It's been a while eins og þeir segja stundum hérna í Ameríkunni. Af mér er nú bara allt gott að frétta og eins og sagt er þá eru engar fregnir vanalega góðar fregnir. Síðan ég skrifaði síðast þá hef ég brugðið mér í tvö gervi, kíkt á tónleika, skemmt mér, lært og þetta vanalega.
Upplifði mína fyrstu Halloween. Á föstudeginum fyrir Halloween fór ég í partý í gervi Dr. Love, sjá mynd neðar, en það merkilega við þetta partý var sú staðreynd að ég komst inn fyrir dyrnar, stóð þar fastur í fjórar mínútur og fór svo út. Þannig fór þetta föstudagskvöld hjá mér.
Á hrekkjavökunni sjálfri þá kíkti ég út með Whitney, Victoriu og vinkonu þeirra sem heitir Gaib en Vanni var eitthvað vant við látinn. Þetta kvöld fengu aðeins fleiri að sjá búninginn og þetta var hið ágætasta kvöld.
Spólum nú fram á laugardaginn sem leið. Whitney hélt upp á afmæli sitt og þemað var 80s partý. Reyndar þá skaraðist afmælið við Hot Chip tónleika sem voru hérna, þannig að ég byrjaði að fara á tónleikana sem voru snilld svo ég minnist á það. Svo eftir tónleikana þá fór ég með Vanni, Ingu og Piu (þýskri vinkonu Ingu og okkar) í partýið hjá Whitney. Nema hvað það var búið að bösta partýið af skólalöggunni (já það er skólalögga hérna) og því fengu ekki jafn margir að sjá 80s búninginn minn og ella. Hann var reyndar algjörlega settur saman á síðustu stundu þannig að hann var kannski ekkert rosalegur.
Framundan er svo prófatörn og geðveiki þar sem löngum stundum verður varið á bókasafninu, segi ég núna í það minnsta, til að tryggja að árangurinn verði fullnægjandi.