A site about nothing...

þriðjudagur, desember 04, 2007

Það er held ég óhætt að segja að stærsta hluta þess tíma sem ég er vakandi þá sit ég fyrir framan tölvuna mína. Sérstaklega ef um prófatörn er að ræða. Nú vill svo til að ég er með tölvumús sem er með laser og músin sjálf er úr plastefni sem hægt er að horfa í gegnum þannig að maður sér innviði músarinnar rafrænu. Ég er hins vegar farinn að hallast að því að þetta sé ekki svo sniðugt. Þegar ég sit við tölvuna, með músina tengda þá vill oftar en ekki svo til að ég staðset hægri höndina yfir músina og þumallinn er á hlið hennar. Nú þar sem það er einungis gegnsætt gler sem ver mig frá lasernum í músinni þá finnst mér oft eins og sá hluti þumalsins sem snertir músina sé að hitna, væntanlega útaf lasernum. Ég er næstum því orðinn hræddur við þetta enda aldrei að vita nema ég fái brunasár eða eitthvað af þessu. Kannski ég ætti bara að kaupa mér nýja mús?

Annars er það í fréttum að ég var að enda við að horfa á Patriots leik á móti Baltimore Ravens sem var fáránlega spennandi og réðust úrslitin á síðustu sekúndum leiksins, með sigri Patriots. Þetta þýðir að þeir halda áfram sínu fullkomna tímabili og eru einu skrefi nær því að fara í gegnum allt leiktímabilið ósigraðir.

Fyrir utan þetta þá er ég bara í því að klára skólann. Á að skila ritgerð og halda kynningu núna á miðvikudaginn, svo er próf í því fagi á mánudaginn næsta og svo fer ég í annað próf og þá er ég búinn! Það er soldið skrýtið að hugsa til þess að þetta gæti verið síðasta prófatörnin á ævi minni en samt held ég að ég eigi eftir að mennta mig frekar. Hvort sem það verður í nánustu framtíð eða síðar meir.