A site about nothing...

fimmtudagur, september 25, 2008

VínsmökkunAnima Umbria 2006 - vínsmökkun

Vín og matur er fyrirtæki sem flytur inn mat og vín eins og nafnið gefur til kynna. Fyrirtækið fer óhefðbundnar leiðir við markaðssetningu vara sinna og ber þar helst að nefna Vínkeðjuna. Vínkeðjan virkar þannig að bloggari fær rauðvín eða hvítvínsflösku frá fyrirtækinu, drekkur hana og bloggar svo um hvað honum finnst um vínið. Svo tilnefnir bloggari næsta bloggara og þannig heldur keðjan áfram.

Önundur Páll Ragnarsson tilnefndi mig til að taka við keðjunni sem ég gerði með glöðu geði enda alltaf til í að fá að smakka á nýju víni. Arnar, eigandi Víns og matar, kom síðan með vínið til mín, sagði mér hvernig þetta gengi og nefndi að vínið hefði jafnvel gott af því að standa aðeins áður en því væri neytt og nóteraði ég það hjá mér.

Ég ákvað að prufa vínið undir þeim kringumstæðum sem ég drekk flest mín vín, í partýi. Ég leyfði því að standa í svona hálftíma eða svo áður en ég fékk mér fyrsta glasið og hafði það svo opið áfram eftir því sem leið á kvöldið og flaskan tæmdist. Fyrsti þefur af nýopnaðri flöskunni gaf til kynna að það væri svolítið ungt og kryddað. Af fyrsta glasinu að dæma fannst mér það svolítið létt, kannski aðeins of létt fyrir minn smekk. Eftir því sem á leið hinsvegar fannst mér meiri fylling koma í vínið og mætti það ágætlega mínum kröfum um fyllingu í rauðvíni þar sem ég vel vanalega vín með meðalfyllingu þegar ég vel vín í Vínbúðinni, enda meðalmaður.

Þar sem vín og matur eiga auðvitað frábærlega saman að þá fannst mér á fyrstu sopunum að þetta væri eflaust kjörið vín fyrir pastarétti eða álíka mat. Flaskan rann samt ljúflega niður og bragðið varð aldrei yfirþyrmandi eins og sumar flöskur verða er líður á.

Verðið á flöskunni í Vínbúðinni er 1990 krónur sem mér finnst kannski fulldýrt, allaveganna til partýdrykkju. Hins vegar ef maður vill gera vel við sig á föstudags eða laugardagskvöldi og elda góðan pastarétt þá kæmi vínið vel til greina.

EDIT: Bætti inn nafninu á víninu efst í póstinn þar sem ég algjörlega klúðraði því að hafa það í textanum. Biðst velvirðingar á því.