A site about nothing...

sunnudagur, júlí 27, 2003

Þetta hefur verið ansi viðburðarrík helgi. Á föstudaginn fórum við í helvíti góðan bolta úti á gervigrasinu hjá KR þar sem vel var tekið á því. Seinna um kvöldið fór ég í bæinn og hitti Kidda og Fjalarr því við ætluðum á tónleika. Tónleikarnir voru á Vídalín og voru djasstónleikar og góðir sem slíkir, einhverjir guttar úr tónlistarskólanum. Við náðum seinni helmingnum af tónleikunum. Þaðan fórum við svo í bæinn og litum við fyrst á nýja staðinn, Mujito sem er á fimmtu hæð hússins sem hýsir Apótekið. Staðurinn er voða snobblegur eitthvað og maður fer með lyftu upp á staðinn sem er reyndar soldið kúl. Staðurinn er fyrir svona 25 ára og eldri greinilega og voða skrýtinn fannst mér. T.d. var eitt herbergið í svona indversku þema, fólk sat á gólfinu, og það var vatnspípa þarna og herbergið hefði alveg getað verið notað í atriði úr mynd Kubricks Eyes Wide Shut, orgí atriði eða eitthvað þannig. Í þessu indverska herbergi var steiktasti maður kvöldsins. Hann sat í stól og var með handfrjálsan símabúnað í eyranum, eins og hann væri voða merkilegur. Hann var klæddur rauðum leðurjakkafötum og var ber að ofan. Fyrst við vorum þarna þá keyptu Kiddi og Fjalarr sér drykkinn sem staðurinn er nefndur eftir og hann smakkaðist bara nokkuð vel. Frá Mujito lá leið okkar á Prikið. Á leiðinni þangað hitti ég fyrrverandi samstarfskonu úr HP sem ég hafði ekki hitt í langan tíma og hún var ekki lítið ánægð með að hitta mig, faðmaði mig og kyssti í bak og fyrir. Svo sagði hún vinum mínum að hún elskaði mig og að þeir ættu að gæta mín. En það var gaman að hitta hana enda er hún algjör snillingur. Eitt sem mér fannst soldið merkilegt var hvað það var lítið af fólki í bænum. Maður þurfti eiginlega ekkert að bíða í röðum eða neitt þannig. Á Prikinu hittum við Vöku læknanema sem hafði fengið að frétta þá um daginn að hún hefði náð inntökuprófunum og var að fagna með vinkonu sinni henni Teklu sem náði líka. Svo fórum við frá Prikinu á Celtic sem er orðinn fastur punktur þegar maður fer í bæinn að hlusta á trúbadorinn. Við fengum helvíti gott borð sem er algjör nauðsyn ef maður er á Celtic. Kiddi og Fjalarr voru endalaust sáttir við trúbadorinn því hann tók þrjú lög í röð af Dark Side of the Moon. Svo fór ég heim um fjögurleytið og skutlaði Vöku og Bjössa heim.

Í gær var svo afmæli hjá Tumbster og þegar ég mætti um 22 leytið var ég soldið hræddur um að ég væri á vitlausum stað. Allt var svo hljótt í götunni, enginn ómur af tónlist eða neitt og ég sá engin ljós. En eftir því sem nær dróg sá ég ljós en tónlistin var ekki hávær. Fólk reyndist vera inni og var bara í tjillinu. Þegar leið á kvöldið lifnaði yfir og var margt um manninn. Þónokkuð var um útlendinga þarna, t.d. tvær stúlkur frá Londond, einhverja Þjóðverja og Rúmeni. 6-Y representaði feitt þarna því ég, Saga, Ragnhildur, Marta, Fríða og Guðrún Mey vorum öll þarna. Það var mikil stemmning hjá Tuma og var ekki lagt af stað í bæinn fyrr en um hálf þrjú-þrjúleytið (sem er seinna en maður fer vanalega með strákunum og þeir fara seint). Ég fór á bílnum, þó svo stutt sé frá Tuma og í bæinn því ég nennti ekki að labba til Tuma aftur og voru tvær yngismeyjar mér samferða, Marta og Fríða. Mjög var ég feginn að vera búinn að þvo bílinn og ryksjúga. Við fórum í bæinn með viðkomu hjá Mörtu þar sem hún hafði gleymt skilríkjum og hittum krakkana þar. Í bænum í gær var slatti af fólki og mikið um raðir. Við fórum á Celtic og fór ég heim um fjögurleytið annað kvöldið í röð og skutlaði Martini og Helgu í leiðinni, með stoppi á Devitos.

Svo var ég að vinna í dag og það var brjálað að gera frá byrjun. Útsölulok eru í Kringlunni og vorum við bara þrjú í afgreiðslu og ef við þurftum að sýna myndavélar eða eitthvað þá fór allt í skrall. En þetta reddaðist allt þar sem við erum öll vön sem vorum að vinna en mikið lifandi er ég feginn að vinna ekki í Kringlunni. Frammi á gangi fyrir framan búðina var svona borð með römmum sem voru á útsölunni og þar var ógeðslega kalt. Eitthvað helvítis loftræstiskerfi dældi köldu lofti inn í Kringluna og beint á mann þarna og vindurinn var temmilegur. Ég var að frjósa meðan ég stóð frammi en sem betur fer skiptumst við á að vera frammi.