A site about nothing...

laugardagur, október 22, 2005

Kanye West - Roses

Laugardagskvöld og ég er heima að taka til. Er ég orðinn geðveikur? Nei það er ekki orðið svo slæmt heldur var fínt að fá pínu frí frá bænum enda búinn að vera í honum tvær seinustu nætur á Pilegården, sem er bar, með Gunna B, Tryggva og slatta af öðrum Íslendingum. Það er nefnilega haustfrí hérna úti og fólk bara í ruglinu. Semsagt á fimmtudaginn fórum ég og Gunni til Lundar að heimsækja frændur vora Svía. Sú heimsókn var ágæt í alla staði og gaman að sjá þennan bæ sem er hvað þekktastur fyrir að hýsa Háskólann í Lundi og að því sem mér skilst þá er annaðhvort stúdentar þarna eða gamalt fólk. Svo um kvöldið fórum við aftur til Köben og hittum Tryggva sem var nýkominn frá Berlín og þið vitið hvernig það endaði.
Í gær ætluðum við að fara í Carlsberg verksmiðjuna. Stefnan var tekin á að vakna svona 1, vera komnir 2 niðrá Lyngby Station og svona 40 mínútum síðar í verksmiðjuna. Það fór ekki alveg þannig þar sem nóttin á undan tók sinn toll á menn, t.d. Gunna B sem týndi lyklunum sínum og gisti í herberginu mínu á pullum úr sófanum í eldhúsinu. Allaveganna við vorum komnir í verksmiðjuna svona hálftíma áður en átti að loka og mælti konan sem vann þar með því að við kæmum seinna. Þá ákváðum við að fara í keilu þar sem Tryggvi sýndi þvílíka takta að það hálfa væri nóg. Annað markmið þessa dags var að fara í útskriftarveislu til Narfa og Árna Möllers. Þar sem það var ágætis tími milli þess sem við kláruðum keiluna og ætluðum að mæta til þeirra þá ákváðum við að fara út að borða. Fyrir valinu varð tyrkneskur staður sem heitir Sultan Palace sem bauð upp á dýrindis hlaðborð af fáránlega góðum mat sem ég hámaði í mig og þetta kostaði nú bara 80 krónur, mæli með þessu. Já svo fórum við til strákanna og þið vitið hvernig það endaði.

Svo var ég víst líka á Spáni í seinustu viku. Það var helvíti fínt. 20-25 stiga hiti og gott chill með familiunni og að halda upp á sextugsafmæli föður míns. Var búinn að ákveða að fá mér spariskó þarna úti og kvöldið áður en ég fór tilbaka þá tók ég nett powershopping og verslaði mér skó, skyrtu, bindi, boxers og rétt missti af því að kaupa bók áður en lokaði og þetta tók mig svona 1 klst sem er mjög gott í mínu tilfelli þar sem ég átti eftir að velja mér skóna og ég tek mér vanalega ágætis tíma í að velja mér skó. En já svo daginn sem ég fór tók ég lest frá alicante til Madridar þaðan sem ég flaug. Svo þurfti ég að drepa nokkra tíma og fór þá til Santiago Bernabau og ætlaði að skoða völlinn en þess í stað fór ég og borðaði á CafeReal sem hafði útsýni yfir völlinn, sem var alls ekki slæmt. þannig að núna á ég bara eftir að fara eitt flug á þessu ári og þá mun flugárinu mikla ljúka hjá mér.