A site about nothing...

miðvikudagur, mars 29, 2006

Radiohead - Maquiladora

Seinasta laugardag var haldin árshátíð Dags Group og jafnframt break-up partý þar sem Sena er að fara úr Degi Group. Þemað var Tarantino sem er fáránlega þröngt þema en svo sem ágætt þar sem svört jakkaföt, hvít skyrta og svart bindi nægja sem ég btw á ekki. Byrjað var á forpartý hjá einni stelpu í vinnunni og þar var drukkið og spjallað og skot tekin. Árshátíðin fór fram í sal Kiwanis félagsins og þar var matur og opin bar og bara stemmning. Fast forward. Þegar við komum í bæinn þá fórum við á Celtic, ég og tveir vinnufélagar. Þar niðri voru trúbadorar ásamt söngkonu sem var ekki spes en það er annað mál. Þeir byrja að taka Jolene í Dolly Parton útgáfunni. Þá sný ég mér við og verð litið á barinn og hver er þar nema Ragnheiður Sara. Mig langaði að fara þangað og knúsa hana aðeins því mér fannst hún ekki eiga skilið að detta út (og hún er soldið sæt) en ég gerði það ekki.

Annars þá verð ég að segja að það var nett íronía hjá DV þegar þeir birtu á forsíðu fyrirsögnina: Bubbi vann og svo var mynd af honum með gítarinn og sígarettu. Engin kaldhæðni þar í gangi hjá DV og spurning hvort Bubbi geri eitthvað í málinu.

Að alvarlegri málum þá verð ég að segja eftir að hafa fylgst með bankafárinu seinustu daga og þessum skýrslum þá sérstaklega frá Danmörku þá er ekki laust við að manni finnst að það sé einhver öfundsýki í gangi hjá þeim. Jafnvel vilji til að eyðileggja fyrir íslensku bönkunum sem eru í mikilli útrás og það er eins og þeir höndli það ekki. En hafa ber í huga að maður heyrir bara af slæmu hlutunum, allaveganna meira, heldur en góðu hlutunum sem sagðir eru um bankana og þetta allt saman. En slæmar fréttir hafa náttúrulega meiri áhrif en góðar.

mánudagur, mars 27, 2006

Seinustu tvær vikurnar eða svo hef ég verið að horfa í kringum mig eftir nýjum gleraugum. Af því tilefni hef ég heimsótt næstum allar gleraugnaverslarnir á höfuðborgarsvæðinu. En það sem verra er að þetta hefur gert mig að perra. Gleraugnaperra. Þetta virkar þannig að ég stari á fólk með gleraugu, þá sérstaklega karlmenn, og spái í því hvernig gleraugu þeir séu með og hvernig þau fari þeim. Ég vona að þetta hafi ekki og sé ekki of augljóst og að fólk spái hvað ég sé að pæla með að stara á gleraugun hjá því. Annars verð ég að segja að ég er mjög hrifinn af umgjarðarlausum gleraugum sem eru svolítið kassalega og glerin eru bæði breið og há. Ekki er verra ef þau falla að andlitinu. Annað sem ég fíla eru hálf-umgjarðir og aftur verða glerin að vera bæði breið og há. En sú spurning sem ég spyr mig mest að um þessar mundir er hvort þessi áhugi minn á gleraugum sem falla að andlitinu, þ.e. eru kúpt, sé eitthvað sem ég muni síðan ekki fíla eftir eitt ár og önnur spurning er sú hvort ég eigi að fá mér svona titanium fisléttar umgjarðir á umgjarðalausum gleraugum. Er það of eldri mannalegt þar sem ég skilgreini eldri menn 30+ eða er það töff?

mánudagur, mars 20, 2006

Hot Chip - Over and over

Þetta magnaða lag sem ég minnist á hér fyrir ofan er það lag sem ég er að fíla hvað mest um þessar mundir. Ég hreinlega er að nauðga því enda er mikið fútt í laginu og er það tilvalið til að taka mökunardansinn við ef tilefnið er rétt.

