A site about nothing...

sunnudagur, mars 30, 2008

Ég hef lengi ætlað að láta verða af því að kíkja í jóga. Jóga hefur heillað mig lengi og ég hef einu sinni farið í jóga en það var í Boston og í herbergi sem var í kringum 40°c heitt. Óþarfi er að taka fram að mér leið eins og ég væri í sturtu. Síðan ég kom heim hef ég verið að velta þessu fyrir mér mikið en lét aldrei verða af þessu, fyrr en fyrir svona um 2 vikum. Í Laugum þrisvar í viku er boðið upp á poweryoga og fyrir 2 vikum skellti ég mér einmitt í þannig tíma. Þegar ég fór í fyrsta skiptið þá hafði ég kvöldinu áður farið að lyfta í fyrsta skipti í langan tíma og því var ég með harðsperrur í jóganu, sem er svo sem ekki sérlega sniðugt, en jógað bætti allverulega í þær. Núna hef ég semsagt farið þrisvar í jóga og ég held og vona að ég nái að fara minnst einu sinni í viku í jóga. Það mun reyndar velta á því hvort ég sé búinn í vinnunni klukkan 17:20 sem hefur ekki alltof oft gerst síðan ég byrjaði.

Í gær horfi ég á leik minna manna í Man Utd á móti Aston Villa. Nú er svo komið að hver leikur skiptir gríðarlegu máli og spennan eftir því. Leikurinn í gær vannst samt ansi auðveldlega og er það kannski hvað helst að þakka besta fótboltamanni í heimi í dag, Cristiano Ronaldo. Að horfa á þennan dreng spila viku eftir viku eru forréttindi segi ég og skrifa og ég skora á hvern sem er að reyna að finna betri fótboltamann í heiminum í dag. Fáránlegast af öllu er auðvitað hvað hann, kantmaðurinn sjálfur, er búinn að skora mörg mörk. 26 stykki í deildinni og að ég held 9 i öðrum keppnum. Í gær bætti hann einu enn við. Marki sem krefst mikillar hæfni, útsjónarsemi og sjálfstrausts og pínu lukku líka. Svo var eins og hann hafi bara ákveðið að bæta við stoðsendingar sínar því hann átti 3 stoðsendingar t.a.m. eina þar sem hann fleytti boltanum áfram með hælnum sem fór í boga, beint á Rooney sem kláraði færið. Ég held að það sé nokkuð augljóst að ég verði að fara á leik og sjá þennan töframann með eigin augum.

mánudagur, mars 24, 2008

Nú skil ég loksins afhverju vinnandi fólk fílar páskana svona mikið. Þegar ég var í skóla þá vanalega fóru einhverjir dagar, valt á því hversu duglegur ég var, í það að læra en núna þegar maður er orðinn vinnandi maður þá fór þetta bara í frí, sem er næs. Á miðvikudeginum fyrir páskafríið var ég að vinna til 9 um kvöldið og fór svo á English Pub og hitti þar helstu hetjurnar og við horfðum á leik United á móti Bolton sem United vann auðvitað með mörkum undradrengsins. Það endaði svo í fylleríi þar sem ég var kominn heim um 6 leytið, búinn að vaka í 23 tíma. Næstu dagar voru bara easy going og svo á laugardeginum þá fórum við Tumi út úr bænum í bústað foreldra hans rétt hjá Flúðum. Þetta var gott break og bústaðurinn og umhverfi hans virkilega næs, ekkert rafmagn og bara rólegheita stemmning. Ekki langt frá bústaðnum er náttúrulegur heitur pottur sem er kallaður Hruna pottur að mér skilst. Maður þarf að labba yfir litla hæð og þá sér maður kofaskrifli með torfþaki og þar inni skiptir maður um föt. Inni þá rennur lítill lækur með heitu vatni og það eru hellur sem hægt er að standa á til að skipta og bekkur sem hægt er að sitja á. Þegar við komum þar inn þá beið okkur minjagripur frá síðustu heimsókn fólks þarna því á blautum bekknum lá kvenmannsþvengur og í ruslapoka í horninu voru pizza frá Hróa Hetti, bjórdósir og sígarettupakki. Við létum þetta ekki mikið á okkur fá heldur skelltum okkur í sundskýluna og út í pottinn með nokkra kalda með okkur. Útsýnið var gott, stjörnubjartur himinn og norðurljós. Daginn eftir var dagurinn tekinn snemma og haldið af stað í bæinn fyrir hádegi svo hægt yrði að ná stórleik United og Liverpool sem fór mjög vel fyrir mína menn. Um kvöldið fór ég svo í fjölskyldumatarboð sem var ánægjulegt og í dag hef ég ekkert gert sem er fínt því það er nóg að gera í vinnunni.

Fyrst ég minntist á leik United og Liverpool þá er vert að minnast á viðbrögð stuðningsmanna Liverpool við brottrekstri Mascherano. Þetta var klárlega réttur dómur því þótt það sem hann sagði við dómarann þegar hann fékk seinna gula spjaldið að þá hafði hann verið tuðandi yfir öllu sem dómarinn gerði síðan hann hafði fengið fyrra gula spjaldið og í þessu tilviki lagði hann af stað í langferð til að tuða. Ég sá tímalínu um "tuðið" í honum og hann var búinn að vera að væla í dómaranum minnst þrisvar áður, biðjandi um gul spjöld á leikmenn og draga í efa dóma sem dómarinn gerði. En það merkilega er að margir stuðningsmenn Liverpool halda að hann hafi bara verið rekinn fyrir þetta sem hann sagði í tilvikinu þar sem hann fékk seinna gula spjaldið og þeirra á meðal virðist vera Rafa Benitez, sem fékk sýnar upplýsingar frá Ryan Babel.

þriðjudagur, mars 11, 2008

Í dag fékk ég tölvupóst að utan frá Vanni vini mínum og tjáði hann mér og hinum að síðasta sunnudagskvöld hefði sonur hans, Luca Alexander fæðst. Litli Luca kom 2 vikum á undan áætlun en móður og barni heilsast vel. Svo er ekki laust við að manni hlakki strax til að hitta guttann í vor þegar ég fer í útskriftina mína úti.

Núna er ég búinn að vinna í rúmar 2 vikur og kann því afar vel. Starfið er fjölbreytt og ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi og dagurinn hreinlega þýtur framhjá, svo mikið raunar að áður en ég veit af eru 10 tímar síðan ég mætti um morguninn. Mórallinn í deildinni er mjög góður og svo þekki maður svo fjári marga í bankanum. Þeir hafa verið ansi duglegir að sópa upp úr verkfræðinni undanfarin ár. Síðasta laugardag var svo árshátíðin. Hún var haldin í Egilshöll og var gott partý.

Síðustu viku/r hef ég verið að reyna að finna mér eitthvað til að gera utan vinnutíma, eitthvað áhugamál sem ég get stundað til að fá mótvægi frá því að vera í vinnunni og svo að hanga heima eða í ræktinni. Allar uppástungur eru vel þegnar í kommenta kerfinu.