A site about nothing...

mánudagur, desember 17, 2007

Síðasti dagurinn minn í Boston er að kvöldi kominn. Ég sit núna í RISASTÓRA herberginu mínu, dótið mitt út um allt og ég á flug annað kvöld eftir um 18 tíma eða svo. Síðasti dagurinn minn var samt góður, fyrir utan byrjunina. Ég vaknaði þunnur, eftir rosa gott djamm með Olgu og Garðari í gær þar sem við fórum á Douzo og fengum besta sushi-ið í Boston og svo kíktum við á nokkra staði og þaðan í eftirpartý.

Í dag þá fór ég með Richard hingað og þangað þar sem ég þurfti að fara til að kaupa það sem átti eftir að kaupa. Það hefur snjóað ansi duglega hérna í Boston upp á síðkastið og í dag þá byrjaði það aðeins að bráðna þannig að það var slabb og pollar út um allt sem gerðu ferðalagið erfiðara en það tókst að lokum og ég náði að fara á deitið mitt. Já, ég fór á deit síðasta daginn minn í Boston. Þetta er stelpa sem ég kynntist á föstudaginn í partýi hjá Ashley og Elizabeth, vinkonum okkar Richards, og komst ég að því í partýinu að við höfum svipaðan tónlistarsmekk, sem vakti auðvitað athygli mína. Svo fór að við ákváðum að hittast í dag sem við og gerðum og þetta var bara mjög gott deit verð ég að segja. Ef ég myndi vera hérna eftir jól þá hefði ég pottþétt boðið henni á annað deit og ég held að hún hefði þáð það.

Annað sem gerðist í dag var að kona ein í verslun líkti mér við Matt Damon (sem nýlega var kosinn kynþokkafyllsti maður í heimi, takið eftir því stelpur ;) ) en notaði til þess myndina af kreditkortinu mínu sem er nokkuð gömul. Ég tók þessu hins vegar bara sem hrósi.

Daginn í dag endaði ég svo með því að fara með Richard og Ashley á Juno sem er FRÁBÆR mynd og allir verða að sjá. Arrested Development crew-ið (George Michael og Michael Bluth) að gera góða hluti þar og Juno leikkonan sjálf frábær, einnig var tónlistin mjög góð.