Um helgina var háð heimsmeistaramót milli 12 drengja. Keppt var í riðlum og voru riðlarnir fjórir og því þrír í riðli. Keppt var í Pro Evolution Soccer og til að gera langa sögu stutta þá vann ég mótið. Riðlakeppnin var æsispennandi. Fyrsta leikinn minn vann ég á móti Árna Guðjóns þar sem ég spilaði Tékkland en hann spilaði Spán. Úrslit leiksins réðust á vítaspyrnu sem Árni var ekki sáttur við. Í næsta leik riðilsins lagði Árni Guðna Bassa 1-0. Svo var komið að leik míns og Guðna. Rooney skoraði snemma leiks og því staðan í riðlinum hnífjöfn. Ég sótti án afláts og allt stefndi í vítaspyrnukeppni. Á 92 mínútu leiksins fæ ég aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Fram til þessa hef ég aldrei skorað úr aukaspyrnu en þarna, undir einhverri mestu pressu sem ég hef verið undir skrúfaði ég boltann yfir vegginn og tryggði mér og Árna sæti upp úr riðlinum. Í fyrsta leik 8 liða úrslitanna spilaði ég á móti nýkjörnum formanni félags hagfræðinema og var hann Ítalía. Ég sótti án afláts en Buffon sá við öllu. Leikurinn fór í framlengingu og þá loksins náði ég að setja eitt og tryggja mig áfram. Í undanúrslitum mætti ég Káka sem hafði gengið mjög vel með Frakkana sína fram til þessa í mótinu. Skemmst er frá því að segja að Káki sá ekki til sólar í leiknum og öruggur 2-0 sigur minn staðreynd. Á meðan þessu stóð var Fjalarr sem var surprise gaurinn í mótinu að komast áfram af mikilli þrautseigju. Í átta liða úrslitum þá komst hann áfram í vítaspyrnukeppni og í undanúrslitum þá skoraði hann mark í framlengingu. Við mættumst, Fjalarr sem Portúgal og ég sem Tékkland. Lengi vel stóð Fjalarr í mér með góðri vörn sem erfitt var að brjóta niður. en í síðari hálfleik tókst mér að brjóta niður vörnina og lauma einu kvikindi framhjá markmanni hans. Fjalarr átti nokkur góð færi en á lokamínútum leiksins setti ég annað mark og sigurinn var minn.

föstudagur, mars 17, 2006

Sturtur í HeimsKlassa

Ó þið sturtur í HeimsKlassa.
Hversu mikið ég hef saknað ykkar.
Kraftur ykkar og hitastig eru ávallt fullkomin,
og birtan á svæðinu svo ótrúlega þægileg.
Það hefur liðið of mikill tími frá seinustu samverustund okkar.
En núna munu þær verða margar og góðar.
Ó þið sturtur í HeimsKlassa.
It feels good to be home.

Þessi prósi var saminn í tilefni af fyrstu ferð minni í HeimsKlassa í einar 6 eða 7 vikur.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Fór í bíó með Fjalla Palla á sunnudaginn á nýju Woody Allen myndina og ég verð að segja að hún kom á óvart. Plottið í henni er mjög gott og myndin er bara yfirhöfuð góð. Það eina sem mér fannst að henni var í byrjun myndarinnar, fannst hún soldið snubbótt þar en annars mjög góð mynd sem ég mæli hiklaust með.
Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég er núna að byrja að leita mér að nýjum gleraugum því þessi sem ég á og hef notað seinustu tvö ár eða svo áttu eiginlega bara að vera til að "lesa". Þ.e. ég ætlaði ekki að nota gleraugu dagsdaglega en svo bara varð ég. Þau gleraugu sem mér lýst best á hingað til kosta 50 þúsund, er ég geðveikur að vera alvarlega að pæla í því að fá mér þau? Þau eru mjög flott og létt (sem er gott fyrst ég er alltaf með gleraugu).

