A site about nothing...

mánudagur, desember 24, 2007

Fyrir suma koma jólin ekki fyrr en þeir sjá jólakort Miðjunnar. Því miður fann ég "klassíkina" ekki í ár þannig að ég ákvað að uppfæra kortið og afraksturinn má sjá á myndinni sem fylgir.

Ég vil óska öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Takk fyrir samveruna á árinu sem er að líða.

laugardagur, desember 22, 2007

Kominn heim. Reyndar á þriðjudagsmorguninn. Er með gamla númerið. Endilega bjallið í mig, ég hef ekkert að gera - enda atvinnulaus*.

*er eiginlega sjálfskapað frí eftir að hafa klárað og ekki að vera byrjaður á næsta skrefi í lífinu.

mánudagur, desember 17, 2007

Síðasti dagurinn minn í Boston er að kvöldi kominn. Ég sit núna í RISASTÓRA herberginu mínu, dótið mitt út um allt og ég á flug annað kvöld eftir um 18 tíma eða svo. Síðasti dagurinn minn var samt góður, fyrir utan byrjunina. Ég vaknaði þunnur, eftir rosa gott djamm með Olgu og Garðari í gær þar sem við fórum á Douzo og fengum besta sushi-ið í Boston og svo kíktum við á nokkra staði og þaðan í eftirpartý.

Í dag þá fór ég með Richard hingað og þangað þar sem ég þurfti að fara til að kaupa það sem átti eftir að kaupa. Það hefur snjóað ansi duglega hérna í Boston upp á síðkastið og í dag þá byrjaði það aðeins að bráðna þannig að það var slabb og pollar út um allt sem gerðu ferðalagið erfiðara en það tókst að lokum og ég náði að fara á deitið mitt. Já, ég fór á deit síðasta daginn minn í Boston. Þetta er stelpa sem ég kynntist á föstudaginn í partýi hjá Ashley og Elizabeth, vinkonum okkar Richards, og komst ég að því í partýinu að við höfum svipaðan tónlistarsmekk, sem vakti auðvitað athygli mína. Svo fór að við ákváðum að hittast í dag sem við og gerðum og þetta var bara mjög gott deit verð ég að segja. Ef ég myndi vera hérna eftir jól þá hefði ég pottþétt boðið henni á annað deit og ég held að hún hefði þáð það.

Annað sem gerðist í dag var að kona ein í verslun líkti mér við Matt Damon (sem nýlega var kosinn kynþokkafyllsti maður í heimi, takið eftir því stelpur ;) ) en notaði til þess myndina af kreditkortinu mínu sem er nokkuð gömul. Ég tók þessu hins vegar bara sem hrósi.

Daginn í dag endaði ég svo með því að fara með Richard og Ashley á Juno sem er FRÁBÆR mynd og allir verða að sjá. Arrested Development crew-ið (George Michael og Michael Bluth) að gera góða hluti þar og Juno leikkonan sjálf frábær, einnig var tónlistin mjög góð.

föstudagur, desember 14, 2007

Búinn! Búinn með mastersgráðu í verkfræði. Þetta er vissulega skrýtin tilfinning en jafnframt mjög góð. Þýðir þetta að ég sé búinn almennt í prófum það sem eftir lifir? Ég er ekki viss og í raun held ég ekki þar sem ég væri alveg til í að bæta annarri gráðu í safnið en spurning hvort það verði núna eða seinna. Það að vera búinn þýðir líka að ég er búinn með þann pakka að búa í Boston. Boston er frábær borg. Borg sem ég set á svipaðan stall og Köben. Ég er á hálfgerðum bömmer yfir því að vera að flytja í burtu frá Boston en hlutirnir gengu því miður ekki upp í þetta skiptið. Það sem ég mun skilja eftir eru frábærir vinir, frábæra borg og frábærar upplifanir en stundum er það þannig. Hvað ég mun gera eftir jól er hins vegar óráðið. Persónulega vona ég að það verði það að ég flytji til Danmerkur þar sem mig langar að klára þann pakka og ég dýrka Köben. Við sjáum til hvað gerist.
En já að vera búinn er skrýtið en samt gott og ég held ég hafi náð að enda þetta allt á góðum nótum með góðu lokaprófi. Við sjáum til hvað gerist þar.

Annars hlakka ég til að sjá sem flesta um jólin og knúsa. Það er gott að knúsa, eiginlega vanmetið. Ég legg til að allir knúsist.

Later bitches,
OV

p.s. það snjóar eins og ég veit ekki hvað hérna. Kannski lendi ég í seinkun á flugvellinum eins og í fyrra. Vonandi ekki samt.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Það er held ég óhætt að segja að stærsta hluta þess tíma sem ég er vakandi þá sit ég fyrir framan tölvuna mína. Sérstaklega ef um prófatörn er að ræða. Nú vill svo til að ég er með tölvumús sem er með laser og músin sjálf er úr plastefni sem hægt er að horfa í gegnum þannig að maður sér innviði músarinnar rafrænu. Ég er hins vegar farinn að hallast að því að þetta sé ekki svo sniðugt. Þegar ég sit við tölvuna, með músina tengda þá vill oftar en ekki svo til að ég staðset hægri höndina yfir músina og þumallinn er á hlið hennar. Nú þar sem það er einungis gegnsætt gler sem ver mig frá lasernum í músinni þá finnst mér oft eins og sá hluti þumalsins sem snertir músina sé að hitna, væntanlega útaf lasernum. Ég er næstum því orðinn hræddur við þetta enda aldrei að vita nema ég fái brunasár eða eitthvað af þessu. Kannski ég ætti bara að kaupa mér nýja mús?

Annars er það í fréttum að ég var að enda við að horfa á Patriots leik á móti Baltimore Ravens sem var fáránlega spennandi og réðust úrslitin á síðustu sekúndum leiksins, með sigri Patriots. Þetta þýðir að þeir halda áfram sínu fullkomna tímabili og eru einu skrefi nær því að fara í gegnum allt leiktímabilið ósigraðir.

Fyrir utan þetta þá er ég bara í því að klára skólann. Á að skila ritgerð og halda kynningu núna á miðvikudaginn, svo er próf í því fagi á mánudaginn næsta og svo fer ég í annað próf og þá er ég búinn! Það er soldið skrýtið að hugsa til þess að þetta gæti verið síðasta prófatörnin á ævi minni en samt held ég að ég eigi eftir að mennta mig frekar. Hvort sem það verður í nánustu framtíð eða síðar meir.