumar og ég ætlaði að keyra á hinn enda landsins til að sjá hana þannig að ég þurfti að kynna mér hvað ég var að fara að hlusta á. Gummijoh sem er eflaust einn mesti Belle and Sebastian aðddáandi Íslands og penni á Rjómanum lét mig hafa lista yfir líkleg lög sem yrðu spiluð og því bjó ég til playlista með því í Ipodinum. Þarna komst ég í tæri við lög sem ég hafði aldrei heyrt en fílaði mjög vel og þótti mér Life Pursuit og lögin af henni sérstaklega góð og þykir enn. Tónleikarnir voru síðan í einu orði sagt frábærir og ég aftur orðinn aðdáandi. Eitt laganna sem ekki var spilað er Dear Catastrophy Waitress af samnefndri plötu og þetta lag er þvílík perla. Fáránlega gott hreint út sagt. Melódían, notkunin á fiðlum og brassi, angistin í Stuart þegar hann syngur og textinn. Mæli með að fólk tjekki á þessu.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Eitt sem mér finnst svolítið spes hérna úti er ást Kananna á tveimur hlutum. Hjá strákunum er það derhúfur sem oftar en ekki eru hafðar þannig á höfði að derið snýr aftur, því jú það er svo kúl. Hjá stelpum og reyndar sumum strákum þá er það flip flops, þ.e. sandalar með bandinu milli stóru táar og táarinnar við hliðina á sem ég man ekki hvað heitir. Flips flops þessir er eitthvað sem ég hef séð fólk labba í, berfætt, í frekar köldu veðri og jú auðvitað þegar heitt er. Reyndar hefur ekki enn komið hálka hérna eða snjór en ef ég sé einhvern í flip flops í snjó þá hef ég séð allt.

Ég er að gera það upp við mig hvort ég eigi að kaupa mér notaða slr filmumyndavél með þremur linsum af gerðinni Ricoh á 20 dollara. Reyndar er ljósmælirinn eitthvað off og samkvæmt seljandanum þá sagði gaur í ljósmyndabúð við hann að það væri um 100 dollara viðgerð þannig að heildarpakkinn færi í 120 dollara sem er svo sem ekki mikið. Þar sem Boston er mjög fótógenísk borg og það er ekki dýrt að framkalla þá gæti þetta verið soldið skemmtilegt. Þar sem maður síðan á leiðinni til NYC í næstu viku sem er ef eitthvað er meira fótógenísk borg þá er alveg spurning hvort maður eigi ekki að skella sér á þetta.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Þvottabjörn

Hluti af því að búa úti í hinum stóra heimi er að hér leynast allskonar dýr sem maður sér vanalega ekki heima. Oft þegar ég sit inni á bókasafni og horfi út um gluggann þá sé ég lítinn íkorna skjótast úr fylgsni sínu, væntanlega í leit að mat.
Einnig er ekki óalgengt seint á kvöldin að sjá mús eða jafnvel rottu skoppa yfir götu og inn í eitthvað beð. Ef rottan verður á vegi einhvers, sérstaklega stelpna, er ekki óalgengt að heyra eins og eitt lítið öskur þó svo að manneskjan gæti auðveldlega slátrað rottunni ef út í það færi. Fyndið hvernig við getum hræðst eitthvað sem er miklu minna en við.
Á föstudaginn sá ég svo þvottabjörn. Hann var að klifra upp í tré sem ég labbaði framhjá að kvöldi til og ég stoppaði til að virða hann fyrir mér. Hann stoppaði í klifri sínu og horfði á mig og ég er ekki frá því að hann gaf mér eitthvað mean lúkk þannig að ég hélt áfram göngu minni.

Í kvöld, eftir miðsvetrarpróf númer 2, þá skellti ég mér ásamt Vanni og spænskum vinkonum okkar, Mörtu og Pilar á The Bravery tónleika. Þeir voru haldnir á algjörri búllu í Cambridge sem heitir T.T. and the Bears og rúmar max 200 manns myndi ég giska. Eftir því sem á leið á giggið þá komst ég að því, frá söngvaranum, að þetta voru fyrstu tónleikarnir þeirra í 5 mánuði og við vorum þau fyrstu sem heyrðu nýja efnið sem þeir voru að enda við að taka upp fyrir plötu sem kemur út eftir um 4 mánuði. Tónleikarnir voru hin fínasta skemmtun og dillaði ég á mér höfðinu við hliðina á foreldrum einhvers úr hljómsveitinni.

Verandi Íslendingur þá er ég alltaf að pæla í veðrinu. Heima er veðrið mjög ófyrirsjáanlegt og veðurfregnir þeim mun verri í þeim tilgangi. Hérna er þetta fáránlega nákvæmt og maður getur því sem næst farið eftir 7-10 daga spánni sem manni er gefin upp á síðum eins og weather.com. Þetta er náttúrulega mjög gott, ef veðrið á að vera gott en getur verið niðurdrepandi ef 7-10 daga spáin er slæm.
Veðrið hérna síðustu daga hefur einmitt verið frekar gott. Í lok október þá var farið að kólna helvíti mikið en svo fór hitastigið aftur upp og seinustu daga hefur það verið virkilega gott á daginn. Kaninn er ekki lengi að nýta sér það og hefur mátt sjá fólk á stuttbuxum og flip flops, sem það er í alltaf hvort eð er.

