A site about nothing...

miðvikudagur, júní 11, 2003

Nú verður gaman að fylgjast með undankeppni EM. Allt getur gerst í riðlinum okkar og mikil spenna framundan. Leikurinn áðan var mjög góður af okkar hálfu og spiluðu okkar menn taktískt séð mjög vel ( takið eftir því hvernig ég nota okkar menn, eitthvað sem er vanalega sagt þegar vel gengur en svo er talað um íslenska landsliðið ef ekki gengur nógu vel). En það er ekki laust við að maður hafi svolitlar áhyggjur fyrir framtíðinni. Nú er Guðni hættur og er það mikið skarð fyrir skildi. Síðustu tvo leiki hefur hann verið feyknagóður og stjórnað vörninni virkilega vel. Svo er hann líka gamall refur og kann ýmis brögð sem gott er að geta gripið til í landsleikjum og svona. Hver mun leysa af Guðna? Við eigum vissulega nokkra góða en það vantar einhvern svona reynslubolta í vörnina sem stjórnar henni, eins og sást mjög vel þegar hans naut ekki við ekki svo fyrir löngu. Jolli er líka hættur þannig að einhver innan liðsins þarf að taka þetta hlutverk að sér ef ekki á illa að fara.
Annað áhyggjuefni er það að Rúnar er að hætta. Rúnar er án vafa einn leiknasti maður okkar og er oft frábært að horfa á hann leika kúnstir sínar. Í fljótu bragði sé ég ekki neinn sem er svipaður Rúnari að þessu leyti og er það ekki nógu gott. Við þurfum leikinn mann sem getur sólað, komið með frábæra sendingu sem splundrar vörninni og þessháttar.
Annars fannst mér leikurinn mjög góður hjá þeim áðan og var gaman að sjá baráttuna hjá þeim.