A site about nothing...

sunnudagur, apríl 09, 2006

Sagan af þremur ölkrúsum

Í gærkveldi var haldinn aðalfundur Vélarinnar í Ýmishúsinu. Eins og oft vill verða á aðalfundi er nóg áfengi í boði og fólk verður gríðarlega ölvað. Því eins og allir vita þá fer ekki vel saman, frítt áfengi og íslendingar. Allaveganna þá ætla ég að segja ykkur söguna af þremur ölkrúsum. Við komuna í Ýmishúsið var afhent ölkrús stór og fögur með nafni Vélarinnar á og svo þegar inn var komið var mjöðurinn sem fylla átti ölkrúsina með afhentur svona eins og lög gera ráð fyrir. Nú líður kvöldið, fólk er kosið í stjórn og í önnur mismikilvæg embætti og tvisvar sinnum meðan kosningum stóð var endurfyllt á krúsina. Að loknum kosningum opnaði barinn og þar var margt djúsí í boði eins og tópas og gajol staup auk sterks áfengis. Undirritaður tók ágætlega á því þar og uppskar þessa líka fínu ölvun, helst til mikla þó. Var hann hrókur alls fagnaðar þar sem hann tók gamla reif dansa við undirleik Prodigy og flaug allaveganna tvisvar á hausinn á meðan á því stóð. Það er nú reyndar ekki furða þar sem reif sporin eru gríðarlega flókin og hættuleg og gólfið blautt og það eins og gefur að skilja eru ekki bestu aðstæður til að taka svona dansa. Í eitt skiptið þegar undirritaður datt, duttu gleraugun og færðust inn í þvögu en þeim var reddað og varð þeim ekki illa af eða svo hélt undirritaður. Önnur dansspor vöktu líka mikla lukku og sérstaklega þegar undirritaður flengdi sjálfan sig í getto booty dansi sínum og svo eina stelpu í dágóðan tíma. Á meðan þetta allt var framkvæmt voru áfengar veigar teigaðar og jókst gríðarlega ölvun undirritaðs. Að loknum fundi var síðan haldið í rútur þar sem undirritaður var gríðarlega hress og skemmilegur setufélagi og starði á sætið fyrir framan sig allan tímann á leiðinni niður í bæ. Þegar þangað var komið var undirritaður orðinn ansi svangur og ölvaður og fannst það sniðugt að fá sér aðeins í gogginn í þeirri von að eitthvað myndi ölvunin minnka. Ekki varð svo úr og því var ekkert annað til ráðs að taka en að taka leigubíl heim en ekki er mikið munað úr ferðinni heim. Þegar heim var komið var farið beint upp í rúm en þó var undirritaður forsjáll og náði í fötu ef eitthvað af veigum kvöldsins vildi skila sér sem ekkert varð úr.
Víkur nú sögunni að næsta degi. Undirritaður átti að mæta í fermingu klukkan 1 og var vakin klukkan 12. Leið undirrituðum bölvanlega þegar skriðið var á fætur og rétt náði að koma niður einhverjum morgunmat. Vildi hann helst sleppa því að fara en móðir hans sagði að hann hefði gott af því að fara út. Undirritaður skellti sér því í jakkafötin, deyjandi í maganum, og setti gleraugun á sig. Eitthvað voru þau furðuleg því ekki sátu þau eins og átti að vera. Hafði annar nefpúðinn snúist eitthvað furðulega og þurfti að beita handarafli til að laga púðann svo almennilega varð úr. Móður og ömmu undirritaðs var skutlað í veisluna og héldu undirritaður og bróðir hans í átt að Ýmishúsi að sækja bílinn. Þegar undirritaður kom að bílnum rekur hann augu í þrjár ölkrúsir merktar Vélinni í aftursæti bílsins en man ómögulega hvernig þær enduðu þar. Velti hann því fyrir sér hvort bíllinn hefði verið ólæstur og einhver skutlað þeim inn í bíl og svo læst á eftir sér en fannst þó líklegra að einhver hefði nú sett þær þarna og þá með vitund undirritaðs. Eftir að hafa grennslast fyrir um daginn hjá fólki sem var viðstatt á viðburðinum fannst hver var eigandi tveggja af þremur ölkrúsum og þriðju átti undirritaður.

Jæja ef þið eruð búin að lesa þessa sögu og tölduð jafnvel hversu oft orðið undirritaður kemur fyrir þá finnst ykkur eflaust skemmtilegt að kíkja á myndir frá aðalfundinum hér.