A site about nothing...

þriðjudagur, apríl 22, 2003

Hver kannast ekki við leiðindin við það að hafa sokkahár, þið vitið hárin neðst á fótleggjunum. Stelpur væntanlega og vonandi raka þau af og þurfa því að hafa litlar áhyggjur af þeim en þar sem við karlmenn rökum sjaldnast á okkur fótleggina þá geta þessi hár verið til ama. T.d. ef maður er í sokkum sem eru frekar þröngir þá getur maður farið að meiða sig í þeim. Þetta í eðli sínu er mjög merkilegt fyrirbæri og svo merkilegt að einhver sendi inn spurningu um sokkahár til Vísindavefar Háskólans, sjáum hvað sagt var.
Spurning:
Af hverju er mannkynið ekki búið að þróa sig þannig að það séu ekki til nein „sokkahár“ fyrst maður verður stundum svona aumur í þeim?

svar:
Þetta er auðvitað meðal helstu þróunargalla mannkyns. Meðal annarra galla má telja takmarkaðan fjölda handa (hver mundi ekki vilja hafa fjórar hendur?) og vandræðin sem hljótast af því að ekki er hægt að vera nema á einum stað í einu.

Vísindavefurinn leiðir um þessar mundir vinnuhóp vísindamanna um heim allan sem leitar að lausnum á þessum bagalegu vandamálum en rannsóknir fara enn sem komið er leynt af öryggisástæðum.

Að sjálfsögðu hefði mátt ætla að svokölluð sokkahár, eða hár á fótleggjum, hefðu horfið með náttúruvali enda augljóst að fólk með hárlausa fótleggi er hæfara til að lifa af og eignast afkvæmi. Því miður hefur þetta brugðist. Þar má til dæmis kenna því um að nokkur fjöldi einstaklinga stundar það að raka á sér fótleggina eða eyða fótleggjahárum með öðrum hætti. Þetta fólk er að villa á sér heimildir þar sem verðandi makar halda að um sé að ræða einstaklinga sem eru lausir við fótaháragen og því mun hæfari en aðrir til undaneldis. Eftir að þetta fláráða fólk hefur náð takmarki sínu kemur svo upp úr kafinu að hárvöxtur á fótleggjum þess er ekkert minni en gengur og gerist.

Ritstjórn Vísindavefsins sér fyrir sér tvær ósamrýmanlegar lausnir á þessum alvarlega vanda og leggur til að blásið verði til þjóðaratkvæðis til að velja á milli þeirra. Fyrri kosturinn er sá að allur rakstur eða önnur eyðing fótleggjahára verði bönnuð með lögum. Aðeins þannig getur náttúruvalið fengið að hafa sinn gang í þessum efnum. Seinni möguleikinn er að við hættum að hafa áhyggjur af náttúruvalinu, löggjafinn grípi ekki til neinna aðgerða og fólk sem telur sig eiga við vandamál að stríða vegna sokkahára fjárfesti í góðri rakvél eða hætti að ganga í sokkum.


Eins og sjá má af svarinu eru þetta grínistar upp til hópa sem svara.