A site about nothing...

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Thom Yorke - And it Rained All Night


Þetta lag með Thom Yorke er af sólóplötu hans sem heitir The Eraser. Þið getið lesið hér hvað mér finnst um þá plötu (gagnrýni á Rjómanum) og lagið sem þið getið hlustað á hér að ofan.

Tumi er kominn heim í frí og er gott að fá strákinn aðeins tilbaka. Ekki er hann einsamall í ferðinni heldur tók hann kærustuna með. Þau skötuhjú hitti ég í gær og eyddi þónokkrum tíma með. Meðal þess sem gert var var að sjá flugeldasýninguna og farið á ball með Geirfuglunum í Iðnó þar sem við vorum með yngsta fólkinu þar. Eitt sem fór nett í taugarnar á mér á ballinu var þegar karlmenn fleygðu konunum/hözzlunum sínum fram og tilbaka í dansi og skeyttu ekkert um hvort einhver yrði fyrir eða ekki.

Svo tók ég þátt í fótboltamóti í gær og það var virkilega gaman. Mig hefur lengi langað til að sparka í tuðru og er ég ekki frá því að um heilt ár er liðið síðan ég gerði það síðast. Svo bauðst mér gullið tækifæri í gær, fótboltamót milli BT verslana. Það var haldið að Tungubökkum við Mosfellsbæ og var hin mesta skemmtun. Okkar lið var klárlega best og spilaði bestu knattspyrnuna en því miður þá töpuðum við fyrsta leiknum á móti sigurvegurum mótsins úr Skeifunni. Þessu er um að kenna skipulagsleysi en ég kom skipulagi á hlutina í hinum tveimur leikjunum og fór okkar lið þá á kostum. Ég var mest í því að spreyja boltanum hægri vinstri með hnitmiðuðum sendingum auk þess sem ég tók þátt í skyndisóknum og öðru slíku en ég náði líka að skora eitt mark og þvílíkt mark. Ég segi og skrifa hérmeð að þetta er fallegasta mark sem ég hef skorað. Það voru vídeóupptökuvélar á svæðinu og er ég að vona að þetta hafi náðst. En svona til að lýsa þessu fyrir ykkur þá var markið einhvern veginn svona:
Ég var aðeins aftan við miðju, þaðan sem ég stjórnaði leiknum, og kemst inn í misheppnaða sendingu. Ég tek á rás með boltann í áttina að marki andstæðinganna. Á móti mér kom leikmaður og ég kötta inn til hægri og munda skotfótinn úr 20-25 metra fjarlægð, svolítið vinstra megin við markið. Skotið ríður af og í beinni línu stefnir í fjærhornið. Markmaðurinn skutlar sér eftir honum en það dugar ekki til þar sem boltinn flaug framhjá fingrum hans og upp í samskeytin fjær

Í sama leik skoruðum við annað fáránlega flott mark. Ég á sendingu upp í horn þar sem leikmaður okkar nær honum ekki langt frá hornfánanum. Hann sparkar honum aftur fyrir sig, hann stendur kannski 1 metra frá hliðarlínunni, og boltinn fer yfir markmanninn og í fjærhornið. Þessi sami leikmaður átti síðan diving header mark sem var ansi flott og minnstu munaði að hann næði að skalla inn sendingu mína á fjærstöng sem ég sendi utanfótar.
Maður verður að grobba sig aðeins þegar vel gengur ;). Þetta var fáránlega gaman en líkaminn er í dag að gjalda fyrir þetta með tilheyrandi harðsperrum.

SHIT hvað United voru góðir í dag og þeir voru óheppnir að vinna ekki stærra en þetta. Það sem ég var hvað ánægðastur með var að þeir héldu áfram að sækja þó svo leikurinn væri löngu búinn og Fulham komst varla yfir miðju. Ronaldo hefði átt að skora eitt í viðbót og Scholes hefði getað skorað líka. Evra kom mjög á óvart og átti frábæran leik. Rooney og Ronaldo eiga greinilega ekki í neinum vandræðum og fundu hvorn annan vel. Ef þetta er boltinn sem United ætla að spila í vetur þá verður gaman á að horfa. Reyndar verður spennandi að sjá hvernig þeir standa sig án Rooney og Scholes held ég í næstu þremur leikjum en við getum kennt Liverpool manninum Barwick í FA fyrir að reyna að eyðileggja fyrir United. Leikinn sá ég ekki á pöb sem betur fer (hefði ekki meikað að vera útúrreyktur) heldur sá ég hann á netinu með kínverskum lýsendum. Hver veit nema maður læri eitt eða tvö orð í kínversku eftir veturinn ;).