Grill hjá deildinni minni í kvöld. Herlegheitin byrjuðu klukkan 6 og ég var mættur eitthvað aðeins síðar, villtist aðeins á leiðinni nefnilega. Orkuveitan á ansi flott félagsheimili í Elliðarárdalnum sem hefur verönd sem liggur út að Elliðaá og þar meðan við vorum var fólk að veiða og svona. Þessi staður er algjör vin inni í höfuðborginni því maður heyrir bara í ánni en ekki í umferðinni en svo þegar maður horfir yfir þá sér maður hvar maður er, annars gæti maður haldið að maður væri úti í sveit. Allaveganna við fengum mötuneytisliðið til að elda og kokkurinn bjó til grillspjót sem hafði annars vegar fisk og hinsvegar kjöt. Fiskspjótin voru með risarækju og hörpudisk, fáránlega ljúffengt, og kjötspjótið var með lambakjöti, sveppum og papriku. Ég verð að segja að þetta var eitt besta lambakjöt sem ég hef fengið. Svo var boðið upp á ískaldan bjór, hvítvín og rauðvín og gos. Allt þetta var semsagt í boði Orkuveitunnar. Svo var ég að ræða við einhvern gaur og hann sagði mér að Orkuveitan væri með golfklúbb sem hann vildi meina að við sumarstarfsfólkið ættum að gera skráð okkur í með því einu að ganga í starfsmannafélagið. Þar er ársgjaldið 2500 kall og svo velur maður væntanlega að fara líka í golfklúbbinn. Golfklúbburinn hefur semsagt aðgang að fjórum völlum og má þar nefna Bakkakot sem er í Mosfellsdalnum og Hveragerðisvöllinn. Þetta eru vellir sem ég hef oft spilað og kann mjög vel við og ef það er satt sem hann sagði þá mun ég geta spilað þá frítt með því einu að ganga í starfsmannafélagið. Svo sagði hann líka að maður ætti að biðja um kennslu og ef næg þátttaka fæst að þá myndi vera skaffaður kennari og ekkert sem maður þarf að borga. Þannig að á morgun ætla ég að kanna sannleikann í þessum fullyrðingum mannsins en ef þetta er rétt skal ég glaður borga félagsgjaldið í starfsmannafélagið.
miðvikudagur, júlí 13, 2005
|
<< Home