fimmtudagur, mars 09, 2006

Hoooooor (lesist hor með löngu o-i)

Helvítis flensa. Búinn að vera veikur í viku núna og veikindin náðu líklega hámarki í gær, allaveganna vona ég að hámarkið hafi verið í gær. Ég fór ekki í vinnuna á þriðjudag því ég var eitthvað furðulegur í hausnum en á miðvikudeginum fór ég. Það var ekki sniðugt og ég fór heim og var í einhverju móki. Svo í nótt bættist stíflað nef við jöfnuna og ég vaknaði svona 10 sinnum. Að einhverju leyti útaf stífluðu nefi en líka útaf því að ég var að deyja úr hita (ég reyndar skalf í svona 5 mínútur þegar ég fór að sofa). Já helvítis flensa. Útaf henni þá missti ég af fjórða tímanum í fjármálum eða jafnvel fimmta ég er ekki viss. Ekki gott sko.

Í veikindunum hef ég verið að góna á sjónvarpið t.d. The Office en ég hafði bara séð þátt og þátt. Ég hef sjaldan fengið jafn mikinn aulahroll og mér líður alltaf hálfilla að hlusta á hann tala. Svo hef ég spilað PES5 sem er geðveikur leikur á PS2.

Verst þó við veikindin er það að þau hafa dregið það á langinn að ég gæti farið að æfa aftur. Það eru komnar einar 5 eða 6 vikur síðan ég fór síðast og ég er farinn að iða í skinninu að fara aftur að æfa en vonandi kemst ég á mánudaginn.

mánudagur, mars 06, 2006

Hálsbrjóstsykrar og heitt vatn með sítrónu og hunangi er það sem fer inn fyrir mína varir um þessar mundir. Veikindin virðast ætla að dragast á langinn en vonandi fer þetta helvíti úr mér bráðlega. Það að fara á árshátíðina daginn eftir hápunkt veikindanna var kanski ekki það sniðugasta en maður gerir oft ekki það sniðugasta. Nú er spurningin: Er málið að fara á Hróa? Guns að koma (maður verður nú að sjá þá) og Radiohead rumours eru viðloðandi.

laugardagur, mars 04, 2006

Kvöldin í bænum - Haukur Guðmundsson og kór V.Í.

Ofannefnt lag var klárlega lag kvöldsins í gær þegar árshátíð Verkfræðinema fór fram á Hótel Örk í Hveragerði. Í það minnsta hjá mér og Árna Guðjóns og vorum við sammála um að gömlu söngleikir versló og þeirra útgáfur af lögum hefðu alls ekki verið svo slæmar jafnvel bara góðar. Það voru reyndar ekki allir okkur sammála.
En já annars þá bara var árshátíðin fín. Upphafsatriði var eitt það langdregnasta og leiðinlegasta atriði sem ég hef séð fyrir utan að vera stæling á atriðinu í fyrra að miklu leiti. Kanski er þetta alltaf svona ég bara hef þá greinilega gleymt því. Maturinn var ágætur en þetta snýst ekki um hann þetta snýst um félagsskapinn og stuðið og það bæði var gott. Ég er reyndar orðinn raddlaus núna eftir að hafa sungið pínu í gær en fann að röddin var hvort eð er að gefa sig þannig að ég ákvað bara að stúta henni (er búinn að vera veikur upp á síðkastið). Ég fékk því viðurnefnið mister sexy voice hjá sumum og var beðinn um að hósta á ákveðna manneskju svo hún fengi röddina en ég lét það þó eiga sig. Hljómsveitin var helvíti fín og mun betri en sú sem var í fyrra (allaveganna í minningunni). Annars þá átti Sara dans kvöldsins og það er mynd af honum í myndunum þannig að kíkið á það.