A site about nothing...

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Þvottabjörn

Hluti af því að búa úti í hinum stóra heimi er að hér leynast allskonar dýr sem maður sér vanalega ekki heima. Oft þegar ég sit inni á bókasafni og horfi út um gluggann þá sé ég lítinn íkorna skjótast úr fylgsni sínu, væntanlega í leit að mat.
Einnig er ekki óalgengt seint á kvöldin að sjá mús eða jafnvel rottu skoppa yfir götu og inn í eitthvað beð. Ef rottan verður á vegi einhvers, sérstaklega stelpna, er ekki óalgengt að heyra eins og eitt lítið öskur þó svo að manneskjan gæti auðveldlega slátrað rottunni ef út í það færi. Fyndið hvernig við getum hræðst eitthvað sem er miklu minna en við.
Á föstudaginn sá ég svo þvottabjörn. Hann var að klifra upp í tré sem ég labbaði framhjá að kvöldi til og ég stoppaði til að virða hann fyrir mér. Hann stoppaði í klifri sínu og horfði á mig og ég er ekki frá því að hann gaf mér eitthvað mean lúkk þannig að ég hélt áfram göngu minni.

Í kvöld, eftir miðsvetrarpróf númer 2, þá skellti ég mér ásamt Vanni og spænskum vinkonum okkar, Mörtu og Pilar á The Bravery tónleika. Þeir voru haldnir á algjörri búllu í Cambridge sem heitir T.T. and the Bears og rúmar max 200 manns myndi ég giska. Eftir því sem á leið á giggið þá komst ég að því, frá söngvaranum, að þetta voru fyrstu tónleikarnir þeirra í 5 mánuði og við vorum þau fyrstu sem heyrðu nýja efnið sem þeir voru að enda við að taka upp fyrir plötu sem kemur út eftir um 4 mánuði. Tónleikarnir voru hin fínasta skemmtun og dillaði ég á mér höfðinu við hliðina á foreldrum einhvers úr hljómsveitinni.

Verandi Íslendingur þá er ég alltaf að pæla í veðrinu. Heima er veðrið mjög ófyrirsjáanlegt og veðurfregnir þeim mun verri í þeim tilgangi. Hérna er þetta fáránlega nákvæmt og maður getur því sem næst farið eftir 7-10 daga spánni sem manni er gefin upp á síðum eins og weather.com. Þetta er náttúrulega mjög gott, ef veðrið á að vera gott en getur verið niðurdrepandi ef 7-10 daga spáin er slæm.
Veðrið hérna síðustu daga hefur einmitt verið frekar gott. Í lok október þá var farið að kólna helvíti mikið en svo fór hitastigið aftur upp og seinustu daga hefur það verið virkilega gott á daginn. Kaninn er ekki lengi að nýta sér það og hefur mátt sjá fólk á stuttbuxum og flip flops, sem það er í alltaf hvort eð er.

Svona í lokin þá má nefna það að ég kem heim að morgni 18. desember, sem er mánudagur, og byrja að vinna 19. des. Flugið hingað aftur verður svo hinn 7. janúar og því fær maður gott jóla"frí".