A site about nothing...

fimmtudagur, maí 22, 2008

Miðvikudagurinn 21. maí 2008

Mættur í vinnuna 8. Brjálað að gera og lítill tími til að hugsa um eitthvað annað en vinnuna. Þegar líða fer á morguninn minnist einhver á leikinn um kvöldið og spenningur/stress byrjar að myndast.

Eftir hádegi, hlutirnir róast í vinnunni og hugsanir snúast meira og meira um leikinn um kvöldið. Stressið eykst og samhliða því koma hin klassísku einkenni. Einna helst hnútur í maga og hálfgerð þreyta sem leggst yfir mann.

Rétt fyrir 5, allt verður aftur brjálað að gera í vinnunni. Shiit, kannski næ ég ekki að komast á Victor að hitta strákana og horfa með þeim á allan leikinn. Verð að vinna hratt og vonast til að klára þetta. Hnúturinn í maganum eykst með hverri mínútu og einbeitingin til að klára það sem ég þarf að klára þverr með hverri mínútunni.

Kortér yfir 6, sendi póst til að tefja málið sem ég er að vinna í og dríf mig á Victor að hitta strákana. Hnúturinn er orðinn á stærð við þann þegar maður er á leiðinni í próf og veit alls ekki við hverju á að búast.

18:45, leikurinn byrjar og líkt og með flesta þá hluti sem maður er stressaður yfir þá róast taugarnar þegar atburðinn sjálfur hefst. United byrjar stórvel og er miklu betri aðilinn í leiknum.

26 mínútur inn í leikinn. Brown gefur á Scholes, sem sendir hann aftur á Brown, sem leggur hann fyrir vinstri fótinn og sendir sweet cross fyrir. Hver er mættur? Jú enginn annar en CRon (Ronaldo) sem rís langhæst allra og stýrir boltanum fullkomlega alveg út við stöng. Gríðarleg fagnaðarlæti brjótast út og mikill léttir að United hefur skorað fyrsta markið.

Síðasta mínúta fyrri hálfleiks og viðbótartíma. Essien skýtur í leikmann United, boltinn fer þaðan í Drogba og dettur svo fyrir Fat Frank, sem nær að stýra honum í markið þrátt fyrir varnartilburði Ferdinand og Van Der Sar. Gríðarleg vonbrigði að fá á sig mark á þessum tíma. Núna er þetta aftur orðin even steven.

Seinni hálfleikur: Chelsea hafa greinilega fengið gríðarlegt sjálfstraust við þetta mark og United að sama skapi tapað sínu. Chelsea kúka yfir United og eru miklu betri aðilinn og stressið byggist upp. Hnúturinn í maganum hefur aldrei verið stærri. United sleppur nokkrum sinnum vel, í fyrsta lagi þegar Drogba skýtur í stöng og í öðru lagi þegar Fat Frank smellir honum í slánna.

Framlenging. United kemst aftur inn í leikinn og er í heild betri aðilinn en bæði lið virðast vera að bíða eftir að þetta fari í vító. Ég vil ekkert að þetta fari í vító það er of stressandi. Ég hugsa hvort ég muni horfa á vító ef til hennar kemur og ákveð að horfa á þetta allt, sama hvernig fer. Giggs nær næstum því skora í lok framlengingarinnar eftir gott hlaup og sendingu frá Evra en þroskaheft höfuðhreyfing Terry bjargar á línunni. Terry er bölvað hressilega.

VÍTASPYRNUKEPPNI. Stressið er að fara með mig. Ég get ekki setið kyrr. Halla mér fram í stólnum, set hendur í bænastellingu, velti því fyrir mér hvort ég eigi að horfa. Hvort ég geti yfirhöfuð horft á það ef United tapar? Ákveð aftur að ég mun horfa á þetta sama hvað á gengur. Það er ekki á hverjum degi sem maður getur horft á þetta og maður verður þá bara að taka því ef við töpum.

United byrjar vítaspyrnukeppnina og skorar. Chelsea fylgir á eftir og United og Chelsea skora svo bæði. Staðan er 2-2 í vító. Á punktinn stígur CRon, öruggasta vítaskytta United. Einhver segir að það eru alltaf hetjurnar sem klikka. CRon klikkar!! Vonbrigðin hellast yfir mig, fokk þetta er búið, en bara í skamma stund. Ég ákveð að taka jákvæða gaurinn á þetta og klappa og öskra á skjáinn, koma svo þetta er ekki búið. Chelsea skorar, United skorar.

Staðan er núna 4-4 og Chelsea á síðasta vítið. Terry á að taka síðasta vítið. Enska hetjan Terry sem allir fjölmiðlar elska því hann fórnar sér svo mikið fyrir enska landsliðið, að þeim finnst. Þetta er eins dramatískt og þetta getur orðið. Eitthvað hefur mér fipast á í talningunni því ég hreinlega vissi ekki að þetta víti myndi tryggja þeim sigurinn. Ég er því furðu rólegur yfir þessu víti eða kannski var ég bara búinn að sætta mig við að við gætum verið búnir að tapa. Terry klúðrar með því að renna á blautum vellinum og setja boltann í stöngina. There is hope!! Ég fatta hversu mikilvægt þetta víti var og léttirinn er þvílíkur.

Nú er það að duga eða drepast, ef eitthvað klúðrast núna þá er þetta búið! Anderson skorar, Kalou skorar. Giggs á næsta víti, og hversu vel á það við að sá einstaklingur sem hefur spilað flesta leiki fyrir United í sögu félagsins geti klárað þetta. Þegar hann jafnaði leikjamet Bobby Charlton þá skoraði seinna markið í 0-2 sigri á Wigan og United varð meistarar. Ef hann skorar núna, í leiknum sem hann slær metið þá hugsanlega geta United orðið Evrópumeistarar. Cool under pressure skorar hann.

Anelka, Le Sulk, er næstur. Spennan er óbærileg, ég gref hausinn á í hendurnar þar sem ég halla mér fram í stólnum. Ég rétt gjói augunum upp, sé hann hlaupa að boltanum, skjóta og Van der Sar verja!!!

Ég stekk upp úr sætinu mínu og út brjótast gríðarleg fagnarlæti. Ég veit varla hvað ég heiti þar sem ég hoppa þarna og rek frá mér karlmannlegt öskur meðan ég hoppa um eins og skólastelpa, varla vitandi hvað ég á að gera af mér. Stressið breytist í euforíu, ég sný mér við og sé Gunna sem er eitt bros og við föllumst í faðma, hoppandi um (mjög karlmannlega samt), algjörlega himinlifandi að hafa loksins aftur unnið Evróputitilinn.

Þessi tilfinning, þessi gríðarlega ánægjutilfinning sem hellist yfir mann þegar maður er búinn að sætta sig við að vera að fara að tapa en svo vinnst sigur. Þessi tilfinning er verðlaunin. Verðlaunin fyrir að fara að horfa á alla leiki, sama hversu smáir eða stórir þeir eru og sama á hvaða tíma þeir eru. Hvort sem maður þurfi að vakna snemma um helgi og þunnur eða á virkum degi klukkan 18, 19 eða 20. Þessi tilfinning sem fylgir að vinna gerir þetta allt þess virði og ég mun gera þetta aftur á næsta tímabili og tímabilunum eftir það.

Glory, glory Manchester United!!