Svona í lokin þá má nefna það að ég kem heim að morgni 18. desember, sem er mánudagur, og byrja að vinna 19. des. Flugið hingað aftur verður svo hinn 7. janúar og því fær maður gott jóla"frí".

föstudagur, nóvember 10, 2006

Þeir sem þekkja mig eitthvað af ráði vita um ást mína á H&M sem mér finnst vera the greatest thing since sliced bread. Anyways í dag þá kom út designer lína í H&M í limited edition sem skartaði meðal annars brúðarkjóli og smóking svo eitthvað sé nefnt, hönnuð af hollendingunum Viktor og Rolf. Ekki veit ég mikið um þessa hollendinga en þar sem ég þurfti hvort eð er að fara í H&M í vikunni þá ákvað ég að kíkja í dag upp úr opnun því það vantaði belti með jakka sem ég hafði keypt nýlega þar. Ég mæti þarna upp úr 10:20 og allt virðist vera með kyrrum kjörum, hafði opnað 10. Nema hvað að búðin var eitthvað hálftóm. Þá höfðu æstir aðdáendur H&M og Viktors og Rolfs eða jafnvel bara fólk sem vill kaupa designer wear á H&M verði, mætt og næstum tæmt línuna sem til var í búðinni á Newbury street. Þetta þótti mér ansi merkilegt, því það voru jú bara 20 mínútur síðan það opnaði og var soldið spes að sjá fólk með 2-3 stóra poka merkta H&M og Viktor og Rolf labbandi út úr búðinni. Þannig að ég fékk mér ekkert úr línunni, enda kannski ekki markmiðið, en þó var þarna helvíti töff smóking sem gaman væri að eiga, en maður er bara fátækur námsmaður og þetta verður að bíða betri tíma. Svo er ekki mikið um smóking tilefni hérna úti. Nema maður færi að taka upp á því að mæta í tíma í smóking, that's a thought.

Í dag fattaði ég "merkilega" staðreyndir varðandi dvöl mína hérna úti. Á þeim tveimur plús mánuðum sem ég hef verið hérna þá hef ég ekki fengið mér einn kleinuhring, nú móðgast eflaust Ingi Sturla ef hann les þetta ;). Annað áhugavert er sú staðreynd að ég get sagt með 95%(var að koma úr tölfræðitíma þegar þetta er skrifað) vissu að ég borða sushi a.m.k. einu sinni í viku.

Svo að lokum þá verð ég bara að minnast á farsímakerfið hérna, það er djók. Ég er með fyrirframgreitt símkort frá fyrirtæki sem er víst tengt inn á kerfi eins af stærsu fyrirtækjunum og þar af leiðandi ætti að vera með gott coverage. En stundum líður mér eins og ég búi í Súandafirði því sambandið er stundum fáránlega lélegt (sérstaklega ef ég er inni í húsum) og alveg í það að vera ekki neitt. Tökum sem dæmi herbergið mitt, ef ég sit hér inni, þar sem ég sit núna, þá liggur við að það skipti máli hvort ég halli mér cm til hægri eða vinstri upp á hvernig tengingin við kerfið er. Enda er einn stærsti sölupunktur fyrirtækjanna hérna úti "fewest dropped calls". Myndi maður sætta sig við þetta heima? Nei.
Svo væri nú hægt að skammast yfir því hvað maður þarf að borga fyrir, t.d. borga ég 10 cent fyrir hvert sent sms og fyrir hvert sms sem ég fæ. Einnig ef einhver hringir í mig þá borga ég líka fyrir símtalið og fer það þá eftir lengd símtalsins hvað ég borga mikið. Þannig að það skiptir ekki máli hvort ég hringi eða einhver hringir í mig, við borgum jafnmikið.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006



It's been a while eins og þeir segja stundum hérna í Ameríkunni. Af mér er nú bara allt gott að frétta og eins og sagt er þá eru engar fregnir vanalega góðar fregnir. Síðan ég skrifaði síðast þá hef ég brugðið mér í tvö gervi, kíkt á tónleika, skemmt mér, lært og þetta vanalega.

Upplifði mína fyrstu Halloween. Á föstudeginum fyrir Halloween fór ég í partý í gervi Dr. Love, sjá mynd neðar, en það merkilega við þetta partý var sú staðreynd að ég komst inn fyrir dyrnar, stóð þar fastur í fjórar mínútur og fór svo út. Þannig fór þetta föstudagskvöld hjá mér.
Á hrekkjavökunni sjálfri þá kíkti ég út með Whitney, Victoriu og vinkonu þeirra sem heitir Gaib en Vanni var eitthvað vant við látinn. Þetta kvöld fengu aðeins fleiri að sjá búninginn og þetta var hið ágætasta kvöld.

Spólum nú fram á laugardaginn sem leið. Whitney hélt upp á afmæli sitt og þemað var 80s partý. Reyndar þá skaraðist afmælið við Hot Chip tónleika sem voru hérna, þannig að ég byrjaði að fara á tónleikana sem voru snilld svo ég minnist á það. Svo eftir tónleikana þá fór ég með Vanni, Ingu og Piu (þýskri vinkonu Ingu og okkar) í partýið hjá Whitney. Nema hvað það var búið að bösta partýið af skólalöggunni (já það er skólalögga hérna) og því fengu ekki jafn margir að sjá 80s búninginn minn og ella. Hann var reyndar algjörlega settur saman á síðustu stundu þannig að hann var kannski ekkert rosalegur.


Framundan er svo prófatörn og geðveiki þar sem löngum stundum verður varið á bókasafninu, segi ég núna í það minnsta, til að tryggja að árangurinn verði fullnægjandi.