A site about nothing...

miðvikudagur, júní 29, 2005

Ég hef nú áður skrifað um LÍN hérna og verið ósáttur en núna ætla ég að skrifa og umfjöllunarefnið er gleðiefni. Stuttu eftir að ég kom heim sá ég grein sem einhver alþingis og framsóknarkona skrifaði um breytingar í LÍN. Ég kom gjörsamlega af fjöllum þegar ég las um þessar breytingar en í stuttu máli er hægt að segja að þessar breytingar eru það sem ég hef verið að bíða eftir. Það er búið að fella út frítekjumarkið sem var svona eins og refsing fyrir nemendur sem vildu vinna á sumrin. Í ofanálag þá hefur skerðingarhlutfallið verið lækkað úr einhverjum 35% niður í 14%. Þetta þýðir semsagt að loksins mun maður eiga valkost á að fá almennilegt námslán þó svo maður búi í heimahúsum. Húrra fyrir þeim sem náðu þessu í gegn.
Eftir að hafa séð bæði Ísland í dag og Kastljós í gær þá get ég með sanni sagt að hafi ég einhvern tíma borið virðingu fyrir Eiríki Jónssyni þá er hún löngu fokin út í veður og vind. Að heyra hann í gær réttlæta allt þetta fjaðrafok í kringum starfshætti Hér og Nú, sem er einn mesti sorpblöðungur sem ég hef séð, var út í hött. Hann beitti hinni mjög svo snjöllu aðferð í "rökræðunum" að tala hærra en þeir sem á móti honum sátu og ekki hleypa þeim að. Svo þegar hann var spurður absúrd siðferðilegra spurninga hvort hann myndi birta frétt ef eitthvað væri svona og svona svaraði hann þeim á þann eina veg sem hann gat, sökum þess sem undan er gengið, þó svo ég sé viss um að ef hann beiti almennri skynsemi þá hefði hann viljað svarað þeim öðruvísi.