A site about nothing...

sunnudagur, ágúst 10, 2003

Vorum heima hjá Fjalari Pá. í gærkveldi og þar vorum við eitthvað að flippa og svona. Meðal annars þá útsettum við lag sem Gunni Bé. samdi textann og lagið að en Fjalarr Pá. hjálpaði með laglínuna. Ágætis lag hjá kallinum, soldill Oasis stíll á því. Ég held að Gunni Bé. sé óendanlega sáttur í dag. Hver veit kanski verður þetta einhvern tíma tekið upp eða við tökum þetta einhvern tíma í góðu geimi. Annars eru Fjalarr Pá. og Kristján Ár. mikið að semja þeirra eigin efni þessa dagana og nota þá helst til þess píanó. Ég held að píanó sé betur fallið til að semja lög heldur en gítar því maður getur leikið sér meira með píanóið í útsetningum og þessháttar heldur en gítarinn finnst mér í það minnsta. Svo heima hjá Fjalla er fullt af gítarum og meðal annars á hann rafmagnsgítar og magnara og það er hreinlega algjör snilld að spila á rafmagnsgítar. Allt verður einhvern veginn miklu auðveldara og þessháttar. Við vorum heillengi hjá Fjalla, vorum komnir í bæinn svona þrjú hálffjögur sem er seint á okkar standard. Bærinn var troðfullur enda kanski skiljanlega þar sem hinseginn skrúðgangan hafði verið fyrr um daginn. Í bænum var Hans Petersen starfsfólk að djamma saman, nokkra búðir voru með partý í gær, ekki mín búð þó og var mér boðið að kíkja í sameiginlegt partý Laugarvegs og Smáralindar en kom ekki. Þegar liðið hitti mig var ég skammaður fyrir að hafa ekki mætt. Spurning hvort það hafi verið eitthvað um skandala, fólk að byrja saman, einhver dáið áfengisdauða eða eitthvað þannig. Ég beilaði síðan úr bænum klukkan 4. Þegar ég var kominn mjög stutt á heimleið minni, var við gatnamótin þar sem ef þú keyrir beint yfir geturu farið á BSÍ eða í Íslenska Erfðagreiningarhúsið; ef þú beygir til hægri ferðu í Vesturbæinn og ef þú beygir til vinstri þá ferðu í áttina að Borgarspítala, þegar ég uppgötva að það er sprungið dekkið á bílnum. Ég gat nottla ekki stoppað á gatnamótunum svo ég keyrði yfir gatnamótin og lagði eins fljótt og ég gat. 20 mínútum seinna var ég búinn að skipta um dekk og gat farið heim. Gríðarhressandi var að skipta um dekk klukkan fjögur að morgni svo vona ég bara að ég hafi ekki eyðilagt felguna með því að keyra á sprungna dekkinu.
Þetta er í annað skipti á þessu ári sem ég hef þurft að skipta um dekk. Fyrra skiptið var í vetur þegar ég fékk bílinn. Fyrsta verkið mitt var að láta setja vetrardekkin undir. Svo deginum eftir þegar ég ætlaði í fyrsta skiptið í skólann á bílnum rétt fyrir átta um morguninn uppgötva ég eftir að vera nýlagður af stað frá heimili mínu að það er sprungið á dekkinu. Það var líka gríðarhressandi að skipta um dekk þá. Ég var svo heppinn þá að dekkjaverkstæði var bara örstutt frá og gat ég keyrt þangað og látið þá laga dekkið. Þetta var sama fyrirtæki og hafði sett vetrardekkin undir og kom í ljós að einhver nagli eða eitthvað hefði orðið eftir og sprengt dekkið. En ég vona að þetta sé ekki fyrirheit um hvernig notkun bílsins verði að ég þurfi að skipta tvisvar á ári um dekk sem er sprungið.